Færsluflokkur: Dægurmál
En hvað með Evu Joly?
14.9.2009 | 21:28
Gott og vel, það er ábyggilega rétt hjá dómsmálaráðuneytinu að Jón Magnússon lögmaður og fyrrum þingmaður geti ekki koma til greina sem saksóknara vegna þess hvernig hann hefur tjáð sig um mál sem vísast lenda á borði þeirra sem skipaðir verða til að fjalla um hrunið. Það verður að gæta þess að menn séu ekki búnir að blotta sig um of áður en þeir fara í hlutleysisfötin.
En hlýtur þetta þá ekki alveg eins að gilda um aðra sem fara með meginhlutverk í rannsóknum og málarekstri gagnvart þeim sem eru taldir hafa fært okkur á aumingjabekk fallinna hagkerfa? Ættu þeir ekki allir að gæta tungu sinnar og segja ekki of mikið fyrr en allar staðreyndir liggja fyrir?
Ég hefði haldið það.
En hvað er þá að segja um Evu Joly, sérstakan ráðgjafa hins sérstaka saksóknara og ákæruvaldsins alls? Er viðeigandi, á meðan mál eru tiltölulega skammt á veg kominn, að hún fullyrði í fjölmiðlum hér heima og erlendis að stórkostlegir glæpir hafi verið framdir og að menn eigi skilið að fara í 150 ára tukthús? Og fullyrða um lagasetningu sem sjálfur dómsmálaráðherrann þekkir ekki til?
Já, en það vita það allir að þessir andskotar eru ótýndir glæpamenn! sagði kunningi minn þegar ég kastaði upp þessum fleti.
Nú, jæja. Þá tekur því varla að vera að kanna og rannsaka til hægri og vinstri og þykjast vera réttarríki. Taka þessa djöfla bara og henda þeim fyrir björg!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Að þekkja sinn vitjunartíma
12.9.2009 | 22:22
Það var virðingarvert af fulltrúa Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans að ákveða strax að fara úr ráðinu eftir að uppvíst varð um aukadjobbið sem sýnist hafa verið í beinni andstöðu við hlutverk bankans. Löglegt eða siðlaust - látum það liggja á milli hluta: mestu skiptir að nú um stundir má ekkert það koma upp sem dregur úr trúverðugleika Seðlabankans. Magnús Árni þekkti sinn vitjunartíma.
Og fyrst ég er farinn að hugsa um trúverðugleika og pólitík: óskaplega er raunalegt að fylgjast með Borgarahreyfingunni sem er komin í dauðateygjurnar áður en hún er almennilega komin af fósturstiginu. Það hefðu einhverntíma þótt fréttir til næsta bæjar ef þingmenn - t.d. Sjálfstæðisflokksins - hefðu neitað að taka mark á rétt gerðum lagabreytingum og hótað að segja sig úr flokknum ef ekki væri farið að kröfum þeirra!
Þessi uppákoma öll sýnir að félagsþroski og -reynsla er nauðsynleg fólki sem tekur að sér trúnaðarstörf fyrir félagsskap af hvaða tagi sem er. Og að það er til bóta að þekkja sinn vitjunartíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Pólverjana í gám
11.9.2009 | 16:54
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það vantar mosku í Reykjavík
9.9.2009 | 18:06
Það kom mér á óvart að heyra frá því sagt í sjónvarpi í gærkvöld að á Íslandi væru um 1200 múslímar, þar á meðal falleg menntaskólastúlka sem nú eflir trú sína með því að fasta í Ramadan-mánuðinum. Ég hélt að múslímar hér væru miklu færri.
Mér þykja þetta góðar fréttir, ég hef búið með múslímum í nokkrum löndum og hef bara gott af því að segja - enda eiga trúarbrögð okkar sömu rót og sama uppruna. Múslímar á Íslandi munu ábyggilega auðga mannlífið hér, eins og þeir hafa gert annars staðar. Ofstækismenn eru til í öllum trúarhópum - það er til að mynda álitlegur hópur kristinna ofstækismanna á Íslandi.
En það hefur lengi verið skömm að því að íslenski múslimasöfnuðurinn hafi ekki fengið að byggja sér bænahús eða mosku; manni hefur sýnst að yfirvöld hafi verið að humma þetta fram af sér árum saman án þess að hafa fyrir því góð rök.
'Nýja Ísland' hlýtur að gera þá kröfu að íslenskir múslímar, jafnt sem aðrir, fái aðstöðu til að rækta sitt andlega líf með þeim hætti sem þeir kjósa sjálfir.
Sómakarl er allur
7.9.2009 | 17:24
Það er eftirsjá að Helga Hóseassyni. Ég kynntist honum í kringum 1970 þegar hann smíðaði eldhússinnréttingu í íbúð sem ég leigði af frænda hans. Helgi reyndist vera mesti sómakarl, góður viðræðu og vandvirkur smiður. Hann hafði hinsvegar ekki smekk fyrir músík - taldi allt slíkt bara hávaða.
Ég skrifaði síðar miklar greinar um baráttu hans í Dagblaðið sáluga og reyndi að halda við hann vinsamlegu sambandi. Síðast þegar ég hitti hann á Langholtsveginum var hann orðinn gleyminn og mundi ekkert eftir mér - en kvartaði sáran yfir því að frændinn (íbúðareigandinn forðum) nennti ekki að sinna sér.
Helgi var óvenjulega samkvæmur sjálfum sér í sinni baráttu. Krafa hans var ævinlega sú sama: að þess væri getið í þjóðskrá að hann hefði rift skírnarsáttmála sínum; það gerði hann sjálfur við athöfn í Dómkirkjunni forðum. Hann taldi það beinlínis sögufölsun að Hagstofan léti nægja að skrá hann utan trúfélaga. Ég skildi aldrei hvers vegna þetta var ekki hægt - og skil ekki enn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mér finnst...
31.8.2009 | 20:56
...rétt að banna umsvifalaust Íslandsdeild Hells Angels.
...rétt að tryggja að orkulindirnar verði í almannaeigu.
...galið að ímynda sér að forsetinn muni synja staðfestingu á IceSave lögunum.
...í lagi að henda lit í hús bankaræningjanna en því aðeins að hægt sé að þvo hann af með köldu vatni.
...rétt að sleppa Lýbíumanninum úr fangelsi í Skotlandi en rangt hafi það verið gert í verslunarskyni.
...ömurlegt að sjá Mbl.is í kvöld hafa eftir Robert Gibbs talsmanni Hvíta hússins: svo vítt sem ég veit. Þetta hlýtur að vera af danskri vefsíðu. Einskonar kryddsíld.
...Stöð 2 hafa rangtúlkað Evu Joly í inngangi fréttar um helgina; í inngangi sagði að Eva segði fjármálaráðherrann í pólitískum vinsældaleik, fréttin sjálf stóð engan veginn undir þeim inngangi.
...sama gamla fýlan af ráðningu Guðjóns A. Kristjánssonar í sjávarútvegsráðuneytið.
...drepfyndið að fylgjast með unglingagreddu séð & heyrt dálksins á DV.is þar sem hvert tækifæri er notað til að birta myndir uppí boruna á hálfnöktum leikkonum.
...lifandis ósköp gott að IceSave sé frá (altént í bili) svo að Framsóknarmenn á þingi geti að minnsta kosti komist á klósettið.
...ljóst að ég þurfi að selja gítarinn minn; maður fer ekki langt á E-hljómnum einum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Snillingarnir í Fossvogi
17.8.2009 | 16:16
Fyrir rúmum mánuði slasaði ég mig illa á annarri hendinni og hef verið lélegur til verka síðan enda hef ég ekki nema átta fingur vel nothæfa. Það verður sjálfsagt þannig áfram þótt ég sé í stöðugri fingraþjálfun.
En það er ekki aðalmálið heldur hitt hversu frábæra þjónustu ég hef fengið á Landsspítalanum í Fossvogi. Þar var ég kominn í hendur á fumlausum sérfræðingum nokkrum mínútum eftir slysið og hef síðan engu mætt þar nema fagmennsku, hlýju viðmóti og bestu umhyggju á allan átt.
En maður þarf ekki að vera lengi þar innan dyra til að átta sig á að aðstaða þar þyrfti að vera betri, ekki síst fyrir starfsfólkið. Því verður ábyggilega ekki breytt í núverandi efnahagsástandi en það er gott til þess að vita að heilbrigðiskerfið virkar vel og býr yfir raunverulegri auðlegð í sínu starfsfólki. Þar fara ekki hálfu og heilu sumrin í tilgangslítið þvarg um IceSave, eins og á öðrum ónefndum opinberum vinnustað!
Ég held ég hafi verið einn örfárra blaðamanna á Íslandi sem kunnu fingrasetningu upp á punkt og prik. Nú þarf ég að læra nýja aðferð. Á meðan nenni ég ekki að blogga mikið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Leyniskjölin eru hér
1.8.2009 | 19:15
Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur sett lögbann á Ríkisútvarpið og bannað því að birta upplýsingar af Wikileak um lánsfyrirgreiðslu Kaupþings til þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem settu okkur á hausinn. En sýslumaður hefur ekki sett lögbann á mig og því set ég hér inn glærupakkann sem Wikileak kom á framfæri. Almenningur á rétt á að skoða þetta.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stjórnlagaþing? Ert'ekk'a'djóka!
25.7.2009 | 17:21
Það sýnist vera skotheld uppskrift að því að þetta stjórnlagaþing verði áframhald þess getuleysis og flokkahagsmunapots sem hingað til hefur hefur einkennt viðleitni til að endurnýja stjórnarskrána frá 1944/1874.
Einstaklingar munu ekki eiga auðvelt með að bjóða sig fram til þátttöku í smíði nýju stjórnarskrárinnar; þar munu flokkarnir með sínar kosningamaskínur hafa yfirburði. En þetta þarf ekki að koma óvart: Fjórflokkurinn hefur sameinast um þessa tilhögun og enginn þarf að láta sér detta í hug að hann gefi neitt eftir eða hafi mikið lært á fjármála- og samfélagshruninu sem hann ber sök á.
Það væri yfirmáta hryggilegt ef frumvarpið um stjórnlagaþingið, eina af helstu kröfum almennings frá í vetur, yrði samþykkt eins og það er lagt fram. En það er ekki gott að sjá hvaðan hjálpin gæti borist. Um Fjórflokkinn þarf ekki að spyrja og því miður virðist heldur engin leið að treysta á Borgarahreyfinguna á þingi, jafn brotin, kunnáttulaus og móðursjúk og hún virðist vera.
Æ, mín auma þjóð...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ísberg eða ísjaki
22.7.2009 | 01:09
Við vitum að þetta er bara toppurinn á einhverju ísbergi, segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Þetta er í vef-Mogganum í kvöld. Hvort sem Haraldur Briem hefur sjálfur tekið svona til orða eða rangt er eftir honum haft, þá er þetta vont orðalag. Íslenska orðið er ísjaki. Berg er grjót.
Gamall kennari minn í blaðamennsku þreyttist aldrei á að brýna fyrir nemendum sínum að þeirra hlutverk væri að hafa eftir fólki það sem það meinar, ekki endilega það sem það segir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)