Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Mogginn vaknar

Hamingjunni sé lof! Mogginn sýnir í dag að það lifir enn í gömlum glæðum og dekkar Glitnismálið eins og aðeins Mogginn getur. Og þetta gerist þegar maður var eiginlega orðinn sannfærður um að það væri endanlega búið að eyðileggja þetta blað.

Hreinar línur

Fleiri en ein leið til að bjarga Glitni komu til greina, segir mér maður sem tók þátt í atinu - en þessi varð fyrir valinu vegna þess að hún var einföldust, fljótlegust - og var auk þess sú sem var auðveldast að skýra fyrir almenningi. Það hefur ábyggilega verið rétt mat: bankinn var á hausnum, ríkið leggur til stóra fjárhæð til að koma í veg fyrir enn stórkostlegra tjón - og fær peningana okkar væntanlega aftur þegar betur árar. Hluthafarnir, sem hafa hagnast vel á undanförnum árum, bera nú skaðann einir, eins og vera ber. Hreinar og skýrar línur.

Kverúlantarnir ríða röftum

Áður fyrr var það svo, að bréf verstu kverúlantanna voru síuð út á dagblöðunum og fengust ekki birt í lesendadálkunum ef þau voru uppfull af þvættingi eða lygum og rógi. Nú eru þessar ágætu síur úr sögunni, allir geta stofnað eigin blogg og blaðrað þar um hvaðeina og vegið mann og annan. Kverúlantarnir ríða nú röftum og allt of oft sér maður fjölmiðla eltast við delluna. Ég er ekki viss um að þetta séu framfarir.


Um meydóm í stjórnarháttum

Það er ekki hægt að segja með góðu móti að íslenskt samfélag einkennist af spillingu, þótt því sé oft haldið fram í heitu pottunum og víðar þar sem fullyrðingar eru látnar vaða. Og þegar maður hefur búið í löndum þar sem spilling gegnsýrir allt samfélagið, þá verður enn ljósara að við hér heima búum betur en flestir aðrir.

Transparency International hefur staðfest þetta enn eina ferðina með nýjustu skýrslu sinni um meydóm í stjórnarháttum (sjá http://www.transparency.org/news_room/in_focus/2008/cpi2008). Samkvæmt skýrslunni hefur Ísland lækkað örlitið á skalanum – við vorum í efsta sæti á þessum lista ásamt Finnlandi fyrir tveimur arum með 9,2 stig (10 er best) en erum nú dottin niður í 8,9 stig. Þótt ástæða þess sé ekki tíunduð í skýrslunni, segja skýrsluhöfundar að ástæða þess að rík lönd tapi stigum á spillingarskalanum, sé oftast sú að stjórnvöld hafi ekki haft nægilegar gætur á einkaframtakinu eða að peningar skipti óeðlilega miklu máli í pólitík. Eða eins og segir í fréttatilkynningu Transparency International:

“Corporate bribery and double standards

The weakening performance of some wealthy exporting countries, with notable European decliners in the 2008 CPI, casts a further critical light on government commitment to reign in the questionable methods of their companies in acquiring and managing overseas business, in addition to domestic concerns about issues such as the role of money in politics.”

Sem sagt: verðbréfapjakkarnir og útrásarherinn hafa um of fengið að leika lausum hala og sú staðreynd hefur dregið svolítið úr tiltrú manna á þá fullyrðingu að spilling sé hér nánast óþekkt.

En þess ber auðvitað að geta að Transparency International leggur á það ríka áherslu, að það sé einkunnagjöfin sem skiptir máli fremur en í hvaða sæti þjóðir lenda. Við erum í sjöunda sæti – en erum samt enn meðal þeirra þjóða þar sem spilling er talin minnst.

 


Með stjórnmálaflokkana í eftirdragi

Evran hefur numið land á Íslandi og er komin til að vera. Fyrirtæki og einstaklingar vilja í vaxandi mæli nota evru sem gjaldmiðil og gera það hvað sem ríkisvaldið og stofnanir þess segja. Það er ábyggilega ágætt - þeir sem geta verslað í evrum eru betur settir en þeir sem eru bundir við íslenska krónu. Evran kostaði í gær 127 krónur en 138 krónur í dag.

Það kostulega er að þetta hefur gerst á meðan stjórnvöld í landinu hafa lengst af neitað að ræða málið. Umræðan hefur engu að síður farið af stað meðal almennings og samtaka þeirra - sem dragnast nú með flokkana á eftir sér eins og draugatrossu.

Er það ekki eitthvað undarlegt og öfugsnúið? Flokkarnir gefa sig beinlínis út fyrir það að leiða þjóðina áfram til betri vegar. Tölum við ekki um stjórnmálaleiðtoga? Felst ekki í orðinu að þeir eigi að 'toga' okkur áfram, eins og Jón Kjartansson verkalýðsforingi í Eyjum sagði einhverntíma?

Annars er þetta kannski allt í lagi. Þjóðin finnur sína leið til að taka þátt í umheiminum og dregur flokkana með sér, hvort sem þeir vilja eða ekki. 

 


Museveni og pínupilsin

Yoweri Museveni forseti Uganda er hér í opinberri heimsókn. Ég lenti í honum í gærkvöld þegar bílalest með forsetann og löggur með blikkandi ljós í bak og fyrir fór suður Kringlumýrarbraut, sjálfsagt í kvöldmat á Bessastöðum. Menn eins og Museveni ferðast aldrei nema í bílalestum með löggur og blikkandi ljós - en þetta virkar náttúrlega hálf hallærislegt hér á landi.

Museveni er annars merkur náungi og meiri foringi en flestir aðrir þjóðhöfðingjar í Afríku. Hann hefur náð góðum árangri í starfi - og er m.a. þakkað veruleg lækkun tíðni HIV nýsmita í sínu landi. Hann lýðræðissinni að því leyti að hann vill fá að stjórna lýðræðinu sjálfur. Það er þó skárra en víða annars staðar.

Nema hvað, í tilefni heimsóknarinnar er hér ný frétt af BBC vefnum:

A woman wearing a miniskirt in Uganda
The minister said wearing a miniskirt was akin to going naked

Uganda's ethics and integrity minister says miniskirts should be banned - because women wearing them distract drivers and cause traffic accidents.

Nsaba Buturo told journalists in Kampala that wearing a miniskirt was like walking naked in the streets.

"What's wrong with a miniskirt? You can cause an accident because some of our people are weak mentally," he said.

The BBC's Joshua Mmali in Kampala, the capital, said journalists found the minister's comments extremely funny.

Wearing a miniskirt should be regarded as "indecent", which would be punishable under Ugandan law, Mr Buturo said.

And he railed against the dangers facing those inadvertently distracted by short skirts.

"If you find a naked person you begin to concentrate on the make-up of that person and yet you are driving," he said.

"These days you hardly know who is a mother from a daughter, they are all naked."

Vice list

According to the minister, indecent dressing is just one of many vices facing Ugandan society.

"Theft and embezzlement of public funds, sub-standard service delivery, greed, infidelity, prostitution, homosexuality [and] sectarianism..." he said.

Earlier this year, Kampala's Makerere University decided to impose a dress code for women at the institution, our reporter says.

The miniskirt and tight trousers ban has yet to be implemented, but our correspondent sought the opinions of women on campus about the minister's opinions.

"If one wants to wear a miniskirt, it's ok. If another wants to put on a long skirt, then that's ok," one woman said.

But others had more sympathy with Mr Buturo.

"I think skimpy things are not good. We are keeping the dignity of Africa as ladies and we have to cover ourselves up," one woman, called Sharon, told the BBC.

Skornar úr snörunni

Það var gott hjá Ásmundi Stefánssyni að leggja fram miðlunartillögu sína í deilu ljósmæðra og ríkisins - deilan var komin í óleysanlegan hnút. Ljósmæður geta vafalaust sjálfum sér kennt - það getur aldrei verið vænleg leið til árangurs að setja fram ítrustu kröfur og neita að hvika frá þeim. Það býður ekki upp á samningaviðræður - sem hljóta, eðli málsins samkvæmt, að ganga út á að báðir deiluaðilar hnika til sínum kröfum. Það er ekki þar með sagt að kröfur ljósmæðra hafi verið ósanngjarnar, það voru þær vísast ekki. En samningaaðferðin var ósanngjörn og gat ekki leitt til þess árangurs sem þær áttu skilið.

 


Mæðrun og feðrun

Mogginn og Stöð 2 kalla það "staðgöngumæðrun" þegar ein kona gengur með barn annarrar. Það þýðir væntanlega að kona sem gengur með sitt eigið barn er í mæðrun en hvorki ófrísk né vanfær. Og niðurstaðan hlýtur að vera sú að meðganga er ekki lengur meðganga, heldur mæðrun. Uppeldi barna er þá framhaldsmæðrun og -feðrun - og það ástand að vera afi eða amma hlýtur þar af leiðandi að flokkast undir afleiðufeðrun eða afleiðumæðrun. Eða hvað?

Mandarínu marmelaði

Unnendur marmelaðis vita að það getur verið dýrt í verslunum - og þá er einfalt mál að búa til sitt eigið. Hér er uppskrift sem ég hef verið að prófa mig áfram með og er orðin fín:

1 kg mandarínur (eða klementínur eða jafnvel appelsínur)

2 sítrónur

700 g sykur

Flysjið ávextina og hakkið í hakkavél (eða matvinnusluvél) beint í góðan pott. Blandið sykrinum saman við og sjóðið í ca 30 mínútur. Veiðið hratið sem myndast ofan af og fræin/steinana sem fljóta ofan á. Ef blandan sýður mikið lengur verður marmelaðið ef til vill of þykkt - það er ástæðulaust að setja hleypiefni í þetta. Venjulega skelli ég blöndunni í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur áður, hún verður mýkri fyrir bragðið. 

Setjið á þurrar, heitar krukkur og lokið. Þetta gefur ca 1 lítra af marmelaði. Lofttæmdar geymast þær vel og lengi en ég hef þann hátt á að geyma opnaðar krukkur í ísskáp. 


Ekki meir, ekki meir

Það eru allir að blogga nema ég. Það er ekki hægt og því byrja ég núna. Það er svosem ekkert fastákveðið með hvað á að blogga um - nema að ég er staðráðinn í að taka ekki þátt í þessu endalausa og eilífa röfli og þrasi sem stundum einkennir samfélagið. Það er til dæmis ekki kreppa í landinu og veðrið er yfirleitt betra en það var áður.

Sjálfur er ég hamingjusamur og ánægður með lífið. Börnin mín eru öll á landinu og hafa það gott. Hundarnir, sem til skamms tíma voru einu barnabörnin sem ég hélt að almættið myndi gefa mér, eru glaðir og barnabarnið hún Salka stækkar og dafnar. Það eru framkvæmdir í garðinum hjá mér og nú á ég sultu af ýmsum gerðum fram á vor. 

Hér eru hlý hús, gott vatn að drekka og alltaf nóg vatn til að baða sig upp úr.  Matur kostar auðvitað allt of mikið en hráefni er gott.

Hvað er hægt að hafa það betra?

Ég var ákveðinn í að opna ekki fyrir athugasemdir péturs & páls, enda hefur mér sýnst að alls konar nafnleysingar noti svona vettvang til að ausa skít yfir nafngreint fólk - en nú hefur mér verið sagt að allir verði að hafa leyfi til að tjá sig. Gott og vel, sjáum hvernig til tekst. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband