Bjóðum Mulyani í heimsókn

JAKARTA: Á meðan ég bjó hér um árið fannst mér alltaf að Indónesar ættu skilið að fá betri ríkisstjórn en þeir höfðu. Lengst af var hér Megawati Sukarnoputri, dóttir sjálfstæðishetjunnar, en því miður hafði hún ekkert í embættið að gera; henni þótti skemmtilegast að vera heima að elda mat og rækta blóm. Maður hennar var líka vafasamur pappír og ætti sjálfsagt að vera í tukthúsi fyrir raunverulega spillingu.

Þar áður höfðu Indónesar haft yfir sér í þrjá áratugi einhvern mesta þjóf allra tíma, Suharto hershöfðingja, sem nú er dauður og situr ábyggilega í neðra og spilar póker við kollega sinn Mobutu fyrrum forseta í Zaire. Það væri svo mátulegt á þá að dómari í þeirri keppni væri lærifaðir þeirra Leópold gamli Belgíukóngur!

Nema hvað: Í kosningunum 2005 kusu Indónesar yfir sig Susilo Bambang Yudhoyono, alvörugefinn hershöfðingja með litla pólitíska reynslu - en hann hafði það sem fólk vildi: hreinan skjöld og ekkert óhreint mjöl í pokahorninu. Nú er að koma á daginn að Susilo er hinn prýðilegasti forseti sem hefur haft það lán að velja með sér hæfa einstaklinga.

Efnahagslíf hér er nú með meiri blóma en í nokkru öðru landi í SA Asíu - og það þakka menn rammanum sem Susilo hefur skapað og, ekki síður, fjármálaráðherra hans, frú Sri Mulyani. Hún hefur hreinsað vel til í fjármálaráðuneytinu og hikar ekki við kasta mútuþægum embættismönnum á dyr. Þjóðarframleiðsla vex líklega aftur um 5% á þessu ári - og lækkar varla nema um hálft prósentustig eða svo. Geri aðrir betur á þessum síðustu og verstu! Verðbólga fer hér líka lækkandi og vextir sömuleiðis, skattheimta gengur betur en nokkru sinni fyrr og flestir sem ég hef talað við eru í engum vafa um að Susilo muni ná glæstu endurkjöri í forsetakosningunum í ágúst.

Og svo finnur maður það í loftinu að hér er uppgangur og framfarir - að minnsta kosti í verslun og viðskiptum. Maður þarf ekki annað en að telja nýju skrifstofu- og verslunarturnana sem hafa risið í mínu gamla hverfi á síðustu þremur árum, hvað þá alla nýju bílana sem fara um göturnar og eru þess valdandi að meðalhraði í umferðinni hér í borg er ekki nema um 12 km á klukkustund.

Hmm, kannski ættum við að bjóða Sri Mulyani í heimsókn og sjá hvort ekki megi eitthvað af henni læra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það væru bara góð hugmynd og oft sjá gestir það sem heimilismenn "vilja ekki sjá"

Kveðja til Indónesíu

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.1.2009 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband