Færsluflokkur: Dægurmál
Þurfti ekki forsetann til
8.2.2009 | 08:57
Geir Haarde segir sig hafa grun um að forseti Íslands hafi vitað af falli ríkisstjórnarinnar með nokkurra daga fyrirvara.
Það vissi ég líka - og hérumbil allir aðrir sem ég þekki.
Það hafði blasað við í all langan tíma að sú stjórn myndi ekki hanga mikið lengur. Ég þurfti ekki forsetann til að segja mér það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gott hjá Jóhönnu
4.2.2009 | 04:52
Það hefur lengi viðgengist að forsætisráðuneytið sendi fjölmiðlum dagskrá ríkisstjórnarfunda að þeim loknum. Til skamms tíma voru þetta sömu upplýsingarnar í hverri sendingu: Umræðuefni þingmál. Fullkomlega gagnslaust.
En í gær kom fyrsta sendingin frá ráðuneytinu eftir að nýja stjórnin tók við - og þá bar svo við að raunverulegar upplýsingar var þar að finna: forsætisráðherra var með þetta mál, utanríkisráðherra með þetta og heilbrigðisráðherra með sitt.
Þetta er ekki stórt atriði en feiknarlega mikilvægt engu að síður og vonandi til marks um að verið sé að opna leyndarráðið svolítið.
Gott hjá Jóhönnu og hennar fólki!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Söguleg tækifæri á 80 dögum
3.2.2009 | 05:19
Það er ekki bara bráðabirgðastjórn Jóhönnu sem verður dæmd af því hversu vel hún miðlar upplýsingum. Sú stjórn hlýtur að hafa lært af mistökum fráfarandi stjórnar sem einhvernveginn hafði ekki lag á því að segja frá verkum sínum og framtíðarsýn á trúverðugan hátt. (Ég held sosum ekki að það hafi verið fastmótuð og meðvituð stefna Geirs og félaga miklu frekar hitt að sú stjórn var að morgu leyti afsprengi valdakúltúrs og stjórnkerfis sem leggur lítið upp úr opinni stjórnsýslu og hreinskilinni umræðu fyrir opnum tjöldum.)
Nei, það er ekki bara nýja ríkisstjórnin sem nú þarf að sýna að hún hafi lært af mistökum nýgenginnar fortíðar. Fjölmiðlar þurfa líka að sanna sig upp á nýtt. Kannanir hafa verið að sýna að traust á þeim hefur minnkað og þeir ramba meira og minna allir á barmi gjaldþrota - meira að segja Mogginn sem til skamms tíma var álíka stöðugur og óbifanlegur og Heimaklettur (eða strandaður búrhvalur, allt eftir því hvernig menn líta á málið).
Stjórn Jóhönnu hefur 80 daga til að sýna hvað í henni býr. Fjölmiðlarnir hafa í raun sama tíma til að sýna hið sama; hafa þeir lært af reynslunni og þeim þætti sem þeir áttu í veislunni miklu? Munu þeir þjóna raunverulegum tilgangi sínum í kosningabaráttunni (að upplýsa, fræða og skemmta) eða halda þeir áfram að flaksa í vindinum og elta það popp sem uppi er á hverjum tíma? Munu þeir láta hávaða og gaspur á bloggum (eins og til dæmis þessu) ráða för eða munu þeir nota þetta tækifæri til að upplýsa lesendur sína, áheyrendur og áhorfendur um hvað skilur raunverulega á milli gylliboða flokkanna og hvað er satt og hvað er logið og hvað er blaður?
Eða verðum við áfram trakteruð á því að stelpan sem kemur fram í sjónvarpi í glansgalla sé ofurstjarna og að bloggarinn sem er rífur mestan kjaft og eys svívirðingum yfir mann og annan sé ofurbloggari sem slái við bæði Laxness og Þórbergi í snilldarhugsun og stílbrögðum?
Ætlar Mogginn að sýna og sanna á næstu 80 dögum að hann sé ekki málgagn þessa arms eða hins í Sjálfstæðisflokknum heldur dagblað sem man sögulegt hlutverk sitt og sinnir skyldum sínum við lesendur og þjóðina? Ætlar Fréttablaðið að sýna og sanna að það sé ekki Baugsmiðill í stríði við Davíð og hans meinta arm í flokknum heldur raunverulegt mótvægi við Moggann? Ætlar DV að gera eitthvað annað en að andskotast í Mogganum og kalla menn ýmist glæpona eða ofurstjörnur?
Eða er til of mikils mælst?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vanúatú fyrir útrásarvíkinga?
2.2.2009 | 08:24
Ég sá á einhverju bloggi um daginn að mönnum þætti mátulegt á útrásarvíkingana að senda þá til Vanúatú, sennilega af því að sá staður væri sennilega á heimsenda og að þar myndu þeir veslast upp og verða að engu.
Ekki endilega rétt. Gleymum ekki að pabbi Línu langsokks var negrakóngur í Suðurhöfum eins og segir í bókum og það gæti allt eins orðið hlutskipti íslenskra útrásarvíkinga sem sendir yrðu þangað suðureftir.
Ég hef reyndar komið til Vanúatú og séð svolítið af furðum þess staðar. Heimamenn telja um 230 þúsund og eru Melanesar, þ.e. skyldir fólkinu á Papúa-Nýju Gíneu, Solomonseyjum og þeim stöðum og fjarskyldir frumbyggjum Ástralíu. Yfirleitt mjög dökkir á hörund. Í höfuðstaðnum Port Vila sér maður líka það furðulega fyrirbæri að bikasvört börnin eru ljóshærð! Það vex að vísu af þeim um fermingaraldur en mörg eru fallega gullhærð fram að því.
En það er ekki það furðulegasta við Vanúatú og þá kemur að pabba Línu langsokks. Þarna er nefnilega sértrúarflokkur sem er það sem kallað er cargo cult: þetta er fólk sem trúir því að guðlegar verur muni færa þeim veraldlegar gjafir, dót og græjur sem sé kargó. Og útrásarvíkingarnir hafa átt nóg af kargói, dóti og græjum.
Þessi hópur býr undir eldfjalli á eynni Tanna, sem er syðst í Vanúatú-eyjaklasanum. Guðinn þeirra á Tanna er kallaður John Frum og á mikið af kargói. Hann birtist ættbálkahöfðingjum fyrst í kringum 1930 og hvatti þá til að halda í sína siði en fara ekki að kenningum bresku og frönsku nýlendukristniboðanna sem voru að setja þeim allskonar reglur um hvað mætti og hvað mætti ekki. Þá hét landið Nýju Hebrideseyjar en fékk svo nafnið Vanuatu (landið eilífa) eftir sjálfstæði. Það var svo ekki fyrr en í síðari heimsstyrjöldinni sem söfnuðurinn fór að vaxa, því þá komu Ameríkanar með einhver lifandis ósköp af dóti og græjum.
Tanna-menn eru sannfærðir um að John Frum hafi verið Ameríkani. Og 15. febrúar ár hvert halda þeir hátíð til að undirbúa endurkomu frelsara síns, Johns Frum. Þeir klæða sig í heimagerða ameríska hermannabúninga og dansa í kringum bandaríska fánann.
Ég sé því ekki annað en að þetta væri alveg kjörinn staður fyrir einhverja af þeim fjármálasnillingum sem riðu röftum í íslensku efnahagslífi fram á síðustu vikur.Þeir geta tekið allt draslið sitt með sér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um leið og Jónas Fr er farinn...
31.1.2009 | 18:17
Sko til! Það þurfti ekki annað en að fjarlægja Jónas Fr. úr Fjármálaeftirlitinu til að stofnunin færi að veita upplýsingar, sbr. Moggann í gær (eða var það í dag?) þar sem starfsmaður eftirlitsins skrifar ágæta grein um vinnubrögð og aðferðir. Greinin svaraði að vísu ekki öllum spurningum sem á brenna - en guð láti gott á vita.
Og svo aðeins um Kastljósið í gærkvöld sem ég sá (eða aðallega heyrði) á netinu í kvöld:
Þorbjörg Helga bæjarfulltrúi virtist ekki alveg átta sig á því að nafni minn og sonur var ekki að tala um að einkalíf bæjarfulltrúa væri undir leyndarhjúp, heldur hvernig ákvarðanir verða til. Þannig skildi ég hann, amk.
Það sem skiptir máli er að borgurunum sé ljóst hvernig og hvers vegna þessi ákvörðun er tekin en ekki hin.
Það skiptir til dæmis máli hvernig Vilhjálmi fyrrverandi og hans samherjum tókst að komast að þeirri niðurstöðu að best væri að gefa útrásarvíkingunum Orkuveituna. Það skiptir máli hvernig ákvarðanir eru teknar um skipun þessa eða hins í embætti eða stöðu þegar dómnefndir komast að allt annarri niðurstöðu. Það skiptir máli hvernig það var ákveðið að færa Íhaldinu einn banka og Framsókn annan. Og það skiptir máli hvernig og hvers vegna fjármálalífið var afhent óábyrgum gróðapungum á meðan stjórnmálaforustan sat sofandi hjá.
Það er þetta sem skiptir máli en ekki hvort þessi pólitíkus eða hinn var fullur á þorrablótinu í fyrra.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gaspur eða peysuföt
31.1.2009 | 09:39
Nú kemur í ljós hvern mann hinn nýi formaður Framsóknar hefur að geyma. Ef rétt er hjá honum að stjórnarsáttmáladrögin Jóhönnu hafi bara verið venjulegt flokkspólitískt gaspur um að stefna skuli að og að hafa beri í huga, þá er guðsþakkarvert að einhver hafi haft döngun í sér að segja stopp, eigum við ekki að láta þetta hafa einhverja raunverulega þýðingu. Það virkar til dæmis ekki vel á mig að í plagginu skuli ekki hafa verið fastsett dagsetning á kosningar.
En ef Framsókn er hinsvegar enn í gömlu peysufötunum og er einfaldlega að tryggja sig og sína - ekki síst gamla góða helmingaskiptakerfið - þá er verr af stað farið en heima setið. En þá veit maður það.
Samt held ég að það sé rétt að láta Sigmund Davíð og félaga njóta vafans í bili. Ég man eftir þessum pilti í sjónvarpi í sumar þar sem hann talaði óvenju skynsamlega um skipulagsmál. Annars veit ég ekkert um hann.
Jú, annars, ég kynntist pabba hans svolítið fyrir mörgum árum og þótti hann heldur skemmtilegur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Grófleg misnotkun á nafni Rauða krossins
30.1.2009 | 14:41
það gat heldur ekki verið. Þessi yfirlýsing er á vefsíðu Rauða kross Íslands (www.redcross.is):
Rauði kross Íslands gagnrýnir harðlega vinnubrögð blaðamanna Morgunblaðsins varðandi grein sem birt er á blaðsíðu 16 í dag þar sem fullyrt er að Rauði krossinn hylji slóð Landsbankans í Panama. Þar er alvarlega vegið að starfsheiðri Rauða kross Íslands sem á engan hátt tengist málinu. Ekki var haft samband við Rauða krossinn við vinnslu greinarinnar.
Rauði kross Íslands hefur engin tengsl við Landsbankann varðandi sjálfseignarsjóðinn Aurora sem skráður er í eigu Zimham Corp. í Panama samkvæmt grein Morgunblaðsins. Rauði kross Íslands vísar algerlega á bug dylgjum um að Rauði krossinn hjálpi fjárfestum við að hylja slóð gegn þóknun.
Í greininni er sagt að Rauði krossinn (Red Cross) sé skráður beneficial owner sjóðsins. Ekkert lögskráð félag er til í heiminum sem ber einungis nafn Rauða krossins heldur bera viðurkennd landsfélög Rauða krossins öll nöfn þjóðlands síns. Önnur skráð samtök Rauða krossins eru Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) og Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC). Hér verður því ekki annað séð en um gróflega misnotkun á nafni Rauða krossins sé að ræða.
Rauði kross Íslands hefur ekki séð nein gögn sem varða tilurð þessa sjóðs en mun leita réttar síns fyrir dómstólum komi í ljós að nafn félagsins hafi verið misnotað. Einnig fordæmir Rauði krossinn forkastanleg vinnubrögð Morgunblaðsins þar sem orðstír félagsins og allra sem því tengjast er lagður að veði án þess að ganga frekar úr skugga um hvort Rauði krossinn tengist málinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nei, ekki Rauði krossinn!
30.1.2009 | 06:16
'Rauði krossinn huldi slóð Landsbankans í Panama' segir Mogginn í morgun.
Andskotinn, þessu vil ég ekki trúa upp á Rauða kross Íslands - og mun ekki gera fyrr en í fulla hnefana. Þetta væri í hrópandi mótsögn við kröfur Rauðakrosshreyfingarinnar um allan heim um gagnsæi og ábyrgð.
Það hlýtur að koma leiðrétting á þessu frá RKÍ núna fyrir hádegið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Brussel spáir ESB aðild innan tveggja ára
30.1.2009 | 02:41
Erlendir fjölmiðlar hafa undanfarna mánuði keppst um að 'skúbba' þeirri frétt að Íslendingar séu á leið inn í ESB.
Í morgun segir breska blaðið Guardian í frétt að þetta sé nánast ákveðið - Ísland muni fara hraðferð inn í sambandið og fá fulla aðild eftir tvö ár. Þar segir einnig að ESB-aðild verði aðalmál kosninganna í vor. Haft er eftir Olla Rehn að aðild Íslands væri mjög í þágu bandalagsins.
Ekki passar nú þetta alveg við þær fréttir sem berast út úr stjórnarmyndunarviðræðunum við Austurvöll, eða hvað?
Hér er Guardian-fréttin: http://www.guardian.co.uk/world/2009/jan/30/iceland-join-eu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skotheld tillaga
29.1.2009 | 12:35
Það getur varla nokkur hlutur verið pottþéttari en sá að leggja til við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn að vextir á Íslandi skuli lækka. Það er augljóst mál að á það getur sjóðurinn ekki fallist - ekki þegar verðbólga stendur í 19% og fer hækkandi.
Svona tillaga er alveg skotheld. Engar líkur á að hún verði samþykkt. Gildandi samkomulag ríkissjóðs og sjóðsins leyfir það ekki.
Niðurstaðan gefur hins vegar tilefni til að beina reiði almennings annað en að Seðlabankanum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)