Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Guardian segir þetta er allt Geir að kenna

Það skiptir máli í samskiptum ríkja að á milli þeirra sé traust. Allir vita hversu mjög traust íslenska ríkisins og bankastofnana hefur rýrnað á undanförnum mánuðum.

Nú er það endanlega búið, ef marka má úttekt í breska blaðinu Guardian, því samkvæmt henni er Geir H. Haarde einn af 25 einstaklingum sem bera mesta ábyrgð á heimskreppunni sem sannanlega hófst í Bandaríkjunum.

Listinn gæti verið innlegg í tilraunir til að koma gangráð í íslensku ríkisstjórnina - það getur varla verið til fyrirmyndar að setja einn af helstu ábyrgðarmönnunum þar í forsæti. Nema því fylgi að Bernie Madoff verði fjármálaráðherra!

En hér er listinn úr Guardian í morgun (eitthvað sýnist mér þó að þeir hjá Guardian þurfi að læra að telja upp á nýtt):

Twenty-five people at the heart of the meltdown...

1.       Alan Greenspan, formaður stjórnar Bandaríska Seðlabankans 1987- 2006

Politicians

2.       Bill Clinton, fyrrum forseti

3.       Gordon Brown, forsætisráðherra

4.       George W Bush, fyrrum forseti

5.       Phil Gramm, öldungadeildarþingmaður

Wall Street/Bankers

6.       Abi Cohen, Goldman Sachs chief US strategist

7.       "Hank" Greenberg, AIG insurance group

8.       Andy Hornby, former HBOS boss

9.       Sir Fred Goodwin, former RBS boss

10.   Steve Crawshaw, former B&B boss

11.   Adam Applegarth, former Northern Rock boss

12.   Ralph Cioffi and Matthew Tannin

13.   Lewis Ranieri, the "godfather" of mortgage finance

14.   Joseph Cassano, AIG Financial Products

15.   Chuck Prince, former Citi boss

16.   Angelo Mozilo, Countrywide Financial

17.   Stan O'Neal, former boss of Merrill Lynch

18.   Jimmy Cayne, former Bear Stearns boss

Others

19.   Christopher Dodd, chairman, Senate banking committee (Democrat)

20.   Geir Haarde, Icelandic prime minister

21.   The American public

22.   Mervyn King, governor of the Bank of England

23.   John Tiner, FSA chief executive, 2003-07

24.   Dick Fuld, Lehman Brothers chief executive

25.   Andrew Lahde, hedge fund boss

26.   John Paulson, hedge fund boss


http://www.guardian.co.uk/business/2009/jan/26/road-ruin-recession-individuals-economy 

 


Svekktasti maður í heimi

JAKARTA: Vinur minn Abdul Aziz er svekktasti maður í Indónesíu þessa dagana, ef bara ekki öllum heiminum.

Barack Obama bjó hér um nokkurra ára skeið á barnsaldri, á hér hálfsystur og gekk í skóla. Indónesar telja Obama því sinn mann og í gamla skólanum hans var haldin mikil hátíð daginn sem nýi forsetinn tók við embætti í frosthörkunni í Washington.

Abdul Aziz átti heima í þarnæsta húsi við Obama þegar þeir voru strákar. Fyrir framan heimili Aziz var fótboltavöllurinn þar sem strákarnir í hverfinu léku sér allar lausar stundir. Og handan við fótboltavöllinn er skólinn sem þeir gengu báðir í.

Harmur Aziz er sá að hann man ekkert eftir þessum hálf-ameríska strák. Hann man eftir næstum öllum öðrum - en ekki þeim eina sem varð forseti Bandaríkjanna. Er nema von að maður sé svekktur, segir hann.


Bjóðum Mulyani í heimsókn

JAKARTA: Á meðan ég bjó hér um árið fannst mér alltaf að Indónesar ættu skilið að fá betri ríkisstjórn en þeir höfðu. Lengst af var hér Megawati Sukarnoputri, dóttir sjálfstæðishetjunnar, en því miður hafði hún ekkert í embættið að gera; henni þótti skemmtilegast að vera heima að elda mat og rækta blóm. Maður hennar var líka vafasamur pappír og ætti sjálfsagt að vera í tukthúsi fyrir raunverulega spillingu.

Þar áður höfðu Indónesar haft yfir sér í þrjá áratugi einhvern mesta þjóf allra tíma, Suharto hershöfðingja, sem nú er dauður og situr ábyggilega í neðra og spilar póker við kollega sinn Mobutu fyrrum forseta í Zaire. Það væri svo mátulegt á þá að dómari í þeirri keppni væri lærifaðir þeirra Leópold gamli Belgíukóngur!

Nema hvað: Í kosningunum 2005 kusu Indónesar yfir sig Susilo Bambang Yudhoyono, alvörugefinn hershöfðingja með litla pólitíska reynslu - en hann hafði það sem fólk vildi: hreinan skjöld og ekkert óhreint mjöl í pokahorninu. Nú er að koma á daginn að Susilo er hinn prýðilegasti forseti sem hefur haft það lán að velja með sér hæfa einstaklinga.

Efnahagslíf hér er nú með meiri blóma en í nokkru öðru landi í SA Asíu - og það þakka menn rammanum sem Susilo hefur skapað og, ekki síður, fjármálaráðherra hans, frú Sri Mulyani. Hún hefur hreinsað vel til í fjármálaráðuneytinu og hikar ekki við kasta mútuþægum embættismönnum á dyr. Þjóðarframleiðsla vex líklega aftur um 5% á þessu ári - og lækkar varla nema um hálft prósentustig eða svo. Geri aðrir betur á þessum síðustu og verstu! Verðbólga fer hér líka lækkandi og vextir sömuleiðis, skattheimta gengur betur en nokkru sinni fyrr og flestir sem ég hef talað við eru í engum vafa um að Susilo muni ná glæstu endurkjöri í forsetakosningunum í ágúst.

Og svo finnur maður það í loftinu að hér er uppgangur og framfarir - að minnsta kosti í verslun og viðskiptum. Maður þarf ekki annað en að telja nýju skrifstofu- og verslunarturnana sem hafa risið í mínu gamla hverfi á síðustu þremur árum, hvað þá alla nýju bílana sem fara um göturnar og eru þess valdandi að meðalhraði í umferðinni hér í borg er ekki nema um 12 km á klukkustund.

Hmm, kannski ættum við að bjóða Sri Mulyani í heimsókn og sjá hvort ekki megi eitthvað af henni læra.

 


Vandaður heilindamaður

Það er ekki eitt, það er allt! Mér finnst það afleit frétt að forsætisráðherra sé alvarlega veikur og sendi honum og fjölskyldu hans mínar allra bestu heillaóskir.

Enginn þarf að efast um að Geir Haarde er vandaður heilindamaður sem hefur unnið sín störf eftir bestu getu og samvisku.

Árásir á persónu hans undanfarnar vikur og mánuði eru til vansa. Nú hlýtur þeim að linna.

Og minni svo aftur á þetta: www.nyttlydveldi.is

 


Burt með reynslu og þekkingu!

Þar kom að því að stjórnendur Stöðvar 2 létu verða af því og köstuðu Sigmundi Erni og Elínu Sveins á dyr. Það er í takt við annað sem ég hef séð og heyrt af stjórn þess fyrirtækis sem metur reynslu, þekkingu og vigt einskis en glamur og glys þeim mun meira.

Og ég get meira að segja talað af reynslu þegar ég fullvissa vini mína Simma og Ellu um að það er síður en svo vansæmd að því að vera rekinn af Stöð 2. Það var með því besta sem fyrir mig kom á mínum ferli í fréttamennsku.

Því óska ég þeim hjónum og allri þeirra ómegð hjartanlega til hamingju með þennan áfanga í lífinu.

 

 


Sóðakjaftur

Það liggur við að manni fallist algjörlega hendur í morgunstökkinu á milli nokkurra vefsíðna, orðbragð sumra álitsgjafa er slíkt. Það er ekki að sjá að það sé sæmilega upplýst fólk sem lætur fúkyrði og svívirðingar vaða yfir allt og alla.

Það þarf enginn að segja mér að þessi hópur (oft eru það sömu nafnleysingjarnir sem tröllríða vinsælustu bloggunum) sé að tala fyrir hönd íslenskrar alþýðu. Hún kann mannasiði betur en þetta. Það talar að minnsta kosti ekki fyrir mig.

 En svo er rétt að benda á þetta: www.nyttlydveldi.is 

 


Kerfið er ónýtt

Það getur ekki verið í lagi þegar löggan telur sig þurfa að nota kylfur og táragas á fólk. Svo langt fjarri heimahögum veit ég að vísu ekkert um mótmælin við Alþingishúsið í gær annað en það sem ég hef lesið í vefmiðlunum.

Mér sýnist þó víst að gremjan í samfélaginu muni á endanum valda einhverskonar umbreytingum, ef ekki kollsteypu alls heila kerfisins.

Það er ábyggilega í lagi, kerfið er ónýtt. En það væri verra ef margir meiðast í fyrirganginum.

Og kannski væri gott fyrir alla að hafa í huga það sem Anais Niin skrifaði einhverntíma: We don't see things as they are. We see things as we are.

Þess vegna er oft gott að telja upp að tíu áður en maður lætur reiðina ráða för. 

 


Það er lúxus að búa á Íslandi

Það er lúxus að búa á Íslandi, þrátt fyrir kreppuna og stigamannaflokkana sem lögðu efnahagslífið undir sig á síðustu árum. Þetta hefur verið að sannast fyrir mér á ný undanfarna daga hér austur í Indónesíu.

Þrátt fyrir allt búum við nefnilega margfalt betur en mikill meirihluti mannkyns. Hér eru nokkur atriði sem við teljum sjálfsögð en flestir aðrir geta ekki einu sinni látið sig dreyma um:

  • Við getum sagt það sem okkur sýnist hvenær sem er og hvar sem er.
  • Við eigum ekki á hættu að verða stungið í tukthús og látin dúsa þar árum saman fyrir engar sakir.
  • Við höfum ótakmarkaðan aðgang að hreinu vatni, heitu og köldu.
  • Við þurfum ekki að óttast að löggan skjóti okkur á færi.
  • Stjórnmálamenn á Íslandi eru yfirleitt heiðarlegir. Sofandi, kannski, og ekki mjög framsýnir, en ekki þjófóttir.
  • Við þurfum ekki að óttast að stór hluti barna okkar deyi úr hungri eða meinlitlum barnasjúkdómum fyrir fimm ára aldur.
  • Við getum fengið fyrsta flokks læknisþjónustu þegar okkur hentar.
  • Við þurfum ekki að horfa upp á það að stór hluti þjóðarinnar fæðist til þess eins að eiga aldrei séns.
  • Við þurfum ekki að búa við hungur – eða ótta við hungur – alla ævina.
  • Við þurfum ekki að líta svo á að læsi sé forréttindi hinna fáu.
  • Við búum við ágætt skólakerfi – með þeim bestu í víðri veröld.
  • Við þurfum ekki að senda börnin okkar út á götu til að betla.
  • Við þurfum ekki að múta embættismönnum til að fá einfalda þjónustu á vegum ríkisins – svo sem að sækja um ökuskírteini eða fæðingarvottorð.

Ég gæti haldið áfram lengi enn – en læt þetta duga í bili.


Boyje brosir

BANDA ACEH: Ég hitti Boyje í dag og fór með honum svolítinn rúnt um miðborgina sem var ein samfelld rúst þegar ég var hér síðast. Nú er ekki að sjá að neitt óvenjulegt hafi gerst, moskan mikla í miðborginni er hvítmáluð og glansar í sólskininu og minarettan sem stendur þar framan við ber engin merki um sprungurnar ógurlegu sem voru í henni í ársbyrjun 2005.

Það er líka allt annað að sjá Boyje. Brosið nær til augnanna og hann er áhugasamur um framtíðina.

Ég hitti hann fyrst hér í Banda nokkrum dögum eftir flóðið mikla um jólin 2004. Hann var þá bílstjóri hjá Alþjóðasambandinu sem ég vann fyrir og fór með mig á milli staða. Mér þótti þetta óvenju fámáll bílstjóri svo ég fór að spyrja hann út úr.

Þá dró hann upp gemsann sinn og syndi mér mynd af konunni sinni og ungri dóttur, báðum bráðfallegum.

Smám saman kom sagan. Snemma að morgni annars jóladags hafði Boyje farið út til að kaupa brauð. Mæðgurnar voru eftir heima, kátar og glaðar eins og kvöldið áður þegar hann hafði tekið myndina á nýja farsímann sinn.

Og sem hann er á leiðinni í bakaríið, með farsímann í rassvasanum, brestur á feiknarlegur jarðskjálfti og hús allt í kringum hann hrynja, götur opnast og ógnarlegur dynur fer um himinhvolfin. Fáeinum mínútum síðar kemur þriggja metra há flóðbylgja upp frá ströndinni – þrjá eða fjóra kílómetra í burtu – og hrífur allt með sér sem fyrir verður.

Þar á meðal Boyje.  Einhvern veginn tókst honum að ná taki á tré sem hann flaut framhjá og komast upp í það. Þegar hann rankaði við sér var hann á nærbuxunum einum fata, skyrtuna, skóna, utanyfirbuxurnar hafði vatnselgurinn tætt af honum. Allt í kring voru hrunin hús, bílhræ í haugum og lík fljótandi eftir götum. Í hans hverfi stóð ekkert hús eftir – eins og Þingholtin hefðu horfið á einu augabragði.

Næstu daga ráfaði hann um í örvæntingu og leitaði árangurslaust að konunni sinni og dóttur. Þær voru horfnar. Foreldrar hans voru horfnir, tengdaforeldrar, systkini og mestallur frændgarður sem bjó á þessum sömu slóðum. Á nóttinni hélt hann sig í námunda við moskuna í miðborginni en þar þorðu fáir að sofna.

Eitt kvöldið kom til hans maður og færði honum brotinn farsíma sem hafði fundist í rusli á víðavangi. Eigandinn þekktist af myndinni sem var á sim-kortinu, myndinni af eiginkonu Boyjes og dóttur. Síminn var ónýtur – en kortið var í lagi.

- Þetta er það eina sem ég á eftir, sagði hann mér í bíltúrnum í janúar 2005. Það fannst ekkert annað af húsinu mínu eða neinu sem við áttum. Þetta er eina myndin sem er til af þeim.

Nú er Boyje í hópi þeirra sem hefur fengið nýtt hús og sér fram á nýja framtíð. Og hann er farinn að brosa aftur með augunum.


Aftur til Aceh

BANDA ACEH, INDÓNESÍU: Hitabeltisregnið bylur á bárujárnsþakinu. Á örfáum mínútum er bílastæðið á kafi í vatni, froskarnir hrópa og eðlurnar stinga sér undir hurðina og skjótast upp veggi. Það er fínt – þær eru vísar með að gleypa moskítóflugur og aðra óværu sem gæti leynst í dimmum skotum.

Breytingarnar í Banda Aceh, sem varð einna verst úti í tsunami-flóðbylgjunni miklu á jólum 2004, eru lygilegar. Það er varla að sjá að hér hafi orðið einhverjar mestu náttúruhamfarir sem sögur fara af fyrir aðeins fjórum árum – þegar 150 þúsund manns týndu lífi og stór hluti borgarinnar þurrkaðist út í einu vetfangi. Ónýtar byggingar og brak hefur verið hreinsað burtu, hundruð nýrra bygginga standa við götur og stræti og markaðirnir eru fullir af vörum, ekki sist ferskum ávöxtum í stórum stöflum.

Ég er kominn hingað aftur til að hjálpa til í nokkrar vikur við að taka saman upplýsingar um þann árangur sem hefur náðst í starfi Rauða krossins & Rauða hálfmánans. Hreyfingin hefur sett um milljarð dollara hefur verið settur í byggingu tugþúsunda nýrra heimila, skóla, heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, vatnsveitukerfa og svo framvegis og svo framvegis. Það er gaman að hitta aftur gamla vini og samstarfsmenn – og enn meira gaman að sjá að sumt af því sem var verið að ýta úr vör á fyrsta árinu eftir hamfarirnar er orðið að veruleika. Í stuttu máli sagt: árangurinn er undraverður. Allt í allt hafa um sjö milljarðar dollara farið í uppbygginguna hér – ríflega þriðjungi meira en öll erlendu lánin sem Íslendingar hafa verið að taka í kjölfar okkar efnahagslega tsunami.

Ég fór héðan í árslok 2005 nær dauða en lífi af þreytu og andlegu og líkamlegu álagi – og átti satt að segja ekki sérstaklega von á að komast hingað aftur. En enginn ræður sínum næturstað…og nú er minn gistiheimilið Græna Paradísin sem ber nafn með rentu: er allt málað í sama eiturgræna litnum. Rófulausir kettir mjálma þar eftir matarbita við morgunverðarborðið – og þó varla rófulausir heldur með hálfa rófu sem endar í vinkli. Það er miklu minna af hundum enda eru þeir óhreinir í ásýnd múslima; sá sem snertir hund þarf að þvo sér sjö sinnum til að verða hreinn aftur.

Fram að flóðinu var Aceh-hérað lokað umheiminum enda var hér borgarastríð sem kostaði tugi þúsunda mannslífa. Nú er héraðshöfðinginn fyrrum liðsforingi úr sveitum uppreisnarmanna og fjöldi stjórnmálaflokka undirbýr þátttöku í þing- og sveitastjórnarkosningunum í apríl. Kosningabaráttan hefur ekki verið alveg friðsamleg enda er ‘lýðræðið’ nýtt hugtak hér og margt enn óuppgert frá tímum átakanna.

Það er engin spurning að hundruð erlendra hjálparstarfsmanna hafa haft mikil áhrif á daglegt líf í héraðinu þar sem sharia-lög gilda að hluta (það er til dæmis ekki útilokað að sjá menn hýdda á almannafæri fyrir að hafa haldið framhjá eða gert sig seka um aðra villu gegn góðum íslömskum sið). Mér sýnist að færri konur gangi nú um með slæður til að hylja hár sitt – en margar slæðukonur jafnframt í níðþröngum buxom og treyjum til að flagga því sem flagga má. Miklu fleiri tala ensku, unga kynslóðin er tölvuvædd - en ekki sú eldri. Ekki ennþá.

Um miðjan næsta mánuð ætlar indónesíska ríkisstjórnin að lýsa því formlega yfir að hjálparstarfinu sé lokið og þar með verður lögð niður sú stofnun sem sett var á laggirnar til að stýra og samhæfa hjálpar- og uppbyggingarstarfinu. Mörgu er raunar þegar lokið, annað er á góðri leið. Mínu fólki hér sýnist að uppúr miðju næsta ári verði uppbyggingunni endanlega lokið – og þá hverfa útlendingarnir á brott með allt sitt hafurtask og afganginn af peningunum. Eftir sitja Aceh-búar í nýju húsunum sínum með nýju vatnsveiturnar og frárennslin – og nýtt ‘lýðræði’ til að þróa og móta í takt við þann heittrúaða íslamska veruleika sem hér er.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband