Aðförin að biskupi

Tilkynning Karls biskups um að hann hyggist láta af embætti á sumri komanda kemur ekki á óvart. Það var búið að hrekja hann út í horn. Að stórum hluta voru árásirnar á biskupinn ósanngjarnar, eins og séra Karl lýsti réttilega í fréttum í kvöld.

Þar áttu þátt jafnt óbreyttir liðsmenn Þjóðkirkjunnar (og utan hennar) sem tækifærissinnar úr prestastétt sem stukku á vagninn og spörkuðu í liggjandi mann.

Ekki er ég þeirrar skoðunar að Karl biskup hafi gert allt rétt í embætti – en aðförin gegn honum er þeim mun raunalegri vegna þess sem hann gerði rétt: enginn maður innan Þjóðkirkjunnar hefur gert meira en séra Karl Sigurbjörnsson til að skapa ákveðinn og sanngjarnan farveg fyrir kynferðisbrotamál kirkjunnar þjóna. Enginn.

 


Óendanleg smekkleysa

Síbylja fjölmiðlunar hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru þeir að maður getur nánast hvenær sem er náð sér í upplýsingar um hvað sem er. Gallarnir eru meðal annars þeir að það er allt of mikið blaðrað og bullað og mokað yfir mann fréttum og upplýsingum sem maður hefur ekkert við að gera og kærir sig ekki um. Ég er til að mynda ábyggilega ekki einn um að vita miklu meira um Kim Kardashian en ég hef minnsta áhuga á. Hvers vegna í veröldinni ætti maður að hafa áhuga á konu sem varð fræg fyrir að gera hitt með einhverjum kærasta og kom því svo öllu á netið?

Hér heima er líka stundum of mikið talað um einstök mál sem er jaskað út í umræðunni þar til komið er út yfir öll velsæmismörk. Margar hyggjurnar eru vafasamar en þráhyggjan þó sýnu verst. Í hvers þágu eru til dæmis persónulegar skeytasendingar í fjölmiðlum á milli Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur og fjölskyldu hennar? Hvað á maður að þurfa að sitja lengi undir því andstyggðarmáli öllu saman? Er ekki komið nóg?

Hún hefur sagt sína sögu vel og skilmerkilega, bróðir hennar hefur sagt sögu þeirra hinna ekki síður vel og skilmerkilega og eftir stendur að enginn utanaðkomandi hefur hugmynd um hvað er satt og hvað er ekki satt. Áframhaldandi upphróp um fjölskylduharmleikinn í fjölmiðlum breyta engu um það. Smekkleysið er þarna gengið út yfir allan þjófabálk.


Frekar heimspeking en fleiri hagfræðinga

Það hefur verið talsvert um góðar fréttir undanfarna daga. Besta fréttin er um að Amal Tamimi sé sest á þing. Mikill og merkilegur áfangi á vegferðinni til raunverulegs fjölmenningarsamfélags að manneskja af svo ólíkum uppruna sé sest á sjálft Alþingi Íslendinga. Amal er dugmikil kona og til alls góðs vís.

Önnur góð frétt var um tillögu Hreyfingarinnar á þingi um að hefja heimspekikennslu ungra barna. Litlir krakkar sem fá smjörþef af heimspekiþekkingu eru líklegri til að þroska með sér gagnrýna hugsun sem ekki er of mikið af.

Og það var mjög góð frétt sem barst úr Héraðsdómi Reykjaness í morgun um að Svavar Halldórsson fréttamaður á RÚV hefði verið sýknaður af meiðyrðakæru Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Það er komið nóg af dómum yfir blaðamönnum. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómara hnykkja skyldu blaðamanna á til að „standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum,“ og þá var ekki síður þessi hluti dómsniðurstöðunnar athyglisverður:

„Fréttir um stefnanda (þ.e. JÁJ) hafa því oftar en ekki snúið að hans hlutverki í bankahruninu en eftir hrun íslensku bankanna haustið 2008 hafa fjölmiðlar verið undirlagðir fréttum um bankahrunið og kreppuna, orsakir hennar og tengd atriði. Gerðar hafa verið kröfur til fjölmiða að þeir miðli öllu efni sem varðað geti almenning, sér í lagi þegar efnið er til þess fallið að varpa ljósi á þætti sem varðar aðila sem gengt hafi lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi. Í ljósi þeirra aðstæðna sem sköpuðust eftir bankahrunið verður stefnandi að þola nærgöngula umræðu um verk sín og þátttöku sína í viðskipalífinu.“


Stóra systir er krípí

Það var ágætlega hugsað til að vekja athygli hvernig konurnar í „Stóru systur“ kynntu herferð sína gegn vændiskaupendum í gær.

En er ekki eitthvað heldur „krípí“ við að hópur fólks komi fram dulbúinn og veifi nöfnum, símanúmerum og netföngum annars hóps sem á að vera sekur um einhvern djöfuldóm?

Minnir aðeins á þessa grímuklæddu sem ævinlega eru fremstir í flokki þegar grýta þarf fólk og hús í nafni frelsis og lýðræðis.

Víst eru vændiskaup ólögleg og allt gott um það að segja. En þessi aðferð hugnast mér ekki – ef baráttan er í góðs þágu, því þá dularklæðin?


Meira sponsorship?

Maður sat eins og lamaður eftir áhrifamikið og greinargott samtal Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur og Þórhalls Gunnarssonar í Sjónvarpinu í gærkvöld. Hún sýndi þar bæði hugrekki og visku.

Í framhaldinu hef ég farið að hugsa um annan vinkil á þessu viðtali. Sá vinkill kemur máli Guðrúnar Ebbu í raun ekkert við en er þessi:

Út er að koma bók sem vænta má að veki athygli og eftirvæntingu. Ríkisútvarpið-Sjónvarp ákveður að taka höfundana tali í sérstökum þætti á besta útsendingartíma. Samtímis setur útgefandinn í gang auglýsingaherferð þar sem vakin er athygli á sjónvarpsþættinum og að sala bókarinnar hefjist strax að honum loknum.

Er RÚV þá í samstarfi við bókaútgefandann? Ég man ekki til að hafa heyrt það nefnt í þættinum sjálfum eða kynningum á honum. 

Eru ekki fleiri bókaútgefendur sem myndu vilja komast í slíkt samstarf?


Glæpurinn í Geirfinnsmálinu

Í Geirfinnsmálinu var víst framinn hræðilegur glæpur sem á sér fáar, ef nokkrar, hliðstæður í íslenskri réttarsögu. En það var ekki dómsniðurstaðan í málinu – heldur lygarnar sem sakborningarnir, undir forustu Erlu Bolladóttur, beittu gegn saklausum mönnum, Klúbbmönnunum svokölluðu.

Nú er hún enn að segja sögur: var ég ekki að lesa einhvers staðar að hún héldi því nú fram að sér hefði verið nauðgað í gæsluvarðhaldsfangelsinu við Síðumúla? Aldrei í öllum málarekstrinum var á það minnst og voru þó gerðar athugasemdir við minni sakir en svo alvarlegt brot.

Ég er einn af þeim 2-3 íslenskum blaðamönnum sem fylgdust mest og best með þessu máli frá upphafi – gerði satt að segja fátt annað í nokkur ár. Það sakar ekki að rifja það upp nú að það flækti málið óendanlega á sínum tíma að sjaldan var að marka það sem Erla og félagar hennar sögðu. Á endanum tókst þó að berja saman atvikalýsingu sem hinir ákærðu gengust við og á þeim játningum byggðist dómsorðið.  

Hæstaréttardómurinn í Geirfinnsmálinu er svo sem ekki skemmtilesning – en hann væri holl lesning mörgum þeim sem nú tala um ofbeldismenn og hrotta sem ljóngáfaða öðlinga og kórdrengi.


Sama þrasið

Það var sama þrasið á þinginu í kvöld, sama þrasið og venjulega. Mikið óskaplega er þetta orðið leiðinlegt. Ekki undarlegt að maður sé með hausverk og leiða.

En þegar leiðinn er sem mestur og hausverkurinn verstur, þá neyði ég mig til að rifja upp hvers vegna við erum í þessari skítastöðu sem við erum í og hverjir komu okkur í hana. Það voru þeir sömu sem nú berjast um á hæl og hnakka gegn öllum framfaraskrefum. 

Stefán Jón Hafstein greinir þetta betur en margir aðrir í nýrri grein í Tímariti Máls og menningar. Mæli eindregið með þeirri lesningu. Fyrir þá sem ekki nenna að ná sér í TMM má benda á þennan hlekk þar sem Stefán ræddi við Jón Orm Halldórsson og Ævar Kjartansson í útvarpsþættinum Landið sem rís fyrir rúmri viku síðan.

Það er raunar þáttur sem alltaf er þess virði að fylgjast með - þar halda Jón Ormur og Ævar uppi óvenju skynsamlegri umræðu um það sem skiptir máli. 


Til hvers er löggan ef ekki...?

Löggan var að kvarta yfir því í gær að vera notuð sem "mannlegir skildir" við Alþingishúsið á meðan draslinu rigndi yfir þingmenn.

Eh, hérna...er ekki löggan til þess einmitt að gæta öryggis ríkisins?

 


Burt með hann!

Nú er maður alveg kjaftstopp. Forsetafrúin farin að mótmæla ríkisstjórn og alþingi á Austurvelli.

Frá hvaða plánetu er þetta fólk eiginlega?

Það er svo komið að mikilvægasta verkefnið framundan er að útvega forsetanum nýja vinnu og fá í staðinn einhvern sem er til í að vinna þjóð sinni gagn.


Misheppnuð endurnýjun Alþingis

Menn eru að tala um nauðsyn þess að endurnýja á Alþingi. Ég segi eins og seiðkerlingin í sögunni af námum Salómóns konungs: Ah, ég hef séð það áður.

Það eru ekki nema rúm tvö ár síðan mikil endurnýjun varð í þingmannaliðinu (þriðjungur nýr, ef ég man rétt) en það sorglega er að sú endurnýjun hefur að mestu reynst misheppnuð. Mig grunar að allt að helmingur þingmanna ætti að vera í annarri vinnu. Vandræðalega margir nýju þingmannanna eiga ekkert erindi á þing, hafa hvorki vitsmuni né félagsþroska í djobbið. Þetta á við um fólk í öllum flokkum – en jafnframt eru aðrir sem eru augljóslega áætlega hæfir til starfans.

Augljósust mistökin má sjá í því sem ágætur þingmaður kallar „hálftíma hálfvitanna“ þar sem nokkur skrækihænsn verða sér og löggjafarþinginu jafnan til skammar. En svo eru ýmsir fleiri sem kunna ekki vinnubrögðin og hafa ekki áhuga á að læra þau.

Vinkona mín ein, sem þekkir vel til í pólitíkinni, er hissa á því að ég skuli vera hissa á þessu. Við hverju er að búast þegar sópað er inn óreyndum frambjóðendum kortéri fyrir prófkjör? segir hún.

Félagsmálastarf getur verið vandasamt – og það þarf að læra. Best væri náttúrlega að læra grundvallaratriðin áður en menn setjast á þing. Rétt að muna það áður en kosið verður næst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband