Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Hver leyfir þetta eiginlega?

Ég er eiginlega hættur að botna í þessu með forsetann og stöðu hans í samfélaginu. Nú síðast er hann að skattyrðast við forsætisráðuneytið um hvernig gengur að setja forsetaembættinu siðareglur – og segir að forsætisráðherra komi það ekkert við. Eða þannig skil ég svörin við bréfunum sem forsetinn vill ekki birta vegna þess að þau snúi að samskiptum hans við Alþingi – sem hann virðist svo ekki heldur hafa nein samskipti við í þessu máli.

Ég fæ ekki betur séð en að forsetinn telji að hann sé engum háður og þurfi hvergi að standa skil á gerðum sínum eða athöfnum, hann geti haft þetta eins og sér sýnist, túlkað stjórnarskrána eftir eigin höfði og búið til nýjar skilgreiningar á þingræðinu og hvaðeina. Það er giska mikið öðruvísi en forseti lýðveldisins hefur hingað til litið á málið.

Auðvitað er ekki útilokað að Sveinn Björnsson, Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir, og ríkisstjórnirnar og þingin sem þau unnu með, hafi öll haft rangt fyrir sér um hlutverk og eðli forsetaembættisins. Og þá líka stjórnlagaspekingarnir sem hafa menntað margar kynslóðir lögmanna og dómara í þessu landi og skrifað bækurnar sem notaðar eru við lögfræðikennslu, málarekstur og júridísk fræðistörf.

Það er auðvitað hugsanlegt – en ég heyri ekki marga halda þeirri skoðun á lofti.

Miklu frekar heyrist mér að nánast enginn málsmetandi maður taki undir túlkun forsetans á stöðu embættisins og hlutverki í samfélaginu. Mér heyrist að hann sé að breyta eðli embættisins og hlutverki þess án þess að um það hafi verið rætt og vélað af til þess bæru fólki á til þess bærum stöðum - með tilheyrandi kosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslum.

En hvað er þá eiginlega að? Ef það er rétt, sem mér skilst á umræðunni (og þykist fylgjast alveg sæmilega með), að forsetinn sé að búa til nýjar skilgreiningar og viðmiðanir fyrir embætti sitt og hafi um það samráð við engan mann, hvers vegna er það látið gerast? Hver leyfir það? Hver kaus hann til þess?

 


Meira, meira

Ekki verður hjá því komist að dásama Hörpuna. Við Dagmar vorum svo lánsöm í gærkvöld að komast þar á konsert Sinfóníunnar. Hvílík dýrðar veisla sem það var. Það er fátt sem ég veit um klassíska tónlist og sinfóníuhljómsveitir – en eftir þetta vil ég vita og heyra meira. Miklu meira.

En ég þykist vita hvenær sándar vel og hvenær ekki – og í Eldborgarsalnum í Hörpu sándar ótrúlega vel. Það er heldur ekki oft sem ég fæ gæsahúð af hrifningu en það gerðist hvað eftir annað í gærkvöld.

Fólkið sem gerði þetta sómahús að veruleika á mikið hrós skilið og þakkir. Vigdís, Ashkenazy og allir hinir – og svo Katrín Jakobsdóttir fyrir að hafa ákveðið að halda byggingunni áfram þegar allt hrundi og séð til þess að við eigum nú glæsilegt tónlistarhús en ekki bara ömurlega hálfkaraða byggingu.

Jú, og svo þarf náttúrlega að þakka öllum útlendingunum sem höfðu lánað hingað stórfé til að byggja þetta hús - og hafa nú tapað hverri krónu. Þröstur Ólafsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sinfóníunnar, giskaði á það í blaðagrein í gær að það fé hefði dekkað um 40% af byggingarkostnaðinum.


Gott hjá Össuri

Össur Skarphéðinsson er sennilega eini stjórnmálaforinginn á Vesturlöndum sem hefur komist skammlaust frá drápinu á Osama bin Laden. Hann hefur hafnað því að gleðjast yfir slátruninni. Það er í anda þess umburðarlyndis og mannkærleika sem okkur er sagt að sé grundvöllur hins kristilega menningararfs Evrópumanna (og þar með Bandaríkja Norður Ameríku).

Mig hefur oft undrað hversu grunnt er á blóðþorsta og hefnigirni hjá fólki sem er sprottið upp úr þessum sama jarðvegi. Þetta virðist sérstaklega algengt hjá Bandaríkjamönnum sem hrópa á hefndir og blóðugar refsingar fyrir hvaðeina – enda eru hvergi á byggðu bóli hlutfallslega jafn margir íbúar í tugthúsi, oft fyrir litlar sakir. Þetta sama fólk ákallar í sömu andránni sjálfan Krist – þennan sem benti fólki á að bjóða fram hinn vangann í stað þess að leita hefnda. Það er einhver furðuleg þversögn í þessu.

Hefnd er ljót, fyrirgefningin er fögur.

Osama bin Laden átti sjálfsagt ekkert gott skilið – en það er engu að síður ósmekklegt að halda partí til að fagna drápinu.

Gott hjá Össuri. 


Hvar er amma?

1. maí  er haldinn hátíðlegur hjá okkur af sérstöku tilefni – umfram það hefðbundna. Sonardóttir okkar hún Salka á nefnilega afmæli og varð þriggja ára.

Svona mikið, sagði hún og sýndi mér með þremur fingrum. Ekki svona? spurði ég og hélt uppi tveimur. Nei, bara í gær, svaraði hún.

Afmælisveislan var á borð við sjötugsafmæli héraðshöfðingja, fullt af litlum krökkum sem öll voru kurteis og prúð og vildu frekar pizzusneið en rjómakökur. Afmælisbarnið í sínum eftirlætisgalla – eins og Solla stirða.

Salka hefur verið okkur samfelld og logandi hamingja í þessi þrjú ár. Maður hefði átt að vera byrjaður á þessu afastandi miklu fyrr!

Í hvert sinn sem við hittumst spyr Salka mig sömu spurningarinnar: Hvar er amma?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband