Færsluflokkur: Dægurmál

Útreyktir hippar og jógi á viagra

img_0070_1023697.jpg KATHMANDU, NEPAL: Í gegnum borgina renna einar átta ár en þeirra merkust er Bagmati og þangað fórum við fyrst í skoðunarferð um borgina. Við vildum sjá útfararsiði heimamanna: þar á bökkunum brenna þeir jarðneskar leifar hindúanna. Nokkrar slíkar athafnir voru í gangi þennan dag og fleiri í undirbúningi.

Og á steinþrepunum upp af ánni sátu afdankaðir og útreyktir nepalskir hippar sem létu taka af sér myndir fyrir einn dollar.

Það vakti athygli þeirra sem höfðu komið þarna áður að nú mátti sjá konur taka þátt í undirbúningi bálfaranna, slíkt var óþekkt fyrir fáeinum árum.

‘Furðulegt uppátæki að rjúka beint í jarðarför,’ sagði gítarhetjan í hópnum. ‘Myndu Nepalar sem koma til Íslands fara beint suður í Fossvogskirkju til að fylgjast með jarðarför?’

Gítarhetjan lék annars á alls oddi enda nýbúinn að kaupa sér forkunnarfagran og hljómmikinn sítar suður í Indlandi og látið þrjátíu ára gamlan draum rætast. Við höfðum að auki hitt heilagan mann í flugvélinni – indverskan jóga með tugi myndarlegra kvenna (hmm...) með sér að fara í pílagrímsferð til Tíbet. Jóginn var vel fús til að sitja fyrir á myndum og dreifa plöstuðum nafnspjöldum þar sem hann titlaði sig sem hans heilagleika.

Þetta dugði næstum því til að eyða pirringi gítarhetjunnar sem gat ekki fengið almennilegan hamborgara í þessum bæ. Það var ekki eins og ekki væru nautgripir í landinu – þeir voru um allar götur. Bara ekki hafðir til matar.

Kathmandu er óvenju heillandi borg og hefur meiri karakter en flestar borgir í Asíu. Þar eru mörg hundruð ára gömul hof og musteri í stöðugri notkun, hluti af fjölþættri menningu heimamanna í landi þar sem trúarbrögð eru ekki höfð til hátíðabrigða heldur eru órjúfanlegur þáttur daglegs lífs.

Og það er óhætt að mæla með því að koma til Kathmandu utan hins hefðbundna ferðamannatíma (þetta var í júní) – þá er fólksmergðin á götunum viðráðanlegri, verðlag lægra og auðveldara að komast leiðar sinnar.

Á Durbar torgi stöðvaði okkur maður sem spurði hvaðan við værum. Frá Íslandi, sögðum við. Þá fletti hann upp í stílabókinni sinni og sýndi okkur handskrifuð skilaboð á íslensku frá “Connie” sem mælti eindregið með þessum manni sem leiðsögumanni um hverfið.

Enginn er eyland.


Ást út yfir gröf og dauða

Skátafundur við Taj MahalAGRA, INDLANDI: Það fer ekkert á milli mála: Taj Mahal er fegursta bygging í heimi. Hún rís í sínu fullkomna persneska formi upp af bakka Jamuna-fljótsins, kyrrlát, virðuleg og tímalaus, minnismerki um ódauðlega ást og virðingu. Snilligáfa þeirra sem byggðu þetta undursamlega mannvirki er óvéfengjanleg. Þar fór fremstur persneski húsagerðarmeistarinn Ahmad Lahouri sem vann verkið fyrir stórfurstann (shah) Jahan til minningar um þriðju konu hans, Mumtaz Mahal, sem lést af barnsförum eftir fæðingu fjórtánda barns þeirra.

Furstinn var ekki mönnum sinnandi eftir lát Mumtaz og lét hefja byggingu grafhýsisins um ári eftir lát hennar 1631. Hann ætlaði svo að láta byggja samskonar grafhýsi fyrir sjálfan sig úr svörtum marmara til mótvægis við hvíta marmarann í Taj Mahal. Af því varð þó ekki: þegar búið var að leggja grunninn að nýju byggingunni á bökkum Jamuna setti sonur furstans hann af, enda þá búið að sóa og spenna auðæfum ríkisins svo lítið var eftir. Furstinn lifði út sína harmþrungnu ævidaga í rauða virkinu í Agra þaðan sem hann gat horft yfir grafhýsi konunnar sem hann elskaði svona mikið. Hann var grafinn með Mumtaz eftir dauða sinn.

Þetta var í þriðja sinn sem ég kom til þessa ótrúlega mannvirkis – og jafn hugfaginn sem áður. En það er ekki hægt að mæla með því að skoða Taj Mahal í hitanum eins og var þennan dag, 46 gráðum. Þá getur maður ekki hreyft sig nema eins og skjaldbaka og hálf einbeitingin fer í að standa uppréttur.

Og hér er ábending til þeirra sem vilja setja marmara í eldhúsið sitt (ef það skyldi ekki hafa verið gert í gróðærinu): einungis indverskur marmari dregur ekki í sig vökva og breytir því ekki um lit eða verður blettóttur þótt hellist á hann kaffi eða sósa. Enda er þetta óviðjafnanlega grafhýsi jafn hvítt í dag og það var fyrir nærri 400 árum.

Myndin var tekin í byrjun júní þegar við heimsóttum Agra á leið til Nepal og Tíbet. Kannski meira um það síðar. 


Hörkumynd Dags Kára

Einhvers staðar sá ég að "The Good Heart" eftir Dag Kára ætti séns á að vinna kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í ár.

Ég veit ekkert um hinar myndirnar fjórar en fyrir tilviljun sá ég mynd Dags Kára á dögunum og myndi ekki verða hissa þótt hún fengi verðlaunin. 

Þetta er alveg hörkufín bíómynd. Góð saga, vel sögð af innsæi og skynsemi. 

Mæli eindregið með henni. 


Kjaftstopp

Þjóðkirkjan hefur nú gert hið eina rétta: séra Kristján Björnsson, sem sæti á í Kirkjuráði, hefur skrifað grein í Moggann í dag um frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur (Skúlasonar) af kynferðislegu ofbeldi föður síns.

Eins og ég nefndi í síðustu færslu á þessum vettvangi vorum við séra Ólafur vinir um áratuga skeið þótt sambandið væri aldrei mikið. Þessi frásögn veldur því lamandi vonbrigðum, gerir mann alveg kjaftstopp.  Ef þetta er rétt - hlýtur þá ekki allt hitt að vera satt líka?

Hlýjustu kveðjur mínar til fjölskyldunnar. 


Hálfkveðnar vísur biskupsdóttur

Séra Ólafur heitinn Skúlason var fermingarfaðir minn og vinur alla tíð síðan. Þegar fyrst var farið að saka hann um kynferðislegt ofbeldi fyrri hluta árs 1996 var ég í útlöndum en varð all brugðið við fréttirnar. Trúði þessu satt að segja aldrei.

Svo fyrir fáeinum dögum dúkkar þetta mál upp aftur og af enn meiri ofsa en fyrr. Enn var mér brugðið, fannst jafnvel að verið væri að naga hryggjartindana á dánum manni, sem aldrei er til sóma.

Nú eru sagðar af því fréttir að dóttir séra Ólafs, Guðrún Ebba, hafi gengið á fund Kirkjuráðs og lýst þar “reynslu minni af föður mínum,” eins og haft er eftir henni í DV í gær.

Ekki hvarflar að mér að gera lítið úr viðleitni dóttur biskups til að hindra og upplýsa kynferðislegt ofbeldi innan kirkjunnar, þvert á móti. Og ekkert veit ég það um þessi mál að ég geti leyft mér að hafa á þeim skoðun á einn veg eða annan.

En þessi ummæli Guðrúnar Ebbu vekja hins vegar miklu fleiri spurningar en þau svara. Dóttir biskups getur ekki talað svona, sagt A, án þess að segja B. Hún hefur kosið að tala opinberlega um “reynslu mína af föður mínum” – en aðeins undir rós. Það gengur ekki. Hún verður að segja meira.

Og það verða Kirkjuráð og Biskupsstofa einnig að gera. Hver er hún, nákvæmlega, þessi reynsla af foringja íslensku kirkjunnar um áratuga skeið?

Gömul sóknarbörn séra Ólafs, og raunar landsmenn allir, eiga að vita hvern mann hann hafði að geyma, hversu sársaukafullt sem það kann að vera. Hér nægja ekki hálfkveðnar vísur.


Skítt með staðreyndirnar

Af gefnu tilefni fór ég að lesa mig í gegnum umræður á Alþingi í fyrra - nánar tiltekið svör Gylfa Magnússonar við spurningum um lögmæti gengistryggðra lána (sem voru bönnuð með lögum 2001), erlend lán og fleira.

Spurningarnar voru að talsverðu leyti ruglingslegar og má af þeim komast að þeirri niðurstöðu að fyrirspyrjendur hafi ekki allir skilið eigin umræðu, né heldur tæknilega núansa málsins sem um var fjallað.

En það er engin leið að komast að þeirri niðurstöðu að Gylfi hafi logið einu né neinu. Hann hefur skarpari hugsun en margir aðrir sem tóku þátt í umræðunum og svaraði skýrt og klárt því sem hann var spurður um - og tók fram að best væri að láta dómstóla skera úr um ágreininginn. Hæstiréttur komst svo að hinni einu réttu niðurstöðu: lán í íslenskum krónum sem bundin voru við gengi erlendra gjaldmiðla voru ólögleg. Þar með ætti það að liggja fyrir.

En það mun engu breyta fyrir þá sem eru staðráðnir í að kalla Gylfa Magnússon lygara því staðreyndir skipta engu máli í íslenskri stjórnmálaumræðu.

 


Endalaust rugl

Við höfðum það fyrir þumalputtareglu á meðal við bjuggum í Asíu og Afríku, að þegar við fluttumst til nýs lands gáfum við okkur eitt ár til að átta okkur á hvernig nýja samfélagið virkaði - í stórum dráttum. Þetta gekk yfirleitt vel.

Það gengur hins vegar ekki eins vel á Íslandi þótt að ég hafi búið hér í áratugi og ætti að þekkja mitt heimafólk. Sumu botna ég hreinlega ekkert í.

Ég á til dæmis bágt með að skilja hvernig það gerist að forsætisráðherra skipi til nefndarsetu mann sem hún treystir ekki. Og þó, hún gæti hafa komist að því of seint að vafi léki á um hæfi hans til starfans. Það væri þá ekki í fyrsta skipti í sögu þessarar ríkisstjórnar.

En ég get með engu móti skilið falleraða nefndarmanninn sem nú virðist neita að víkja úr nefndinni sem hann átti að sitja í og leitar eftir lögfræðiáliti sér til stuðnings! 

Hvaða andskotans rugl er þetta?

Eru engin takmörk fyrir lánleysinu í þessu landi?


Þvættingur í Guðna

Ég hef sosum nefnt þetta áður og það hafa margir aðrir gert: pólitísk umræða hér er of oft byggð á þvættingi og útúrsnúningum.

Guðni Ágústsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins var í Kastljósinu í kvöld og sagðist þar vera á móti Evrópusambandinu vegna þess að hann vildi ekki Breta aftur inn í landhelgina. 

Það er nánast útilokað að Guðni viti ekki betur. Evrópusambandið hefur ekkert að gera með landhelgina og mun ekki hafa þótt við gerumst aðilar. Það liggur fyrir.

En svona bulli og þvættingi verður samt haldið áfram. Ef ekki Guðni, þá einhver annar bullukollurinn...


Umboðsmaður í limbó landi

Umboðsmaður skuldara þarf að vera þokkalegur skuldari sjálfur. Um það má ekki vera vafi. Embættismaður í þessu starfi þarf fyrst og síðast að vera trúverðugur.

Sá sem skipaður var í djobbið er það ekki. Jafnvel þótt hann geti gefið langar og flóknar útskýringar á því að hann skuldi í rauninni ekki fimm hundruð milljónirnar sem hann skildi eftir í eignarhaldsfélagi sínu. Og ekki einu sinni þótt hann geti útskýrt að í rauninni skuldi enginn þessar fimm hundruð milljónir, að þær séu einskonar limbópeningar í limbólandi.

Og félagsmálaráðherrann ætti að muna að spyrja þann, sem nú hlýtur óhjákvæmilega að taka við af þessari misheppnuðu skipun, hvort hann/hún séu með einhverjar vafasamar skuldatrossur á eftir sér. Það ætti í raun að vera fyrsta spurningin í hæfnisviðtalinu.

 


Hvaða spuni?

Það er verið að skammast út í aðstoðarmann menntamálaráðherra fyrir að hafa skrifað tölvupóst sem lak til Grapevine. Mogginn gerir það til dæmis svona (svo hlutlaust sem það nú er): http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/07/27/spunaleikrit_afhjupad/ 

En til hvers að vera að skammast? Ef maður les tölvupóstinn og ber hann saman við fréttatilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem var að berast nú síðdegis, þá verður ekki betur séð en að aðstoðarmaðurinn hafi verið fullkomlega með á nótunum um hvernig lendingu væri stefnt að í Magma-málinu.

Ég fæ ekki séð að hann hafi verið að 'spinna' eitt né neitt. Hvort hann ætlaði sér það er svo annað mál...

 Hér er fréttin í Grapevine: http://www.grapevine.is/News/ReadArticle/Government-Spin-FAIL

Og hér er fréttatilkynning efnahagsráðherrans: http://www.efnahagsraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3124


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband