Samban er horfin úr loftinu
13.11.2010 | 10:39
MAPUTO, MÓSAMBÍK: Þegar ég kom hér síðast fyrir rúmum áratug var grimmilegri borgarastyrjöld nýlokið. Mér fannst þá vera bjartsýni ríkjandi eins og væri samba í loftinu. Það er ekki eins í dag en það ber að hafa í huga að ég hef aðeins verið hér í nokkra daga og er á förum aftur.
Tilfinningin sem maður fær nú af því að fara hér um götur og torg og tala við fólk er miklu frekar sú að fólk sé orðið þreytt á að bíða eftir betra lífinu sem það reiknaði með eftir að stríðinu lauk. Þótt það hafi óneitanlega orðið miklar framfarir í Mósambík á þessum tíma er enn margt í skralli.
Þeir voru enda óheppnari en margir aðrir með nýlenduherra: Portúgalar voru sennilega verstu nýlenduherrar sögunnar, næst á eftir Belgum. Þegar portúgalarnir fóru héðan í kjölfar byltingarinnar í Portúgal 1975 létu þeir sér sæma að brenna verksmiðjur sínar og byggingar eða sprengja allt draslið í loft upp.
Það besta hér er náttúrlega að hér ríkir pólitískur stöðugleiki, Frelimo og Renamo sem börðust í borgarastyrjöldinni (Frelimo vann stríð og allar kosningar síðan) eru nú venjulegir stjórnmálaflokkar, hættir að beita byssum.
Marxisminn, sem rekinn var hér í upphafi, er nú á bak og burt en maður þarf ekki að tala við marga til að heyra að opinberar framkvæmdir beri keim af stórum sýningarverkefnum sem kosti mikið en skili litlu í hlut samfélagsins. Á næsta ári ætla Kínverjar (jú, auðvitað eru þeir hér líka) að byggja mikla brú á milli höfuðborgarinnar og eyjarinnar Catembe sem liggur hér rétt fyrir utan: maður sagði mér í morgun að brúin myndi sennilega kosta tvö þúsund milljón dollara. Í fljótu bragði sér maður ekki að þetta sé alveg bráðnauðsynlegt, ég fór sjálfur með ferju út í þessa eyju í gær og var fljótur að því. En þar á sjálfsagt að byggja lúxushótel í þeirri von að ferðamenn komi með peninga inn í hagkerfið.
Og ekki veitir af, náttúruhamfarir hér á síðustu árum hafa kostað mikið og eyðilagt mikið af þeirri þróunarvinnu sem unnin hefur verið.
Í næstu viku verður það svo Malaví, eitthvert fátækasta og aumasta land heims.
Athugasemdir
Ég varð mjög snortinn, nafni, í heimsókn minni til Mósambík, fyrir fimm árum, af því sem ég sá og heyrði þar.
Þá tók ég myndefni, sem ég notaði í fréttapistla í Sjónvarpinu. Eitt af ótal óloknum verkefnum mínum er að láta þessa pistla ekki nægja, heldur gera um þetta heimildarmynd, því að svo margt og magnað dreif á dagana í þessari stuttu heimsókn.
Gangi þér vel í þínu góða starfi.
Ómar Ragnarsson, 13.11.2010 kl. 13:41
Takk fyrir þetta, nafni minn. Það er reyndar nánast sama hvar maður kemur í Afríku, alls staðar hrífst maður af því sem fyrir augun ber. Ég hef haldið því fram að maður geti aldrei orðið samur eftir að hafa komið til álfunnar. Það á að minnsta kosti við um mig. Þótt sömbuna kunni að vanta er einhver galdur í loftinu sem kallar stöðugt á mann.
Ómar Valdimarsson, 13.11.2010 kl. 18:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.