Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Bush brandarakall

Ég verð seint talinn til aðdáenda fráfarandi Bandaríkjaforseta - en svei mér þá ef maður fékk ekki aðra mynd af persónunni eftir síðasta blaðamannafund hans í embætti sem ég sá á BBC í gær. Þar var maður sem var bara bráðskemmtilegur og einlægur, sýndi af sér góða kímnigáfu og virtist ekki taka sjálfan sig nema passlega hátíðlega.

Þetta passar reyndar við það sem ég hef heyrt hjá fólki sem hefur hitt manninn og átt við hann samskipti utan sviðsljóssins - öllum ber saman um að í persónulegri viðkynningu sé forsetinn fráfarandi hinn skemmtilegasti náungi. Ég kynntist á sínum tíma ameríska sendiherranum í Indónesíu sem var kunnugur W og sagðist alltaf þykja gaman að vera í návist hans. 'He's just a regular guy,' sagði sendiherrann. 

En mikið skelfing er samt gott að hann sé á förum.

 


Píslarvætti gleðigjafans

Það er ástæða til að samhryggjast Gissuri Sigurðssyni sem enn og aftur hefur verið kosinn gleðigjafi Bylgjunnar. Og það í lýðræðislegri kosningu. Sagan segir að gleðigjafinn hafi barist hatrammlega gegn sigri - en orðið undan að láta fyrir óstöðvandi þrýstingi íslenskrar alþýðu.

Þessi niðurstaða er auðvitað mikill harmur fyrir 'Gissa prests', eins og hann var kallaður á DB í gamla daga (þar sem hann var ávallt með meiri gleðigjöfum), og vandséð hvað má nú verða honum til sáluhjálpar. 

Í lífinu eru margir kallaðir en fáir útvaldir - og fyrir kemur að hinir útvöldu þurfa að fórna sér í þágu þjóðargleðinnar, eins og nú er orðið hlutskipti míns gamla vinar. Það má þó vera Gissuri nokkur huggun harmi gegn að lifa í þeirri vitneskju að hann þarf ekki að leggjast í heilagt jihad með sínu píslarvætti. 


Í þágu flokks en ekki þjóðar

Hugmyndin um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að ræða við Evrópusambandið er della. Hún er ekki sett fram með hagsmuni þjóðarinnar í huga, heldur flokkakerfisins - og þá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksins. Hugmyndin er sem sagt sett fram til að koma í veg fyrir klofning í stjórnmálaflokki sem ekki getur horfst í augu við nútímann, hvað þá framtíðina.

Um hvað ætti svosem að kjósa í þessari fyrirfram þjóðaratkvæðagreiðslu? Hversu margir eiga að vera í viðræðunefndinni sem fer til Brussel? Á hvaða hóteli þeir eiga að búa?

Hvers vegna ekki að ganga hreint til verks, senda hóp sérfræðinga til Brussel til að gera rækilega úttekt á því sem kann að vera í boði, láta þá svo koma heim með niðurstöðuna og leggja skýra valkosti fyrir þjóðina? 

Það er nefnilega þannig að í landinu situr Alþingi með umboð frá kjósendum og ríkisstjórn með umboð þings og forseta. Það er hlutverk þessa fólks að stjórna landinu í þágu þjóðarinnar en ekki flokkanna - og enn síður í þágu þröngra flokkshagsmuna. Það er gömul saga og ný, sem hefur sannast rækilega undanfarnar vikur, að hagsmunir flokkanna fara ekki alltaf saman við hagsmuni þjóðarinnar sem getur ekki annað en kosið þá aftur og aftur - því það er enginn valkostur. 

Sjálfur hætti ég að taka þátt í kosningum fyrir 1980. Fór þó á kjörstað í sveitastjórnarkosningum fyrir allmörgum árum þegar ég hafði skoðun á hver ætti að sitja í stjórn míns sveitarfélags. Niðurstaðan úr þeim kosningum varð sú að sá frambjóðandi sem hafði lang minnst fylgi varð bæjarstjóri!

Sem sannaði fyrir mér enn og aftur að kosningar hér eru yfirleitt marklausar. 

 


Til fyrirmyndar

Eina leiðin til að Rannsóknarnefnd Alþingis (sú sem á að skoða bankahrunið og aðdraganda þess) nái árangri er sú að hún fái víðtækan og almennan stuðning. Nefndin sjálf á það skilið - og eins þeir einstaklingar sem þar sitja. 

Og guð láti gott á vita: þau þrjú upplýsa á heimasíðu nefndarinnar allt um eignatengsl sín við fjármálasvíðingana sem réðu öllu á Íslandi um árabil (sem eru engin, sýnist mér) og jafnframt gera þau grein fyrir hugsanlegum fjölskyldutengslum. Þetta mættu ýmsir ráðamenn taka sér til fyrirmyndar.

Ég held maður verði að treysta því að þetta sé forsmekkurinn að störfum nefndarinnar - og að hún hafi það stöðugt að leiðarljósi að allt beri að upplýsa. Auðvitað eru þar einhver mörk - en manni sýnist að þessu tríói sé treystandi til þess.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband