Það er lúxus að búa á Íslandi

Það er lúxus að búa á Íslandi, þrátt fyrir kreppuna og stigamannaflokkana sem lögðu efnahagslífið undir sig á síðustu árum. Þetta hefur verið að sannast fyrir mér á ný undanfarna daga hér austur í Indónesíu.

Þrátt fyrir allt búum við nefnilega margfalt betur en mikill meirihluti mannkyns. Hér eru nokkur atriði sem við teljum sjálfsögð en flestir aðrir geta ekki einu sinni látið sig dreyma um:

  • Við getum sagt það sem okkur sýnist hvenær sem er og hvar sem er.
  • Við eigum ekki á hættu að verða stungið í tukthús og látin dúsa þar árum saman fyrir engar sakir.
  • Við höfum ótakmarkaðan aðgang að hreinu vatni, heitu og köldu.
  • Við þurfum ekki að óttast að löggan skjóti okkur á færi.
  • Stjórnmálamenn á Íslandi eru yfirleitt heiðarlegir. Sofandi, kannski, og ekki mjög framsýnir, en ekki þjófóttir.
  • Við þurfum ekki að óttast að stór hluti barna okkar deyi úr hungri eða meinlitlum barnasjúkdómum fyrir fimm ára aldur.
  • Við getum fengið fyrsta flokks læknisþjónustu þegar okkur hentar.
  • Við þurfum ekki að horfa upp á það að stór hluti þjóðarinnar fæðist til þess eins að eiga aldrei séns.
  • Við þurfum ekki að búa við hungur – eða ótta við hungur – alla ævina.
  • Við þurfum ekki að líta svo á að læsi sé forréttindi hinna fáu.
  • Við búum við ágætt skólakerfi – með þeim bestu í víðri veröld.
  • Við þurfum ekki að senda börnin okkar út á götu til að betla.
  • Við þurfum ekki að múta embættismönnum til að fá einfalda þjónustu á vegum ríkisins – svo sem að sækja um ökuskírteini eða fæðingarvottorð.

Ég gæti haldið áfram lengi enn – en læt þetta duga í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Já við búum við lúxus sem við öflum okkar með þrælkun og yfirgangi á þeim þjóðum sem illa standa. Það er alltaf jafn pirrandi að vera minntur á það.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 19.1.2009 kl. 12:57

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Þegar þú leggur þetta svona fram Ómar minn þá verð ég að viðurkenna að þarna hafir þú rétt fyrir þér en.....  það er alltaf með þetta en..... ekki vildi ég samt búa þarna heima núna. 

Hafðu það gott og bestu kveðjur til Dagmar.

Ía Jóhannsdóttir, 19.1.2009 kl. 14:30

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir að minna á þetta, ekki vanþörf á því. Endalausar og einsleitar kreppufréttir eru lýjandi til lengdar. 

Marta B Helgadóttir, 19.1.2009 kl. 14:53

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Sæll Ómar.

Fyrir utan það sem þú nefnir og er gott þá erum við á hvínandi kúpunni hér á Íslandi.

Eigum ekki fyrir skuldum.

Það heitir í viðskiptum alla vegana að vera gjaldþrota.

Það er samt gott að setja þetta svona upp mér leið beturr meðan ég las en svo.....

Annars er ég nú ekkert svo mikið að velta mér upp úr kreppunni þó ég sendi mönnum tóninn.

Kærlleikskveðjur.

Vilborg Traustadóttir, 19.1.2009 kl. 18:36

5 identicon

Ef við höfum einhvern tíma þurft á því að halda að skilja þetta, þá er það núna. Í góðærinu svokallaða, sem svo kom í ljós að var sjónhverfing, þá máttu engar raddri hljóma nema ein. Nú þurfum við að læra að HLUSTA, fyrst og fremst. Það sem þú bendir réttilega á þarfnast hlustunar. Með kærri kveðju. Sigrún Vala Valgeirsdóttir.

Sigrún Vala Valgeirsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 21:05

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Kærar þakkir Ómar.

Ekki er vanþörf á að skoða málið frá þessu sjónarhorni. Við höfum það gott og erum ekki í eins vondum málum og okkur sýnist, nema síður sé.

Grundvöllur okkar er traustur og húsið er vel byggð, en búið að rusla ansi mikið út.

Þá þjónar ekki til gangi að óskapast, nú er komið að tiltekt.

Ég segi því eins og Jón Ísberg fyrrverandi sýslumaður okkar Húnvetninga sagði við mig þegar okkar persónulega gjaldþrot blasti við.

"Mundu eitt, þetta eru bara peningar"

Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.1.2009 kl. 07:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband