Færsluflokkur: Dægurmál
Leynifélaginn í ESB
8.10.2010 | 11:20
BRUSSEL: Þeir segja um Noreg hér að þar fari leynifélaginn í Evrópusambandinu. Norskir embættismenn sem við höfum hitt segjast taka þátt í nánast öllum umræðum og bollaleggingum sem fram fara á vettvangi sambandsins en fari svo fram á gang þegar kemur að því að taka ákvörðun.
Nojararnir láta drýgindalega og segja að samband þjóðar sinnar við ESB sé hið besta og að þeir fái ýmsum hagsmunamálum sínum framgengt með stuðningi vinveittra þjóða. Einn norsku embættismannanna missti þó út úr sér að það væri stöðugt erfiðara fyrir þá að koma sínum sjónarmiðum að.
Norrænu aðildarþjóðirnar eru að sjálfsögðu með öflug sendiráð í Brussel Svíar, Danir og Finnar. Stærsta sendiráðið reka þó Norðmenn sem hafa hér um 60 manns. Að auki eru hér skrifstofur fyrir alls konar norræn hagsmunasamtök og áróðursfélög og svokallaðir lobbyistar skipta tugum þúsunda. Það er enda ekki að undra, hér eru teknar stórar og smáar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf nærri fimm hundruð milljóna manna og allir vilja koma sínum sjónarmiðum að.
- En hvað myndi breytast fyrir Noreg ef þið hættuð að vera leynifélagar og yrðu fullgildir aðilar? spurði ég einn norska diplómatinn.
Mér til undrunar vafðist honum tunga um tönn og hann átti erfitt með að útskýra efnislegar ástæður fyrir því að Norðmenn kysu að láta EES-samninginn gilda. Niðurstaðan var eiginlega sú að andstaðan við ESB-aðild í Noregi væri fyrst og fremst tilfinningamál.
Það skildi ég mætavel, þekkti það að heiman.
- Þið eruð ekki hræddir við að ESB hirði af ykkur olíuna og fiskinn og fallvötnin? spurði ég.
- ESB hirðir auðvitað engar auðlindir, svaraði hann. Við leigjum nú þegar talsverðan fiskikvóta til ESB landa og fáum kvóta hjá þeim í staðinn.
Tilfinningarökin komu svo skýrt fram í lyftunni þar sem ég var með tveimur Norðmönnum, öðrum andvígum aðild, hinum fylgjandi. Stúlka sem fylgdi okkur um hús framkvæmdastjórnarinnar setti okkur inn í lyftu og bar svo kort að skynjara þar fyrir framan.
- Lyftan fer með ykkur upp á áttundu hæð, sagði hún, bíðið þar eftir mér.
Og lyftan skilaði okkur á áttundi hæð og vildi hvorki upp né niður nema maður hefði til þess gert kort.
- Svona virkar ESB, sagði þá annar Norðmaðurinn hundfúll. Maður er settur inn í kassa og svo fer hann upp og niður og út og suður og maður ræður engu um hvar maður lendir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sjávarútvegsstefnan ekki vandinn, heldur...
6.10.2010 | 17:12
BRUSSEL: Sænskir bændur stórgræddu á inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið, sagði mér sænskur kollega í dag, þeir fengu miklu meiri peninga í sinn hlut en þeir höfðu fengið áður. Og embættismenn úr þeirri deild framkvæmdastjórnarinnar sem annast aðildarsamningana við Íslendinga létu eins og það væri augljóst mál að allur íslenskur landbúnaður myndi falla undir svokallaðan heimskautalandbúnað, þ.e. þá uppfinningu að flokka hluta landbúnaðar Svía og Finna þannig landbúnað norðan við 62. gráðu norðlægrar breiddar. Ísland er allt norðan við þessa gráðu.
Niðurstaðan eftir nærri þriggja vikna samfellda skoðun á ESB, stofnunum þess, sáttmálum og reglum, er sú að það sé ekki hin sameiginlega sjávarútvegsstefna sem Íslendingar eigi að hafa áhyggjur af (eftir sem áður mun enginn komast inn í fiskveiðilögsöguna sem ekki hefur þar veiðikvóta), heldur fjórfrelsisákvæðið um frjálst fjármagnsflæði sem heimilar fyrirtækjum í aðildarríkjunum að reka atvinnustarfsemi hvar sem er.
Þetta er það sem Íslendingum mun reynast erfiðast, sagði embættismaður hér í dag en bætti við að alltaf væri hægt að finna lausnir á erfiðum vandamálum. Varanlegar undanþágur væru illa séðar í sambandinu, sagði hann, en frjóir samningamenn hefðu hingað til getað látið sér detta í hug alls konar útfærslur sem nýst hafa vel.
Þingmaður á Evrópuþinginu sagðist í vikunni ekki hafa miklar áhyggjur af viðræðunum við Íslendinga eða fyrirvörum þeirra um fiskveiðistefnuna. Sú stefna er í endurskoðun og að sjálfsögðu verður verulega litið til Íslands í þeim efnum, þeir reka sjálfir góða og ábyrga sjávarútvegsstefnu sem reynst hefur vel. Svo gerum við Íslending að sjávarútvegsstjóra! sagði hann við góðan fögnuð norrænna manna og kvenna.
Embættismenn hér segjast hæstánægðir með samskiptin við Íslendinga hingað til og lýstu sérstaklega ánægju sinni með hversu fljótt og vel (betur en margir aðrir) hefðu skilað þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar þegar framkvæmdastjórnin samþykkti að hefja aðildarviðræðuferlið.
Það næsta sem gerist í þessu ferli er að 9. nóvember næstkomandi kemur út áfangaskýrsla um viðræðurnar og jafnframt er að fara í gang rækilegur samanburður á íslenskri löggjöf og lagaumhverfi ESB. Hinar eiginlegu viðræður ættu því að geta hafist ekki síðar en á miðju næsta ári, sögðu menn hér í dag. Það verður fróðlegt að fylgjast með því.
En á meðan er hægt að benda á sérstaka vefsíðu um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar sem sænskur græningi á Evrópuþinginu hefur sett upp. Þar er að finna allar mögulegar upplýsingar um stefnuna sjálfa og þær hugmyndir sem eru í gangi um endurskoðun hennar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það sem virtist svo einfalt...
2.10.2010 | 18:12
Í upphafi virtist þetta allt vera frekar einfalt:
Alþingi ákvað fyrir tveimur árum að setja á stofn rannsóknarnefnd til að leiða í ljós sannleikann um aðdraganda efnahagshrunsins. Allir voru ánægðir með þetta.
Í vor kom skýrsla nefndarinnar í löngu máli, Stóra skýrslan. Allir voru ánægðir með hana.
Í Stóru skýrslunni voru nafngreindir nokkrir forustumenn lands og þjóðar sem höfðu sofið á vaktinni. Allir voru mjög ánægðir með að þetta lægi fyrir.
Svo stofnaði Alþingi þingmannanefnd til að fara yfir Stóru skýrsluna og gera tillögur um viðbrögð þingsins. Allir voru mjög ánægðir með það.
Næst gerðist það að þingmannanefndin skilaði tillögum sínum. Allir voru hæstánægðir með þann hluta sem sagði ekkert um ábyrgð á hruninu.
En nokkrir, sérstaklega forustumennirnir og vinir þeirra, urðu spólvitlausir yfir því að það ætti í alvöru að taka mark á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Nema meirihluti þjóðarinnar sem fannst þetta gott mál. Könnun MMR frá 17. september sýndi nefnilega að meirihluti þjóðarinnar vildi taka mark á Stóru skýrslunni og láta forustumennina sæta ábyrgð.
Í kjölfarið var efnt til illinda á Austurvelli en út af einhverjum allt öðrum málum.
Er nema furða að manni gangi illa að skilja þetta - hvað þá að útskýra gang mála á Íslandi fyrir fólki í öðrum löndum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sviðin jörð eftir íslensku innrásina
1.10.2010 | 06:18
ÁRÓSUM: Bæjarblaðið hér, Århus Stiftstidende, er að deyja. Upplagið hefur hrapað úr nærri 80 þúsund eintökum í minna en 30 þúsund á örfáum árum.
Þeir berjast um á hæl og hnakka enda á þetta ágæta blað sér rúmlega 200 ára merka sögu, stofnað 1794. En það berst við ofurefli Jyllands-Posten sem hefur haft aðgang að gríðarlegu fé til að berja samkeppnina niður.
JP hefur reyndar sjálft mátt verja miklu fé á undanförnum árum til að verjast viðbrögðum við þeirri ákvörðun að birta umdeildar teiknimyndir af Múhammeð spámanni (í nafni hins takmarkalausa tjáningarfrelsis) og nú eru miklar gaddavírsgirðingar í kringum höfuðstöðvar blaðsins í Viby, útbæjar Árósa. Þörfin fyrir víggirðinguna minnkar varla á næstunni því nú er verið að gefa teikningarnar út í sérstakri bók um það mál allt saman.
Fleiri dönsk blöð berjast í bökkum og raunar er kreppa í blaðaútgáfu ekki sér danskt fyrirbæri, dagblöð víða um heim eiga undir högg að sækja. Hvað hefur ekki verið að gerast á Íslandi?
Ein ástæða þessarar dagblaðakreppu hér í landi rekur ættir sínar til Íslands og er til tákns um að ekkert er eylandið í heimsvæðingu dagsins. Það var nefnilega þannig að Nyhedsavisen-ævintýri Gunnars Smára, Jóns Ásgeirs og félaga kostaði danska blaðaútgefendur um hálfan annan milljarð danskra króna þrjátíu milljarða íslenskra króna. Það fé var sett í að bæta samkeppnisaðstöðuna gagnvart íslensku innrásinni...sem rann svo út í sandinn eins og margt annað sem kokkað var á þeim bæ. Þessa peninga hefði allt eins verið hægt að nota til að bæta þau blöð sem fyrir voru.
Eftir sátu fátækari dönsk dagblöð, Århus Stiftstidende þar á meðal, og fjölmargir atvinnulausir danskir blaðamenn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Pólitík? Nema hvað!
29.9.2010 | 15:19
Ég sé að sumir eru alveg vitlausir yfir ákvörðun Alþingis um að leiða Geir Haarde fyrir Landsdóm - og tala um að málið sé pólitískt.
Nema hvað? Er það ekki hlutverk Alþingis að fjalla um pólitík? Er ekki verið að tala um pólitíska ábyrgð?
Geir var forsætisráðherra, ekki búðaþjófur, og ábyrgur sem slíkur fyrir velferð lands og þjóðar.
Auðvitað er þetta pólitík - og gæti ekki verið neitt annað og ætti ekki að vera neitt annað.
Svo breytist þetta í lögfræði þegar málareksturinn hefst. Þá á pólitíkinni að vera lokið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fordómar og mannhatur
24.9.2010 | 18:06
KAUPMANNAHÖFN: Við hittum í dag mann að nafni Sören Espersen sem er frammámaður í danska þjóðarflokknum, Dansk Folkeparti. Þetta er þriðji stærsti flokkurinn í Danmörku og tryggir hægri stjórninni hér meirihluta á þingi.
DF er samsafn fólks sem hatast við múslima og Evrópusambandið og lýtur forustu Piu Kjærsgaard sem er óvenju illskeytt af norrænum stjórnmálamanni að vera. Hún lét Svía fá það óþvegið í tilefni kosninganna þar á dögunum og veitti Svíþjóðardemókrötunum svonefndu mikilvægan móralskan stuðning enda er þar á ferðinni flokkur með svipaðar áherslur: að hatast við múslima og ESB.
Sören Espersen hrósaði Svíþjóðardemókrötunum líka í hástert, ekki síst fyrir að hafa tekið upp gamalt slagorð DF: Gef okkur landið okkar aftur. Ég sagðist ekki vita hvað það þýddi hver hafði tekið Danmörku af Dönum?
- Þú getur sagt þér það sjálfur, sagði Espersen. Það er augljóst mál.
- Nei, mér er það ekki augljóst...
- Við viljum að Danmörk verði eins og hún var fyrir 1983, áður en þessi óhefti straumur innflytjenda frá ólíkum menningarsvæðum hófst, sagði Sören Espersen. - Með sama áframhaldi er verið að skipta Dönum og danski menningu út fyrir annað fólk og aðra menningu.
Á fundi okkar, sem stóð ríflega hálfan annan tíma, fór Espersen fram og til baka yfir hættuna sem flokkur hans telur stafa af Islam sem sé pólitískt kerfi er noti trúarbrögð sem yfirbragð. Fordómar af þessu tagi streymdu út úr honum án afláts og hann dró enga dul á að það eru fyrst og fremst Afríkumenn og múslimar sem flokkur hans vill ekki til danska draumalandsins.
En skyldi þetta ómanneskjulega viðhorf í okkar heimshluta vera bundið við Danmörku og Svíþjóð? Hvað með Ísland hið tæra og hreina sem numið var af svo mörgum norskum hetjum og stórhöfðingjum að ekki var nema rumpulýður þar eftir? Það voru a.m.k. sjónarmiðin í mínum skólabókum á hinni öldinni.
Þótt ekki fari mikið fyrir mannfjandsamlegum sjónamiðum af þessu tagi í umræðunni á Íslandi grunar mig að Sören og Pia og þeirra lið eigi sér furðu marga skoðanabræður.
Þeir eru meðal annars í borgarkerfinu í Reykjavík. Önnur ástæða getur ekki verið fyrir því að íslenskir múslimar hafa mátt bíða í ellefu ár eftir lóð undir bænahús sitt og bíða enn. Nýi borgarstjórinn er þó líklegur til að breyta því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Gott hjá Alþingi
22.9.2010 | 14:03
Nú, jæja, það fór þá betur en á horfðist - ályktunartillögur þingmannanefndarinnar eiga að fá eðlilega þinglega meðferð. Gott hjá Alþingi.
Það er eins og oftast áður: þegar allt virðist ómögulegt birtir skyndilega til.
Ætli þetta endi ekki með því að það kemur vor í lok vetrar og svo enn eitt dúndursumarið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo bregðast krosstré
21.9.2010 | 16:31
Það er hægt að gleðjast yfir mörgu í lífinu - en fátt af því tengist opinberu lífi á Íslandi. Einmitt þegar ég hélt að nú væri kannski von (að það væri óhætt að fara aftur í sjóinn, eins og sagði í bíóauglýsingunni forðum), þá verður Alþingi sér enn til minnkunar.
Eins og mörgum öðrum fannst mér að tillögurnar um Landsdóm væru myndarlegt tákn um að stjórnmálastéttin ætlaði að axla ábyrgð sína. Það hefði ekki skipt öllu máli hvort ráðherrarnir fyrrverandi hefðu verið fundnir sekir eða saklausir. Aðalatriðið var að farið væri að lögum og að það væri viðurkennt með óyggjandi hætti að einhver átti að standa vaktina á meðal ballið mikla leystist upp í fyllirí, gripdeildir og slagsmál.
Það kom ekkert sérstaklega á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn væri á móti, það er í eðli hans að vernda sína menn sama hvað á gengur. Mér fannst hins vegar óhætt að reikna með að aðrir þingmenn myndu standa í lappirnar. Ekki síst Jóhanna forsætis.
Á dauða mínum átt ég fremur en því að sjálf Jóhanna Sigurðardóttir færi á taugum og leiddi þar með ábyrgðarmenn Hrunsins aftur til valda. Það er ekki lítil ábyrgð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki drekka kók í Tíbet
10.9.2010 | 17:29
Nú vorum við allt í einu komin til Lhasa, höfuðborgarinnar í 3700 metra hæð yfir sjó og allt í kring voru miklu hærri fjöll. Læknirinn í hópnum var búinn að setja okkur á strangan kúr hæðarveikilyfja. Hann hefði líka átt að setja okkur á hægðalyf.
Við sluppum flest að mestu við hæðarveikina en ekki alveg. Svefn fer aðeins úr skorðum fyrstu dagana og það þarf ekki mikið til að þreytast. Maður varð lafmóður við að fara á klósettið um nætur, svo ekki sé minnst á átökin sem það kostar að klífa fleiri hundruð tröppur upp í Potala, vetrarhöll Dalai Lama, þaðan sem hann og forverar hans ríktu í vellystingum yfir örsnauðum almúga sem tilbað hinn endurfædda Búdda.
Lhasa er orðin stórborg, þangað er svo stöðugur straumur Kínverja að Tíbetarnir eru í mesta lagi fjórðungur borgarbúa þótt þeir séu enn í miklum meirihluta í landinu öllu. Borgin sýnist meira og minna öll splunkuný, það er aðeins gamla miðborgin og hofin og klaustrin allt í kring sem enn bera svip hinnar fornu menningar.
Og hvað sem manni kann að finnast um hernám Kínverja þá leynir sér ekkert að í landinu hafa orðið miklar framfarir á síðustu árum. Það er meiri og fjölbreyttari matur (fallegasta grænmeti sem ég hef nokkru sinni séð er þar á útimörkuðum) og innviðirnir hafa verið styrktir verulega. Stórlega hefur fækkað í klaustrunum (sem voru um sex þúsund um það leyti sem Dalai Lama XIV flýði), úr nokkur hundruð þúsund munkum í nokkra tugi þúsunda. Rúmlega fimm þúsund kílómetra langur vegur liggur frá Shanghai til landamæranna við Nepal; hann heitir vitaskuld Vináttuvegur.
Tíbetar sem við töluðum við drógu ekki dul á að miklar efnislegar framfarir hefðu orðið í landinu undir stjórn Kínverja (ekki síst í landbúnaði) en margir telja sig þó hersetna og eru skiljanlega afar ósáttir. En það borgar sig að tala varlega og ekki mjög hátt, stjórnarfarið býður ekki upp á háværar kvartanir eða athugasemdir, eins og dæmin sanna.
Á þeirri viku sem við vorum í Tíbet ókum við um víðáttumikla og grösuga dali, og um nakin fjallaskörð, eftir vináttubrautinni góðu frá Lhasa til nepölsku landamæranna.Við fengum næturgreiða í ágætum gistihúsum og borðuðum góðan mat. Það ætti hins vegar að taka af þeim kóka-kóla leyfið: kók er ódrekkandi í Tíbet.
Að kvöldi dags, á meðan enn skein sól og varla sást skýhnoðri á himni, komum við til Tigiri í rúmlega fimm kílómetra hæð yfir sjávarmáli.
Þarna, sagði tíbetski leiðsögumaðurinn og benti til vinstri. Og sjá: þar blasti við sjálft Everest fjall, óhagganlegt og ófrýnilegt. Himalaya-fjöllin teygðu sig til vesturs; hrikaleg, snævi þakin björgin glitruðu í kvöldsólinni og maður var ógnarlítill andspænis þessum ótrúlegu furðum náttúrunnar.
Ég vil fara þangað aftur.
Dægurmál | Breytt 11.9.2010 kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Umboðslaust flokkaflakk
8.9.2010 | 18:44
En það er ekki málið. Nú berast þær fréttir að hann sé hættur að vera óháður þingmaður og genginn til liðs við Vinstri græna. Núnú, slíkt hefur oft gerst áður: að menn hafi skipt um flokk í miðju kafi.
Mér hefur hins vegar aldrei þótt það ganga upp, hvorki þá né nú.
Þráinn var nefnilega kosinn á þing af fólki sem vildi ekki kjósa Fjórflokkinn. Ef það fólk hefði viljað kjósa Fjórflokkinn væri Þráinn ekki þingmaður og ekki heldur þau þrjú sem fóru með honum á þing sem fulltrúar Borgarahreyfingarinnar. Þá væri annað fólk á þingi núna.
Ég sé því ekki betur en að Þráinn sé án umboðs kjósenda sinna í þingflokki Vinstri grænna og að það sama hafi átt að gilda um aðra þá sem farið hafa sömu leið.
Ekki það, ég treysti persónunni Þráni Bertelssyni vel til að fylgja sannfæringu sinni og verja þær hugsjónir sem gerðu hann að pólitíkus.
En hann var ekki kosinn af stuðningsmönnum Vinstri grænna. Þvert á móti: hann var kosinn af fólki sem vildi ekki Vinstri græna eða neinn annan þeirra hefðbundnu stjórnmálaflokka sem buðu fram í fyrravor.