Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Um leið og Jónas Fr er farinn...

Sko til! Það þurfti ekki annað en að fjarlægja Jónas Fr. úr Fjármálaeftirlitinu til að stofnunin færi að veita upplýsingar, sbr. Moggann í gær (eða var það í dag?) þar sem starfsmaður eftirlitsins skrifar ágæta grein um vinnubrögð og aðferðir. Greinin svaraði að vísu ekki öllum spurningum sem á brenna - en guð láti gott á vita.

Og svo aðeins um Kastljósið í gærkvöld sem ég sá (eða aðallega heyrði) á netinu í kvöld:

Þorbjörg Helga bæjarfulltrúi virtist ekki alveg átta sig á því að nafni minn og sonur var ekki að tala um að einkalíf bæjarfulltrúa væri undir leyndarhjúp, heldur hvernig ákvarðanir verða til.  Þannig skildi ég hann, amk.

Það sem skiptir máli er að borgurunum sé ljóst hvernig og hvers vegna þessi ákvörðun er tekin en ekki hin.

Það skiptir til dæmis máli hvernig Vilhjálmi fyrrverandi og hans samherjum tókst að komast að þeirri niðurstöðu að best væri að gefa útrásarvíkingunum Orkuveituna. Það skiptir máli hvernig ákvarðanir eru teknar um skipun þessa eða hins í embætti eða stöðu þegar dómnefndir komast að allt annarri niðurstöðu. Það skiptir máli hvernig það var ákveðið að færa Íhaldinu einn banka og Framsókn annan. Og það skiptir máli hvernig og hvers vegna fjármálalífið var afhent óábyrgum gróðapungum á meðan stjórnmálaforustan sat sofandi hjá.

Það er þetta sem skiptir máli en ekki hvort þessi pólitíkus eða hinn var fullur á þorrablótinu í fyrra.


Gaspur eða peysuföt

Nú kemur í ljós hvern mann hinn nýi formaður Framsóknar hefur að geyma. Ef rétt er hjá honum að stjórnarsáttmáladrögin Jóhönnu hafi bara verið venjulegt flokkspólitískt gaspur um að stefna skuli að og að hafa beri í huga, þá er guðsþakkarvert að einhver hafi haft döngun í sér að segja stopp, eigum við ekki að láta þetta hafa einhverja raunverulega þýðingu. Það virkar til dæmis ekki vel á mig að í plagginu skuli ekki hafa verið fastsett dagsetning á kosningar.

En ef Framsókn er hinsvegar enn í gömlu peysufötunum og er einfaldlega að tryggja sig og sína - ekki síst gamla góða helmingaskiptakerfið - þá er verr af stað farið en heima setið. En þá veit maður það.

Samt held ég að það sé rétt að láta Sigmund Davíð og félaga njóta vafans í bili. Ég man eftir þessum pilti í sjónvarpi í sumar þar sem hann talaði óvenju skynsamlega um skipulagsmál. Annars veit ég ekkert um hann.

Jú, annars, ég kynntist pabba hans svolítið fyrir mörgum árum og þótti hann heldur skemmtilegur. 


Grófleg misnotkun á nafni Rauða krossins

það gat heldur ekki verið. Þessi yfirlýsing er á vefsíðu Rauða kross Íslands (www.redcross.is):

Grófleg misnotkun á nafni Rauða krossins
 

Rauði kross Íslands gagnrýnir harðlega vinnubrögð blaðamanna Morgunblaðsins varðandi grein sem birt er á blaðsíðu 16 í dag þar sem fullyrt er að Rauði krossinn hylji slóð Landsbankans í Panama. Þar er alvarlega vegið að starfsheiðri Rauða kross Íslands sem á engan hátt tengist málinu. Ekki var haft samband við Rauða krossinn við vinnslu greinarinnar.

Rauði kross Íslands hefur engin tengsl við Landsbankann varðandi sjálfseignarsjóðinn Aurora sem skráður er í eigu Zimham Corp. í Panama samkvæmt grein Morgunblaðsins. Rauði kross Íslands vísar algerlega á bug dylgjum um að Rauði krossinn hjálpi fjárfestum við að hylja slóð gegn þóknun.

Í greininni er sagt að Rauði krossinn (Red Cross) sé skráður “beneficial owner” sjóðsins. Ekkert lögskráð félag er til í heiminum sem ber einungis nafn Rauða krossins heldur bera viðurkennd landsfélög Rauða krossins öll nöfn þjóðlands síns. Önnur skráð samtök Rauða krossins eru Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) og Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC). Hér verður því ekki annað séð en um gróflega misnotkun á nafni Rauða krossins sé að ræða.

Rauði kross Íslands hefur ekki séð nein gögn sem varða tilurð þessa sjóðs en mun leita réttar síns fyrir dómstólum komi í ljós að nafn félagsins hafi verið misnotað. Einnig fordæmir Rauði krossinn forkastanleg vinnubrögð Morgunblaðsins þar sem orðstír félagsins og allra sem því tengjast er lagður að veði án þess að ganga frekar úr skugga um hvort Rauði krossinn tengist málinu.

 

 

 


Nei, ekki Rauði krossinn!

'Rauði krossinn huldi slóð Landsbankans í Panama' segir Mogginn í morgun.

Andskotinn, þessu vil ég ekki trúa upp á Rauða kross Íslands - og mun ekki gera fyrr en í fulla hnefana. Þetta væri í hrópandi mótsögn við kröfur Rauðakrosshreyfingarinnar um allan heim um gagnsæi og ábyrgð.

Það hlýtur að koma leiðrétting á þessu frá RKÍ núna fyrir hádegið. 


Brussel spáir ESB aðild innan tveggja ára

Erlendir fjölmiðlar hafa undanfarna mánuði keppst um að 'skúbba' þeirri frétt að Íslendingar séu á leið inn í ESB.

Í morgun segir breska blaðið Guardian í frétt að þetta sé nánast ákveðið - Ísland muni fara hraðferð inn í sambandið og fá fulla aðild eftir tvö ár. Þar segir einnig að ESB-aðild verði aðalmál kosninganna í vor. Haft er eftir Olla Rehn að aðild Íslands væri mjög í þágu bandalagsins.

Ekki passar nú þetta alveg við þær fréttir sem berast út úr stjórnarmyndunarviðræðunum við Austurvöll, eða hvað?

Hér er Guardian-fréttin: http://www.guardian.co.uk/world/2009/jan/30/iceland-join-eu


Skotheld tillaga

Það getur varla nokkur hlutur verið pottþéttari en sá að leggja til við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn að vextir á Íslandi skuli lækka. Það er augljóst mál að á það getur sjóðurinn ekki fallist - ekki þegar verðbólga stendur í 19% og fer hækkandi.

Svona tillaga er alveg skotheld. Engar líkur á að hún verði samþykkt. Gildandi samkomulag ríkissjóðs og sjóðsins leyfir það ekki.

Niðurstaðan gefur hins vegar tilefni til að beina reiði almennings annað en að Seðlabankanum.

 


Auðvitað er Gunnar Páll tortryggilegur

Lokaorð fréttar um formannskjör í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur á Vísi.is á miðvikudag:

'Gunnar Páll sem nú stendur í miðjum formannsslag segir að andstæðingar sínir séu vísvitandi að reyna gera störf hans fyrir gamla Kaupþing tortryggileg.'

Við þessu er bara þetta að segja: Það þarf ekkert að reyna að gera þetta tortryggilegt. Þetta er allt tortryggilegt og vafasamt. Og þótt Gunnar Páll hafi ekki haft vit á því á sínum tíma, þá ætti hann að hafa öðlast það vit núna. Hann ætti líka að hafa vit á að draga sig í hlé.

Verkalýðshreyfingin þarf nú sem aldrei fyrr að njóta forustu manna sem eru hafnir yfir grunsemdir af þessu tagi.


68-byltingin beit okkur í rassinn

Ég er af þessari svokölluðu ’68-kynslóð. Gekk með perlufestar, talaði mig hásan um ást og frið, spilaði á bongó og klæddi mig í gæruskinn, gaf skít í kerfið og boðaði þjóðfélagsbyltingar til hægri og vinstri. Þeir sem ekki voru grúví, þeir voru skver og áttu sér ekki viðreisnar von. Ekki treysta neinum yfir þrítugu, var mantran sem mig minnir að hafi verið sótt til Abbie Hoffman og 'yippanna' vestur í Bandaríkjunum. Stúdentar troðfylltu alla þjóðfélagsfræði- og heimspekikúrsa í Háskólanum, prófessorar söfnuðu hári og skeggi og fengu sér í pípu. Við Drífa Kristjáns stóðum fyrir ‘poppmessum’ í Langholtskirkju í félagi við séra Sigurð heitinn Hauk og spiluðum þar ‘Haltu kjafti og slappaðu af’ á fullu blasti og kölluðum ‘tímabæra áskorun til eldri kynslóðarinnar’. Svo var farið út til að mótmæla Víetnam-stríðinu og Birna Þórðar sparkaði í punginn á yfirlögregluþjóninum í Reykjavík, sem var – og er – sómamaður.

Stórir flokkar af þessari kynslóð trúðu því að það væri hægt að breyta heiminum, gera út af við efnishyggjuna, eyða stríði og búa við miklu manneskjulegri gildi en okkur fannst foreldrar okkar og hið ógurlega ‘kerfi’ vilja reka ofan í kok á okkur. Og raunar er ég orðinn svo skver núna, að ég trúi því ennþá.

En svo komst ’68-kynslóðin til manns og valda og eignaðist börn og buru. Valdamennirnir urðu Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar og sýslumaðurinn á Selfossi – og börnin kusu að verða heildsalar eða viðskiptafræðingar eða lögfræðingar! Þau fóru í bankana og vissu ekkert fyrirlitlegra en hugsjónir foreldranna um manneskjuleg gildi, ást og frið og bongó.

Því þegar öllu er á botninn hvolft, voru það börn ’68-kynslóðarinnar sem stóðu fyrir útrásinni og því gengdarlausa og fullkomlega smekklausa sukki og bílífi sem nú hefur komið þjóðinni á kaldan klakann.

Ætli nokkurri kynslóð hafi tekist jafn hrapallega að ala upp börnin sín og einmitt hippakynslóðinni minni?

Þetta væri í rauninni drepfyndið – ef þetta væri ekki svona hræðilega sorglegt.


Eðlilegar áherslur

Ég fæ ekki séð að það sé neitt athugavert við áherslur forseta Íslands í þeim fasa kreppunnar sem nú er hafinn.

Í fyrsta lagi að hér náist sæmileg sátt og friður: Ekki veitir af.

Í annan stað að ákvarðanir séu miðaðar við hag þjóðarinnar: Ókey, nema hvað?

Í þriðja lagi að hér verði fljótlega haldnar kosningar: En ekki hvað? Er ekki stjórnin búin að vera?

Og í fjórða lagi að hlustað verði á kröfur um að stokkað verði upp á nýtt: Vitaskuld. Kerfið er ónýtt. Eða halda menn að samfélagsleg sátt náist um að lengja í hengingaról þess?

Ekki veit ég fremur en aðrir hvað býr í hugskoti forseta lýðveldisins - en sjálfum mér sýnist að við höfum nú fengið glimrandi tækifæri til að eiga nýja byrjun og að www.nyttlydveldi.is gæti verið leið í rétta átt.


Nú fyrst verður það töff

Stjórnin flosnuð upp - nú fyrst verður það erfitt. Eða dettur einhverjum annað í hug?

Nú er sem aldrei fyrr ástæða og tilefni til að minna á þetta: www.nyttlydveldi.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband