Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Bömmer fyrir Stöð 2

Það er náttúrlega bömmer fyrir Stöð 2 að þurfa að éta ofan í sig frétt um meinta fjármagnsflutninga nafngreindra manna í skattaskjól í útlöndum korteri fyrir hrun.

En það er enn verra fyrir fréttastofuna að þurfa að upplýsa að hún stundaði vond vinnubrögð: fór í loftið með málið eftir samtal við einn mann en engar staðfestingar.

Eða eins og segir í afdráttarlausri yfirlýsingu fréttastjórans:Fréttastofan byggði fréttaflutninginn á frásögn heimildarmanns, en hafði ekki nein gögn undir höndum er studdu frásögn hans.”

Það verður þó að reikna Stöð 2 og Vísi.is það til tekna að í yfirlýsingunni er ekkert dregið undan, þessi fúskvinnubrögð eru viðurkennd undanbragðalaust.

Með þessu kemst fréttastofan væntanlega undan kostnaðarsömum – og fyrirfram töpuðum – málaferlum.

Og lærir vonandi af mistökunum.


Kaup og sala í prófkjöri

Nú fara þeir á kostum hver af öðrum.

Guðlaugi Þór Þórðarsyni vafðist tunga um tönn þegar hann mætti ágengni Helga Seljan í Kastljósinu í kvöld. Guðlaugur kom satt að segja ekki sérlega brattur út úr þessu viðtali þar sem fátt var upplýst.

Stóra bomban Guðlaugs Þórs var að benda sjónvarpsáhorfendum á að hans væri hvergi getið í Stóru Skýrslunni og að varla væri það að ástæðulausu.

Það er alveg rétt hjá honum - en ástæðan er ekki sú sem hann vildi meina. Ástæðan er einfaldlega sú að Skýrslan fjallaði um fall bankakerfisins, ekki vafasama fjársöfnun fyrir prófkjör og hvaðeina sem af slíku kann að leiða.

Það verður væntanlega efni í aðra skýrslu.


Alveg eins og hinir

Jón Gnarr, tilvonandi borgarfulltrúi í höfuðborginni, var...hmm, athyglisverður í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Þar gekk Helgi Seljan á frambjóðandann með skýrum og klárum spurningum en fékk yfirleitt ekki svör sem hann taldi fullnægjandi.

Jón var nefnilega eins og álfur út úr hól. Vissi fátt um málefni borgarinnar, sló úr og í, kenndi félaga sínum um skandalana og var ekki með lausnir á neinum málum.

Hmmm, alveg eins og hinir frambjóðendurnir. 


Kveðja frá Aceh

Með allra bestu mönnum sem ég hef kynnst um ævina er Bustari Mansyur í Aceh í Indónesíu. Hann er formaður Rauða kross deildarinnar þar í héraðinu og bar höfuðábyrgð á endurreisnarstarfi RK eftir flóðin og mannfallið þar um jólin 2004. Okkur varð vel til vina og reyndum hvað við gátum að upplýsa hvorn annan um siði og venjur okkar menningarheima sem um margt voru ólíkir. Mér tókst til að mynda að sannfæra hann um að það væri ekki dónalegt að segja 'nei' við hvíta menn.

Bustari hafði verið bæjarstjóri í nágrannabæ Banda Aceh, aðstoðar fylkisstjóri í héraðinu og gegnt ýmsum embættum og trúnaðarstörfum. Slíku fólki hættir oft til að gleyma uppruna sínum - en það átti ekki við um Pak (herra) Bus, eins og við fengum sumir að kalla hann. Efst í huga hans alla daga var fólkið sem átti um sárt að binda og fórnfúsir sjálfboðaliðar sem aldrei ætluðust til umbunar fyrir þrotlausa vinnu við hræðilegar aðstæður. Sjálfur var hann tekjulaus mánuðum saman eftir hamfarirnar og hafði misst marga ættingja og vini.

Og enn er Bustari á sömu nótunum. Ég var að fá póst frá honum með samúðarkveðjum til þeirra sem hafa orðið illa úti í eldgosinu í Eyjafjallajökli. Hann sendir póstinn fyrir hönd fólksins í Aceh og stjórnar Rauða kross deildarinnar á staðnum. Þetta er svona og er hér með komið áfram til hlutaðeigandi:
 
"Dear My Colleagues,
We are deeply concerned by the news coming in on the volcano in Iceland.
On behalf of the People of Aceh and PMI Aceh Chapter Board members and all branches, we would like to express our solidarity and condolences for the volcano in Eyjafjallajokull to the People of Iceland that caused the few days aviation chaos and air pollution in Europe. 
We would like to thank all the rescue teams dealing with the aftermath of the volcano.
Regards,
Bustari Mansyur
"


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband