Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Ef ég væri í Flokknum
14.3.2009 | 14:45
Það fer ekki hver sem er í fötin þeirra.
Ég á til dæmis mjög erfitt með að sjá foringjann í Bjarna Benediktssyni sem á að verða næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur hvorki yfirbragðið né nærveruna sem til þarf. Sópar eitthvað að honum?
En vafalaust verður hann kosinn og þar með verður Sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn heim í faðm fjölskyldnanna fjórtán sem réðu hér öllu áður en götustrákar og bankaræningjar tóku völdin.
Ef ég væri í Flokknum (sem ég er ekki, enda í engum flokki) væri ég ekki viss um að Bjarni væri besti maðurinn til að leiða Sjálfstæðismenn út úr eyðimörkinni og vísa veginn til betri og siðbetri tíma. Þrátt fyrir nafnið og ætternið.
Hagfræði heimilisins
14.3.2009 | 13:43
Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja þessa hugmynd Framsóknarmanna. Hvernig gæti þetta eiginlega virkað? Svo prófaði ég að heimfæra þetta upp á mig og mitt heimili.
Ég á fjögur börn, misjafnlega á sig komin fjárhagslega, eins og gengur. Eitt þeirra gæti þess vegna skuldað 10 milljónir, annað milljón, það þriðja þrjár milljónir og það fjórða fimm milljónir.
Segjum nú að börnin kæmu til mín, sem ímyndar ríkiskassans, og segðu: Nú viljum við fella niður 20% af öllum skuldum okkar. Þú sérð um að græja þetta.
Ég myndi segja sem svo: Nú? Og hver á að taka skellinn? Við mamma ykkar?
Þeim væri alveg sama um það, þau vildu bara losna við 20 prósentin.
Þá gæti ég ekki mikið sagt annað en: Hvaða rugl er þetta í ykkur? Fariði bara heim og reynið að ná einhverjum sönsum! Komiði svo í kaffi á sunnudaginn og þá skulum við tala um eitthvað vitlegra.
Þjónkun IMF við stjórnvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Auðmýkt Jóhönnu
12.3.2009 | 15:30
Auðmýkt er fallegt orð og lýsir enn fegurri mannlegum eiginleika.
Mér finnst felast auðmýkt í því hjá Jóhönnu forsætis að hafa beðið Breiðavíkurdrengina afsökunar fyrir sína hönd, ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar allrar.
Það þarf kjark og stórmennsku til að gera svona.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Annar farinn, hinn eftir
11.3.2009 | 17:06
Það er ástæða til að óska Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur til hamingju með úrslitin í stjórnarkjörinu og óska nýja formanninum velfarnaðar. Það er gott að félagsmenn fylktu liði um að hreinsa til í þessu félagi sem hefur of lengi lotið rangri stjórn. Gunnar Páll hefði átt að þekkja sinn vitjunartíma og fara með góðu í stað þess að láta kasta sér í burtu.
Ég er að vísu ekki í VR - en ég er í Lífeyrissjóði VR. Og nú er næst að hreinsa til þar. Það er auðvitað gjörsamlega út úr kortinu að forstjóri sjóðsins sé með 30 milljónir á ári í laun og aki um á Cadillac í eigu sjóðfélaga. Hvað væri að því að hafa 500 þúsund á mánuði og aka um á Volkswagen Polo?
Fyrst forstjóri Lífeyrissjóðs VR skilur það ekki sjálfur, er rétt að sjóðfélagar taki af honum ómakið og losi sig við hann eins fljótt og verða má.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Látum ekki stela stjórnlagaþinginu
10.3.2009 | 17:46
Þessi frásögn frá Alþingi var í Mogganum í dag: Geir (Haarde) gagnrýndi sérstaklega ákvæði um stjórnlagaþing í frumvarpinu og sagði, að það kæmi ekki til mála, að Alþingi gefi frá sér sitt mikilvægasta hlutverk, það að vera stjórnarskrárgjafi, hvað þá að Alþingi taki að sér hið auma hlutverk að vera umsagnaraðili fyrir stjórnlagaþing.
Við þessu er það að segja, að af þjóðfélagsumræðunni í vetur verður ekki annað ráðið en að stór hluti þjóðarinnar (jafnvel mikill meirihluti) hefur misst trú og traust á Alþingi þar með töldum Geir Haarde og galgopalegu málfundastrákunum sem nú trufla störf þingsins og verða sér til skammar dag eftir dag.
Eða eins og Jóhanna forsætis sagði í umræðunum á þinginu, þá liggur það fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn má ekki til þess hugsa að þjóðin sjálf hafi beina aðkomu að stjórnlagaþingi og fjalli þar um mál sem þingið hefur oft á tíðum ekki getað fjallað um, eins og kjördæmaskipan og kosningalög." sagði Jóhanna.
Það er nefnilega svo, að Alþingi hefur haft mörg ár til að taka á helstu agnúum stjórnarskrárinnar en reynst ófært um það. Stjórnmálaflokkarnir hafa aldrei getað séð út fyrir sinn eigin þrönga rann. Þess vegna þarf að taka völdin af þinginu og semja stjórnarskrá fyrir þjóðina en ekki bara flokkana.
En því miður virðist líka vera rík ástæða til að tortryggja þær hugmyndir sem felast í hugmyndum núverandi ríkisstjórnarflokka um væntanlegt stjórnlagaþing. Þær virðast vera smíðaðar fyrir stjórnmálaflokkana og stærri hagsmunasamtök, eins og Valgerður Bjarnadóttir benti á í snaggaralegu bloggi á Eyjunni í gær.
Valgerður og fleiri lýðræðislega innréttaðir þingmenn þurfa að passa það vandlega í vinnu þingsins næstu daga að stjórnlagaþinginu verði ekki stolið af þjóðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Blóðsúthellingum afstýrt
9.3.2009 | 14:56
Svei mér þá, ef það er ekki bara guðsþakkarvert að það kom ekki allt í ljós um hegðun og siðferði viðskiptajöfranna strax í október.
Það hefðu ábyggilega orðið blóðsúthellingar á götunum ef það hefði allt komið í einni gusu sem nú er að koma í skömmtum.
Ég þykist sosum vita að mannskepnan er ólíkindatól og er fær um allt - en hvað gerist eiginlega innra með fólki sem verður til þess að það hegðar sér eins og þessir menn hafa gert?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ábyrgðarlausir ritstjórar
7.3.2009 | 15:15
Hæstaréttardómurinn í máli Geira Goldfingers gegn Vikunni vekur mér áhyggjur - eða að minnsta kosti umhugsun.
Látum vera að ummælin um meintan vændisrekstur hafi verið dæmd dauð og ómerk. Og látum vera að starfsmaðurinn sem lét hafa þau eftir sér hafi samið sig frá málinu áður en það kom til dóms.
En það sem ég skil ekki alveg er hvernig ritstjórinn sleppur en blaðamaðurinn dæmdur. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ritstjórinn beri enga ábyrgð. Ég hef sosum áður skammast yfir þessu og bent á að í svipuðum málum hefur áratuga dómapraxís verið snúið á haus.
Ef ritstjórar bera enga ábyrgð á því sem stendur í blöðum þeirra (eða er lesið/skrifað í net- eða ljósvakamiðlana sem þeir stýra), til hvers eru þeir þá? Þýðir þetta þá ekki að þá varðar ekki mikið um hvað blaðamennirnir eru að bjástra? Hafði þá ritstjóri DV nokkra ástæðu til að vera að skipta sér af illa skrifuðu og illa formuðu 'fréttunum' sem unglingurinn vildi fá birtar og leiddi til alls fjaðrafoksins fyrr í vetur?
Niðurstaðan hlýtur að vera sú að nú getur hvaða raftur sem er sagt hvað sem er við hvern þann blaðamann sem er nógu grænn til að hafa það allt eftir - og rafturinn þarf engar áhyggjur að hafa og ekki ritstjórinn heldur. Blaðamaðurinn verður dæmdur, sektaður og steiktur á teini - en ábyrgðarmaður fjölmiðilsins sleppur og rafturinn getur óhræddur snúið sér að því að ljúga upp á næsta mann!
Er þetta ekki eitthvað öfugsnúið? Þarf ekki að taka prentlögin til rækilegrar endurskoðunar?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hin sanna hamingja
5.3.2009 | 13:23
Ég hef höndlað hamingjuna í sinni tærustu mynd.
Ég sat í morgun með Sölku fögru, sonardóttur minni, sem er tíu mánaða gömul, á meðan mamma hennar fór í tíma. Salka var svolítið "sloj" svo ég lagði hana í rúmið og settist í ruggustól þar við.
Fyrst sofnaði afi, svo sofnaði Salka og svo sofnuðu hundarnir Húgó og Hera.
Þetta er hin sanna hamingja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Flokkurinn er ekki fólkið
2.3.2009 | 13:31
Það verður alltaf eitthvað til að kæta mann og gleðja.
Nú síðast hef ég verið að skemmta mér við að heyra alvöruþrungna Sjálfstæðismenn segja að Flokkurinn hafi staðið sig rosalega vel í hruninu og aðdraganda þess, hins vegar hafi flokksmennirnir brugðist!
Ha?! Er ekki Flokkurinn fólkið? Eða fólkið Flokkurinn? Eða er Flokkurinn eitt og flokksmennirnir eitthvað allt annað? Bling-bling-bling...
Það má þá reikna með að Flokkurinn haldi sínu striki og geri sínar samþykktir og áætlanir áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Í framhaldinu hlýtur að vera hægt að að finna nýja flokksmenn sem eru til í að taka mark á stefnunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)