Iceland Express, Pálmi og þýfið

Það er ekki fallegt að segja það en ég læt mig hafa það samt: ekki kom mér á óvart að heyra í RÚV af ‚Panama-fléttu‘ Pálma Haraldssonar í Fons og Feng með hverri þrír milljarðar króna voru fengnir að láni í banka, sendir til Landsbankans í Lúxemborg og þaðan til Panama þar sem þeir hurfu og voru afskrifaðir samdægurs. Maður á varla von á öðru en svona kúnstum af þessum bæ.

Í vor ákvað ég að slást í hóp með fólki sem vildi til Berlínar með Iceland Express, ferðaskrifstofu þessa sama Pálma. Svo illa vildi til að eldfjallaaska kom í veg fyrir að flogið væri þegar ætlað var. Gott og vel, hugsaði ég, þá fer ég bara einhvern tíma seinna. Svo ætlaði ég að fá endurgreidd þau 170 þúsund sem ég hafði borgað fyrir mig og mína spúsu – en þá var svarað um hæl: Nei, við þurfum ekki að borga til baka.

Til að gera langt mál stutt þá var þessu vísað til Neytendastofu sem komst að þeirri niðurstöðu að víst ætti að borga til baka, rétt eins og alþjóðlegur félagsskapur flugfélaga hafði ályktað. Iceland Express Pálma Haraldssonar neitaði samt og áfrýjaði til Úrskurðarnefndar neytendamála. Úrskurðarnefndin komst að sömu niðurstöðu og Neytendastofa: farþegarnir (sem aldrei fóru) eiga að fá þetta allt endurgreitt.

En enn neitar Iceland Express!

Kannski get ég sjálfum mér um kennt að hafa farið í viðskipti við þetta fyrirtæki sem ekkert er að marka og svínar á fólki sem langaði í menningarferð til Berlínar. Auðvitað átti ég að vita betur og láta þessa kóna alveg eiga sig, eins og Vilhjálmur Bjarnason gerði svo eftirminnilega í úrslitaþætti Útsvarsins í vor.

Nú neyðist þessi hópur (sem raunar er nokkuð verseraður í ferðabransanum) sennilega til að fara í málaferli við Iceland Express til að fá þýfið til baka. Miðað við niðurstöður Neytendastofu og Úrskurðarnefndar neytendamála sýnist manni að niðurstaðan liggi fyrir og væntanlega fellur allur kostnaður á Iceland Express. En það er sjálfsagt allt í lagi, nóg er til af peningum í Feng Pálma Haraldssonar...þótt þeir kunni að vera geymdir á bankareikningi í Panama.

Aths.: Ég verð að viðurkenna að ég hef hlaupið á mig hér. Áfrýjunarnefndin vísaði málinu frá af tæknilegum ástæðum en staðfesti ekki ákvörðun Neytendastofu, eins og ég segi hér að ofan. Ákvörðunin stendur því nema málinu verði vísað til dómstóla. Það breytir þó engu um það sem sagt er um viðmót Iceland Express.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Þetta er orðið hið einkennilegasta mál í sögu ferðamála og flugs á íslandi. þetta Isl.expr. er orðið til skammar erlendis og hér heima og er ég hissa á að þeir haldi þessu ferðaskrifstofuleifi í dag.

Eyjólfur Jónsson, 7.12.2010 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband