Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Sama masið og frasið

Þegar þrír af fjórum Fjórflokksforingjum voru búnir að lýsa yfir kosningasigri í sjónvarpinu í gærkvöld var ég búinn að fá nóg og fór að sofa. Ég þurfti ekki að bíða eftir að heyra hvað Jón Gnarr hefði að segja um úrslitin: hann hefur ekkert haft að segja hingað til.

Aðeins Jóhanna forsætis virtist skilja hvað hafði gerst og viðurkenndi undanbragðalaust að þetta væru vond úrslit fyrir hennar flokk.

Hinir skildu ekkert og halda enn að þeir geti masað og frasað eins og fyrr í engum tengslum við raunveruleikann. 

Mátulegt á þá hvernig fór. 

Og úrslitin í Eurovision voru eins fyrirsjáanleg og hugsast gat. Sæt þýsk stelpa vann með hundómerkilegt lag. En hún er sæt og krúttleg.

Íslenska lagið er jafnvel enn ómerkilegra og mátti þakka fyrir að lenda ekki neðar.

Áhyggjur fólks af kostnaðinum við að halda Eurovision keppnina á Íslandi voru því óþarfar.

Þangað til á næsta ári þegar jippóið byrjar aftur undir stjórn forustumanna hégómans.  


Í skökku liði

Það er trúlega meiri skyldleiki milli hópíþrótta og flokkapólitíkur en ég hef alltaf áttað mig á. Sennilega er það ástæða þess að ég skil hvorki upp né niður í hvoru sem er. Mest vefst fyrir mér hópsálaráráttan sem einkennir bæði íþróttir og stjórnmálafélög. Eldri sonur minn heldur með Liverpool í fullkominni blindni, sama hvað á gengur, og er ekki mönnum sinnandi ef liðið tapar en leikur við hvurn sinn fingur dögum saman ef sigur vinnst. Ég tala nú ekki um sigur á útivelli. Fólk mér ástfólgið trúir í svipaðri blindni á hrunflokkana og kennir Jóhönnu og Steingrími um allt sem aflaga hefur farið allt frá lýðveldisstofnun.

Ég hef verið í nokkrum félögum og yfirleitt kunnað því vel enda hef ég valið félögin sjálfur og sætt mig við reglur þeirra og markmið. Aldrei hef ég þó verið í íþróttafélagi eða stjórnmálaflokki. Blinda tilbeiðslan hentar mér ekki.

Hér er eitt sem ég skil illa sem stopull og ótrúr kjósandi: ef tveir stjórnmálaflokkar ákveða að mynda ríkisstjórn um tiltekinn verkefnalista sem þeir kalla stjórnarsáttmála, má þá ekki reikna með að það sé einhverskonar málamiðlun sem liðsmennirnir gangast undir? Segjum nú að ég hafi kosið annan hvorn flokkinn og skilji að málamiðlanir eru nauðsynlegar: má ég þá ekki reikna með að liðið standi saman um stjórnarsáttmálann jafnvel þótt ekki sé þar allt eins og hver og einn hefði helst kosið sér?

Mér finnst þetta augljóst mál. Agi verður að vera, sagði Svejk og sagði þó margt vitlausara.

En svo kemur á daginn að einstaka leikmenn, í þessu tilviki í liði Vinstri-Grænna, telja sig síst bundna af stjórnarsáttmálanum sem þeir undirgengust og reka eigin stefnu sem fer jafnvel þvert gegn málamiðlunarstjórnarsáttmálanum. Mér sýnist að þessi framkoma sé ekki einasta svik við flokkinn heldur einnig við kjósendur sem vita nokk hvernig kaupin gerast á eyrinni og  skilja alveg eins og ég, hinn stopuli og ótryggi kjósandi, að málamiðlun er málamiðlun.

Væri ekki miklu heiðarlegra og einfaldara fyrir þetta fólk – Lilju Mósesdóttur, Ögmund Jónasson, Jón Bjarnason og Ásmund Einar Daðason – að vera formlega í einhverju öðru liði? Þau virðast ekki halda með sínu liði og gefa skít í málamiðlunina sem lagt var upp með.

Mig grunar að fyrirliðinn í fótboltafélaginu Liverpool myndi ekki þola það lengi að helmingurinn af hans liði væri sífellt að sparka boltanum út af eða að eigin marki í úrslitaleik gegn Manchester United.


Með Everest á vinstri hönd

Nú er besti tími ársins á Íslandi - í rauninni sá tími sem gerir það þess virði að búa hér. Það er eiginlega ómögulegt að koma sér í svefn þegar sólin skín, fuglarnir syngja og kyrrðin færist yfir voginn sem ég bý við.

En nú eru önnur plön. Við erum að fara í ferðalag sem okkur hefur dreymt um lengi: til Nepal og Tíbet í félagi við 10 aðra kæra vini. Ætlunin er að fljúga frá London til Delhi á Indlandi, skreppa til Agra og skoða Taj Mahal og fara svo til Kathmandu í Nepal og eiga þar nokkra daga í upphafi monsúnsins. 

Svo verður flogið til Lhasa í Tíbet (sem stendur í um 3700 metra hæð yfir sjó) og farin landleiðin til baka til Kathmandu á rúmri viku. Þá verður Everest okkur á vinstri hönd þegar farið verður um tignarleg fjallaskörð allt upp í rúmlega 5500 metra hæð yfir sjávarmáli. Sem betur fer eru í hópnum kjarnorkuhjón vön háfjallaferðum sem kunna allt um háfjallaveikilyfin. Læknirinn í genginu sér um helstu bæklunarlækningar og annað smálegt.

Eftir 'heimkomuna' til Nepal er ferðinni heitið til bæjarins Pokhara þar sem náttúrufegurð mun viðbrugðið og Himalajafjallgarðurinn rís eins og veggur fyrir utan glugga gistihússins. 

Það ætti að slaga í íslenska vornótt.


Sigurinn blasir við

Það er byrjað aftur. Árvisst eins og krían.

Íslensku keppendurnir í Evróvisjón eru um það bil að meika það, samkvæmt fréttum. 

Æfingarnar ganga rosalega vel, kjólarnir eru flottir, aðrir þátttakendur halda varla vatni, veðbankarnir eru að springa. 

Þetta hlýtur að vita á stórsigur.

 


Bla bla-ble ble í Kópavogi

Ef það væri ekki komið vor og veðrið gott þá væri hin daglega óhamingja endalaus.

Forustumenn bæjarstjórnarframboðanna í Kópavogi voru í sjónvarpinu í kvöld, spurðir um mikilvægustu málin fyrir kosningarnar. Og það var þetta venjulega, byggingar, skólar, 'atvinnumálin'...bla bla bla, ble ble ble. 

Eftir kjörtímabil þegar bæjarstjórinn varð að taka pokann sinn vegna spillingar og hálf bæjarstjórnin er á leið fyrir sakadómara vegna fjármálasukks, þá er það þetta sem frambjóðendurnir halda að skipti mestu máli. 

Enginn þeirra nefndi heilindi, siðferði, heilbrigt stjórnkerfi, afnám einkavinavæðingarinnar og spillingarinnar - þetta sem svo sárlega vantar í opinbert líf, ekki síst stjórnmálalífið í Kópavogi. Jú, annars, efsti maður á lista VG sagði "heiðarleiki" í framhjáhlaupi.

Ekki einu sinni Næstbesti flokkurinn gat híft þetta upp á annað plan. 

Eins gott að vorið er komið.


Mátulegt á Fjórflokkinn

Það verður varla verri stjórn í Reykjavík þótt Besti flokkurinn taki völdin í lok mánaðarins. Kjörtímabilið sem nú er að ljúka hefur verið borgarfulltrúum til skammar og borgarbúum til vandræða og ama.

Það er raunar hópur af hugmyndaríku fólki á lista Besta flokksins - og miðað við frammistöðu þeirra sem nú sitja getur varla talist ókostur að lið Jóns Gnarrs hafi ekki pólitíska reynslu. 

Ekki að þetta skipti mig, utanbæjarmanninn, beinu máli umfram aðra - en vitaskuld er það mikilvægt fyrir alla landsmenn að stjórn höfuðborgarinnar sé ekki í tómri vitleysu. Það er að minnsta kosti ekki líklegt að listamenn Besta flokksins reyni að gefa vinum sínum Orkuveituna. 

það væri mátulegt á Fjórflokkinn að þurfa að semja við Jón Gnarr um stjórn borgarinnar - eftir að hafa sett sig rækilega inn í The Wire, auðvitað. 


Rökleysa á Reykjanesi

Stundum er ég ansi fattlaus. Nú skil ég til dæmis ekki hvers vegna Sjálfstæðismenn á Suðurnesjum eru til í að selja nýtingarréttinn á orkulindum til Kanadamanna í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð en verða svo alveg brjálaðir þegar minnst er á að leigja útlendingum nýtingarrétt á fiskistofnunum.

Ég skil ekki muninn. Orkan er ein af fáum náttúruauðlindum sem við eigum. Fiskistofnarnir eru önnur. Ef reglan á að verða sú að hægt verði að leigja nýtingarréttinn af einni auðlind, hvers vegna þá ekki af annarri? Er ekki þversögn í þessu eða rökleysa? Á ekki annað hvort að heimila leigu allra náttúruauðlinda eða engra?

Eða er kannski málið það að skjólstæðingar íhaldsins eru þegar búnir að leggja fiskinn undir sig?


Finnur tekur rangan pól í hæðina

Mér hefur þótt Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Arion banka almennt komast ágætlega frá sínu djobbi í fjölmiðlum; ekki vildi ég vera í hans sporum.

En það er náttúrlega alveg út i hött hjá honum að halda í þá starfsmenn úr Kaupþingi sem eru grunaðir um fjárglæfra og gætu átt yfir höfði sér opinberar ákærur þeirra vegna.

Víst eru þessir einstaklingar saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð - en ekki vildi ég versla við banka sem setur sér þau viðmið í þessum efnum sem Finnur gerir. Ég er að vísu löngu hættur að versla við Arion svo á þetta reynir ekki í mínu tilviki.

Arion banki þarf nú á því að halda umfram allt annað að honum sé treyst. Það eru meiri hagsmunir fyrir bankann að skapa sér almennt traust en að halda tryggð við fáeina starfsmenn með göróttan feril. Það er leitt fyrir þessa starfsmenn - en fráleitt fyrir bankann. Efnahagslífið hér þarf að vera hafið yfir allan grun.

Finnur og stjórn bankans hljóta að skilja það.


Stjörnuhengingar

Er ekki vafasamt fyrir meinta bankaræningja sem nú eru til rannsóknar að ráða sér rugludall í Bretlandi sem hefur boðið fram lögfræðiþjónustu sína? Þetta er sá sami og Pressan kallar "stjörnulögmann" (en þar á bæ eru allir stjörnur).

Vandinn er nefnilega sá að flestir skjólstæðingar þessa manns hafa verið hengdir, þar á meðal Saddam Hussein, Efnavopna-Ali og fleiri slíkir.

En það hafa þá væntanlega verið "stjörnuhengingar" samkvæmt skilgreiningu Pressunnar.


Retro Stefson stal senunni

Listahátíð fór af stað með stæl í kvöld. Við vorum boðin á konsert í Laugardalshöllinni og áttum von á góðu eftir að hafa búið í Afríku og vera áhugasöm um afríska músík.

Það besta við þennan konsert reyndist svo vera Retro Stefson, íslensk hljómsveit sjö ungmenna sem fóru á kostum - og skemmtu sér konunglega við það. Segi ekki endilega að þau séu með músík fyrir minn smekk en bandið var þétt og gott og framlínan kröftug og spennandi. Ekki einn falskur tónn hjá söngvurunum sem virðist þó fágætt meðal yngri poppara.

Amadou og Mariam frá Malí spiluðu svo í hálfan annan tíma. Þeirra band var gott, ekki síst gressilega góður trumbuslagari. Það var hins vegar ekki sérlega mikið varið í Amadou og Mariam sjálf, þrátt fyrir gullslegna gítarinn. 

Mesta gerjunin í afrísku rokki er í Kongó, svo ótrúlega sem það kann að hljóma. Þaðan koma skemmtilegustu böndin. Kongó-gítarsándið óviðjafnanlega hefur farið um alla Afríku - en sennilega ekki náð til Malí. 

Á næstu listahátíð ætti endilega að reyna að fá Angélique Kidjo frá Benin. Fáar afrískar söngkonur taka henni fram nú um daga.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband