Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
Ást út yfir gröf og dauða
31.8.2010 | 17:45
AGRA, INDLANDI: Það fer ekkert á milli mála: Taj Mahal er fegursta bygging í heimi. Hún rís í sínu fullkomna persneska formi upp af bakka Jamuna-fljótsins, kyrrlát, virðuleg og tímalaus, minnismerki um ódauðlega ást og virðingu. Snilligáfa þeirra sem byggðu þetta undursamlega mannvirki er óvéfengjanleg. Þar fór fremstur persneski húsagerðarmeistarinn Ahmad Lahouri sem vann verkið fyrir stórfurstann (shah) Jahan til minningar um þriðju konu hans, Mumtaz Mahal, sem lést af barnsförum eftir fæðingu fjórtánda barns þeirra.
Furstinn var ekki mönnum sinnandi eftir lát Mumtaz og lét hefja byggingu grafhýsisins um ári eftir lát hennar 1631. Hann ætlaði svo að láta byggja samskonar grafhýsi fyrir sjálfan sig úr svörtum marmara til mótvægis við hvíta marmarann í Taj Mahal. Af því varð þó ekki: þegar búið var að leggja grunninn að nýju byggingunni á bökkum Jamuna setti sonur furstans hann af, enda þá búið að sóa og spenna auðæfum ríkisins svo lítið var eftir. Furstinn lifði út sína harmþrungnu ævidaga í rauða virkinu í Agra þaðan sem hann gat horft yfir grafhýsi konunnar sem hann elskaði svona mikið. Hann var grafinn með Mumtaz eftir dauða sinn.
Þetta var í þriðja sinn sem ég kom til þessa ótrúlega mannvirkis – og jafn hugfaginn sem áður. En það er ekki hægt að mæla með því að skoða Taj Mahal í hitanum eins og var þennan dag, 46 gráðum. Þá getur maður ekki hreyft sig nema eins og skjaldbaka og hálf einbeitingin fer í að standa uppréttur.
Og hér er ábending til þeirra sem vilja setja marmara í eldhúsið sitt (ef það skyldi ekki hafa verið gert í gróðærinu): einungis indverskur marmari dregur ekki í sig vökva og breytir því ekki um lit eða verður blettóttur þótt hellist á hann kaffi eða sósa. Enda er þetta óviðjafnanlega grafhýsi jafn hvítt í dag og það var fyrir nærri 400 árum.
Myndin var tekin í byrjun júní þegar við heimsóttum Agra á leið til Nepal og Tíbet. Kannski meira um það síðar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hörkumynd Dags Kára
24.8.2010 | 20:40
Einhvers staðar sá ég að "The Good Heart" eftir Dag Kára ætti séns á að vinna kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í ár.
Ég veit ekkert um hinar myndirnar fjórar en fyrir tilviljun sá ég mynd Dags Kára á dögunum og myndi ekki verða hissa þótt hún fengi verðlaunin.
Þetta er alveg hörkufín bíómynd. Góð saga, vel sögð af innsæi og skynsemi.
Mæli eindregið með henni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kjaftstopp
20.8.2010 | 10:36
Þjóðkirkjan hefur nú gert hið eina rétta: séra Kristján Björnsson, sem sæti á í Kirkjuráði, hefur skrifað grein í Moggann í dag um frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur (Skúlasonar) af kynferðislegu ofbeldi föður síns.
Eins og ég nefndi í síðustu færslu á þessum vettvangi vorum við séra Ólafur vinir um áratuga skeið þótt sambandið væri aldrei mikið. Þessi frásögn veldur því lamandi vonbrigðum, gerir mann alveg kjaftstopp. Ef þetta er rétt - hlýtur þá ekki allt hitt að vera satt líka?
Hlýjustu kveðjur mínar til fjölskyldunnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hálfkveðnar vísur biskupsdóttur
18.8.2010 | 15:25
Svo fyrir fáeinum dögum dúkkar þetta mál upp aftur og af enn meiri ofsa en fyrr. Enn var mér brugðið, fannst jafnvel að verið væri að naga hryggjartindana á dánum manni, sem aldrei er til sóma.
Nú eru sagðar af því fréttir að dóttir séra Ólafs, Guðrún Ebba, hafi gengið á fund Kirkjuráðs og lýst þar “reynslu minni af föður mínum,” eins og haft er eftir henni í DV í gær.
Ekki hvarflar að mér að gera lítið úr viðleitni dóttur biskups til að hindra og upplýsa kynferðislegt ofbeldi innan kirkjunnar, þvert á móti. Og ekkert veit ég það um þessi mál að ég geti leyft mér að hafa á þeim skoðun á einn veg eða annan.
En þessi ummæli Guðrúnar Ebbu vekja hins vegar miklu fleiri spurningar en þau svara. Dóttir biskups getur ekki talað svona, sagt A, án þess að segja B. Hún hefur kosið að tala opinberlega um “reynslu mína af föður mínum” – en aðeins undir rós. Það gengur ekki. Hún verður að segja meira.
Og það verða Kirkjuráð og Biskupsstofa einnig að gera. Hver er hún, nákvæmlega, þessi reynsla af foringja íslensku kirkjunnar um áratuga skeið?
Gömul sóknarbörn séra Ólafs, og raunar landsmenn allir, eiga að vita hvern mann hann hafði að geyma, hversu sársaukafullt sem það kann að vera. Hér nægja ekki hálfkveðnar vísur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skítt með staðreyndirnar
12.8.2010 | 14:17
Af gefnu tilefni fór ég að lesa mig í gegnum umræður á Alþingi í fyrra - nánar tiltekið svör Gylfa Magnússonar við spurningum um lögmæti gengistryggðra lána (sem voru bönnuð með lögum 2001), erlend lán og fleira.
Spurningarnar voru að talsverðu leyti ruglingslegar og má af þeim komast að þeirri niðurstöðu að fyrirspyrjendur hafi ekki allir skilið eigin umræðu, né heldur tæknilega núansa málsins sem um var fjallað.
En það er engin leið að komast að þeirri niðurstöðu að Gylfi hafi logið einu né neinu. Hann hefur skarpari hugsun en margir aðrir sem tóku þátt í umræðunum og svaraði skýrt og klárt því sem hann var spurður um - og tók fram að best væri að láta dómstóla skera úr um ágreininginn. Hæstiréttur komst svo að hinni einu réttu niðurstöðu: lán í íslenskum krónum sem bundin voru við gengi erlendra gjaldmiðla voru ólögleg. Þar með ætti það að liggja fyrir.
En það mun engu breyta fyrir þá sem eru staðráðnir í að kalla Gylfa Magnússon lygara því staðreyndir skipta engu máli í íslenskri stjórnmálaumræðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Endalaust rugl
6.8.2010 | 00:44
Við höfðum það fyrir þumalputtareglu á meðal við bjuggum í Asíu og Afríku, að þegar við fluttumst til nýs lands gáfum við okkur eitt ár til að átta okkur á hvernig nýja samfélagið virkaði - í stórum dráttum. Þetta gekk yfirleitt vel.
Það gengur hins vegar ekki eins vel á Íslandi þótt að ég hafi búið hér í áratugi og ætti að þekkja mitt heimafólk. Sumu botna ég hreinlega ekkert í.
Ég á til dæmis bágt með að skilja hvernig það gerist að forsætisráðherra skipi til nefndarsetu mann sem hún treystir ekki. Og þó, hún gæti hafa komist að því of seint að vafi léki á um hæfi hans til starfans. Það væri þá ekki í fyrsta skipti í sögu þessarar ríkisstjórnar.
En ég get með engu móti skilið falleraða nefndarmanninn sem nú virðist neita að víkja úr nefndinni sem hann átti að sitja í og leitar eftir lögfræðiáliti sér til stuðnings!
Hvaða andskotans rugl er þetta?
Eru engin takmörk fyrir lánleysinu í þessu landi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)