Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Viðbrögð sýna þroskastig

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins leggur sínu fólki línurnar um væntanlega skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Bjarni leggur höfuðáherslu á þrennt í pistli sem hann skrifar á vefsvæði flokksins:

  1. Að við tökum niðurstöður skýrslunnar alvarlega, drögum lærdóm af þeim og nýtum þær á uppbyggilegan hátt í umræðunni sem framundan er.
  2. Að við metum niðurstöður skýrslunnar með yfirveguðum hætti og vörumst dómhörku og sleggjudóma gagnvart þeim sem þær varða.
  3. Að við gerum okkur og öðrum grein fyrir því að skýrslan veitir okkur í senn tækifæri til og leggur okkur skyldur á herðar um, að ná sátt í samfélaginu og hefja í kjölfarið uppbyggingu á nýjum grunni.

Það er hægt að taka undir þetta með Bjarna. Viðbrögð við þessari skýrslu munu segja okkur heilmikið um á hvaða þroskastigi við erum sem þjóð.


Kerfisbreytingar á fljúgandi fart

Það er ánægjulegt til þess að vita að fagráðherrarnir tveir skuli vera svo hátt skrifaðir með þjóðinni sem nýjasti Þjóðarpúls Gallups ber með sér. Vonandi verður þetta til þess að koma í veg fyrir að þau Ragna og Gylfi verði látin fjúka í boðaðri uppstokkun á ríkisstjórninni.

Undanfarna mánuði hefur mér sýnst að það séu fyrst og fremst þau tvö sem standa fyrir meiri háttar uppstokkun á kerfinu - og svo náttúrlega Jóhanna forsætis. Það þarf ekki annað en að fara í efnisyfirlitið á www.island.is til að sjá lista yfir þær umfangsmiklu breytingar sem verið er að gera. Ekki veitti af. 

Margir kalla mig Samfylkingardindil og égveitekkihvað fyrir að halda þessu fram. Það verður bara að hafa það, ég hef verið kallaður verra en það (rétt að ítreka hér að ég er ekki í Samfylkingunni eða nokkrum öðrum flokki og hef aldrei verið).  Mér finnst hins vegar að fólk eigi að njóta sannmælis, jafnvel þótt það heiti Jóhanna eða Steingrímur (sem manni sýnist vera svo upptekinn í skítmokstri - og kattasmölun! - að hann hafi ekki mikinn tíma í allar þær kerfisbreytingar sem væru á hans könnu). 


Mér finnst...

  • Skondið að lesa eða heyra hvert viðtalið á fætur öðru við fólk sem á sér þann draum heitastan að losna úr kastljósi fjölmiðlanna.
  • Vafasamt að treysta fréttum sem vitna í engar heimildir. Nýjustu dæmin eru frétt sjónvarpsins í kvöld um yfirvofandi málsókn Deutsche Bank á hendur stjórnendum gamla Landsbankans og frétt Moggans um að Bretar og Hollendingar séu að falla frá ‘einhliða skilyrðum’ fyrir áframhaldandi samningaviðræðum um andskotans IceSave.
  • Lygilegt hversu margir vitleysingar fara á gosstöðvarnar til þess eins að láta flytja sig í burtu með ærnum tilkostnaði.
  • Skemmtilegt að sjá feita köttinn á neðri hæðinni hanga fyrir neðan fuglahúsin sem ég hef sett upp í tré í garðinum hjá mér.
  • Tilhlökkunarefni að éta páskaeggið mitt (sem ég geng svo af mér í góða veðrinu í sumar...eða næsta haust).
  • Drepfyndið að Guðni Ágústsson vilji stofna öldungadeild fyrir sjálfan sig og aðra uppgjafa pólitíkusa. Eins og við þurfum ekki eitthvað annað frekar en meira af þeim.
  • Fáar hugmyndir vitlausari en sú að leigja hollenskum málaliðum hernaðaraðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

Skolli var sá gamli góður

Datt inn í síðari hluta tónleika Gunnars Þórðarsonar í sjónvarpinu í gærkvöld. Mikið skolli var sá gamli góður - og hafi hann ævarandi þökk fyrir að hafa kynnt mig fyrir kvartettinum Buffi sem fór á kostum. Ég sé að ég þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því að dægurtónlist líðandi stundar sé undirlögð af fólki sem ekki getur sungið lög sem vantar alla melódíu.

En það sem mér fannst mest áberandi var hversu vel nýrri lög Gunnars eru samin. Bláu augun þín er auðvitað alltaf fallegt og hugljúft (satt að segja skrítin tilfinning í gærkvöld að rifja það upp að þetta lag var samið af tilteknum manni - það er miklu frekar eins og það hafi orðið til uppúr íslenskum fjallavötnum og heiðum og hafi alltaf verið til) - en nýrri tónsmíðarnar eru almennt betri og haldmeiri, í þeim er meiri reynsla, meiri kunnátta, meiri kærleikur. 

Gunnar hefur engu gleymt - en mikið lært. 

Bjáni var ég að fara ekki á þennan konsert í haust. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband