Stjórnlagaþing? Ert'ekk'a'djóka!

Frumvarp Jóhönnu forsætis um stjórnlagaþingið veldur miklum vonbrigðum vegna þess að þar er ekki tryggt að þingið verði óháð stjórnmálaflokkunum eins og margir höfðu vonast til. Frumvarpið gerir að vísu ráð fyrir að þar megi ekki eiga sæti ráðherrar og þingmenn – en það kemur ekki í veg fyrir að flokkarnir raði sínu fólki þarna inn (beinlínis gert ráð fyrir þátttöku þeirra í 9. gr. frumvarpsins).

Það sýnist vera skotheld uppskrift að því að þetta stjórnlagaþing verði áframhald þess getuleysis og flokkahagsmunapots sem hingað til hefur hefur einkennt viðleitni til að endurnýja stjórnarskrána frá 1944/1874.

Einstaklingar munu ekki eiga auðvelt með að bjóða sig fram til þátttöku í smíði nýju stjórnarskrárinnar; þar munu flokkarnir með sínar kosningamaskínur hafa yfirburði. En þetta þarf ekki að koma óvart: Fjórflokkurinn hefur sameinast um þessa tilhögun og enginn þarf að láta sér detta í hug að hann gefi neitt eftir eða hafi mikið lært á fjármála- og samfélagshruninu sem hann ber sök á.

Það væri yfirmáta hryggilegt ef frumvarpið um stjórnlagaþingið, eina af helstu kröfum almennings frá í vetur, yrði samþykkt eins og það er lagt fram. En það er ekki gott að sjá hvaðan hjálpin gæti borist. Um Fjórflokkinn þarf ekki að spyrja og því miður virðist heldur engin leið að treysta á Borgarahreyfinguna á þingi, jafn brotin, kunnáttulaus og móðursjúk og hún virðist vera.

Æ, mín auma þjóð...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Ómar, við bjóðum okkur fram til stjórnlagaþings, við báðir. Þangað þarf menn sem nenna ekki að togast um tittlingaskít.

Hlakka til að laga stjórnarskrána með þér -- við vitum um nokkra vaska félaga sem við gætum tekið með okkur.

Sigurður Hreiðar, 25.7.2009 kl. 20:42

2 identicon

Æ, mín auma þjóð...

Mikið er ég sammála þér.Ómar.

VG kveðju

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 22:13

3 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Þú ert bara að plata sjálfan þig Ómar. Auðvitað munu stjórnmálaflokkar með einum eða öðrum hætti hafa sín áhrif á þessu stjórnlagaþingi, sama hvernig frumvarpið lítur út. Það að halda að stjórnmálaflokkur sem að ætlar að standa undir nafni, muni bara sitja á hliðarlínunni og ekki reyna að hafa áhrif er bara hreinn og klár barnaskapur. Stjórnmálaflokkar eru stofnaðir til þess að hafa áhrif, fólk starfar í stjórnmálaflokkum til þess að hafa áhrif og hvers vegna ætti þetta fólk sem að starfar í stjórnmálaflokkum ekki vilja hafa áhrif á sjálfa stjórnarskránna? Hvort sem að stjórnmálaflokkarnir munu bjóða fram sjálfir eða styðja fólk til þess að bjóða sig fram, það skiptir ekki máli.  Stjórnmálaflokkarnir munu hafa áhrif á þessu stjórnlagaþingi.

Jóhann Pétur Pétursson, 26.7.2009 kl. 09:17

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég verð að segja að mér finnst þessi ótti ykkar vera dálítið ýktur og óraunhæfur. Ein spurning sem mig langar að bera upp og hún er þessi.

Eru líkur á því að þeir einstaklingar sem áhuga hafa á að setjast á Stjórnlagaþing, sé fólk án skoðana á stjórnmálum. Það sama fólk þarf ekki endilega að vera ofurselt flokkapólitík, enda þarf stjórnmálaáhugi ekki endilega að þýða flokksklafa.

Það verður auðvitað mjög erfitt og trúlega ómögulegt að koma í veg fyrir að flokksgæðingar bjóði sig fram, en þá er það bara okkar kjósenda að koma í veg fyrir að slíkir aðilar komist að.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.7.2009 kl. 03:35

5 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Það er sennilega rétt hjá Jóhanni Pétri að pólitískur meydómur minn villir mér sýn. En ég er engu að síður svekktur yfir þessu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mér sýnist Fjórflokkurinn hafa sýnt oftar en einu sinni að hann er ófær um verkið - kemst ekki upp úr hjólfarinu þar sem flokkspólitískir hagsmunir ráða ferðinni. Eftirlitsmenn ÖSE sem fylgdust með kosningunum hér í apríl bentu til dæmis á það í dag að misræmi í atkvæðavægi eftir landshlutum væri andstætt algildum reglum og hugmyndum nútímans um jafnræði þegnanna. Þessu hafa fulltrúar Fjórflokksins ekki viljað breyta - þótt þeir neyðist til þess með aðildinni að ESB. En vonandi verður líka kosið á stjórnlagaþingið fólk sem hugsar um hag þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Maður verður alltaf að vona það besta. 

Ómar Valdimarsson, 30.7.2009 kl. 00:35

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta með misvægi atkvæða er gamalt deilumál og hefur verið heitt fyrir okkur á landsbyggðinni í gegnum árin. En í nútímanum og ég tala nú ekki um þegar við verðum komin í ESB með alvöru byggðastefnu, er það auðvitað alveg sjálfsagt að breyta þessu.

Annars var það aðallega Framsók sem græddu á þessu misvægi. Ég held reyndar að þegar upp er staðið, þá höfum við í dreifbýlinu ekki grætt neitt á þessu misvægi nema síður sé. Þar sem Samvinnuhreyfingin hefur verið hvað sterkust í gegnum tíðina, eru að öðru jöfnu mestu láglaunasvæðin, Eftir að KEA skrapp saman, hefur Eyjafjarðar svæðið hækkað í launaskalanum, Ef Skagafjörður er skoðaður þar sem KS er ríkið í ríkinu, er laun fremur lág, svo dæmi sé tekið.

Já það er margt skrítið í kýrhausnum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.7.2009 kl. 05:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband