Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
Tímasetning lögreglumanns
26.2.2012 | 23:50
Ef það er rétt hjá Geir Jóni Þórissyni löggu að þingmaður eða þingmenn hafi stjórnað því sem kallað var árás á Alþingi í ársbyrjun 2009, þá þarf náttúrlega að upplýsa hver eða hverjir voru þar að verki. Í hverju fólst þessi stjórn og hvernig var við henni brugðist?
Um leið þarf náttúrlega að leiða í ljós raunverulega ástæðu þess að Geir Jón er núna fyrst að segja þessa sögu og ef ég tók rétt eftir Sjónvarpsfréttum í kvöld lét hann einnig hafa eftir sér að á sínum tíma hefði verið ákveðið að hafast ekki frekar að. Hver ákvað það, hvenær og hvers vegna?
Eins og margir aðrir dáðist ég oft að Geir Jóni fyrir stillingu og prúðmennsku í störfum. En mér finnst þessi tímasetning hans sérkennileg. Er hægt að ætla svona prúðum manni svo misjafnt að frásögnin sé innlegg í kosningabaráttu um varaformannssæti í Sjálfstæðisflokknum?
Skoðun á þessu máli sem nú hlýtur að fara fram hlýtur að leiða það í ljós. Nei, verður að leiða það í ljós.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Tímasetning lekans
21.2.2012 | 16:01
Enn eitt dæmið um hvernig mál rata í fréttir vegna þess að einhver hefur af þeim greinilega hagsmuni: frásögn DV af skuldamálum Ástráðs Haraldssonar lögmanns í Glitni.
Dettur einhverjum í hug að tímasetningin á þessum leka hafi verið tilviljun? Að hann hafi ekki verið hugsaður sem innlegg í umræðuna um yfirvofandi brottrekstur forstjóra FME?
Enn meiri ástæða fyrir almenning að reyna að átta sig á hvers vegna tilteknar fréttir birtast á tilteknum tíma.
Hagsmunirnir sem verið er að verja hér eru ekki hagsmunir almennings. Hér er í gangi eitthvert spil sem venjulegt fólk kann ekki skil á og er ekki ætlað að skilja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sennilega fýkur stjórnin...
20.2.2012 | 17:23
Það er sjálfsagt of mikið sagt hjá Gunnari Þ. Andersen forstjóra Fjármálaeftirlitsins að Kastljóss-þátturinn hafi verið pantaður, eins og Mogginn hefur eftir honum en það er hins vegar afar sennilegt að ákveðnir aðilar hafi verið drifkrafturinn á bakvið hann.
Ég hef áður haldið því fram hér að flestar bitastæðar fréttir (aðrar en þessar venjulegu um veður og aflabrögð) rati til neytenda vegna þess að einhver hefur af því hagsmuni. Það er því líklegra en ekki að einhver hafi komið upplýsingunum í Kastljós-þættinum í nóvember sl. til sjónvarpsins með það í huga að þær enduðu í útsendingu. Ritstjórn Kastljóss gerði það sem henni ber skylda til að gera: fór yfir upplýsingarnar og matreiddi svo til útsendingar. Út á það er ekkert að setja, ég man ekki betur en að þetta hafi verið vel og fagmannlega gert.
Auðvitað hef ég ekki hugmynd um hvaðan þessar upplýsingar komu eða hver var tilgangur heimildamanns eða -manna Kastljóss með því að koma þeim á framfæri. Maður þarf hins vegar ekki að vera skyggn til að átta sig á að einhverjir hagsmunir lágu þar að baki. Gunnar Andersen þekkir vafalaust betur en margir aðrir hvernig viðkvæmum upplýsingum er komið á framfæri við fjölmiðla án þess að heimildamanna sé getið.
Hitt er svo annað að það sýnist hæpið að stjórn FME geti rekið forstjórann á grundvelli fabúleringa þeirra Ástráðs Haraldssonar og Ásbjörns Björnssonar. Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til að Gunnar Andersen hafi brotið af sér í starfi - og raunar ítreka þeir Ástráður og Ásbjörn að svo sé ekki.
Þetta mál getur ekki endað vel. Sennilega fýkur stjórn Fjármálaeftirlitsins út af öllu saman. Gunnar getur þá haldið áfram að bösta skuggabaldra fjármálakerfisins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ESB mælir raunverulegan nethraða
11.2.2012 | 15:31
Ég vil vekja athygli á lítilli frétt í prent-Mogganum í dag svohljóðandi:
Framkvæmdastjórn ESB er um þessar mundir að mæla breiðbandshraða í 30 Evrópulöndum, þ.e. aðildarríkjunum 27 auk Króatíu, Noregs og Íslands. Sambandið og samstarfsaðilar leita nú að sjálfboðaliðum á Íslandi til að taka þátt í mælingunni. Til að taka þátt í könnuninni arf að fara á vefsíðuna http://www.samknows.eu/is/ipad og skrá sig þar. Eftir að valið hefur verið úr hópi sjálfboðaliða fá 100 þeirra send mælitæki. Einn úr hópnum fær síðan iPad2 í verðlaun.
Það er rétt að segja frá því að ég á óbeinna hagsmuna að gæta hér - tók að mér að aðstoða samstarfsaðila ESB að vekja athygli á þessu máli sem ég tel vera hagsmunamál neytenda. Miklu meiri hagsmunir eru náttúrlega að fá hlutlausa og faglega mælingu á nethraðanum sem maður kaupir hér. Það er nefnilega þannig að internet-fyrirtækin selja manni "allt að" svo og svo miklum hraða - en svo getur verið allur gangur á hvað maður fær.
Til dæmis má nefna að mælingafyrirtækið (SamKnows) komst að því að í Bretlandi fékk fólk aðeins um helming þess nethraða sem það borgaði fyrir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ekkert getur bjargað þeim...
2.2.2012 | 13:11
Það hefur verið heldur raunalegt að fylgjast með vandræðaganginum í bæjarstjórn Kópavogs að undanförnu. Þetta virðist ekki geta endað með öðru en að gamli meirihlutinn, sem var settur af með ákveðnum hætti í síðustu kosningum, taki við aftur. Þá verða gömlu spillingarmálin sett ofaní skúffu og ballið getur byrjað á ný. Þá verður ekkert uppgjör, engin siðbót, enginn manér.
Það hefur ekki verið auðvelt að átta sig á hvað hefur í raun og veru gerst í bæjarstjórninni en manni sýnist þó augljóst að ætluð uppsögn bæjarstjórans hafi verið ótrúlegt klúður hjá Guðríði Arnardóttur formanni bæjarráðs. Fólk sem ekki getur sagt upp starfsfólki á kannski ekki að taka að sér störf sem bera slíka ábyrgð. Eða eins og Magnús Eiríksson sagði í ágætu söguljóði: Ekkert getur bjargað þeim sem klúðrar því að hengja sig.
En ég verð að taka undir með Hjálmari næstbesta Hjálmarssyni sem ekki segist sjá ástæðu til þess yfirhöfuð að hafa meirihluta í bæjarstjórninni. Var ekki allt þetta fólk kosið til að stjórna bænum? Var eitthvað um það á kjörseðlinum að þessi eða hinn ætti að vera í meirihluta og ráða öllu en þeir í minnihlutanum engu?
Mér sýnist nefnilega að bæjarfélagið hafi virkað alveg á sama hátt og fyrir "stjórnarkreppnuna" þótt ekki sé niðurnegldur meirihluti í bæjarstjórninni. Snjómoksturinn hefur til dæmis verið til stakrar fyrirmyndar undanfarnar vikur að minnsta kosti í mínu hverfi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)