Færsluflokkur: Dægurmál

Asninn Bjartur

Öll lönd þurfa á erlendri fjárfestingu að halda, hvort sem í hlut eiga Bandaríkin, Sviss, Norður Kórea, Sómalía eða Ísland. Þetta er augljóst mál og vefst ekki fyrir fólki úti í hinum stóra heimi.

Nema hér. Af því að við erum svo spes og frábær og miklu klárari en allir aðrir.

Vendingarnar í ‘Magma-málinu’ eru nú farnar að jaðra við efnahagslegt skemmdarverk. Litlir kallar í pólitík eru farnir/farnar á límingunum eins og venjan er hér þegar kemur að ákvörðunum sem skipta máli. Afdalamennskan tröllríður umræðunni.

Erlendir fjárfestar sitja nú í fjárhirslum sínum í fjármálaborgum heimsins, lesa fréttirnar sem berast frá Íslandi og hrista hausinn.

Ekki einasta er þetta auma land farið á hausinn, hugsa þeir með sér, heldur virðist þar allt vera í upplausn, hver höndin er upp á móti annarri, hatast er við útlenda peninga sem brýn þörf er á og ríkisstjórnin virðist enga stjórn hafa á atburðarásinni.

Og hafi þessu lánlausa liði tekist fyrir slysni að landa samningi um erlenda fjárfestingu, þá virðist nú standa til að segja slíkum samningum upp!

Best að láta þá eiga sig, þeir geta étið sitt slátur og spunnið sinn lopa einir og í friði, hugsa fjárfestarnir með sér, það er ekki fyrirhafnarinnar virði að ætla að standa í viðskiptum við þá.

Og þá gleðjast afturhalds- og einangrunarsinnar hér sem aldrei fyrr og telja sér trú um að það sé fínt að vera Bjartur í Sumarhúsum. Sem var náttúrlega asni.


Virðingarvert

Það ber að virða það við Björgólf Thor Björgólfsson að hann ætli að láta allan arð af fyrirtækjum ranna til þess að gera upp skuldasúpuna. Hann sýnir með þessu ábyrgð sem aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar.

Fleiri útrásarvíkingar svokallaðir mættu sýna svipaða ábyrgð og að minnsta kosti láta örlítið af gorgeirnum sem enn þjakar suma þessara manna. 

Venjulegt fólk kann yfirleitt að meta auðmýkt og iðrun; gorgeir og hroki gerir aðeins illt verra. 


Fratfundur

Svokallaður 'blaðamannafundur' sem Björk Guðmundsdóttir og fleiri stóðu fyrir í Norræna húsinu í dag olli mér miklum vonbrigðum. Þetta var alls ekki blaðamannafundur heldur vettvangur fyrir Björk og félaga hennar til að lesa upp sína skoðun á sölunni á HS Orku til Magma Energy.

Að því leyti til var þetta mesta frat.

Engar spurningar voru leyfðar. Því fóru engin skoðanaskipti fram og engin svör veitt við þeim fjölmörgu spurningum sem vöknuðu við upplesturinn. Ekki ljóst hvers vegna þetta form var haft á - en það tryggði náttúrlega þá umfjöllun sem maður hefur séð í íslenskum fjölmiðlum nú í kvöld.

Ég hefði til dæmis viljað spyrja hvaða hlutverki Eva Joly gegnir í þessari baráttu: einn forustumanna undirskriftasöfnunarinnar var ítrekað kynntur sem aðstoðarmaður hennar sem varla var hægt að túlka öðruvísi en svo að hann væri þarna sem slíkur.

Jamm, það er margt skrítið í henni veröld.


Ekkert að marka

Hrunið á Íslandi - og hrunin annars staðar - staðfestu það sem suma hafði grunað að það er ekkert að marka greiningarfyrirtækin svokölluðu, Fitch Ratings, Moody's og hvað þau nú öll heita.

Þau gáfu út fjárhagsleg heilbrigðisvottorð til hægri og vinstri og sögðu aðallega það sem fólk vildi heyra.

Af hverju ætti eitthvað frekar að taka mark á þeim núna? Hefur eitthvað komið fram um að þau hafi breytt vinnuaðferðum sínum?


Úrelt vinnubrögð slitastjórnarinnar

Halldór Backman í slitastjórn Landsbankans fattar þetta ekki alveg. Hann sagði RÚV í kvöld að slitastjórnin vildi fá að vinna í friði og að víst væri verið að kæra menn út og suður.

Það er alveg skiljanlegt og í sjálfu sér eðlileg krafa að slitastjórnin vilji ekki reka sín mál í fjölmiðlum. En það sem Halldór vill ekki fatta er að almenningi kemur við hvað þau í slitastjórninni eru að bauka. Almenningur á rétt á að fylgjast með því sem þar er verið að gera. Almenningur á þennan banka. Slitastjórnin verður að taka tillit til þess og fara bil beggja.

Vinnubrögðin sem Halldór Backman er fulltrúi fyrir eiga að vera liðin tíð. Það var meðal annars vegna svona hugarfars sem allt fór hér til andskotans. 


Tilboð sem vart er hægt að hafna

Auðvitað er hræðilegt til þess að vita að Jón Ásgeir Jóhannesson sé um það bil að missa síðustu krónurnar í kjaftinn á lögfræðingum í útlöndum.

Ég fór að skoða listann sem hann hefur afhent í London og sé þar að ekki er allt verðmikið sem hann á hér heima. Þar á meðal er skíðaskáli einhvers staðar á íslenska hálendingu - metinn á tvær milljónir króna. 

Ég vil leggja mitt af mörkum til að hjálpa Jóni úr hremmingunum og býð hér með 2.1 milljónir í þennan skála. 


Nei, takk

Það stefnir í að ekki minna en 100-140 milljarðar króna lendi á ríkissjóði vegna gengislánaklúðursins. Með öðrum orðum: við skattgreiðendur eigum von á að fá þann reikning ofan á alla hina sem hlotist hafa, og eiga eftir að hljótast, af bílífisæðinu og bankaránunum miklu.

Viðskiptablaðið segir í dag að ef miðað verði við “samningsvexti gengistryggðra lána mun um 350 milljarða króna eignartilfærsla eiga sér stað frá fjármálafyrirtækjum yfir til lántakenda,” eins og segir í frétt blaðsins.

Mótmælaaðgerðir lítils hóps fólks við Seðlabankann undanfarna daga eru auðskiljanlegar í þessu ljósi. Auðvitað vilja þeir sem álpuðust til að taka gengislánin ekki borga 350 milljarðana og lái þeim hver sem vill. Þeir vilja miklu frekar fá þessa peninga í sinn hlut.

Ég hef samúð með þeim sem berjast í bökkum við að halda í þak yfir höfuð sitt og barna sinna – þeim sem voru narraðir til að taka þessi ólukkulán og þræla nú og púla dagana langa til að geta staðið í skilum. Ég þekki svoleiðis fólk.

En ég hef enga sérstaka samúð með þeim sem í græðiskasti tóku lán til að kaupa sér flotta bíla, óþarfa húsnæði, harðvið á öll gólf og veggi, lúxusferðalög og ég veit ekki hvað, eins og tíðkast í vanþróuðum samfélögum. Sumt af þesskonar fólki fer nú í fararbroddi þeirra sem ekki vilja borga skuldir sínar, hvorki niðurfærðar né óskiptar. Ég þekki líka fólk í þessum hópi.

Ég er alveg til í að leggja mitt af mörkum til að aðstoða þá sem eru í fyrri hópnum – en ekki þeim síðari. Þeir verða að borga skuldir sínar sjálfir.


Landráðakenning Lilju

Lilja Mósesdóttir heldur áfram að koma manni á óvart.

Nú síðast ber hún það upp á samstarfsmenn sína í pólitík að þeir séu leppar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hafi selt honum landið og að embættismenn sjóðsins séu hin raunverulegu stjórnvöld hér.

Í ofanálag segir þessi stjórnarþingmaður að engin ástæða sé til að taka mark á yfirlýstri stefnu stjórnvalda.

Ég hef áður velt fyrir mér hvort hún sé ekki í röngu liði: hver þarf óvini ef vinirnir eru svona?

Er annars ekki örugglega brot á stjórnarskrá að selja landið undir erlend yfirráð?

Hvers vegna stígur þá ekki Lilja Mósesdóttir skrefið til fulls og kærir Steingrím og Jóhönnu fyrir landráð?



Án samhengis

Stöð 2 útskýrði ekki fyrir mér í kvöld hvaða áhrif "tilmæli" Seðlabankans og FME hafa á gjaldeyristengdu lánin heldur lét nægja að útskýra hver yrði munurinn á alls óverðtryggðum gengislánum og lánum með Seðlabankavöxtunum. Þetta var gagnslítið.

Sjónvarpið stóð sig betur - setti málið í það samhengi sem nauðsynlegt er: útskýrði stöðu láns með gengistryggingu, án gengistryggingar og svo með Seðlabankavöxtum. Samhengið er grundvallaratriði hér sem í annarri upplýsingamiðlun. 

Hins vegar sé ég ekki betur en að Stöð 2 sé búinn að ná sér í hörkufínan fréttalesara - glæsilega unga konu sem ég náði ekki nafninu á og hef ekki séð þarna áður (enda búinn að vera í burtu í nokkrar vikur).  Vonandi að þeir haldi í hana sem lengst.


Hikandi Sjálfstæðismenn

Sjálfstæðisflokknum er vandi á höndum, eins og hinum flokkunum sem skópu þær aðstæður sem leiddu okkur í yfirstandandi hörmungar.

Bjarni Benediktsson er ekki öfundsverður af því að vera formaður í flokknum eins og fyrir honum er nú komið. Síst af öllu með aðeins 62% atkvæða á landsfundi. 

Það getur ekki talist mjög afgerandi stuðningur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband