Eru þessi 40% verri en hin?
28.11.2010 | 19:59
Það er engin sérstök ástæða til að vera með stórar yfirlýsingar um kjörsókn í stjórnlagaþings-kosningunum. Tæplega 40% kjörsókn er alveg nóg: þingið hefur fullt umboð til að vinna þá vinnu sem því er ætlað.
Auðvitað hefði verið betra ef kjörsókn hefði verið meiri en hún var það bara ekki.
Það hefur til að mynda þótt alveg nóg fyrir stjórnmálaflokka að fá innan við 40% atkvæða í kosningum til að fara með öll völd í landinu og ráðskast með það að eigin geðþótta. Ekki eru þau fjörutíu prósentin sá afgerandi meirihluti sem þras- og úrtölumenn okkar gjaldþrota stjórnkerfis eru nú að heimta á bak við stjórnlagaþingið.
Ég hef engar kenningar um hvers vegna kjörsóknin var ekki meiri en mér finnst hún vel duga. Nú er bara að sjá hvort stjórnlagaþingsmenn og konur duga. Það skiptir miklu meira máli en hvort letingjar voru svo uppteknir við að þrasa frá sér allt vit að þeir nenntu ekki á kjörstað.
Athugasemdir
Held að þetta sýni að fólki finnst þetta ekki vera nauðsynlegt núna og allt of dýrt. Margir tala um það. Best er að hætta við þetta og draga uppsagnir nokkurra tuga hjúkrunarfræðinga til baka.
Auk þess var kosningakerfið og ógegnsætt og frambjóendasúpan of stór. Flestir voru með sömu frasana í kynningum. Ég persónulega pikkaði bara einhverja 15 út úr hópnum en hef ekki hugmynd um hvort það var rétt!!!
Þarf amk. að framkvæma svona kosningar einhvernvegin öðruvísi næst.
Þorsteinn Sverrisson, 28.11.2010 kl. 21:35
Þú bendir réttilega á að þingið muni taka til starfa og þeir sem ekki mættu á kjörstað verða að sætta sig við þann "uppdrátt að stjórnarskrá" sem hópurinn útbýr. Súrt epli gæti sem sagt orðið hlutskipti þeirra er heima sátu, en svo má ekki einu sinni gefa sér það!
Flosi Kristjánsson, 29.11.2010 kl. 16:41
Það er klár valdníðsla að láta 40% setja lög til handa 60% sem sögðu að gott væri að láta í friði um stund.
Í stjórnarskrá æti að vera sú setning að eigi megi við hrófla á óróa tímum.
Hrólfur Þ Hraundal, 29.11.2010 kl. 17:24
Hrólfur: Má ekki allt eins líta svo á að 60 prósentin hafi falið 40 prósentunum að sjá um þetta fyrir sína hönd? Ég kem ekki auga á "valdníðsluna" í þessu, allir áttu sama kost á að greiða atkvæði. Mig grunar að eftiráskýringum muni fjölga á næstunni, því varla teljast góð rök að hafa ekki viljað þóknast Jóhönnu og Steingrími. Lögin um stjórnlagaþingið voru samþykkt með góðum meirihluta á Alþingi. 11 þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við endanlega afgreiðslu laganna. Aðeins einn var á móti, Óli Björn Kárason varaþingmaður, sem er oft sérkennilega hornóttur.
Ómar Valdimarsson, 29.11.2010 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.