Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
Rétt hjá Davíð - en...
30.12.2010 | 21:53
Það er rétt hjá Davíð Oddssyni í drottningarviðtalinu í Viðskiptablaðinu að Fréttablaðið er helst til að fletta því. Það er óvenjulega illa skipulagt blað og ruglingslegt í útliti. Sumt þar er ágætlega skrifað og fréttamennskan yfirleitt alveg þokkaleg en það dugar ekki.
Fréttatíminn er með sama marki brenndur, virðist að þessu leyti vera sniðinn eftir Fréttablaðinu. Það er leitt því fólk (þ.e. ég og einhverjir fleiri sem ég hef talað við) getur alveg hugsað sér að fá sæmilegt blað.
Meginskýringarinnar á þessu kraðaki sem Fréttablaðið og Fréttatíminn eru er sjálfsagt að leita í eðli blaðanna: þau eru fyrst og fremst gefin út fyrir auglýsendur. Auglýsingar virðast hafa allan forgang í uppröðun efnis og allsherjar skipulagi. Það getur ekki gengið endalaust, að minnsta kosti ekki ef á að þjóna lesendum.
Mogginn er sýnu betur skipulagt blað en hefur óneitanlega fengið yfirbragð sem er ekki alltaf til að vekja með manni tiltrú eða traust. Þar er stundum að finna svokallaðar fréttaskýringar þar sem enginn heimildarmaður er nafngreindur. Þessa sér reyndar einnig stað í fréttum (og er ekki bundið við Moggan einan): stútungsfréttir um menn og málefni eru birtar án þess að nokkurra heimilda sé getið. Það er vond blaðamennska. Því skyldi maður trúa svoleiðis fabúleringum?
DV á svo sína ágætu spretti en skemmir fyrir sér með endalausum þvættingi um brjóstagellur og athyglissjúklinga sem engu máli skipta. Það gildir um fleiri hefðbundna fjölmiðla, svo ekki sé minnst á alla netfroðuna.
Sumt af því athyglissjúka fólki sem verið er að tromma upp með í fjölmiðlum gerir lítið annað en að verða sér til skammar. 400 þúsund króna bóta-vælan er ein sem hefði betur þagað, stelpa sem fór upp á hótelherbergi með fullum smáleikara og fannst hann dóni þegar hann vildi gera hitt er önnur, sú þriðja fór til Ameríku og skildi ekkert í að hafa verið send til baka eftir að hún viðurkenndi að vera þangað komin til að leita sér að vinnu...æ, það eru endalaus svona dæmi um kjána sem ættu aldrei að komast í blöðin, í sjónvarpið eða á netmiðil sem vill láta taka sig alvarlega. Fréttamenn ættu að hafa vit fyrir þessu fólki og benda því á að engum sé greiði gerður með því að það afhjúpi bjánaskap sinn fyrir alþjóð. Enda hefur það ekkert að segja sem bætir umræðuna.
En þar fyrir utan hefur þetta verið alveg glimrandi gott og lærdómsríkt ár. Hjá mér og mínum er allt í besta standi og það sama er að segja um yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Allar kennitölur og kannanir sýna það. Háværi minnihlutinn (sem að mestu hefur það líka ágætt) á að hætta þessu eilífa sífri og væli og reyna að hugsa jákvætt til tilbreytingar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Manni getur nú sárnað
15.12.2010 | 16:52
Manni getur nú sárnað út af minna. Vísir.is segir frá því að þýskur maður eigi yfir höfði sér ákæru fyrir manndrápstilraun fyrir að hafa skorið undan "eldgömlum" ástmanni ungrar dóttur sinnar.
Sá "eldgamli" er 57 ára.
Hann er því þremur árum yngri en ég. Samt tel ég mig ekki eldgamlan, eða ævafornan, sem er sjálfsagt næsta stig fyrir ofan hjá unglingunum á Vísi.
En það sárnar fleirum en mér, sé ég í fréttum. Það er því rétt að taka undir það með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni að það væri ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að hann og félagar hans, sem voru kærðir í New York og verða nú væntanlega kærðir hér heima fyrir meint bankarán, fái bætur fyrir það mikla tjón og öll þau óþægindi sem málaferli skilanefndar Glitnis hafa bakað þeim.
Skárra væri það nú ef þeir fengju ekki bætur!
Þeir eiga auðvitað að fá bætur um leið og þeir eru búnir að borga okkur hinum bætur fyrir óþægindin sem við höfum orðið fyrir af völdum meðferðarinnar á Glitni, Flugleiðum, Baugi, Stoðum og hvað þetta nú allt heitir (eða hét). Alveg um leið!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Iceland Express, Pálmi og þýfið
7.12.2010 | 03:59
Það er ekki fallegt að segja það en ég læt mig hafa það samt: ekki kom mér á óvart að heyra í RÚV af Panama-fléttu Pálma Haraldssonar í Fons og Feng með hverri þrír milljarðar króna voru fengnir að láni í banka, sendir til Landsbankans í Lúxemborg og þaðan til Panama þar sem þeir hurfu og voru afskrifaðir samdægurs. Maður á varla von á öðru en svona kúnstum af þessum bæ.
Í vor ákvað ég að slást í hóp með fólki sem vildi til Berlínar með Iceland Express, ferðaskrifstofu þessa sama Pálma. Svo illa vildi til að eldfjallaaska kom í veg fyrir að flogið væri þegar ætlað var. Gott og vel, hugsaði ég, þá fer ég bara einhvern tíma seinna. Svo ætlaði ég að fá endurgreidd þau 170 þúsund sem ég hafði borgað fyrir mig og mína spúsu en þá var svarað um hæl: Nei, við þurfum ekki að borga til baka.
Til að gera langt mál stutt þá var þessu vísað til Neytendastofu sem komst að þeirri niðurstöðu að víst ætti að borga til baka, rétt eins og alþjóðlegur félagsskapur flugfélaga hafði ályktað. Iceland Express Pálma Haraldssonar neitaði samt og áfrýjaði til Úrskurðarnefndar neytendamála. Úrskurðarnefndin komst að sömu niðurstöðu og Neytendastofa: farþegarnir (sem aldrei fóru) eiga að fá þetta allt endurgreitt.
En enn neitar Iceland Express!
Kannski get ég sjálfum mér um kennt að hafa farið í viðskipti við þetta fyrirtæki sem ekkert er að marka og svínar á fólki sem langaði í menningarferð til Berlínar. Auðvitað átti ég að vita betur og láta þessa kóna alveg eiga sig, eins og Vilhjálmur Bjarnason gerði svo eftirminnilega í úrslitaþætti Útsvarsins í vor.
Nú neyðist þessi hópur (sem raunar er nokkuð verseraður í ferðabransanum) sennilega til að fara í málaferli við Iceland Express til að fá þýfið til baka. Miðað við niðurstöður Neytendastofu og Úrskurðarnefndar neytendamála sýnist manni að niðurstaðan liggi fyrir og væntanlega fellur allur kostnaður á Iceland Express. En það er sjálfsagt allt í lagi, nóg er til af peningum í Feng Pálma Haraldssonar...þótt þeir kunni að vera geymdir á bankareikningi í Panama.
Aths.: Ég verð að viðurkenna að ég hef hlaupið á mig hér. Áfrýjunarnefndin vísaði málinu frá af tæknilegum ástæðum en staðfesti ekki ákvörðun Neytendastofu, eins og ég segi hér að ofan. Ákvörðunin stendur því nema málinu verði vísað til dómstóla. Það breytir þó engu um það sem sagt er um viðmót Iceland Express.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Matur í poka handa öllum
5.12.2010 | 15:49
Það hefur vakið athygli mína þegar rætt er um matargjafir að örsjaldan er getið um hversu margir þiggjendurnir eru að vísu nefndi Ásgerður Jóna Flosadóttir töluna 700 í Silfrinu í dag. En aðrar tölur virtist hún ekki hafa á hraðbergi.
Látum það vera. En mér finnst ástæða til að ítreka að aðferðafræðin sem virðist vera notuð hjá Fjölskylduhjálpinni (og hugsanlega fleirum) er ekki góð. Engar tilraunir virðast gerðar til að kanna raunverulega þörf þeirra sem leita sér eftir mat. Ég hef tekið þátt í matvæladreifingu til hrakins fólks víða um heiminn og þá er grundvallarspurningin ævinlega hin sama: hverjir þurfa raunverulega á því að halda og hvernig er best að velja þá úr öllum hópnum sem leitar eftir matargjöfum? Oft er mikill munur þar á, jafnvel margfaldur.
Eins og þetta kerfi er hér gæti ég þess vegna farið í biðröðina og fengið mat í poka þótt ég geti keypt hann sjálfur. Enginn spyr mig um tekjur eða stöðu eða aðstæður; ég er bara kominn í röðina og þar með í hóp fátæks fólks sem Ásgerður nefnir svo.
Þetta er ekki góð aðferð vegna þess að hún kallar á misnotkun sem tíðkast hér eins og annars staðar. Engin skipulögð viðleitni er til að tryggja að aðstoðin berist eingöngu þeim sem á þurfa að halda.
Það ætti ekki að láta fúskara standa fyrir þessari starfsemi á meðan til eru fólk og félög hérlendis sem kunna til verka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
DV á þakkir skildar
2.12.2010 | 01:49
Ef það er rétt hjá Heiðari Má Guðjónssyni, með heimilisfesti í Sviss, að DV hafi komið í veg fyrir að hann fengi að kaupa Sjóvá, er ástæða til að óska DV til hamingju með það og færa blaðinu sérstakar þakkir fyrir. Og það er sömuleiðis ástæða til að þakka Má Guðmundssyni Seðlabankastjóra fyrir að hafa ekki viljað skrifa upp á kaupin.
Nú veit ég náttúrlega ekki frekar en aðrir hvað er sannað af þeim ásökunum sem bornar eru á Heiðar Má um atlögu að íslensku krónunni og öllu því. En varnir hans í fréttum hafa ekki verið trúverðugar. Þvert á móti. Gorgeirinn í þeim tölvupóstum Heiðars sem birtir hafa verið er með ólíkindum og drottningarviðtöl við hann í blöðum sömuleiðis.
Heiðar Már skilur greinilega ekki að hann hefur ekki trúnað og traust venjulegs fólks. Hann verður að kyngja því, hvort sem honum líkar betur eða verr og hvort sem það er fullkomlega sanngjarnt eða ekki. En sem gamall viðskiptamaður Sjóvár verð ég að segja eins og er: ég kæri mig ekki um svona kalla þar síst af öllu eftir hvernig aðrir svipaðir kónar fóru með félagið. Heiðar Már hlýtur að geta fundið sér eitthvað annað að fjárfesta í. Kannski í útlöndum?
En nú verð ég að hætta í bili: ég þarf að fara að vinna svo ég geti borgað minn hlut af skattpeningunum sem verið er að setja í endurreisn Sjóvár.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)