Færsluflokkur: Dægurmál

7,5 árs?!

Nei, í öllum bænum, ekki 7,5 árs!

Ekki einu sinni 7,5 ára - heldur sjö og hálfs árs fangelsi. 

Mogginn má skammast sín ofaní tær fyrir svona aulaskap!


mbl.is Fujimori dæmdur fyrir spillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið - hlé vegna bilunar

hle.jpg

Sjálfboðavinna?

Ég renndi yfir bresku IceSave-skýrsluna sem Össur Skarphéðinsson segir ekki hafa verið skrifaða að sinni beiðni.

Ég sé ekki betur en að með þessu plaggi hafi breska lögfræðifirmað verið að auglýsa sjálft sig og leggja til að það yrði fengið til að leggjast í meiri vinnu fyrir íslenska ríkið.

Það er algengt í ráðgjafabransanum að fólk og fyrirtæki reyni að komast inn í safaríka 'díla' með þessum hætti - skrifi einhverskonar skýrslu eða tillögudrög í þeirri von að það skapi þeim meiri vinnu í framhaldinu. Þetta er þá gert í sjálfboðavinnu.

Og ef svo var, þá er skiljanlegt að hvergi sé getið um það í skýrslunni að hvers beiðni hún var sett saman og hvert uppleggið var.

 


Sama skítalyktin

Mikið andskoti hef ég illan bifur á æfingum Geysir Green Energy suðrí Svartsengi án þess að hafa mikið í höndunum um þetta allt saman. Kannski er þetta bara sama skítalyktin og var af tilraun þessa félags til að komast yfir Orkuveituna - hitann og rafmagnið sem Reykvíkingar hafa átt í gegnum tíðina.

Manni sýnist þó að það sé verið að svína á Grindvíkingum og skilur vel að þeir séu svekktir.

Og svo er GGE auralaust fyrirtæki - en bíður eftir peningum frá Bill Gates! 

Kostulegast af öllu var þó að heyra forstjóra fyrirtækisins segja að það væri feiknarlega vel stætt - það vantaði bara peninga og erlenda fjárfesta!

Ég segi það sama fyrir mína parta. Ef ég hefði aðgang að peningum og erlendum fjárfestum, þá gæti ég auðveldlega keypt hálfan heiminn.

 


Illyrmin emja undan DV

Stundum er nauðsynlegt að brjóta lög - þá eru minni hagsmunir látnir víkja fyrir meiri.

DV hefur verið að því þessa dagana með birtingu á upplýsingum úr 'lánabók' Kaupþings. Smám saman skýrist myndin af hugarfari og hegðun þeirra sem fengu að vaða hér uppi á tímum nýfrjálshyggjunnar. Veslings foreldrar þeirra!

Þetta er gott hjá DV, raunar firna gott - og þeim mun betra sem illyrmin emja meira. Meira af slíku.


Jacko og Elvis í felum

Það er ábyggilega rétt að Michael Jackson sé enn á lífi en í felum fyrir aðdáendum sínum. Íransforseti var aðeins of seinn til að drepa hann, missti sennilega af strætó í umferðaröngþveitinu í Teheran.

Ég veit meira að segja hvar Michael Jackson er. Þar eru líka Elvis, Hendrix, Joplin, Brian Jones, Buddy Holly og feiti söngvarinn úr Canned Heat.

Þau eru öll á sama stað og stöku sokkarnir sem týnast í þvottavélum um allan heim. 

Jim Morrison og Lennon eru annars staðar.


Spor í rétta átt

Það ber að þakka það sem vel er gert: Það er lofs vert að ríkisstjórnin hafi ákveðið að birta allan dossíerinn um IceSave-skandalann. Þetta eru vinnubrögð til fyrirmyndar – og vonandi til eftirbreytni um allt stjórnkerfið.

Það fór ekki vel á því á dögunum þegar svo virtist sem ekki ætti að birta sjálfan samninginn – en svo rofaði til. Mér þykir líklegt að í upphafi hafi ráðið rótgróin lenska í stjórnkerfinu til að birta ekki fremur en hitt, en þá hafi Jóhanna og kó áttað sig og snarendis ákveðið að birta allt klabbið. Ég vona a.m.k. að svo hafi verið.

Markverðar breytingar verða yfirleitt ekki gerðar í hendingskasti, það tekur tíma fyrir fólk og stofnanir að kyngja og innleiða ný vinnubrögð.

Jóhanna virðist vera búin að átta sig og er að taka upp nýja siði. Vinnuhópur sem hún hefur skipað til að fara yfir upplýsingalögin eru til marks um það.

Hópurinn ætti að hafa eitt meginmarkmið: að birta skuli allt sem máli skiptir. Að birta ekki ætti að vera fágæt undantekning.

En enginn ætti að láta sér detta í hug að IceSave-pappírar sem verða aðeins afhentir þingmönnum muni ekki finna sér leið til almennings. 


Prump er bara prump

List og klám eiga það sameiginlegt að hvort tveggja er erfitt að skilgreina – en allir þekkja það þegar þeir sjá það. Og stundum verður list að klámi – en ég er ekki eins viss um að klám geti verið listrænt. Þótt það sé reynt að narra mann með því að setja klámið í spariföt uppskrúfaðrar erótíkur.

Það gerist ekki oftar en ég kæri mig um – en mér finnst allt of oft reynt að narra mig á listasviðinu: telja mér trú um að eitthvað sé list sem er í rauninni bara í besta falli fúsk en aðallega bjánagangur. Ég hef talsvert sótt af málverkasýningum undanfarin ár og fæ of oft á tilfinninguna að þarna sé verið að reyna að narra mig með illa gerðum verkum sem verða til undir ruglingslegri hugsun, eða jafnvel engri.

Þórður Grímsson myndlistarmaður er í hópi þeirra sem er búinn að fá nóg af þessu ‘prumpi’ öllu (hans orðalag), ekki síst yfirgengilegum vitleysisgangi á Tvíæringnum í Feneyjum þar sem Ragnar Kjartansson málar sömu myndina af manni með bjór og sígó í sundskýlu (á kostnað ríkisins!) í sex mánuði samfleytt. Þórður hefur skrifað tvær skeleggar greinar um þetta í Moggann og Fréttablaðið.

Ég veit ekkert um Þórð Grímsson en hann á þakkir skildar fyrir að láta ekki eins og listaklámið sé list. Það er bara oflæti, prump og vitleysa.


En hvað með Jóa G?

Rás 2, í félagi við Tónlist.is og Félag hljómplötuframleiðanda, hefur verið að velja 100 bestu plötur Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Niðurstaðan var birt á Sautjándanum.

Sumt á þessum lista þekki ég ekki, annað finnst mér ómögulegt, enn annað er frábært. Eins og gengur.

En ég sakna þess mjög að sjá hvergi snilldarplötur Jóhanns G. Jóhannssonar sem komu út 1974 og 1976, ef ég man rétt, Langspil og Mannlíf, sem enn eru með því besta sem gert hefur verið í íslenskri dægurmúsík. RÚV ætti að rifja þær upp og spila svolítið af þeim af og til. Andrea Jóns og Magnús Einarsson eru líkleg til að þekkja til...

 


Fágæt þrautsegja

Það er ástæða til að hrósa vel og lengi þeim Vilhjálmi Egilssyni og Gylfa Arnbjörnssyni fyrir þrautseigjuna við gerð svokallaðs 'stöðugleikasáttmála' sem nú virðist eiga að formalísera á morgun.

Þeir félagar hafa sýnt fágæta ábyrgð í þessu máli öllu; minnir helst á 'þjóðarsáttarsamningana' fyrir nær tuttugu árum þegar Guðmundur jaki, Einar Oddur, Ásmundur Stefánsson og fleiri slíkir stútuðu óðaverðbólgunni á frægum vínarbrauðsfundum í Hveragerði.

Í vikunni vatt sér að mér maður á götu og skammaði mig fyrir að vera sífellt að mæra ríkisstjórnina.

Það hefur sosum ekki sérstaklega staðið til - en ég segi alveg eins og er: ég vil heldur að henni takist að leysa vandann en að hún renni á rassinn með allt saman. Það væri vondur kostur í stöðunni. Líklega sá versti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband