Færsluflokkur: Dægurmál

Hassið er vont, trúið ekki öðru

Ég hef verið svo lánsamur undanfarnar vikur að fá að taka þátt í skipulagningu og undirbúningi Álfasölu SÁÁ sem fór í gang í dag. Ég hef náttúrlega lært ýmislegt á þessum vikum og rifjað annað upp um fíknir og fíknisjúkdóma.

Það sem kom mér mest á óvart, þegar ég fór að fylgjast með þeirri umræðu eftir all langt hlé, er hvað kannabisneysla er mikil hérlendis og þá ekki síður á á hvaða skítaplani umræðan er.

Á mínum sokkabandsárum var talsvert um hassneyslu og sömuleiðis um fullyrðingar í þá veru að hass væri miklu betra en brennivín, það væri ‘hrein náttúruafurð’ og að það væri allt í lagi að reykja hass.

Um síðir áttaði mín kynslóð sig á því – margir nokkuð laskaðir af neyslunni – að hass og önnur kannabisefni væru vond efni og að það væri best að láta þau sigla sinn sjó.

Ég hafði satt að segja staðið í þeirri meiningu að þessi bitra reynsla minnar kynslóðar hefði skilað sér eitthvað áfram. Það virðist þó hreint ekki vera – talsmenn kannabis eru orðnir miklu ákafari og að sama skapi orðljótari um varnaðarorðin og þá vísindalegu þekkingu sem hefur orðið til um þessi mál á síðustu tveimur áratugum eða svo. En orðfærið er kannski tímanna tákn.

Ég rakst í kvöld inn á athugasemdakerfi Eyjunnar, þess ágæta vefs, þar sem (mestmegnis nafnlaust) fólk var að tjá sig um frétt um Álfasöluna. Þar voru hassmenn greinilega í miklum meirihluta, bálillir út í allt og alla sem ekki vilja leyfa sölu á kannabis í matvöruverslunum og ennþá reiðari út í SÁÁ fyrir að segja hreint út að hass sé ekki gott fyrir fólk og að fullyrðingar um annað séu hættuleg ósannindi.

Ég er eiginlega alveg gáttaður á þessari umræðu og um leið heldur dapur yfir orðfærinu sem rakalaust (og nafnlaust) fólk grípur æ oftar til á íslensku bloggi.

Ykkur er óhætt að taka mín orð fyrir því að hass er ekki gott efni. Svei mér, ef það er meira að segja ekki verra en brennivínið.

Og því miður leiðir hassneyslan oft til harðari neyslu. Eða eins og segir í upplýsingaefni sem hefur verið tekið saman vegna Álfasölunnar:

“Af þeim 105 unglingum sem komu til okkar (á Vog) í fyrsta sinni fyrir 10 árum og voru yngri en 20 ára, hafa (10 árum síðar) 39% sprautað vímuefnum í æð og 29% hafa gert það reglulega í einhvern tíma. 14% þessara einstaklinga hafa fengið lifrarbólgu C.”


Kópavogur á betra skilið

Ég var í mörg ár í PR bransanum og vann margháttuð verkefni fyrir félög, fyrirtæki og stofnanir. Þar á meðal bæjarfélög og ríkisvaldið.

Aldrei hefði mér, eða félögum mínum í þeim bransa, liðist að rukka og rukka en skila ekki verkinu, eins og nú virðist mega í mínum heimabæ, Kópavogi. En við vorum heldur ekki synir og dætur bæjarstjórans.

Bæjarstjórinn hér, Gunnar Birgisson, hafði einfaldlega rangt fyrir sér þegar hann sagði í Kastljósinu í kvöld að dóttir sín ætti ekki að gjalda faðernis síns. Bæjarstjóri, sem vill vera vandur að virðingu sinni og bera virðingu fyrir bæjarbúunum sem leggja honum til peninga til að reka bæinn, á einfaldlega að vera hafinn yfir allan grun um spillingu.

Sá grunur er augljóslega fyrir hendi þegar eldhússfyrirtæki dóttur hans fær borgaða reikninga upp á rúmar 50 milljónir á áratug - og þarf ekki að skila verkum á móti. 

Kópavogsbær á betra skilið.

 


Aukaskatt á óþarfann

Mér líst á enga nýja skatta og ekki heldur á hærri skatta. Mér finnst ég borga alveg nóg.

En það breytir ábyggilega ekki því, að skattar munu hækka og nýir koma til. Staðan er einfaldlega þannig. Og það er sjálfsagt alveg sama hvað ríkisvaldið gerir í þessum efnum, öllum mun finnast að það hefði frekar átt að skattleggja eitthvað annað og skattpína hina, bara ekki mig.

En fyrst þetta mun gerast, þá finnst mér að það eigi að skattleggja óþarfann meira en nauðsynjarnar. Það er ábyggilega borðaður allt of mikill sykur á landinu - ekki síst í sælgæti og gosdrykkjum. Strangt til tekið er hvort tveggja óþarfi. 

Brennivín og tóbak má líka skattpína mín vegna. Það er oftar en ekki óþarfi.

Matur handa ungabörnum er hinsvegar ekki óþarfi. Strætó er ekki óþarfi. Bensín er ekki óþarfi. Tíu milljón króna jeppar eru hinsvegar óþarfi og sömuleiðis innfluttar dádýralundir.


'Hann er voða sætur'

Ég verð að eta það ofan í mig að þátttakan í Evróvisjón yrði niðurlægingin ein. Geri það hér með. 'Yohanna' er sjarmerandi og syngur vel og lagið alveg þokkalegt. Miklu betra en flest hin lögin í þessari keppni - sem sýnist raunar fyrst og fremst ganga út á sexappíl og hamagang á sviðinu. Það er alsiða þegar þarf að fela hvað lögin eru vond.

Ég hafði ekki heyrt norska lagið fyrr en úrslitin lágu fyrir og spurði tvær smekkvísar konur sem voru með mér hvort þetta væri gott lag. Þær svöruðu nánast samhljóða: Já, hann er VOÐA sætur.

Svo heyrði ég norska lagið sem er heldur ómerkilegt þótt norski Hvítrússinn sé sjarmerandi. Íslenska lagið er miklu meira lag - slagaði upp í það breska.

 


FME með stæla

Það má vel selja mér að stundum sé nauðsynlegt að trúnaður ríki um ákveðin málefni sem ríkisvaldið sýslar við. Rafmagnsverð til stóriðju gæti vel verið eitt af því - ef samkeppni á að ríkja er hæpið að birta verðskrána í upphafi samningaviðræðna.

En trúnaðurinn hefur á liðnum árum gengið allt of langt og stjórnkerfið verið innstillt á að láta sjálft sig njóta alls vafa. Það eru vondir stjórnarhættir og ef ég skildi ólguna í vetur rétt, þá var þetta leyndarviðhorf eitt af því sem fólk vildi snúa við. 

Og enn eimir eftir af þessu. Hvaða della er það til dæmis í Fjármálaeftirlitinu að segja ekki afdráttarlaust hvert það sendi mál Milestone/Sjóvá/Moderna eða hvað þetta allt heitir?

Hvað stælar eru að segja að málið hafi verið sent til "viðeigandi" stjórnvalds? Annað hvort er það lögreglan eða sérstakur saksóknari. Hvaða ógnarlegi leyndardómur getur komið í veg fyrir að maður fái að vita hvor aðilinn það er?

Forstjóri FME hlýtur að skilja þetta. Hann þarf ekki að vera með stæla við almenning.


Gott hjá Geira

Það verður að reikna Þorgeiri Eyjólfssyni það til góða að segja upp starfi sínu hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Það sýnir að hann þekkir sinn vitjunartíma og ætlar ekki í mikið þras. Það er betra fyrir alla - ekki hefði verið góður endir á annars ágætlega farsælum ferli að fara í stríð við eigendur sjóðsins.

Ég gerði það að tillögu minni á nýlegum aðalfundi Blaðamannafélagsins (lífeyrissjóður BÍ var sameinaður LV fyrir nokkrum árum þegar nýjar reglur um lágmarksstærð sjóða tóku gildi) að félagið beitti sér fyrir því að forstjórinn á kádiljáknum yrði látinn fjúka. Þá kom í ljós að BÍ hefur engin tök í sínum lífeyrissjóði.

Nú hefur Þorgeir tekið af okkur ómakið. Það er gott.


0,02% einróma niðurstaða

Hjúkrunarfræðingar eru að fara úr Bandalagi háskólamanna. Þetta var ákveðið á aðalfundi félags hjúkrunarfræðinga þar sem 55 voru mættir. 53 greiddu atkvæði með tillögu um úrsögn úr BHM - hérumbil einróma niðurstaða.

En það eru að minnsta kosti 2500 manns í félaginu (útvarpið hefur reyndar líka sagt 3500). Þýðir það ekki að um 0.02% félagsmanna hafi greitt atkvæði með úrsögn?

Það má vel vera að hinir 2447 séu líka á því að yfirgefa heildarsamtökin. Maður verður að ætla það.

En það er ekki hægt að segja að það sé mikil þátttaka í félags- og kjarabaráttunni hjá hjúkrunarfræðingum. Þetta er næstum því eins vont og það hefur lengst af verið hjá VR. Er þá langt til jafnað!

Í mínu félagi, Blaðamannafélagi Íslands, var kosinn nýr og vaskur formaður á dögunum með rúmlega 60% greidddra atkvæða sem voru alls 100. Í félaginu eru hins vegar um 500 manns. 


Er þetta ekki bara fínt?

Ég er hvorki innvígður né innmúraður í flokkapólitík og skil því ekki alltaf hvernig slíkt fólk lætur. En það er með mig eins og manninn sem sagði um listina: I know what I like.

Mér líkar til dæmis vel við þá hugmynd að Alþingi taki ákvörðun um að leita eftir aðild að Evrópusambandinu. Ég sé ekkert athugavert við að einstakir þingmenn, hvort sem þeir eru Vinstri-Grænir eða gulir eða bláir, greiði atkvæði með eða á móti. Ég hef nefnilega haldið að það væri hlutverk Alþingis að taka ákvarðanir um stóru málin, að setja rammann sem samfélagið á að virka í.

Og þess vegna skil ég ekki þrasið í Framsókn og Sjálfstæðisflokknum yfir þessu ákvæði nýja stjórnarsáttmálans. Er þetta ekki bara fínt? Er það ekki einmitt lýðræðislegt að þingmenn greiði atkvæði eftir sinni sannfæringu fremur en eftir flokkslínunni?

Það skyldi þó ekki vera að það sé tilhugsunin um opna umræðu og (bevare os allesamen!) raunverulegt lýðræði sem ógnar þessum flokksþrösurum?

Hamingjan góða, hvað verður þá um Flokkinn?!


Hreðjatak

Ég held að það sé alveg rétt hjá Ögmundi Jónassyni að við höfum ekki fulla stjórn á okkar efnahagsmálum - og að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi talsvert með þau að gera.

En það er fullkomlega eðlilegt. Á meðan maður er að drukkna í skuldum, þá hefur maður ekki stjórn á sínum efnahagsmálum; lánadrottnarnir hafa á manni hreðjatak. Það gildir þá einu hvort maður er húsfaðir í Kópavogi, sem skuldar 30 milljónir, eða ríkissjóður sem skuldar þrjú þúsund milljónir.

Fullkomið efnahagslegt sjálfstæði felst í því að ráða sjálfur hvernig maður fer með fjármuni sína. Til þess þarf maður að eiga meira en maður skuldar - og helst gott betur.


Þingmannalaun engin ofrausn

Það er að fréttast að í nýjum stjórnarsáttmála verði ákvæði um að ríkisforstjórar skuli ekki hafa hærri laun en forsætisráðherrann.

Mér þykir þetta skynsamlegt. Forsætisráðherrann á að vera á góðu kaupi og ekki hafa hærra launaða pótintáta úti í bæ á sínum vegum.

Á sama hátt fannst mér það bjánagangur og hræsni þegar laun ráðherra og þingmanna voru lækkuð í vetur - en forstjórarnir héldu flestir öllu sínu. Ég held nefnilega að þingmannalaun séu engin sérstök ofrausn. Þingmennska á að vera vel borgað djobb svo að við fáum í það almennilegt fólk - og það vel borgað að það þurfi ekki að vera að elta sporslur og bitlinga um allan bæ til að hafa í sig og á.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband