Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Upplognar skoðanir
30.3.2009 | 20:09
Umræðan gengur of oft út á bull og vitleysu. Það hafa menn verið að halda því fram að einhverjir aðrir telji að aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru sé einhverskonar töfralausn sem muni slétta út allan vanda á svipstundu.
Hver hefur verið að halda því fram? Hver telur að Evrópusambandið og Evran leysi allan vanda? Enginn sem ég þekki eða hef heyrt í eða heyrt af. Ekki ég. Auðvitað eru engar svoleiðis galdralausnir til.
Hvers vegna er þá verið að ljúga þessum skoðunum upp á fólk? Það skyldi þó ekki vera gegn betri vitund?
Það breytir ekki því að ég er enn þeirrar skoðunar að við endum í Evrópusambandinu og tökum upp nothæfan gjaldmiðil. Og því fyrr sem það gerist þeim mun meiri möguleika eigum við á að gera það á okkar eigin forsendum.
Til skammar
28.3.2009 | 16:45
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Dog and Pony Show
24.3.2009 | 17:12
Einu sinni vann ég á skrifstofu í Afríku þar sem margvíslegur vandi steðjaði að: skipulag í molum, verklag sömuleiðis, fjáröflun ómarkviss, verkstjórn afleit, almenn forustukreppa og grasserandi spilling.
Erlendur 'sérfræðingur' kom í heimsókn til að taka út ástandið. Hann skrifaði mikla skýrslu með fjölmörgum ábendingum um það sem betur mætti fara og tiltók nokkur atriði sem var brýnt að koma í lag. Í framhjáhlaupi gat hann þess að anddyri skrifstofubyggingarinnar og aðkoma öll gæti vel litið betur út.
Stjórnendur þessarar skrifstofu tóku skýrslunni fagnandi og keyptu umsvifalaust ný húsgögn í móttökuna og á skrifstofur þeirra tveggja yfirmanna sem mesta ábyrgð báru. Annað var ekki gert.
Skömmu síðar fluttist ég á milli landa og settist að í höfuðstöðvum meðalstórs fyrirtækis sem var álíka komið fyrir. Forustumenn fyrirtækisins hittu þungaviktarmenn í alþjóðlega ráðgjafabransanum sem sögðu að ef fyrirtækið ekki hysjaði upp um sig buxurnar í einum grænum, þá færi það á hausinn með hvelli. Í framhjáhlaupi gátu þeir þess að kannski væri sniðugt að fara með 'road show' á nokkra staði til að hífa upp ímyndina.
Það fór eins hjá þessu fyrirtæki og skrifstofunni í Afríku: eina ráðið sem var þegið var þetta um farandsýninguna. Hitt var allt látið eiga sig - enda fór fyrirtækið á dúndrandi hausinn skömmu síðar og sér ekki enn fyrir endann á öllum þeim hörmungum.
Farandsýningin sem átti að bjarga málunum reyndist vera það sem háðskir Ameríkumenn kalla 'dog and pony show' sem allir sáu í gegnum og því fór sem fór.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sýnileg siðbót
23.3.2009 | 20:31
Ríkisstjórnin verður að fá að eiga það sem hún á: það hafa orðið stórstígar framfarir á vissum sviðum hér á síðustu vikum, ekki síst hvað varðar upplýsingagjöf og gegnsæi. Kannski eru kröfur um siðbót í stjórnsýslunni að bera árangur!
Þrennt stendur uppúr síðustu daga allt mikil framfaraspor og til fyrirmyndar:
1. Ríkisskattstjóri hefur birt, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins, upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokkanna. Um þetta hefur verið beðið svo lengi sem ég man en ekki tekist fyrr en nú. Mig grunar að þetta hefði ekki gerst með Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarráðinu.
2. Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur veitt Morgunblaðinu fullan aðgang að öllum gögnum um einkavæðingarferli bankanna. Mogginn er að birta glimrandi fínar greinar uppúr þessum gögnum nú um dagana. Strax hefur ýmislegt kúnstugt komið í ljós og sennilega margt eftir. Svo er að upplýsa hvers vegna þær ákvarðanir voru teknar sem reyndin varð ekki er endilega víst að það sé allt skjalfest.
3. Minnisblað Davíðs Oddssonar um fundina með bankastjórum í Bretlandi hefur verið birt og staðfestir það sem alla hefur grunað: auðvitað höfðu menn upplýsingar um að bankarnir væru í vafasömum málum löngu áður en þeir hrundu en hvorki Seðlabankinn né ríkisstjórnin gerðu nokkuð með þær upplýsingar. Seðlabankinn neitaði Vísi síðast fyrir fáeinum dögum um aðgang að plagginu, svo tæpast er það þaðan komið. Enda skiptir ekki alltaf máli hvaðan gott kemur.
Og svo leyfi ég mér að efast um að reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings hefðu umsvifalaust verið teknar upp í ríkisstjórninni ef sú fyrri sæti enn.
En svo getur upplýsingagleðin líka gengið örlítið of langt eins og á laugardaginn þegar fjármálaráðherrann gat ekki stillt sig um að senda út fréttatilkynningu um yfirtökuna á SPRON og Sparisjóðabankanum klukkutíma áður en bankamálaráðherrann hélt sinn blaðamannafund um málið og þurfti svo að biðja fjölmiðla um að bíða aðeins með birtingu upplýsinganna. Hefði ekki verið í lagi að láta Gylfa bara um málið?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Rétt skal vera rétt
23.3.2009 | 14:51
Mogginn flytur í dag þessa frétt:
"Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstri grænna, segir að ekki sé rétt haft eftir henni af landsfundi Vinstri grænna í frétt á Mbl.is frá því á föstudag. Hún hafi ekki sagt að Smugan lyti ritstjórnarvaldi VG heldur hafi hún fagnað því að ritstjórnarstefna jafn öflugs vefmiðils og Smugunnar sé í takt við stefnu Vinstri grænna."
Rétt skal vera rétt og því er þetta endurtekið hér. Það breytir náttúrlega ekki því að Smugan er VG miðill...og þykist ekki vera neitt annað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útrýmingarstefna Páfagarðs
22.3.2009 | 14:55
Það er ótrúlegt en satt: Benedikt páfi er enn meira afturhald og jafnvel enn hættulegri fátæku fólki en forveri hans, Jóhannes Páll.
Þar er langt til jafnað. Þótt Jóhannes Páll hafi verið ógnarvinsæll var blóðslóðin eftir hann rekjanleg um alla veröldina. Nú gengur Benedikt í fótspor hans og bannar fátækasta og fáfróðasta fólki heims að nota smokka: að verja sig og sína gegn alnæmi sem er að þurrka út heilu kynslóðirnar í Afríku og víðar. Hans ráð er að fólk eigi að hætta að gera hitt!
Páfinn er nú á ferðalagi um álfuna. Það er ekki mikil hætta á að honum verði sýnd þorpin og fátækrahverfin í borgum Afríku þar sem milljónir barna eru á vergangi eftir að foreldrar þeirra dóu úr alnæmi.
Ég hef komið á svona staði og séð afleiðingar útrýmingarstefnu Páfagarðs. Benedikt væri hollt að líta upp úr gullbryddaða skrúðanum sínum eitt augnablik og horfast í augu við raunveruleikann sem stofnun hans hefur átt hvað mestan þátt í að skapa og viðhalda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Brandarakelling VG
20.3.2009 | 16:52
"Nú sem aldrei fyrr er þörf á öflugum vefmiðli sem lýtur ritstjórnarstefnu okkar, þó að sjálfsögðu sé um óháðan miðil að ræða.
Mogginn hefur þetta 'new speak' í dag eftir Drífu Snædal, framkvæmdastýru Vinstri-Grænna.
Drífa er ábyggilega ágæt framkvæmdastýra - en þegar hún hættir ætti hún að þreifa fyrir sér sem brandarakelling.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Niðurlægingin í Antananarivo
18.3.2009 | 14:01
Vinir mínir á Madagascar eru áhyggjufullir yfir ástandinu þar. Það er varla að maður þori út suma daga, skrifaði Claude vinur minn sem ég kynntist þar um árið. Hann er ekki viss um að róstum þar sé lokið þótt búið sé að setja forsetann af með stuðningi hersins. Forsetinn burtrekni, Marc Ravalomanana, var raunar alltaf heldur grunsamlegur náungi og komst til valda í umdeildum kosningum.
Á þeim tveimur árum sem ég bjó og vann í Kenya heyrði Madagascar undir okkur á skrifstofunni og því kom ég þangað nokkrum sinnum. Þar er spilling einhvern veginn rótgrónari en víðast hvar - meira að segja Rauði krossinn var endalaust bitbein stuðningsmanna forsetans og andstæðinga hans.
Höfuðborgin Antananarivo (eða bara Tana) var góð borg að heimsækja - og ólík öllum öðrum borgum Afríku, hafði á sér miklu meiri borgarsvip. Meira að segja franskan svip, enda voru Fransmenn nýlenduherrar þarna um langa hríð. Þess vegna var hægt að fá franskan ost í Tana og ódýra gæsalifur.
Ég gisti yfirleitt á hóteli í miðborginni - og við sömu götu var forsetahöllin sem hefur verið helsti vettvangur átakanna undanfarna daga. Þar blasti við sú hörmungarfátækt sem er hlutskipti mikils fjölda íbúanna í þessu fallega landi. Á kvöldin voru allar gangstéttar við forsetahöllina fullar af fólki - aðallega vændiskonum og körlum sem falbuðu sig fyrir slikk. Og svo voru þarna venjulega líka heimilislausar mæður með börnin sín á handleggnum eða bakinu. Þær báðu um peninga eða mat og voru örvæntingin uppmáluð.
Vopnaðir verðir við forsetahöllina horfðu á þessa niðurlægingu án þess að hreyfa legg eða lið - og maður missti alla lyst á franska ostinum og gæsalifrinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Grunnforsendur Sigurðar
17.3.2009 | 10:56
Sigurður Einarsson fyrrum bankastjóri Kaupþings segir í Fréttablaðinu í dag að trúnaður um persónuleg fjármál fólks sé grunnforsenda þess að hægt sé að hafa fjármálakerfi á Íslandi.
Samhengið er að Sigurður telur að illa hafi verið brotið á sér og vinum sínum þegar Mogginn sagði frá því að Sigurður hefði lánað vildarvinum sínum 500 milljarða skömmu fyrir bankahrunið. Hann segir gögnum um þetta hafa verið stolið og ýjar að því að þar hafi sjálfur Davíð Oddsson verið að verki.
Það er auðvitað rétt hjá Sigurði Einarssyni að trúnaður er ein grunnforsenda heilbrigðs fjármálalífs. Önnur grunnforsenda er að menn eins og hann fái hvergi að koma þar nærri.
Ekki bakka, Jóhanna
16.3.2009 | 16:44
Jóhanna Sigurðardóttir á ekki að láta undan kröfum um að hún verði formaður Samfylkingarinnar. Það er ábyggilega ærið nóg starf að vera forsætisráðherra - og hreint út sagt ósanngjarnt að heimta að Jóhanna geri allt.
Samfylkingin verður einfaldlega að taka sig saman í andlitinu og finna nýjan formann. Ef flokkurinn getur það ekki er hann einskis virði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)