Færsluflokkur: Dægurmál
Lært af hvíta manninum
18.11.2010 | 16:09
LILONGWE, MALAVÍ: Það hefur komið ánægjulega á óvart að sjá hversu vel Malaví virðist standa þessa stundina miðað við ástandið þegar ég kom hér síðast fyrir einum 12-13 árum. Þá blasti við manni örvæntingarfull fátækt hvar sem litið var nú er nægur matur fyrir alla, fjölmargir að byggja sér ný hús og víða byggingavörumarkaðir meðfram þjóðvegum. Vegakerfið hefur verið stórbætt, bílum fjölgað og væntanleg millistétt ferðast um á reiðhjólum sem er stundum merki um vaxandi velsæld. Fólk virðist stíga léttar til jarðar.
Þeir eru enda sagðir vinnusamir, Malavímenn, og eru reiðubúnir að leggja talsvert á sig til að sjá fyrir sér og sínum. Hitti blindan, áttræðan mann í gær sem hefur misst tíu af tólf börnum sínum en var samt harla ánægður með lífshlaupið.
- Ég vann mikið, búskapurinn gekk vel og gat hjálpað nágrönnum mínum, sagði hann. - Börnin mín sem komust til fullorðinsára voru dugleg. Ég er ánægður með það.
Stórar myndir af Bingu wa Mutharika forseta áberandi hvar sem farið er. Hann hefur staðið sig að mörgu leyti ágætlega og hlaut dúndrandi endurkosningu í maí í fyrra. Hann er þegar farinn að hugsa til næstu kosninga þótt hann megi ekki bjóða sig fram aftur en nú fer hann um landið og hvetur fólk til að styðja yngri bróður sinn, Peter.
Varaforsetinn, frú Joyce Banda, sem er ágætlega menntuð og reynd kona, hafði áður látið í það skína að hún myndi gjarnan vera í framboði. Það hefur ekki mælst vel fyrir í forsetahöllinni, síður en svo. Nú er hún í ónáð forsetans og hans manna og fær hvergi að hafa sig í frammi. Bingu forseti líkti forsetaembættinu við reiðhjól á blaðamannafundi hér í Lilongwe fyrr í vikunni og sagði að aðeins einn maður gæti stýrt hjólinu, varaforsetinn sæti bara á bögglaberanum. Það verður fróðlegt að fylgjast með pólitíkinni hér fram að kosningunum 2013.
Á meðan ferðast Bingu um heiminn, tók m.a. þátt í G-20 fundinum í Kóreu á dögunum. Þingi var frestað þegar hann kom heim svo þingmenn meirihlutans gætu farið út á flugvöll og fagnað foringja sínum. Í fyrramálið er hann sagður á leið til Botswana: vikapiltur hér á gistihúsinu sagði að það gæti farið svo að ég yrði vakinn um fjögurleytið í nótt, því þá væri forsetinn á leið út á flugvöll og það gæti orðið einhver hávaði af bílalestinni sem jafnan fylgdi honum.
- Af hverju eruð þið með svona vesen þótt forsetinn sé að fara í flug? spurði ég.
Hann skellti á lær sér og hló hátt: - Eeeeh, þið hvítu mennirnir kennduð okkur þetta!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Réttlæti götunnar í Mangochi
16.11.2010 | 19:55
MANGOCHI, MALAVÍ: Í þessum bæ við suðurenda Malaví-vatns, þar sem alla jafna ber fátt til tíðinda, varð uppi fótur og fit undir hádegið þegar stór hópur fólks með æpandi krakka í fararbroddi kom skálmandi eftir aðalgötunni. Í miðjum hópnum var ungur maður sem hafði verið bundinn á höndum með tágum. Sumir í hópnum slógu til hans eða spörkuðu.
- Sennilega þjófur, sagði maður sem ég var að spjalla við. Það er verið að fara með hann á lögreglustöðina.
Lögreglustöðin var í næsta húsi og þar sátu tveir lögreglumenn á tröppunum í makindum, reyktu sígarettur og biðu eftir því að þeim væri færður fanginn.
Á meðan hersingin nálgaðist fengust frekari fréttir af meintu afbroti. Fanginn var sagður hafa lent í slagsmálum við nágranna sinn og lagt til hans með skærum. Granninn var kominn á sjúkrahúsið.
Þetta er algengur aðgangur þegar brotamenn eiga í hlut, var mér sagt. Borgararnir taka manninn og færa hann í hendur yfirvalda. Brotamaðurinn sem hafði verið bundinn með tágum var ekki upplitsdjarfur enda lentur í vondum málum. Ef granninn skyldi deyja af völdum skæraárásarinnar verður hann umsvifalaust dæmdur til dauða.
- Dauðarefsingum er ekki framfylgt í Malaví lengur, sagði ferðafélagi minn, - en margir dauðadæmdir menn deyja engu að síður í fangelsum. Meðferðin er vond og þeir fá litla aðstoð, jafnvel þótt þeir verði alvarlega veikir.
Svo nam hersingin staðar fyrir framan lögreglustöðina. Þar tók einn úr borgaralöggunni til máls, útskýrði hvert erindið væri og hinn handtekni gekk rakleiðis inn. Annar lögreglumannanna spurði hópinn nokkurra spurninga og plokkaði út eina þrjá sem voru einnig kallaðir inn, sjálfsagt til að gefa skýrslur.
Og þar með var því lokið. Lítill hópur beið fyrir utan í tíu mínútur eða svo en eftir það fóru allir heim.
Sjálfum var mér nokkuð brugðið við þetta en hef þó séð ákafari hópa grípa meinta brotamenn í Afríku. Yfirleitt eru þeir barðir í klessu áður en lögreglan er kölluð til. Í einu blaðanna hér í dag var mynd af einum slíkum sem hafði verið gripinn fyrir að reyna að stela bíl og lá í blóði sínu í rykinu. Ekki fylgdi sögunni hvort hann lifði göturéttlætið af.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Samban er horfin úr loftinu
13.11.2010 | 10:39
MAPUTO, MÓSAMBÍK: Þegar ég kom hér síðast fyrir rúmum áratug var grimmilegri borgarastyrjöld nýlokið. Mér fannst þá vera bjartsýni ríkjandi eins og væri samba í loftinu. Það er ekki eins í dag en það ber að hafa í huga að ég hef aðeins verið hér í nokkra daga og er á förum aftur.
Tilfinningin sem maður fær nú af því að fara hér um götur og torg og tala við fólk er miklu frekar sú að fólk sé orðið þreytt á að bíða eftir betra lífinu sem það reiknaði með eftir að stríðinu lauk. Þótt það hafi óneitanlega orðið miklar framfarir í Mósambík á þessum tíma er enn margt í skralli.
Þeir voru enda óheppnari en margir aðrir með nýlenduherra: Portúgalar voru sennilega verstu nýlenduherrar sögunnar, næst á eftir Belgum. Þegar portúgalarnir fóru héðan í kjölfar byltingarinnar í Portúgal 1975 létu þeir sér sæma að brenna verksmiðjur sínar og byggingar eða sprengja allt draslið í loft upp.
Það besta hér er náttúrlega að hér ríkir pólitískur stöðugleiki, Frelimo og Renamo sem börðust í borgarastyrjöldinni (Frelimo vann stríð og allar kosningar síðan) eru nú venjulegir stjórnmálaflokkar, hættir að beita byssum.
Marxisminn, sem rekinn var hér í upphafi, er nú á bak og burt en maður þarf ekki að tala við marga til að heyra að opinberar framkvæmdir beri keim af stórum sýningarverkefnum sem kosti mikið en skili litlu í hlut samfélagsins. Á næsta ári ætla Kínverjar (jú, auðvitað eru þeir hér líka) að byggja mikla brú á milli höfuðborgarinnar og eyjarinnar Catembe sem liggur hér rétt fyrir utan: maður sagði mér í morgun að brúin myndi sennilega kosta tvö þúsund milljón dollara. Í fljótu bragði sér maður ekki að þetta sé alveg bráðnauðsynlegt, ég fór sjálfur með ferju út í þessa eyju í gær og var fljótur að því. En þar á sjálfsagt að byggja lúxushótel í þeirri von að ferðamenn komi með peninga inn í hagkerfið.
Og ekki veitir af, náttúruhamfarir hér á síðustu árum hafa kostað mikið og eyðilagt mikið af þeirri þróunarvinnu sem unnin hefur verið.
Í næstu viku verður það svo Malaví, eitthvert fátækasta og aumasta land heims.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hádegisverður á Happiness
5.11.2010 | 21:19
FARAFENNI, GAMBÍU: Þetta er hálfgert eymdarpláss, um það bil í miðju landinu, og ekki að sjá að mikið sé að gerast. Karlar sitja undir trjám í hitanum við aðalgötuna og ræða málin, konurnar stika um með börnin. Götur og götuhorn hér, og víðar þar sem við höfum farið um, eru fullar af búfénaði, einkum sauðfé og kúm, enda er fórnarhátíð múslima, Eid al-Adha, framundan og þá þurfa allir að hafa eignast nýtt kjöt til að borða og deila með öðrum.
Bílstjórinn keypti myndarlegan hrút á fæti til að fara með til borgarinnar. Í bílnum? spurði ég, varla búinn að ná mér eftir geiturnar og asnana sem héldu hávaðasamt partí fyrir utan gluggann minn á gistihúsinu í nótt. Nei, hann ætlaði að fá vin sinn til að koma skepnunni til sín eftir helgina. Það verður heimaslátrun, sagði hann og skildi ekki alveg hvers vegna mér datt í hug eitthvað annað.
Við fengum að borða á veitingastaðnum Happiness. Hrísgrjón og seigar kjöttægjur. Ágætlega bragðgott. Ráðskonan er hávær og glaðvær og hikaði ekki við að pota í belginn á mér (sem hér er vitaskuld höfðingjamerki, eða þannig túlka ég það).
Tveir hvítir menn voru við næsta borð, annar sofandi. Ég tók hinn tali og þá kom í ljós að þeir eru spánskir næringarfræðingar sem eru að vinna enn innar í landinu (Spánverjar eru farnir að láta sjá sig í Vestur-Afríku til að reyna að sporna við stöðugum straumi flóttamanna úr þessum heimshluta sem margir enda í spánsku fóstri á Kanaríeyjum). Bíllinn þeirra hafði bilað og nú var beðið eftir viðgerðarmanni. Sú bið hafði þegar tekið tvo daga. Ég sagist vera Íslendingur á stuttri yfirreið.
Þá reisti sig upp sá sem hafði sofið sagði forviða: Ertu Íslendingur?
Já, en þú?
Nei, sagði hann á lýtalausri íslensku, ég er Spánverji en ég las mannfræði við Háskóla Íslands eitt ár. Svo fór ég í hjúkrun og er búinn að vera hér í mánuð. Ég heiti Vilhjálmur.
Þetta var náttúrlega ekki alveg ónýtt fyrir mig, mannfræðinemann, og við áttum ágætt tal...sem auðvitað fór allt of fljótt út í kreppuna á Íslandi. Þá var kominn tími til að haska sér, maður þarf ekki að fara alla leið til Gambíu til að tala um andskotans kreppuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Barnaníðingar og lækning á eyðni
3.11.2010 | 20:40
BANJUL, GAMBÍU: Stjórnvöld hér hafa vaxandi áhyggjur af því að hingað komi kynlífsbrjálaðir ferðamenn í þeim tilgangi að níðast á smákrökkum. Á hótelum liggja frammi bæklingar um þetta efni með áskorunum um að liggja ekki á vitneskju sinni um slíka hluti.
Barnaníðingarnir eru ekki áberandi á götum úti en þeim mun meira er um sjúskaða, hvíta miðaldra karla sem hafa krækt sér í spengilegar og íturvaxnar ungar gambískar konur. Á túristasvæðum sér maður slík pör ganga um hönd í hönd, rétt eins og var svo áberandi í Bangkok þegar við bjuggum þar.
Jafnhliða þessum iðnaði fjölgar stöðugt HIV-smitum hér í þessu litla landi þar sem þrír af hverjum fjórum eru múslimar. Almenn eru HIV-smit yfirleitt færri í löndum Islam en í dag sagði mér ungur maður að það væru nærri 50 þúsund HIV-smitaðir í landinu íbúar hér eru 1.4 milljónir tæpar. Það er býsna hátt hlutfall.
En hér er glaðlegt fólk og vingjarnlegt í samræmi við orðspor Vestur-Afríku. Það manni með kostum og kynjum og vill allt fyrir mann gera. Ég ætla út um sveitir hér næstu 2-3 daga; þá fyrst hefur maður komið til lands að maður hefur farið um sveitir og séð hvernig venjulegt fólk lifir sínu lífi. Borgir eru alls staðar svipaðar.
Og hvar sem maður fer um höfuðborgina blasa við stórar myndir af forsetanum, Yahya Jammeh sem rændi völdum 1994 en hefur síðan sigrað þrisvar í umdeildum kosningum og hefur heldur slæmt orð á sér þegar kemur að mannréttindum og slíkum málum. Hann ber marga titla og flaggar þeim öllum. Annar ungur maður sagði mér, í fúlustu alvöru, að forsetinn væri að vinna að því að breyta Gambíu í konungdæmi svo hann gæti verið kóngur til æviloka. Þá geta verið kóngafréttir í ríkissjónvarpinu hér, ekki bara endalausar fréttir af forsetanum.
Hann vakti nokkra athygli á alþjóðavettvangi 2007 þegar hann sagðist hafa uppgötvað aðferð til að lækna eyðni sem væri gott í þessu landi, eins og rakið var að ofan. Lækningaaðferð forsetans byggist á grænni kryddstöppu, beiskum gulum vökva og bananaáti. Hann fullyrðir að þetta meðal skotvirki.
Fulltrúi þróunarstofnunar SÞ, sem lýsti efasemdum sínum um gagnsemi kássunnar og taldi hana jafnvel geta ýtt undir óábyrga kynhegðun, var umsvifalaust rekin úr landi.
Það er því best að segja ekki meira í bili.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Smámál fyrir Má
30.10.2010 | 13:35
Almennt verður maður að taka gjaldeyrishöftunum með stillingu og kyngja því að þeirra sé þörf.
En smáatriði í útfærslu þeirra sýnist hægt að laga.
Í haust þurfti ég að fá þrjá dollara til að senda skóla vestur í Ameríku til að greiða fyrir afrit af gömlum prófum. Ég fór í banka í Kópavogi og var þá beðinn um farseðil til að sanna að ég væri að fara til útlanda og þyrfti peningana. Farseðilinn hafði ég ekki enda var ég ekkert að fara, þurfti bara þrjá dollara fyrir ljósrit vestur í Ohio.
Það var ekki hægt, sagði gjaldkerinn og bar fyrir sig regluverki Seðlabankans.
Ég fékk því þrjá dollara annars staðar og sendi í pósti til Ameríku (sem var ábyggilega brot á gjaldeyrisreglunum).
Nú er ég hins vegar á leið úr landi og fór í gær með farseðilinn minn í banka í Kringlunni.
Nei, því miður, sagði gjaldkerinn, þú verður að fara í þinn eigin viðskiptabanka. Það eru reglurnar sem Seðlabankinn setur.
Það kostaði meiri fyrirhöfn (auðvitað ekki banvæna) sem hefði átt að vera óþörf.
Már Guðmundsson Seðlabankastjóri er glöggur maður og hagsýnn. Hann hlýtur að geta snúið þessa bjánalegu agnúa af reglunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Góðar fréttir af aðlögunarferlinu
29.10.2010 | 00:50
Það voru góðar fréttir sem Mogginn flutti í gær af umsóknar/aðlögunarferlinu að ESB. Sambandið ætlast til þess að Íslendingar taki upp Evru, geri umbætur á dóms- og stjórnkerfi og aðlagi atvinnuvegina að þeim búskaparháttum sem tíðkast meðal menningarþjóða Evrópu.
Mér finnst þetta góðar fréttir því þær gefa til kynna að um síðir megi vænta þess að vit verði haft fyrir okkur um ýmis þau mál sem hafa reynst okkur ofviða. Gleymum því ekki að helstu umbætur á t.d. dómskerfinu hér hafa verið gerðar til samræmis við góða siði í Evrópu. Aðskilnaður lögreglu- og dómsvalds, sem ekki hafðist í gegn fyrr en eldri maður á Akureyri neyddist til að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, er bara eitt dæmi um það. Og þótt ýmislegt umbótastarf sé verið að vinna hér í stjórnkerfinu þessi misserin (eins og þeir vita sem vilja vita), þá þarf vafalaust utanaðkomandi aðstoð til að stíga skrefin til fulls.
Enginn þarf að efast um að ýmislegt er það við kerfið í Evrópu sem betur mætti fara (og reynsla Finna og fleiri þjóða er sú að með upptöku Evru hækkar verðlag fyrst í stað en jafnar sig svo). En það er þó allt miklu betra en það sem hér hefur orðið til í moðsuðu ónýts stjórnmála- og hagsmunakerfis, svo ekki sé minnst á hagkerfið með krónuna sem ekkert er hægt að treysta á. Og áttum okkur líka á því að þeir sem berjast harðast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu eru fulltrúar þeirra sérhagsmunaafla sem hingað til hafa getað ráðskast með örlög og efni þjóðarinnar að eigin vild. Ekki undarlegt þótt þeir séu í fýlu.
Af þeim kostum sem bjóðast er ESB hinn eini sem felur í sér mátt og vit til að taka völdin af þessu fólki. Það á það skilið og við hin eigum það skilið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Nátttröllin
25.10.2010 | 16:50
Það var í rauninni svolítið óhugnanlegt að horfa á ágæta mynd um forsetakjör Vigdísar Finnbogadóttur í sjónvarpinu í gærkvöld.
Það óhugnanlega var hversu áberandi kvenfyrirlitningin var í opinberri umræðu á þessum tíma sumir keppinauta hennar í kosningunum voru eins og nátttröll sem fannst augljóslega gjörsamlega út í hött að konukind væri að abbast þetta upp á dekk - fyrir nú utan ýmislegt það sem sagt var (og sagt er enn).
Það var líka óhugnanlegt að hugsa til þess hversu langt er í land í jafnréttismálum hér, þótt mikið hafi áunnist á ekki lengri tíma en þetta. Og eru þó íslenskar konur miklu betur staddar en flestar aðrar konur í veröldinni.
Ég passaði mig náttúrlega á að láta ekki sjá mig á útifundinum, minnugur þess að kona ein í mannþrönginni á Lækjartorgi sagði við mig á Kvennafrídaginn 1975: Æ, ættir þú ekki bara að vera heima.
Ég veit hins vegar ekki alveg hvað mér finnst um stórt skilti sem ung kona bar hátt á lofti með áletruninni Píka. Ég skil ekki alveg hvað hún er að fara (sjá hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/10/25/um_50_000_i_midborginni/)Hitt þykist ég vita, að ef karl sæist í næstu 1. maí göngu sveiflandi skilti með áletruninni Tittlingur, þá yrði allt vitlaust.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Aðgát skal höfð...
14.10.2010 | 18:17
Guðmundur Andri Skúlason heitir maður, stjórnarmaður í Borgarahreyfingunni og frammámaður í Samtökum lánþega. Ég þekki þennan mann ekkert en mér finnst óhjákvæmilegt að taka upp hanskann fyrir hann.
Á Pressunni í gær birtist frétt um að Guðmundur Andri væri dæmdur ofbeldisglæpamaður. Aðrir miðlar tóku þetta upp: þessi kújón er glæpamaður.
Nú hefur Guðmundur Andri sent frá sér yfirlýsingu til útskýringar skilorðsbundnum dómi sem hann hlaut fyrir ofbeldi gegn systur sinni sem hefur lengi verið hættulega veik af alkóhólisma. Það er ekki falleg saga frekar en við er að búast.
Enginn, sem ekki hefur reynt það á eigin skinni, getur skilið þá örvæntingu og þann óumræðilega harm sem fylgir því að glíma við sturlun alkóhólismans hvað þá þegar um er að ræða ástvin eða ættingja. Það kostar feiknarleg átök og þau átök geta stundum orðið líkamleg. Það er augljóslega ekki til fyrirmyndar en getur verið skiljanlegt og jafnvel eina ráðið.
Nú hef ég ekki lesið dóminn yfir Guðmundi Andra heldur aðeins frásagnir Pressunnar og hans sjálfs. Af þeim er ljóst að dómarinn taldi að ekki væri um of að byggja á framburði Guðmundar Andra og má af því draga einhverjar ályktanir.
Ég hef hins vegar enga ástæðu til að efast um að hann elski systur sína og vilji henni vel. En mér finnst ég hafa ástæðu til að efast um að þessi frétt Pressunnar hafi átt rétt á sér nú ekki síst þegar kemur í ljós að fyrir ári síðan var sama frétt birt í DV og að Guðmundur Andri skýrði þá sína hlið á málinu.
Það er ævinlega varasamt að fjalla opinberlega um fjölskylduharmleiki. Pressan hefði átt að hugsa málið betur áður en látið var vaða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þetta er eitthvað dularfullt
13.10.2010 | 21:10
Er ekki eitthvað undarlegt við hversu fáir hafa nýtt sér þau úrræði sem bjóðast fólki í blankheitum og greiðsluvanda? Mér finnst þetta dularfullt. Þeir sem ég þekki og veit að eru í greiðsluvanda hafa leitað allra leiða til að fá aðstoð og fengið hana að verulegu leyti. Af hverju ekki að þiggja hjálp sem stendur til boða ef allt er að fara fjandans til?
Er það kannski sálarkreppa sem kemur í veg fyrir það? Það er líka hægt að fá aðstoð vegna slíkra kvilla.
Eða er kannski gert allt of mikið úr vandanum? Mig er farið að gruna það og læt mig bara hafa það þótt alls konar kverúlantar og hagsmunapotarar ráðist nú að mér með heitingum. Það er allt of mikið hlustað á svoleiðis fólk nú á tímum lýðskrumsins.
Ég er raunar svo lánsamur að skulda Íbúðalánasjóði ekkert enda var ég um það bil búinn að borga upp húsnæðisskuldir mínar þegar Ballið mikla byrjaði. Ég myndi því ekkert hagnast á hinni svokölluðu flötu niðurfellingu skulda (sem hlýtur að vera dómadags vitleysa í sjálfu sér. Ég er ekki nógu mikill hagfræðingur til að útskýra hvers vegna og þarf þess ekki, margir reikningsglöggir menn hafa tekið af mér ómakið).
En mér er þó ljóst að eitt myndi gerast með þessari flötu niðurfellingu. Fólk sem ég þekki og fór ekki bara óvarlega í fjárfestingum á Ballinu, heldur beinlínis glæfralega, myndi fá 20% afslátt, eða hvað það nú yrði. Og þeim mun meiri sem skuldirnar væru, þeim mun meiri væri afslátturinn. Ég myndi ekkert fá, enda þarf ég ekki á því að halda sem væri sosum réttlæti út af fyrir sig.
En einhver þarf þá að borga þá 200 milljarða sem þetta myndi kosta. Og þar kemur að mér. Ég myndi þurfa að borga þetta inn í Íbúðalánasjóð sem þegn ríkisins og skattgreiðandi. Og að auki myndi lífeyrissjóðurinn minn, sem ég hef borgað samviskusamlega til í 40 ár, skera niður væntanlegan lífeyri minn.
Sem sagt: við hin þyrftum að borga þetta allt saman.
Það hlýtur að vera hægt að fara skynsamlegri og réttlátari leið til að aðstoða þá sem raunverulega þurfa á hjálp að halda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)