Dauðinn bíður á gresjunum

ADDIS ABABA, EÞÍÓPÍU: Hlýnun andrúmsloftsins hefur hingað til ekki valdið búsifjum á Íslandi. Þvert á móti – undanfarin sumur hafa verið eins og best verður á kosið, að minnsta kosti í Kópavoginum.

En maður þarf ekki að fara víða um austanverða Afríku til að sjá hina hliðina. Hér eru þurrkar nú tíðari en áður fyrr og flóð sömuleiðis með þeim afleiðingum að milljónir manna þjást af næringarskorti. Hungursneyð er handan við hornið í sumum löndum á þessu svæði og stórir hópar hafa flosnað upp frá jörðum sínum sem ekki framfleyta þeim lengur. Bændur hér eru kannski ekki mjög vel að sér um gróðurhúsaáhrifin og CO2 og allt það, en þeir vita fullvel að veðrið er ekki eins og það á að vera.

Hér í Eþíópíu, til dæmis, telja yfirvöld að rúmlega sex milljónir manna muni þurfa neyðaraðstoð á næstu vikum og mánuðum. Ýmis hjálparsamtök hér telja að talan sé talsvert hætti. Að auki þannig komið fyrir ríflega sjö milljónum til viðbótar að það nýtur matargjafa og annars stuðnings allan ársins hring.

Sunnan við landamærin, í Kenya, eru þurrkarnir jafnvel ennþá alvarlegri og sömuleiðis í smáríkinu Djibouti úti við ströndina. Þar eru gríðarlegir flákar þurra svæða, sem hafa séð hirðingjum fyrir lifibrauði í gegnum aldirnar, að breytast í eyðimerkur.

Við höfum undanfarna daga verið að koma í byggðarlög þar sem ekkert vatn er að fá og matur af skornum skammti því haustrigningarnar brugðust – enn einu sinni. Þetta er aðallega á láglendinu í austurhluta landsins, austan megin við sigdalinn mikla sem klýfur Afríku nánast í tvennt. Á sumum stöðum er ástandið í ágætu lagi – þar hafa staðbundnar rigningar bjargað öllu – en annars staðar má sjá að fólk hefur yfirgefið heimili sín og leitað til ættingja og vina í nærliggjandi byggðarlögum. Það mun hafa þau áhrif að ættingjarnir, sem áttu kannski nóg fyrir sig, síga niður fyrir nauðþurftamörkin.

Í gegnum aldirnar hafa vor- og haustrigningarnar séð fólki á þessum slóðum fyrir mat. Framan af síðustu öld brugðust rigningarnar einu sinni á áratug, eða svo; nú verða þurrkar annað og þriðja hvert ár. Næringarskortur er augljós í mörgum héruðum og börn ná ekki andlegum eða líkamlegum þroska vegna matarleysis, ef þau lifa þá til fimm ára aldurs.

Við ættum kannski að leiða hugann að þessu í jólakapphlaupinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja Ómar, gæðunum er misskipt.

Hérna í Kongó Brazza rignir hundum og köttum flesta daga á þessum árstíma.

En norður í landi eigum við orðið í erfiðleikum með flóttafólk sem streymir yfir Kongófljótið frá "DRC". Bara fyrir "hrepparíg" hefir tala flóttamanna í Kongó (RoC) aukist frá 0 uppí nær hundrað þúsund á einungis einum mánuði!

Gangi þér vel þín megin í álfunni, Hörður - WFP / UNHAS

Hörður Þór Karlsson (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 14:21

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég vissi nú ekki betur en að dauðinn hafi sorfið mjög að bandaríkjamönnum já á gresjunum líka á kreppuárunum. Það var lítið verið að kenna neinu um svosem hlýnun jarðar eða svoleiðis vitleysu.  Hér er hún sjáanleg á þessari slóð

http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/965274/

Valdimar Samúelsson, 14.12.2009 kl. 15:02

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sérkennileg tilviljun, nafni, að við erum báðir með hugann við Eþíópíu í blogginu okkar.

Ómar Ragnarsson, 15.12.2009 kl. 01:03

4 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Bestu kveðjur til ykkar Ómar minn.

Ía Jóhannsdóttir, 15.12.2009 kl. 09:33

5 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Takk sömuleiðis, Ía.

Nafni minn: nú er það einmitt ástandið í Eþíópíu um 2003 sem menn eru helst að vitna til í samanburðinum um það sem nú er að gerast. Ef þú færir um sveitirnar hér nú, á þínum fjallabíl, þá myndi mjög svipuð mynd birtast þér og gerði þá. 

En þetta er engu að síður óvenjulega heillandi land - og það er leitun að fallegra fólki en hér, ekki síst kvenfólki. Ég er löngu búinn að komast að þeirri almennu (og ekki ófrávíkjanlegu) niðurstöðu að hvíta fólkið sé ljótast!

Ómar Valdimarsson, 15.12.2009 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband