Færsluflokkur: Dægurmál
Napalmsprengjur á leikskóla
9.2.2010 | 11:38
Ég er ekki lengur viss um hvað það er að vera Íslendingur. Skil ekki alveg hvað það er sem gerir okkur að þjóð og sé ekki að það sé margt sem sameini okkur. Þessi niðurstaða kemur mér á óvart, ég hef nánast alla mína tíð haldið að við værum sameinuð af tungu, arfleifð, gildum, rigningu og roki...og því öllu saman.
En nú er ég hættur að skilja. Alls konar endemis della veður uppi og fær óendanlegt pláss í fjölmiðlum. Afstaða stórs hluta almennings til stórmála fer eftir fótboltafélögum eða óskilgreindri tryggð við stjórnmálaflokka, meira að segja flokkana og fólkið sem hefur komið okkur up shit creek eins og Ameríkanar segja. Staðreyndir skipta engu máli, reynslan enn síður.
Enn eitt af þessum heimskulegu dellumálum er nú í gangi: stofnun spilavítis í höfuðborginni. Og auðvitað eru fótboltatröll þar í fararbroddi og halda embættismönnum og pólitíkusum uppteknum dagana langa við að ræða þennan þvætting. Það er ekkert varið í Gullfoss og Geysi, við verðum að eiga spilavíti eins og siðmenntaðar þjóðir, sagði eitt tröllið í sjónvarpi í gærkvöld.
Það er náttúrlega ekki í lagi með þetta fólk.
Eins og það sé ekki nóg fyrir af tækifærum fyrir fólk til að fara sjálfu sér og fjölskyldum sínum að voða.
Við höfum álíka þörf fyrir spilavíti og napalmsprengjur á leikskóla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Engin þjóðaratkvæðagreiðsla
5.2.2010 | 12:48
Það eru hinsvegar engar alvöru viðræður í gangi um ný og betri lán frá Norðmönnum eða einhverjum öðrum, enda vill enginn lána Íslendingum peninga.
Þetta skilja flokksforingjarnir, að minnsta kosti flestir. Þeir hafa einnig áttað sig á að nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni mun setja þjóðina í miklu verri stöðu en við erum í nú. Allir vilja þeir komast hjá atkvæðagreiðslunni. Fyrir því eru ýmsar ástæður en fyrst og fremst tvær: óttast er að of margir muni greiða atkvæði gegn lögunum í þeirri trúi að þeir séu að hafna því að borga nokkuð, og á hinn bóginn myndi þjóðaratkvæðagreiðslan hugsanlega festa í sessi nýtt og áður óþekkt vald forsetans til að hlutast til um pólitíkina.
Það er þessi samstaða hér innanlands sem Bretar og Hollendingar hafa heimtað. Að henni fenginni verða þeir til í að setjast aftur niður og lappa upp á fyrirliggjandi samning. Af Íslands hálfu verður boðið upp á að borga meiripartinn af skuldinni hérumbil strax; þrotabú Landsbankans hefur þegar skilað um 200 milljörðum í kassann og aðrir 130 milljarðar koma til viðbótar á þessu ári. Restin verði svo borguð hraðar en til stóð. Á móti munu viðsemjendur ytra gera einhverjar tilhliðranir á vaxtakjörum.
Svo standa allir upp, klappa sér á bakið, og segjast hafa sigrað: Stjórnin, stjórnarandstaðan, Bretar, Hollendingar og bankastjórar gamla Landsbankans sem alla tíð hafa haldið því fram að þrotabúið ætti fyrir skuldum. Og jafnvel forsetinn mun þakka sér farsæla lausn þessa skítamáls.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þetta er ekki heilbrigt
3.2.2010 | 11:21
Stundum er opinber umræða hér svo geggjuð að ég veit ekki hvað skal halda. Þar hafa hæst þeir sem telja tilteknar skoðanir hinar einu réttu, aðrar skoðanir eigi engan rétt og sé haldið fram af óþjóðhollu fólki og fíflum. Joseph McCarthy notaði svipaðar aðferðir á sínum tíma og einnig sovétið.
Margt af því skynsamlegasta sem hefur verið sagt hérlendis frá hruninu hefur komið frá akademíunni. Sem betur fer er til fólk hér sem getur hugsað skýrt og er ekki bundið á hagsmunaklafana sem öllu tröllríða. Framarlega í skýrleikshópnum hafa verið hagfræðingarnir Þórólfur Matthíasson og Friðrik Már Baldursson sem hafa lag á að setja flókin mál fram á þann hátt að jafnvel fólk eins og ég skilur hvað um er rætt.
En nú hafa afturhalds- og afdalaöflin, með sjálft Morgunblaðið í fararbroddi (sem hatast orðið við allt og alla), komist að þeirri niðurstöðu að þessir menn séu óþjóðholl fífl og bjánar því þeir hafa leyft sér að benda á hættuna sem er fólgin í því að gefa umheiminum langt nef.
Þetta er ekki heilbrigt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tær snilld!
30.1.2010 | 13:05
Við gerðum okkur dagamun í gærkvöld og sáum Faust í Borgarleikhúsinu. Mikið svakalega er það flott sýning!
Svei mér þá, ef ég hef séð mikið flottari eða skemmtilegri leiksýningu í langan tíma. Þar hékk andskotinn sjálfur utan í sviðsmyndinni, árar flugu um loftin og hvert smáatriði virtist útpælt. Og að langmestu leyti voru þetta ungir leikarar sem ég er ekki nærri nógu kúl til að þekkja.
Ef þið sjáið bara eina sýningu á þessu ári, þá ætti það að vera Faust!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gott hjá Ásbirni
28.1.2010 | 17:59
Ásbjörn Óttarsson þingmaður hefur sýnt mikinn myndarskap og sagt sig úr þingnefndinni sem á að fjalla um rannsóknarskýrsluna miklu. Ástæðan er, segir í yfirlýsingu sem Ásbjörn sendi frá sér í dag, að "að ekkert má verða til að draga athyglina frá þeirri mikilvægu vinnu sem nefndinni er ætlað að inna af hendi."
Yfirlýsingin er svona í heild:
"Undir lok síðasta árs tók ég sæti í níu manna þingmannanefnd sem fjalla á um skýrslu nefndar sem vinnur nú að rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.
Tilgangur nefndarinnar er að vinna úr þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þannig að læra megi af þeim mistökum sem gerð voru í aðdraganda falls bankanna. Það er von mín að þar verði stigið mikilvægt skref til uppbyggingar og endurreisnar trausts í íslensku viðskiptalífi, sem og samfélaginu öllu.
Að undanförnu hafa mál er mér tengjast verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Ég hef gert skilmerkilega grein fyrir því hvernig þeim málum var háttað og gert allt sem í mínu valdi stendur til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru. Ég hef nú ákveðið að segja mig frá störfum í nefndinni, til að tryggja að friður ríki um störf hennar. Þau mál sem hún mun hafa til umfjöllunar eru þess eðlis að ekkert má verða til að draga athyglina frá þeirri mikilvægu vinnu sem nefndinni er ætlað að inna af hendi, þar með talin persónuleg mál einstakra nefndarmanna."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Munurinn á réttu og röngu
27.1.2010 | 12:42
Það er merkilegt hve sumum gengur illa að skilja muninn á réttu og röngu, því sem er viðeigandi og því sem er óviðeigandi.
Auðvitað gengur ekki að Ásbjörn Óttarsson þingmaður taki sæti í nefndinni sem á að fjalla um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ég hélt að það væri augljóst: þar geta aðeins setið þeir sem eru hafnir yfir allan grun um vafasama dómgreind.
Skítt með lagatæknilegar útskýringar og spuna; skýringar þingmannsins á sjálftöku arðsins úr fyrirtæki á hausnum eru í besta falli bjánalegar.
Óvenju góður kostur fyrir Reykvíkinga
22.1.2010 | 17:47
Um þessar mundir eru 25 ár síðan ég flutti frá Reykjavík. En mér er alltaf hlýtt til fæðingarborgar minnar og vill hag hennar sem mestan og bestan.
Nú standa Reykvíkingar frammi fyrir óvenju góðum kosti: þeir geta losað sig við alla borgarstjórnarfulltrúana á einu bretti í kosningunum í vor - liðið sem hefur verið sér til skammar og borginni til vandræða nánast allt kjörtímabilið sem nú er að ljúka. Þetta fólk er allt bert að því að hafa sýnt fádæma dómgreindarleysi og vitleysisgang í tengslum við það ólukkans REI-samsærismál.
Það er ekki að sjá að hægt sé að undanskilja nokkurn flokkanna, þótt einstaka borgarfulltrúar sýnist vera ágætasta fólk - og hafi raunar á síðustu stundu komið í veg fyrir að pappírsdólgar gætu sölsað sjálfa Orkuveituna undir sig.
En það breytir ekki því að núverandi borgarfulltrúar eiga ekki skilið að hljóta endurkjör.
Hér í Kópavogi er svo svipað upp á teningnum og ekki er það fallegra. Kannski meira um það síðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ballið ekki byrjað
18.1.2010 | 23:20
Ég hef verið að velta fyrir mér hvers vegna Bretar og Hollendingar ættu að setjast aftur að samningaborði um IceSave með íslenskum yfirvöldum.
Þeir hafa enga sérstaka ástæðu til þess. Það eru varla rök í þeirra augum að við eigum skilið betri díl af því að við séum í rauninni voða gúddí.
Ég held að hugmyndir manna um þetta hljóti að byggjast á óskhyggju fremur en raunsæu mati. Og það skiptir að sjálfsögðu ekki nokkru máli þótt einhverjir dálkahöfundar skrifi greinar í erlend blöð - greinar sem sýnast að mestu byggðar á misskilningi. Almenningi í Bretlandi og Hollandi er skítsama um þetta mál - þeir sem áttu hagsmuna að gæta hafa fengið peningana sína.
En sjálfsagt verða lögin samt felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni og við verðum komin aftur fyrir núllpunkt. Þá fyrst byrjar ballið!
Elsku mamma
2.1.2010 | 20:34
Konan mín elskuleg bauð mér að sjá Mömmu Gógó í bíó í kvöld. Það er falleg mynd og vel gerð. Svona myndir geta aðeins þeir gert sem elska mömmu sína mikið.
En dóttir mín lék best af öllum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jólastressið langt fjarri
21.12.2009 | 18:34
ADDIS ABABA: Alltaf upplifir maður eitthvað nýtt. Í dag hjálpaði ég leigubílstjóra sem ég hafði náð í að ýta bílnum í gang svo við kæmumst af stað. Leigubílar hér eru undantekningalaust Lödur, gamlar og lúnar. Þessi var þó sennilega sú lúnasta af öllum. En við komumst á leiðarenda og allan tímann var bílstjórinn hinn kátasti og hafði á hraðbergi greinargóðar lýsingar á því sem fyrir augun bar.
Það er einmitt þetta - þetta góða skap og hamingja yfir litlu - sem mér finnst svo hrífandi við Afríku. Það er ekki verið að ergja sig yfir litlu eða því sem ekki er hægt að breyta. Nei, það er meira gaman að brosa og gera að gamni sínu og fá sér bolla af rótsterku eþíópísku kaffi sem er hitað yfir kolum á götuhornum - og helst með því að brenna baunirnar og mala á staðnum.
Og ekki hefur maður orðið var við jólastressið hér - enda jól í Eþíópíu ekki haldin fyrr en 7. janúar (og hér er árið 2002 í sjö mánuði enn). Einstaka hótel, sem sótt er af útlendingum, er með auglýsingar uppi um jóladinner en að öðru leyti er verslunaræðið langt fjarri.
En nú er þetta orðið gott í bili. Best að koma sér heim. Konan mín er búin að lofa mér hörðum pakka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)