Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
Móðgaður 50 sinnum!
30.4.2011 | 20:59
Vincent Tchenguiz, skuldunautur og stórbíssnissmaður í London, segir nú frá því í Noregi að Kaupþingsmenn (sem hann virðist hafa féflett stórkostlega og öfugt) hafi verið svo miklir plebbar að þeir hafi farið með helstu viðskiptavini sína á strippbúllu í London.
Ég skil þessi ummæli Tchenguiz svo að honum hafi mislíkað svona framkoma - að vera dreginn á strippbúllu á meðan fínu bankarnir fóru með sína kúnna á raffíneraða veitingastaði í Mayfair.
Ekki nóg með það: honum mislíkaði þetta stórkostlega fimmtíu sinnum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ótrúlegt klúður
27.4.2011 | 21:07
Kjörstjórn Þjóðkirkjunnar hefur sem betur fer sagt af sér og þar með gert það eina rétta í kjölfar ákvörðunar um að endurtaka þurfi kosningu vígslubiskups.
Það er í rauninni alveg stórundarlegt að kjörstjórninni hafi tekist að klúðra kosningunni með því að telja með atkvæði sem sannanlega voru sent of seint af stað. Og enn óskiljanlegra í ljósi nýliðinnar kosningasögu.
Hvað getur verið svona flókið við að fara eftir reglunum? Í þessu tilviki voru þær einfaldar og skýrar atkvæði átti að senda af stað fyrir ákveðinn tíma, þau sem voru póstlögð eftir þann tíma voru einfaldlega ógild.
Í gegnum árin gortaði ég of af því við útlendinga að Íslendingar væru ákveðnir skipulagðir og væru ekki að láta einfalda hluti vefjast fyrir sér við værum þaulvön lýðræðislegum kosningum og að þær gengju alltaf snuðrulaust fyrir sig.
Nú virðist varla vera hægt að kjósa í íslenska skemmtinefnd án þess að allt fari í vaskinn!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Prumpubrandari í Nýló
21.4.2011 | 20:24
Auðvitað er það ekki svo að allt sé jafn gott eða eigi jafnan rétt á sér. Þótt til sé bæði góður smekkur og vondur er ekki þar með sagt að það sé ævinlega smekksatriði hvort eitthvað er gott eða vont.
Það er stundum farið með mig á myndlistarsýningar. Sumar eru góðar, miklu fleiri eru einfaldlega vondar: illa gerðar myndir án hugsunar eða færni. Sumar sýningar eru samsafn af drasli sem aldrei hefði átt að fara út úr vinnustofunni. Sama gildir um talsvert af þeirri dægurmúsík sem gefin er út: hvað eftir annað heyrir maður söngvara sem ekki halda lagi flytja síbylju þar sem aldrei örlar á tónlist. Sumt af þessu fólki virðist vera ofboðslega frægt, eins og Stuðmenn sögðu, jafnvel þótt það geti ekkert.
Þetta snýst ekki um smekk eða fordóma. Þetta snýst um að gera þær lágmarkskröfur að það sem borið er á borð fyrir almenning og kallað list standi undir nafni: sé ekki bara orðið til af þörf fyrir að komast í Séð & heyrt heldur líka af lágmarksþekkingu og þörf fyrir að setja sæmilega þroskaðar hugmyndir á striga, pappír eða plötu. Óþroskuðu hugmyndirnar eiga að vera heima í geymslu eða bílskúr þangað til þær hafa náð þroska. Vondir píanóleikarar eiga að æfa sig heima áður en þeir fara að troða upp. Vond skáld eða rithöfundar eiga að skrifa fyrir skúffuna sína þar til þeir hafa náð færni. Sama gildir um málara.
Þess vegna er fullkomlega út í hött að vera með hávaða og stóryrði um ritskoðun og tjáningarfrelsi þótt ábyrgir menn vilji ekki láta vaða með dónaskap á skítugum skónum yfir raunveruleg listaverk, eins og nú hefur gerst í Nýlistasafninu. Ansi mikið af því sem þar er að sjá er ekki merkilegt. Ekki einu sinni almennilega gert! Ádeilan er prumpubrandari.
Það er einfaldlega ekki allt gott. Sumt er drasl og á heima með öðru drasli.
En þeir sem vilja sjá hvernig einfaldar hugmyndir verða að stórbrotnum listaverkum vegna þess að listamaðurinn kann og hugsar ættu að koma við í Gerðarsafni í Kópavogi og sjá yfirlitssýningu á verkum Barböru Árnason. Það er einhver þarfasta sýning sem haldin hefur verið lengi ekki síst í okkar póst-móderníska heimi sem er hættur að gera kröfur. Ekki einu sinni lágmarkskröfur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hjálpum þeim sem þurfa
15.4.2011 | 20:11
Hjálparstarf kirkjunnar á hrós skilið fyrir að hafa ákveðið að taka upp nýja siði við að hjálpa þeim sem ekki hafa nóg til að bíta og brenna. Matarpokarnir sem dreift hefur verið til þeirra sem leita eftir þeim eru ósmekkleg aðferð og lítillækkandi.
Ef ég hef skilið fréttir rétt, þá mun Hjálparstarfið framvegis tryggja að þeir fái aðstoð sem hana raunverulega þurfa og geta sýnt fram á þá þörf.
Þetta hafa Fjölskylduhjálpin og Mæðrastyrksnefnd ekki viljað gera enda eru myndir af biðröðum sjálfsagt árangursríkari til að hala inn pening og matvæli. Gallinn er hinsvegar sá að þannig getur fólk, sem ekki þarf - en vill - farið á milli og komist hjá því að sjá fyrir sér. Um það eru dæmi, því miður.
Vonandi mun þetta framtak Hjálparstarfsins neyða þessar tvö einkafélög til að breyta vinnulagi svo að hjálpin berist þeim sem þurfa, ekki bara þeim sem vilja hirða eyri ekkjunnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
"Lýðræði borgar sig ekki fyrir Íslendinga"
10.4.2011 | 17:40
Joe Lynam heitir fréttaskýrandi hjá BBC. Hann segir í dag:
The Icelandic people were damned if they did and damned if they didn't. It looks as if they still couldn't stomach the idea of paying off the debts of privately owned banks - even if the revised deal was considerably more generous.
The consequences of this referendum vote is that Iceland's years in the financial wilderness could be extended much further.
Moody's and other ratings agencies look set to downgrade the country even further, making it prohibitively more expensive to borrow on the open markets.
Iceland's bid to join the EU will be paused or even vetoed by Britain and the Netherlands. And the tiny Atlantic economy is facing legal action in the EFTA court which might force it to pay up sooner than planned and at a punitive interest rate.
Democracy doesn't pay if you're an Icelander.
Nú verður maður bara að vona að Joe Lynam hafi kolrangt fyrir sér og að allt fari á besta veg. Það breytir ekki þeirri skoðun minni að betra hefði verið að segja já. En það var ekki gert og þá er að vinna úr þeim spilum sem á hendi eru.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég vil ekki vera dólgur
7.4.2011 | 00:50
Auðvitað ætla ég að greiða atkvæði með IceSave samningnum. Ég vil ekki standa í illdeilum við umheiminn út af máli þar sem við stöndum augljóslega höllum fæti jafnvel þótt það sé álíka höllum fæti og Bretar og Hollendingar. Það er siðaðra manna háttur að semja um misklíð sína. Viljum við teljast siðað fólk eigum við að sýna það í verki, ekki halda áfram að hegða okkur eins og dólgarnir sem komu okkur í skítinn.
Auk þess held ég að við skattgreiðendur munum aldrei þurfa að borga jafnvel ekki krónu. Þrotabú Landsbankans á þegar 90% fyrir þessu. Og ef það fer ekki alveg í hundrað prósent, þá hlýtur að vera heppilegra að borga eitthvað fyrir frið og sæmd heldur en að hafa þennan andskota yfir okkur mörg ár enn og verða afgreiddir sem kjánar og ómerkingar. Ég vil taka þátt í veröldinni; annars gæti ég alveg eins flutt til Norður-Kóreu og hlustað þar á viðlíka þjóðrembubelging og þann sem nú er gusað yfir mann.
Mestu skiptir þó að á okkur hvílir siðferðileg skylda að gera málið upp. Þrjár ríkisstjórnir, allar löglegar, hafa lofað að semja um málið allt frá haustinu 2008. Ríkisstjórnir tala fyrir hönd þjóðarinnar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þannig er stjórnskipulagið hér.
Þvættingur um barnaþrælkun, forréttindastéttir, nýlendukúgara og allt það...iss, ekki gef ég mikið fyrir slíkan málflutning. Ég vil heldur horfa fram á veginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Spor í rétta átt...
5.4.2011 | 22:44
...hjá LÍÚ að hafa loks ljáð máls á því að taka kvótann á leigu.
...hjá Actavis að flytja úr landi. Þá detta þær ógnartölur allar út úr ríkisreikningi og bókhaldið lítur miklu betur (og réttar) út. Það er auðvitað vont að öflug fyrirtæki fari úr landi en hér eru kostirnir fleiri.
...hjá RÚV að hafa gert tvo ágæta sjónvarpsþætti um IceSave-ólukkuna ekki síst þegar þeir koma í kjölfar glimrandi góðs viðtals Egils Helgasonar við Lee Buchheit þar sem loks var vitsmunaleg umræða um málið.
...hjá Ögmundi Jónassyni að lofa því að nepalska stúlkan verði ekki send úr landi. En hvernig væri að einhver fjölmiðill reyndi að útskýra fyrir okkur hvaða reglur það eru um Útlendingastofnun sem virka svona öfugsnúnar? Eða á maður að trúa því að þessi stofnun sé uppfull af vondu fólki?
...hjá Jóni Gnarr borgarstjóra handan við voginn að segja eins og er: endalaust skítkast og neikvæðni eru hluti af hallærislegri og frumstæðri samræðuhefð. Við það er þessu að bæta: og skaðlegt fyrir andlegt og líkamlegt atgervi þjóðarinnar.
Svo er ástæða til að minna á vorsöngva Karlakórs Reykjavíkur sem í ár fagnar 85 ára afmæli og hefur aldrei verið betri!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)