Færsluflokkur: Dægurmál

Þjóðin er gullfiskur

Það er eins og hálf þjóðin sé gullfiskur. Minnið er ekkert.

Á liðnu hausti var orðið ljóst að við yrðum að borga okkur út úr þessu ólukkans IceSave máli. Sem óreiðumenn komu okkur í með stuðningi og leyfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokka (minnir að þetta hafi allt verið um garð gengið þegar Samfylkingin kom að borðinu) og var náttúrlega afleit staða. Helvítis fokking fokk, eins og sagt var.

Ef ég man rétt samþykkti þingið fyrir áramótin að við yrðum að taka þetta á okkur og að reynt yrði að leita samkomulags við Breta og Hollendinga. Þá var miðað við drög niðurstöðu sem lá fyrir og var snöggtum verri en sú sem nú er fengin.

Strax í haust var orðið ljóst að án lausnar á þessu skítamáli fengjum við hvergi hjálp - ekki hjá Rússum, Bretum, Ameríkönum, Norðurlandaþjóðunum eða Kínverjum. Klárið þetta mál fyrst, svo skulum við kannski tala við ykkur, var viðkvæðið. Klárið þetta eða etið það sem úti frýs!

Af hverju lætur fólk þá núna eins og að niðurstaðan komi á óvart? Hvaða skrípalæti eru þetta?


Rangt hjá RÚV

Fréttastofa RÚV fær skömm í hattinn fyrir fréttirnar af 'heimkvaðningu' kínverska sendiherrans. RÚV fullyrti nokkrum sinnum að sendiherrann hefði verið 'kallaður heim' og gaf sér að það væri vegna heimsóknar Dalai Lama. Þetta var 'samkvæmt heimildum fréttastofu', eins og það var kallað.

Þetta hefur reynst rangt - og nú virðist komið á daginn að í stjórnkerfinu hafi legið fyrir upplýsingar, frá því viku fyrr, að Kínverjar hyggðust skipta út sendiherra sínum. Eða svo sagði Birgitta Jónsdóttir þingmaður í útvarpinu í morgun og hún er bæði í utanríkismálanefnd Alþingis og formaður félags Tíbetvina.

Þetta var svo etið upp af öðrum - nema Vísi.is, sem hafði fyrir því að hringja í sendiherrann og spyrja hann beint. 

Ég hef hins vegar ekki orðið var við að RÚV hafi borið þessa röngu frétt til baka. Til að standa undir sínu 70% trausti þarf fréttastofan að skúra málið út. Og kannski að biðjast velvirðingar.

 


Ættir í þjónustu ríkisins

Þó að breski prófessorinn Robert Wade hafi stundum sagt meira en hann hefur haft vit á, þá er það alveg rétt hjá honum að íslenska stjórn- og embættismannakerfið hefur lengi verið gegnsýrt af ættar- og vinatengslum. Vafalaust á það einhvern þátt í hvernig fyrir okkur er komið - fáum, fátækum og smáum, eins og sagt var.

Sumar íslenskar ættir hafa unnið hjá ríkinu kynslóð fram af kynslóð og komið sér þar ágætlega fyrir. Sumir áhrifamiklir stjórnmálamenn síðustu ára hafa hvergi annars staðar unnið en hjá ríkinu. Þeir hafa því vísast aldrei kynnst kjörum og hugsunarhætti þess hluta þjóðarinnar sem lifir sínu lífi utan kerfisins og ættar- og vináttusamfélagsins sem hér hefur öllu ráðið. Auðvitað hefur eitthvað af þessu fólki kosið að fara þessa leið af því að það hefur viljað þjóna almenningi, en sennilega ekki allt.  

En kannski verður aldri alveg hjá þessu komist: við erum jú ekki nema um 300 þúsund og erum meira og minna öll skyld. Þeim mun frekar er ástæða til að fara varlega í öllum mannaráðningum í opinbera kerfinu og stundum er rétt að menn gjaldi þess hverja þeir þekkja, eru í mægðum við, voru með í skóla eða bíssniss. Úff, ekki síst í bíssniss!


Vísir fær skömm í hattinn

Vísir.is fær skömm í hattinn fyrir að segja frá 10 mánaða fangelsisdómi yfir Lalla Johns. Margir aðrir menn hafa fengið tíu mánaða dóma án þess að fá nafn sitt og mynd af sér í blöðin - en í þessu tilviki er auðvelt að sparka í liggjandi mann.

Ég minnist þess að á Mogganum í gamla daga var viðhöfð sú almenna regla að nöfn dæmdra manna væru því aðeins birt að dómurinn næði 18 mánuðum. Þessa reglu flutti ég með mér á Stöð 2 þegar hún fór í loftið - og þar, eins og á Mogganum, reyndist hún ágætlega. 

Mér hefur sýnst að Mogginn geri orðið einhverjar undantekningar frá þessari reglu - önnur blöð virðast nota hina kunnu "hipsumhapp" reglu. Þannig er hægt að níðast á Lalla Johns með góðri samvisku.

 


‘Allah’ aðeins fyrir múslima í Malasíu

Malasía stendur að sumu leyti framar flestum öðrum Asíulöndum, einkum efnahagslega. Og svo náttúrlega fyrir matinn – þar er dýrlegasta matarval allra landa: kínverskur, malajiskur og indverskur matur, fyrir utan allt hitt.

En að mörgu öðru leyti er Malasía óttalegt afturhaldsrassgat. Þar hafa lengi verið í gildi lög sem setja Malaja ofar hinum tveimur stóru þjóðarbrotunum í landinu, Kínverjum og Indverjum. Malajar hafa haft margvísleg forréttindi, pólitísk, efnahagsleg og menningarleg, því markmið laganna var að tryggja að “synir jarðarinnar” (bumi putra) yrðu ekki undir í samkeppninni við hina sem hafa orð á sér fyrir að vera vinnusamari. Nýr forsætisráðherra landsins, Najib Razak, hefur nú látið út það boð ganga að þessi lög verði brátt numin úr gildi.

Nýjasti sigur afturhaldsins í Malasíu er að nú hafa Múslimar fengið einkarétt á að kalla Guð ‘Allah’. Forsagan er sú að kaþólikkar í landinu fóru á síðasta ári að nota ‘Allah’ um Guð enda á það hugtak sé miklu lengri sögu en Islam. Múslimarnir fóru í mál og hafa nú unnið það – einkum á þeirri forsendu að það geti ruglað fólk í ríminu ef kristnir menn kalla líka sinn guð ‘Allah’.

Upplýstir múslimar vita náttúrlega að það sem Islam, Gyðingdómur og kristni eiga sameiginlegt er að trúa á einn guð og að hann sé sá sami fyrir alla. En þótt þetta skipti máli í huga forpokaðra embættismanna í Malasíu, þá vitum við hin að Guð, Jahve og Allah eru eitt og hið sama.


Vitur maður talar

Það er erfitt að álasa stjórnvöldum fyrir að hitta Dalai Lama ekki á meðan hann er hér – en þó væri óskandi að foringjar lands og þjóðar (og raunar þjóðin öll) hafi hlustað á tíbetska trúarleiðtogann í glimrandi fínum sjónvarpsþætti Þóru Arnórsdóttur og Gauks Úlfarssonar í kvöld og beri gæfu til að tileinka sér eitthvað af þeirri göfgi sem einföld lífsspeki leiðtogans felur í sér.

Það er ekki á hverjum degi sem maður færi tækifæri til að hlusta á raunverulegan djúpvitring en það fengu sjónvarpsáhorfendur í kvöld (og reyndar einnig fyrir nokkrum dögum í öðrum ágætum þætti á RÚV).

Magnaðast við visku Dalai Lama er tær einfaldleikinn: Mannleg samskipti sem byggjast á kærleika og umhyggju eru betri leið.

Það má svo sem vel vera að einhverjum þyki hans heilagleiki og málflutningur hans grunnur í ljósi þeirra ógnvænlegu flækja sem mörg ‘heimsmál’ eru í – en kannski væru flækjurnar færri ef fleiri mönnum tækist að gera þær jafn einfaldar og Dalai Lama.


70% skekkjumörk

Þrátt fyrir allar vondu fréttirnar og allan barlóminn og sönginn um að ríkisstjórnin sé ekkert að gera og að þingið eigi að skammast sín og vinna kauplaust, þá er ýmislegt gott að frétta í þessu landi. Það vorar vel, neysluæðinu virðist að mestu lokið, svínaflensan er ekki að leggja byggðir í eyði og miklu færri fyrirtæki eru farin á hausinn en spáð var í ársbyrjun.

CreditInfo er fyrirtæki hér í bænum sem sagði frá því í fyrradag að fyrstu fjóra mánuði ársins hefðu 346 fyrirtæki orðið gjaldþrota, eða að meðaltali 86 fyrirtæki á mánuði.

Þetta eru í sjálfu sér góðar fréttir, því það er ekki lengra síðan en í febrúar að þetta sama fyrirtæki spáði því að meðaltalið yrði 291 fyrirtæki á mánuði og að samtals myndu 3.492 fyrirtæki fara á hausinn á þessu ári.

Skekkjumörkin eru ekki nema um 70%. Eru það ekki bara nokkurn veginn normalt?


Nýliði lýsir þingstörfum

Það er full ástæða til að benda á fróðlega lesningu eftir Margréti Tryggvadóttur, þingmann Borgarahreyfingarinnar, á vef þeirra í morgun.

Það er kannski ekkert skrítið að ekki nema um það bil fimmti hver maður í landinu hefur trú á þinginu samkvæmt könnun sem MMR birti í gær - og varla hækkar það í áliti við umræðurnar sem þar eru í gangi í dag.

Frásögn Margrétar er hér: http://www.borgarahreyfingin.is/2009/05/27/margret-tryggvadottir-nyi-vinnusta%C3%B0urinn-minn/

 


Æ, góði þegiðu!

Síðan ég var nánast barn að aldri hef ég verið í félagsmálavafstri og stundum haft það að atvinnu. Ég hef því setið ógnarmarga fundi og stýrt þeim ófáum.

Það er mikilvægt á fundum að halda mönnum við efnið, annars fer fundurinn út um þúfur og gerir ekkert gagn. Þeir sem gera ekki annað en að nöldra og þvaðra, þeir eyðileggja markmið fundarins sem oftar en ekki er að komast að einhverri niðurstöðu. Þá er oft betra að slíta fundinum eins fljótt og hægt er og boða til nýs fundar með nýju fólki sem er til í að taka þátt í þokkalega vitrænum umræðum - en láta nöldurseggina og bullarana sitja heima.

Þetta rifjaðist aftur upp fyrir mér í gær þegar ég fylgdist með umræðum á Alþingi eftir að forsætisráðherra hafði flutt skýrslu sína um horfur í efnahagsmálum. Það var heldur raunalegt allt saman. Hvaða gagn er í því að koma upp í ræðustól, segjast ekki nenna að hlusta á hitt eða þetta, eða halda áfram að þrasa og þylja þekktar staðreyndir? 

Menn sem hafa ekkert uppbyggilegra að leggja til málanna eiga að  halda sér saman.


Níu Framsóknarmenn og barnfóstra

Það verður greinilega engu logið upp á þingflokk Framsóknar sem nú neitar að fara að almennum mannasiðum og rýma herbergi sem er stórt fyrir flokkinn svo annar fjölmennari flokkur geti haldið sína fundi.

Væri nú ekki rétt fyrir stjórn Alþingis að viðurkenna að þótt Framsóknarmenn á þingi séu aðeins níu, þá þurfi þeir herbergi fyrir tíu. Einhvers staðar þarf barnfóstran að sitja.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband