Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Spor í rétta átt

Það ber að þakka það sem vel er gert: Það er lofs vert að ríkisstjórnin hafi ákveðið að birta allan dossíerinn um IceSave-skandalann. Þetta eru vinnubrögð til fyrirmyndar – og vonandi til eftirbreytni um allt stjórnkerfið.

Það fór ekki vel á því á dögunum þegar svo virtist sem ekki ætti að birta sjálfan samninginn – en svo rofaði til. Mér þykir líklegt að í upphafi hafi ráðið rótgróin lenska í stjórnkerfinu til að birta ekki fremur en hitt, en þá hafi Jóhanna og kó áttað sig og snarendis ákveðið að birta allt klabbið. Ég vona a.m.k. að svo hafi verið.

Markverðar breytingar verða yfirleitt ekki gerðar í hendingskasti, það tekur tíma fyrir fólk og stofnanir að kyngja og innleiða ný vinnubrögð.

Jóhanna virðist vera búin að átta sig og er að taka upp nýja siði. Vinnuhópur sem hún hefur skipað til að fara yfir upplýsingalögin eru til marks um það.

Hópurinn ætti að hafa eitt meginmarkmið: að birta skuli allt sem máli skiptir. Að birta ekki ætti að vera fágæt undantekning.

En enginn ætti að láta sér detta í hug að IceSave-pappírar sem verða aðeins afhentir þingmönnum muni ekki finna sér leið til almennings. 


Prump er bara prump

List og klám eiga það sameiginlegt að hvort tveggja er erfitt að skilgreina – en allir þekkja það þegar þeir sjá það. Og stundum verður list að klámi – en ég er ekki eins viss um að klám geti verið listrænt. Þótt það sé reynt að narra mann með því að setja klámið í spariföt uppskrúfaðrar erótíkur.

Það gerist ekki oftar en ég kæri mig um – en mér finnst allt of oft reynt að narra mig á listasviðinu: telja mér trú um að eitthvað sé list sem er í rauninni bara í besta falli fúsk en aðallega bjánagangur. Ég hef talsvert sótt af málverkasýningum undanfarin ár og fæ of oft á tilfinninguna að þarna sé verið að reyna að narra mig með illa gerðum verkum sem verða til undir ruglingslegri hugsun, eða jafnvel engri.

Þórður Grímsson myndlistarmaður er í hópi þeirra sem er búinn að fá nóg af þessu ‘prumpi’ öllu (hans orðalag), ekki síst yfirgengilegum vitleysisgangi á Tvíæringnum í Feneyjum þar sem Ragnar Kjartansson málar sömu myndina af manni með bjór og sígó í sundskýlu (á kostnað ríkisins!) í sex mánuði samfleytt. Þórður hefur skrifað tvær skeleggar greinar um þetta í Moggann og Fréttablaðið.

Ég veit ekkert um Þórð Grímsson en hann á þakkir skildar fyrir að láta ekki eins og listaklámið sé list. Það er bara oflæti, prump og vitleysa.


En hvað með Jóa G?

Rás 2, í félagi við Tónlist.is og Félag hljómplötuframleiðanda, hefur verið að velja 100 bestu plötur Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Niðurstaðan var birt á Sautjándanum.

Sumt á þessum lista þekki ég ekki, annað finnst mér ómögulegt, enn annað er frábært. Eins og gengur.

En ég sakna þess mjög að sjá hvergi snilldarplötur Jóhanns G. Jóhannssonar sem komu út 1974 og 1976, ef ég man rétt, Langspil og Mannlíf, sem enn eru með því besta sem gert hefur verið í íslenskri dægurmúsík. RÚV ætti að rifja þær upp og spila svolítið af þeim af og til. Andrea Jóns og Magnús Einarsson eru líkleg til að þekkja til...

 


Fágæt þrautsegja

Það er ástæða til að hrósa vel og lengi þeim Vilhjálmi Egilssyni og Gylfa Arnbjörnssyni fyrir þrautseigjuna við gerð svokallaðs 'stöðugleikasáttmála' sem nú virðist eiga að formalísera á morgun.

Þeir félagar hafa sýnt fágæta ábyrgð í þessu máli öllu; minnir helst á 'þjóðarsáttarsamningana' fyrir nær tuttugu árum þegar Guðmundur jaki, Einar Oddur, Ásmundur Stefánsson og fleiri slíkir stútuðu óðaverðbólgunni á frægum vínarbrauðsfundum í Hveragerði.

Í vikunni vatt sér að mér maður á götu og skammaði mig fyrir að vera sífellt að mæra ríkisstjórnina.

Það hefur sosum ekki sérstaklega staðið til - en ég segi alveg eins og er: ég vil heldur að henni takist að leysa vandann en að hún renni á rassinn með allt saman. Það væri vondur kostur í stöðunni. Líklega sá versti.


Áfram við kjötkatlana

Niðurstaðan úr krísunni í bæjarpólitíkinni í Kópavogi getur ekki verið annað en vonbrigði. Bæjarstjórinn er að fara frá vegna spillingarmála sem hafa viðgengist í skjóli Framsóknarflokksins.

Og niðurstaðan er fengin til að tryggja 'einkahagsmuni einstakra manna,' eins og Hjalti Björnsson Framsóknarmaður orðaði það í viðtölum við RÚV í dag. Hann hlýtur að eiga við Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúa síns flokks. 

Bæjarstjórnin er búin að vera. Trausti rúin, ónýt. Hangir saman á persónulegum hagsmunum þeirra sem eru í pólitík til að komast að kjötkötlunum.


Bæjarstjórnin búin að vera

Sé það rétt sem Flosi Eiríksson og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúar í Kópavogi og stjórnarmenn í lífeyrissjóði starfsmanna bæjarins, segja um samskipti sjóðsins og Fjármálaeftirlitsins, þá hefur Gunnar Birgisson gert það eina rétta: farið frá. Undir sömu formerkjum var ofsagt af mér fyrir helgina að þeir væru 'pakk'. Á því biðst ég velvirðingar. Sömuleiðis játa ég á mig vanþekkingu á samþykktum bæjarins (og margra annarra bæjarfélaga) sem gerir þá kröfu að í stjórn lífeyrissjóðsins skuli vera kjörnir fulltrúar. Það er náttúrlega galið út af fyrir sig!

En bæjarstjórnin er búin að vera - að minnsta kosti sá meirihluti sem setið hefur í bænum í hartnær tvo áratugi. Gunnar Birgisson getur ekki stokkið fram á sviðið núna og sagst vera farinn í frí sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi þar til þetta lífeyrissjóðsmál hefur verið til lykta leitt. Var hann ekki áður búinn að segjast fara sem bæjarstjóri? Áður en þetta mál kom upp? Er sá díll þá úr sögunni og hugsar Gunnar sér að snúa aftur í bæjarstjórastólinn þegar rannsókn á stjórnarháttum lífeyrissjóðsins er lokið?

Ég sá einhvers staðar haft eftir forustumanni Sjálfstæðisflokksins í bænum mínum að þeir væru að leita að manni utan bæjarstjórnar til að taka við af Gunnari. Það er of seint - þótt það hefði verið eðlilegt, því nöfn sumra þeirra sem helst hafa verið nefndir sem líklegir eftirmenn bæjarstjórans eru líklegir til að verða nefnd þegar skoðaðar eru 'vinveittar' lánveitingar banka til áhrifamanna.


Burt með þetta pakk!

Ekki batnar ástandið í Kópavogi - nú gæti farið svo að nærri hálf bæjarstjórnin lendi í tukthúsi fyrir að fara óvarlega með lífeyrissjóð starfsmanna! Það hlýtur að þurfa eitthvað meira en óljósar grunsemdir til að ráðherra setji stjórnina af og málið sent lögreglunni til rannsóknar.

Hvað er eiginlega með þetta fólk?!

Og hvernig stendur eiginlega á því að fjórir af fimm stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar koma úr bæjarstjórninni? Sá fimmti er bókari á skrifstofu bæjarstjórnarinnar! 

Er það nema furða þótt stjórnarsetar hafi talið sig geta farið með sjóðinn eins og þeim sýndist!

Burt með þetta pakk allt saman!


Siðferði og vitjunartími

Kröfur um betra siðgæði í opinberri stjórnsýslu eru smám saman að bera árangur. Framsóknarmenn í Kópavogi eiga skilið klapp á öxlina fyrir að hafa ekki látið að vilja eiginhagsmunaseggjanna í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í bænum og staðið fastir á þeirri kröfu að Gunnar Birgisson víki úr bæjarstjórastólnum.

Eiginhagsmunaseggirnir vilja ekki skilja að krafan um brotthvarf Gunnars er fyrst og fremst sprottin af siðferðilegum rótum. Hann er ekki lengur hafinn yfir grun eins og bæjarstjórar eiga að vera. Engu máli skiptir þótt hann hafi fengið lögfræðiálit um að lög hafi ekki verið brotin. 

Gott hjá Framsókn - og gott hjá Gunnari að þekkja sinn vitjunartíma, þótt seint sé.

En siðvæðingin á enn langt í land. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt Halldór Ásgrímsson segi nú að einkavæðing bankanna hafi ekki verið mistök - einhvern veginn verður hann að verja sig og afglöp sín. 

Og kannski er rétt hjá Halldóri að einkavæðingin hafi út af fyrir sig ekki verið mistök. Afglöpin fólust fyrst og fremst í hvernig að einkavæðingunni var staðið: helmingaskiptaflokkarnir Framsókn og Íhald skiptu bönkunum á milli sín, eins og þeir hafa skipt flestu öðru á milli sín mestallan lýðveldistímann. Kannski ekki undarlegt þótt núverandi stjórnendur þessara flokka láti eins og þeir láta - það er búið að hrekja þá frá kjötkötlunum.


Minna væl

Getur verið að við vælum of mikið? Að kreppan sé ekki eins slæm og af er látið? Mig er farið að gruna þetta ansi sterklega. Nokkur dæmi:

  • Nýjar athuganir Seðlabankans sýna að það eru tiltölulega fá heimili í landinu sem eru í alvarlegum vanda og að þau sem eru í mestu klandri sitji uppi með dýr neyslulán.
  • Miklu færri fyrirtæki en spáð var í byrjun árs eru raunverulega farin á hausinn.
  • Mikill meirihluti námsmanna hefur fengið vinnu í sumar.
  • Einstakar stéttir iðnaðarmanna vantar fólk í vinnu - nú síðast var sagt frá því að skortur væri á málurum. Sjálfur hef ég lent í erfiðleikum með að fá iðnaðarmenn í smáverk sem ég ræð ekki við sjálfur.
  • Kaupmenn eru ekki mikið að kvarta - og ekki er að sjá í verslunum að skortur sé á nauðsynjum.

Ég efast ekki um að við verðum lengi að bíta úr nálinni með bankahrunið og leyfi mér að efast um að mikið endurheimtist af því fé sem talið er að skotið hafi verið undan. Ég er, eins og flestir, hundfúll yfir IceSave reikningnum en er jafn sannfærður um að við komumst ekki hjá því að borga (annars gæti verið fróðlegt að senda formann Framsóknar - þennan sem virðist hafa dottið á höfuðið - til London og láta hann koma heim með betri samning).

Kannski væri ráð að væla minna og leggjast frekar á árarnar með þeim sem hafa eitthvað raunhæft til málanna að leggja. Eða hvað?

 


Netanyahu er bulla

Það er létt í vasa fyrir Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels að segjast geta fallist á sjálfstætt ríki Palestínumanna svo framarlega sem það verði vopnlaust ríki um alla framtíð og að Palestínumenn hafni Hamas-samtökunum í eitt skipti fyrir öll.

Vitaskuld er þetta ekki marktækt útspil enda bull sett fram í blekkingarskyni.

Ekki myndi ég vilja stofna sjálfstætt ríki við hlið herveldisins Ísraels og heita því að vera vopnlaus alla tíð. Reynslan sýnir að það er ekki vænlegt.

Og að hafna Hamas, samtökum sem sigruðu lýðræðislegar kosningar á  með yfirburðum, er álíka fráleit hugmynd - sama hvað haukunum í Ísrael eða á Íslandi kann að finnast.

Netanyahu er manna ólíklegastur til að koma á friði á hernumdu svæðunum. Hann ætti að fjúka miklu fyrr en Hamas.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband