Færsluflokkur: Dægurmál

Áfram við kjötkatlana

Niðurstaðan úr krísunni í bæjarpólitíkinni í Kópavogi getur ekki verið annað en vonbrigði. Bæjarstjórinn er að fara frá vegna spillingarmála sem hafa viðgengist í skjóli Framsóknarflokksins.

Og niðurstaðan er fengin til að tryggja 'einkahagsmuni einstakra manna,' eins og Hjalti Björnsson Framsóknarmaður orðaði það í viðtölum við RÚV í dag. Hann hlýtur að eiga við Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúa síns flokks. 

Bæjarstjórnin er búin að vera. Trausti rúin, ónýt. Hangir saman á persónulegum hagsmunum þeirra sem eru í pólitík til að komast að kjötkötlunum.


Bæjarstjórnin búin að vera

Sé það rétt sem Flosi Eiríksson og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúar í Kópavogi og stjórnarmenn í lífeyrissjóði starfsmanna bæjarins, segja um samskipti sjóðsins og Fjármálaeftirlitsins, þá hefur Gunnar Birgisson gert það eina rétta: farið frá. Undir sömu formerkjum var ofsagt af mér fyrir helgina að þeir væru 'pakk'. Á því biðst ég velvirðingar. Sömuleiðis játa ég á mig vanþekkingu á samþykktum bæjarins (og margra annarra bæjarfélaga) sem gerir þá kröfu að í stjórn lífeyrissjóðsins skuli vera kjörnir fulltrúar. Það er náttúrlega galið út af fyrir sig!

En bæjarstjórnin er búin að vera - að minnsta kosti sá meirihluti sem setið hefur í bænum í hartnær tvo áratugi. Gunnar Birgisson getur ekki stokkið fram á sviðið núna og sagst vera farinn í frí sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi þar til þetta lífeyrissjóðsmál hefur verið til lykta leitt. Var hann ekki áður búinn að segjast fara sem bæjarstjóri? Áður en þetta mál kom upp? Er sá díll þá úr sögunni og hugsar Gunnar sér að snúa aftur í bæjarstjórastólinn þegar rannsókn á stjórnarháttum lífeyrissjóðsins er lokið?

Ég sá einhvers staðar haft eftir forustumanni Sjálfstæðisflokksins í bænum mínum að þeir væru að leita að manni utan bæjarstjórnar til að taka við af Gunnari. Það er of seint - þótt það hefði verið eðlilegt, því nöfn sumra þeirra sem helst hafa verið nefndir sem líklegir eftirmenn bæjarstjórans eru líklegir til að verða nefnd þegar skoðaðar eru 'vinveittar' lánveitingar banka til áhrifamanna.


Burt með þetta pakk!

Ekki batnar ástandið í Kópavogi - nú gæti farið svo að nærri hálf bæjarstjórnin lendi í tukthúsi fyrir að fara óvarlega með lífeyrissjóð starfsmanna! Það hlýtur að þurfa eitthvað meira en óljósar grunsemdir til að ráðherra setji stjórnina af og málið sent lögreglunni til rannsóknar.

Hvað er eiginlega með þetta fólk?!

Og hvernig stendur eiginlega á því að fjórir af fimm stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar koma úr bæjarstjórninni? Sá fimmti er bókari á skrifstofu bæjarstjórnarinnar! 

Er það nema furða þótt stjórnarsetar hafi talið sig geta farið með sjóðinn eins og þeim sýndist!

Burt með þetta pakk allt saman!


Siðferði og vitjunartími

Kröfur um betra siðgæði í opinberri stjórnsýslu eru smám saman að bera árangur. Framsóknarmenn í Kópavogi eiga skilið klapp á öxlina fyrir að hafa ekki látið að vilja eiginhagsmunaseggjanna í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í bænum og staðið fastir á þeirri kröfu að Gunnar Birgisson víki úr bæjarstjórastólnum.

Eiginhagsmunaseggirnir vilja ekki skilja að krafan um brotthvarf Gunnars er fyrst og fremst sprottin af siðferðilegum rótum. Hann er ekki lengur hafinn yfir grun eins og bæjarstjórar eiga að vera. Engu máli skiptir þótt hann hafi fengið lögfræðiálit um að lög hafi ekki verið brotin. 

Gott hjá Framsókn - og gott hjá Gunnari að þekkja sinn vitjunartíma, þótt seint sé.

En siðvæðingin á enn langt í land. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt Halldór Ásgrímsson segi nú að einkavæðing bankanna hafi ekki verið mistök - einhvern veginn verður hann að verja sig og afglöp sín. 

Og kannski er rétt hjá Halldóri að einkavæðingin hafi út af fyrir sig ekki verið mistök. Afglöpin fólust fyrst og fremst í hvernig að einkavæðingunni var staðið: helmingaskiptaflokkarnir Framsókn og Íhald skiptu bönkunum á milli sín, eins og þeir hafa skipt flestu öðru á milli sín mestallan lýðveldistímann. Kannski ekki undarlegt þótt núverandi stjórnendur þessara flokka láti eins og þeir láta - það er búið að hrekja þá frá kjötkötlunum.


Minna væl

Getur verið að við vælum of mikið? Að kreppan sé ekki eins slæm og af er látið? Mig er farið að gruna þetta ansi sterklega. Nokkur dæmi:

  • Nýjar athuganir Seðlabankans sýna að það eru tiltölulega fá heimili í landinu sem eru í alvarlegum vanda og að þau sem eru í mestu klandri sitji uppi með dýr neyslulán.
  • Miklu færri fyrirtæki en spáð var í byrjun árs eru raunverulega farin á hausinn.
  • Mikill meirihluti námsmanna hefur fengið vinnu í sumar.
  • Einstakar stéttir iðnaðarmanna vantar fólk í vinnu - nú síðast var sagt frá því að skortur væri á málurum. Sjálfur hef ég lent í erfiðleikum með að fá iðnaðarmenn í smáverk sem ég ræð ekki við sjálfur.
  • Kaupmenn eru ekki mikið að kvarta - og ekki er að sjá í verslunum að skortur sé á nauðsynjum.

Ég efast ekki um að við verðum lengi að bíta úr nálinni með bankahrunið og leyfi mér að efast um að mikið endurheimtist af því fé sem talið er að skotið hafi verið undan. Ég er, eins og flestir, hundfúll yfir IceSave reikningnum en er jafn sannfærður um að við komumst ekki hjá því að borga (annars gæti verið fróðlegt að senda formann Framsóknar - þennan sem virðist hafa dottið á höfuðið - til London og láta hann koma heim með betri samning).

Kannski væri ráð að væla minna og leggjast frekar á árarnar með þeim sem hafa eitthvað raunhæft til málanna að leggja. Eða hvað?

 


Netanyahu er bulla

Það er létt í vasa fyrir Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels að segjast geta fallist á sjálfstætt ríki Palestínumanna svo framarlega sem það verði vopnlaust ríki um alla framtíð og að Palestínumenn hafni Hamas-samtökunum í eitt skipti fyrir öll.

Vitaskuld er þetta ekki marktækt útspil enda bull sett fram í blekkingarskyni.

Ekki myndi ég vilja stofna sjálfstætt ríki við hlið herveldisins Ísraels og heita því að vera vopnlaus alla tíð. Reynslan sýnir að það er ekki vænlegt.

Og að hafna Hamas, samtökum sem sigruðu lýðræðislegar kosningar á  með yfirburðum, er álíka fráleit hugmynd - sama hvað haukunum í Ísrael eða á Íslandi kann að finnast.

Netanyahu er manna ólíklegastur til að koma á friði á hernumdu svæðunum. Hann ætti að fjúka miklu fyrr en Hamas.

 


Eva á nippinu

Það er ábyggilega satt og rétt hjá Evu Joly að embætti hins sérstaka saksóknara er of veikt, hefur ekki nægilega marga starfsmenn. Og ábyggilega mættu vera fleiri hjá embættinu sem hafa mikla reynslu af erfiðum málum.

Ef mig misminnir ekki sótti í fyrstu enginn um embættið og Ólafur Hauksson var sóttur í annað embætti til að gegna þessu. Það er því augljóslega ekki offramboð í landinu af reynslumiklum saksóknurum.

Og það er ábyggilega rétt hjá bæði Evu Joly og Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara að fjölskyldutengsl hans gera hann vanhæfan í öllu sem hrunið varðar og að það hefur dregist úr hömlu að leysa þann hnút sem Ragna dómsmála gerði í kvöld - en dró svo til baka vegna ummæla Evu í sjónvarpi. Það bendir eindregið til að Ragna ætli að ganga eins langt og hún getur til að koma á móts við norska ráðgjafann.

En það hlýtur samt að vera alveg á mörkunum að lausráðinn ráðgjafi, hversu góður sem hann er, geti heimtað brottrekstur æðstu embættismanna ríkisins - og geri það fyrst í sjónvarpsviðtali en ekki við viðkomandi ráðherra. Einhverjar almennar umgengnis- eða siðareglur hljóta að gilda um svona hluti. 


Kjánagangur Jónasar

Þetta er nú meiri dellan með að Sigríður Benediktsdóttir eigi að víkja úr rannsóknarnefnd Alþingis. Og ennþá hlægilegra er að krafan skuli koma frá Jónasi Fr. Jónssyni, fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sem var langt um síðir látinn fjúka fyrir sinnuleysi og druslugang í starfi.

Það er sosum skiljanlegt að Jónas sé fúll yfir málalokunum og að hann sé spyrtur saman við þá sem komu þjóðinni á aumingjahæli fallinna hagkerfa. En að kvarta í fullri alvöru yfir því að almæltur sannleiki sé reifaður í skólablaði vestur í Ameríku er meira en kjánalegt.

Jónas hefði betur reynt að koma í veg fyrir að fjárglæfrarnir allir fengju að eiga sér stað þegar það var hlutverk hans.


Gunnar skilur ekki eða vill ekki skilja

Það kom fátt á óvart í viðtölum við bæjarstjórann í Kópavogi í kvöld. Hann hefur ekkert rangt gert og vísar á hina og þessa um einstök atvik þess skítamáls sem nú er uppi í bænum: fyrirtæki dóttur hans og tengdasonar hefur fengið talsverðar greiðslur fyrir að vinna (og vinna ekki) verkefni sem ekki var úthlutað eftir reglum.

Kostulegast af öllu var að heyra hann segja að afmælisbæklingurinn umtalaði og hálfkláraði væri tilbúinn, það ætti bara eftir að skrifa í hann textann! 

Það verður ekki tekið af Gunnari Birgissyni að hann er dugnaðarforkur. En hann ætti samt að fá sér aðra vinnu. Annaðhvort skilur hann ekki ábyrgð sína, sem væri næg ástæða til að vera eitthvað annað en bæjarstjóri, eða þá að hann vill ekki skilja hana. Sem er jafnvel verra. 

Með því að neita að bera ábyrgð sjálfur er hann í raun að segja að starfsmenn bæjarins séu slíkar gungur að þeir hafi ekki þorað annað en að láta 'dótturfélagið' komast upp með vond og dýr vinnubrögð og haldið áfram að borga alla reikninga sem bárust. 

Varla vilja embættismenn bæjarins sitja undir því - enda ekki ástæða til. Eða hvað?


Kurteisleg hústaka

Ég fylgdist með ‘hústökunni’ við Fríkirkjuveg 11 í kvöld. Mér fannst allir standa sig nokkuð vel: hústökufólkið sem var almennt kurteist og prútt, löggan sem var enn prúðari, og bæjarbúar sem norpuðu í súldinni og höfðu yfirleitt ekki sérstaka samúð með skráðum eiganda hússins.

Klukkan eina mínútu yfir níu, þegar búið var að opna lítinn kjallaraglugga með greiðslukorti (!), voru nokkrar umræður í hópi hústökufólksins um hver ætti að fara inn - hver væri nógu grannur og hver myndi ekki meiða sig á gluggajárnspinna sem stóð upp úr karminum. Stúlka fór og sótti grjóthnullung til að berja pinnann niður – en samherjar hennar sögðu umsvifalaust: Nei, nei, þá værum við að skemma! Það vildi hún ekki og grjótið hvarf.

Ungur maður renndi sér svo inn um gluggann eins og ormur og opnaði síðan dyrnar í kjallaranum þar sem haldnir voru dansleikir í mín ungdæmi. (Gott ef unglingahljómsveitin Fjarkar var ekki einskonar húsband þar.)

Þarna voru á að giska 25-30 hústökumenn og konur og svo hópur af vegfarendum sem fylgdust með.

Skyndilega bar að ungan mann með svarta dulu fyrir andlitinu. Hann lagði undir sig gjallarhornið og útskýrði að ef fólk ætlaði að taka hús, þá dygðu engin búsáhöld – það tækist ekki nema með ofbeldi.

Ekki var því áberandi vel tekið, sýndist mér.

Engin læti voru og engin átök – ef frá er talin mikil óeirð í spólgröðum Dalmatíuhundi sem vildi ólmur komast í litla og fallega tík listmannahjóna sem búa þarna í nágrenninu. Brýnt var fyrir tíkinni að forðast svona dóna alla sína daga.

Svo fóru allir heim – og sennilega allir sammála um að Fríkirkjuvegur 11 sé fallegt hús og að aldrei verði friður um að það verði í eigu útrásarvíkingsins Björgólfs Thors Björgólfssonar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband