Svekktasti maður í heimi
25.1.2009 | 04:55
JAKARTA: Vinur minn Abdul Aziz er svekktasti maður í Indónesíu þessa dagana, ef bara ekki öllum heiminum.
Barack Obama bjó hér um nokkurra ára skeið á barnsaldri, á hér hálfsystur og gekk í skóla. Indónesar telja Obama því sinn mann og í gamla skólanum hans var haldin mikil hátíð daginn sem nýi forsetinn tók við embætti í frosthörkunni í Washington.
Abdul Aziz átti heima í þarnæsta húsi við Obama þegar þeir voru strákar. Fyrir framan heimili Aziz var fótboltavöllurinn þar sem strákarnir í hverfinu léku sér allar lausar stundir. Og handan við fótboltavöllinn er skólinn sem þeir gengu báðir í.
Harmur Aziz er sá að hann man ekkert eftir þessum hálf-ameríska strák. Hann man eftir næstum öllum öðrum - en ekki þeim eina sem varð forseti Bandaríkjanna. Er nema von að maður sé svekktur, segir hann.
Athugasemdir
Ég segi það nú, flest er nú hægt að bjóða manni nema þetta. kveðja af rokeyjunni
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2009 kl. 06:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.