Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Nú er það búið
28.11.2011 | 21:49
DV segir nú frá því að Jónína Benediktsdóttir hóti því að flytja úr landi fari ríkisstjórnin ekki frá.
Þá hlýtur þetta að vera endanlega búið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Refsað fyrir vel unnið verk
23.11.2011 | 00:10
Ah, gat verið. Þorvaldur Gylfason náttúrlega búinn að segja það sem ég var að hugsa. Sjáið hér: Þeir óttast FME.
Það skiptir máli nú sem aldrei fyrr að átta sig á samhengi hlutanna. Þorvaldur gerir það að jafnaði og er miklu fljótari að hugsa en ég.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fjórfalt húrra fyrir hrun
20.11.2011 | 23:21
Hún var mögnuð, heimildamyndin um Thorsarana eftir Ullu Boje Rasmussen, sem Ríkissjónvarpið sýndi í kvöld. Ekki bara áhugaverð um Thor Jensen sjálfan heldur líka glettilega skarpskyggn um aðdraganda hrunsins með orðum einnar höfuðpersónunnar.
Sennilega hefði Íslendingur aldrei getað gert þessa mynd, ekki komist upp með það.
En það sem situr eftir er sú ónotalega tilfinning að Björgólfsfeðgar hafi farið nákvæmlega eftir þrautreyndri fjölskylduuppskrift: notað ríkulegan sjarma til að nota peninga annars fólks til að fara á hausinn hvað eftir annað. Og standa keikir eftir í sparifötunum eins og ekkert hafi í skorist.
Mynd Ullu Boje Rasmussen gerði líka annað sem ekki má gleyma: sýndi glögglega hverjir það voru sem hrópuðu hæst og mest húrra fyrir loddurunum - og bjuggu í haginn fyrir þá. Og það sem á eftir hefur komið.
Dægurmál | Breytt 21.11.2011 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ogmundur "vanhæfur"
15.11.2011 | 22:25
Ögmundur Jónasson lét líklega um það í sjónvarpsfréttum í kvöld að hann myndi skila ákvörðun sinni varðandi söluna á Grímsstöðum á Fjöllum í lok næstu viku.
Það verður að segjast eins og er að Ögmundur hefur ekki virst sérstaklega áhugasamur um þessa miklu erlendu fjárfestingu, hreytti m.a. ónotum í Huang Nubo í síðustu viku og sagði að þótt menn gætu olnbogað sig áfram" í krafti peninga austur í Kína, þá væri það ekki hægt hér.
Ó, nei. Við erum nú meiri menn en svo, Íslendingar.
Svo hitti ég lögfræðilegan ráðgjafa minn sem gefur mér ráð í tíma og ótíma (hvort sem ég vil eða ekki).
- Er hægt að láta svona við fólk sem hefur áhuga á að fjárfesta hér? spurði ég. - Þetta hljómar ekki eins og Nubo sé sérstaklega velkominn eins og við kærum okkur ekkert um fjárfestingar.
Lögfræðiráðgjafinn hugsaði sig um og sagði svo: Ég sé ekki betur en að samkvæmt stjórnsýslulögum sé Ögmundur þar með búinn að gera sig vanhæfan til að fjalla um málið.
Hvað þarf annars að vera að hugsa um fjárfestingar í landi þar sem allt er hreinsað út úr tuskubúðum á nokkrum klukkutímum og 300 milljónum er spanderað í jólakonserta-bling?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Aðförin að biskupi
12.11.2011 | 23:50
Tilkynning Karls biskups um að hann hyggist láta af embætti á sumri komanda kemur ekki á óvart. Það var búið að hrekja hann út í horn. Að stórum hluta voru árásirnar á biskupinn ósanngjarnar, eins og séra Karl lýsti réttilega í fréttum í kvöld.
Þar áttu þátt jafnt óbreyttir liðsmenn Þjóðkirkjunnar (og utan hennar) sem tækifærissinnar úr prestastétt sem stukku á vagninn og spörkuðu í liggjandi mann.
Ekki er ég þeirrar skoðunar að Karl biskup hafi gert allt rétt í embætti en aðförin gegn honum er þeim mun raunalegri vegna þess sem hann gerði rétt: enginn maður innan Þjóðkirkjunnar hefur gert meira en séra Karl Sigurbjörnsson til að skapa ákveðinn og sanngjarnan farveg fyrir kynferðisbrotamál kirkjunnar þjóna. Enginn.
Dægurmál | Breytt 15.11.2011 kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Óendanleg smekkleysa
11.11.2011 | 20:21
Síbylja fjölmiðlunar hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru þeir að maður getur nánast hvenær sem er náð sér í upplýsingar um hvað sem er. Gallarnir eru meðal annars þeir að það er allt of mikið blaðrað og bullað og mokað yfir mann fréttum og upplýsingum sem maður hefur ekkert við að gera og kærir sig ekki um. Ég er til að mynda ábyggilega ekki einn um að vita miklu meira um Kim Kardashian en ég hef minnsta áhuga á. Hvers vegna í veröldinni ætti maður að hafa áhuga á konu sem varð fræg fyrir að gera hitt með einhverjum kærasta og kom því svo öllu á netið?
Hér heima er líka stundum of mikið talað um einstök mál sem er jaskað út í umræðunni þar til komið er út yfir öll velsæmismörk. Margar hyggjurnar eru vafasamar en þráhyggjan þó sýnu verst. Í hvers þágu eru til dæmis persónulegar skeytasendingar í fjölmiðlum á milli Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur og fjölskyldu hennar? Hvað á maður að þurfa að sitja lengi undir því andstyggðarmáli öllu saman? Er ekki komið nóg?
Hún hefur sagt sína sögu vel og skilmerkilega, bróðir hennar hefur sagt sögu þeirra hinna ekki síður vel og skilmerkilega og eftir stendur að enginn utanaðkomandi hefur hugmynd um hvað er satt og hvað er ekki satt. Áframhaldandi upphróp um fjölskylduharmleikinn í fjölmiðlum breyta engu um það. Smekkleysið er þarna gengið út yfir allan þjófabálk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Frekar heimspeking en fleiri hagfræðinga
3.11.2011 | 15:20
Það hefur verið talsvert um góðar fréttir undanfarna daga. Besta fréttin er um að Amal Tamimi sé sest á þing. Mikill og merkilegur áfangi á vegferðinni til raunverulegs fjölmenningarsamfélags að manneskja af svo ólíkum uppruna sé sest á sjálft Alþingi Íslendinga. Amal er dugmikil kona og til alls góðs vís.
Önnur góð frétt var um tillögu Hreyfingarinnar á þingi um að hefja heimspekikennslu ungra barna. Litlir krakkar sem fá smjörþef af heimspekiþekkingu eru líklegri til að þroska með sér gagnrýna hugsun sem ekki er of mikið af.
Og það var mjög góð frétt sem barst úr Héraðsdómi Reykjaness í morgun um að Svavar Halldórsson fréttamaður á RÚV hefði verið sýknaður af meiðyrðakæru Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Það er komið nóg af dómum yfir blaðamönnum. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómara hnykkja skyldu blaðamanna á til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum, og þá var ekki síður þessi hluti dómsniðurstöðunnar athyglisverður:
Fréttir um stefnanda (þ.e. JÁJ) hafa því oftar en ekki snúið að hans hlutverki í bankahruninu en eftir hrun íslensku bankanna haustið 2008 hafa fjölmiðlar verið undirlagðir fréttum um bankahrunið og kreppuna, orsakir hennar og tengd atriði. Gerðar hafa verið kröfur til fjölmiða að þeir miðli öllu efni sem varðað geti almenning, sér í lagi þegar efnið er til þess fallið að varpa ljósi á þætti sem varðar aðila sem gengt hafi lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi. Í ljósi þeirra aðstæðna sem sköpuðust eftir bankahrunið verður stefnandi að þola nærgöngula umræðu um verk sín og þátttöku sína í viðskipalífinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)