Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Hið íslenska Juche

Halldór Baldursson teiknari hefur skilgreint IceSave deiluna betur en annað fólk. Fyrst var það með skopmynd af atkvæðaseðlinum fyrir helgi (x Já, af því mig langar að halda áfram að rífast um IceSave, eða x Nei, af því mig langar að halda áfram að rífast um IceSave) og svo í Mogganum í dag með þeim valkostum sem við blasa eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þar er mynd af ótal vegvísum á fjallvegi sem hver vísar í sína áttina – allir með áletruninni Nei.

Þetta bendir til að þjóðin hafi tekið upp hina margfrægu Juche-stefnu. Hún gengur út á það að þjóðin geti verið sjálfri sér næg og þurfi ekki á umheiminum að halda, enda renni í æðum hennar svo hreint blóð og göfugt að allt annað fólk sé í rauninni skítapakk. Í Juche felst einnig að vera fljótþreytt til vandræða – en þeim mun seinþreyttari til að leita lausna.

 Höfundur Juche var Kim Il-Sung.


Blaðamenn til fyrirmyndar

Það er ástæða til að óska Jóhanni Haukssyni blaðamanni á DV hjartanlega til hamingju með Blaðamannaverðlaunin. Hann er einstaklega vel að þeim kominn - lætur ekki kjaftagang, mas og hávaða villa sér sýn.

Það sama má segja um rannsóknarblaðamann ársins, Þórð Júlíusson á Viðskiptablaðinu (áður á Mogganum) sem hefur staðið sig forkunnar vel við að útskýra og greina hrunið, orsakir þess og afleiðinga, á skýran og óvenju vel hugsaðan hátt. Þessir menn báðir eru stétt sinni til fyrirmyndar. 

Og ekki skal gleyma að óska Lóu Pind Aldísardóttur á Stöð 2 til hamingju með sín verðlaun fyrir látlausa viðleitni til að tala máli venjulegs fólks sem á undir högg að sækja í kjölfar hrunsins - miklu frekar en dólgarnir sem fá allt afskrifað.


Sko Sigmund!

Mikið var! Spegli fréttastofu útvarpsins tókst í kvöld að fá formann Framsóknarflokksins til að útskýra afstöðu sína í andskotans IceSave málinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk þarna ágætan tíma til að fara yfir málið og sína afstöðu og gerði það prýðilega, reiðilaust og án hefðbundins hamagangs. 

Verst að þetta skuli ekki hafa gerst fyrir löngu.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband