Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
Enginn vill hrun Norður-Kóreu
30.12.2011 | 14:56
Það er forvitnilegt að horfa á það sem er að gerast í Norður-Kóreu. Um þetta eru spekingar að fjalla dagana langa en í rauninni veit enginn hvað þar er að gerast, hvorki nú né áður. Þetta er svo furðulegur staður og enn furðulegra fyrirkomulag þar á hlutum. Ég hef komið þarna nokkrum sinnum og gæti alveg hugsað mér að fara aftur og stoppa lengur.
Einu sinni lenti ég m.a. í afmælishaldi hjá Kim Jong-Il. Hann var að vísu ekki viðstaddur sjálfur heldur var þetta mikil blómasýning sem haldin var vegna afmælis hans í miðborg Pyongyang. Þar voru tugþúsundir hárauðra begóníu-afbrigða sem ýmist hétu Kimjongilia eða Kimilsungia, sérræktuð til heiðurs þeim feðgum. Þarna var örtröð af fólki og þess vandlega gætt að maður tæki aðeins svo myndir að portrett af feðgunum sæust öll ekki mátti skera utan af slíkum myndum. Nú verður áreiðanlega farið í að rækta Kimjongunia til heiðurs Kim þriðja.
Um blómið hafa verið samin mörg tónverk við texta sem hjóðar svo í íslenskri snörun:
Rauðu blómin sem blómstra allt um landið frítt
eru eins og hjörtu okkar: full af kærleika til leiðtogans
Hjörtu okkar fylgja ungum knúppum Kimjongilia
Ó! blóm tryggðar okkar!
Ýmsir höfðingjar á Vesturlöndum tala nú talsvert um að vonandi hrynji veldi Kim-fjölskyldunnar. Þeir meina það ekki. Enginn vill í alvörunni hrun Norður-Kóreu. Það myndi hafa í för með sér óskaplegar hörmungar og stjarnfræðilegan kostnað; kostnaðurinn af sameiningu þýsku ríkjanna var skiptimynt á miðað við þann kostnað sem myndi hljótast af sameiningu kóresku ríkjanna. Og hvorki Kínverjar né Suður-Kóreumenn hafa minnsta áhuga á að taka á móti rúmlega 20 milljón hungruðum og ráðvilltum flóttamönnum frá raunveruleikaútgáfunni af Truman Show.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einfaldlega okur
21.12.2011 | 18:46
Ég held að það sé ekkert flókið eða undarlegt við það hvað jólasteikin hefur hækkað mikið í verði frá því í fyrra.
Það er eins og önnur matvara sem virðist hækka í verði frá einni búðarferð til annarrar. Ég fer ekki sjálfur mikið í aðrar búðir en mér heyrist að þar sé sama sagan.
Þetta er ekkert skrítið. Þetta heitir einfaldlega okur.
Eða sýnist ykkur að kaupmannastéttin sé vanhaldin?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Burt með þá báða
18.12.2011 | 00:09
Auðvitað eiga þeir Gunnar Birgisson og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúar í Kópavogi, að víkja úr bæjarstjórninni. Þeir hafa verið ákærðir fyrir lögbrot ólöglegar lánveitingar og lygar.
Nokkrir fyrrverandi bæjarfulltrúar hafa einnig verið ákærðir fyrir lögbrot, ekki fyrir að fara á svig við lög, eins og Flosi Eiríksson fyrrv. bæjarfulltrúi kallaði það í yfirlýsingu í gærkvöld.
Hvernig dettur mönnum í hug að þeir geti gegn trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélag á meðan þeir sæta ákæru fyrir lögbrot? Hvar er siðferðiskenndin, sómatilfinningin?
Það skiptir engu máli þótt aðrir bæjarfulltrúar segist ekki ætla að krefjast þess að Gunnar og Ómar víki (sem er rolugangur út af fyrir sig): þeir eiga að víkja. Ef þeir verða sýknaðir koma þeir aftur og málið er dautt.
En það er síður en svo dautt núna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Spornað við landflóttanum
17.12.2011 | 17:02
Mitt fólk vildi gera sitt til að sporna við margumræddum "landflótta" og hefur nú fært okkur nýtt stúlkubarn sem er dýrlegra en orð fá lýst. Nú eigum við tvær svona prinsessur sem færa okkur mikla hlýju í hjörtun.
Dægurmál | Breytt 18.12.2011 kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Staðreyndirnar um landflóttann
15.12.2011 | 16:00
Mér var nóg boðið í vikunni þegar forsætisráðherra og forstöðmanni hagdeildar samtaka atvinnurekenda bar ekki saman um fjölda brottfluttra Íslendinga. Hvernig er hægt að halda uppi vitrænni samræðu í landi þar sem svona einfaldir hlutir geta orðið ágreiningsefni?
Bæði eru þau glögg, Jóhanna forsætis og Hannes hagfræðingur, svo greinilega var eitthvað að í þessu.
Ég settist því yfir tölur Hagstofunnar. Niðurstaðan er sú, að hvorugt hafði rétt fyrir sér. Það er ekki rétt hjá Jóhönnu að brottflutningurinn sé að dvína og það var ekki rétt hjá Hannesi að það stefndi í að 2011 yrði næst mesta brottflutningsárið í Íslandssögunni. Það er hins vegar rétt hjá Jóhönnu að miðað við heildarmannfjöldann eru tölurnar smávægilegar og því út í hött að bera brottflutning fólks nú saman við Ameríkuferðirnar í lok 19. aldar þegar allt að fjórðungur þjóðarinnar gafst upp á harðindunum og baslinu í íslensku sveitunum.
Staðreyndirnar eru þessar:
- Það stefnir í að í ár flytji alls 7.640 manns úr landi en 5.787 flytji til landsins. Munurinn er 1.853 sálir og 2011 lendir því í þriðja sæti frá 2001. Þetta er nettóhreyfing á 0,58% mannfjöldans.
- Metið var sett 2009 þegar brottfluttir umfram aðflutta voru 4.835; 10.612 fluttu úr landi en aðfluttir 5.777. Nettóhreyfing upp á 1,51%.
- Í fyrra (2010) fluttu 7.759 úr landi en 5.625 til landsins, munurinn var 2.134 sálir. Nettóhreyfing á 0.67% heildar íbúafjöldans.
- Í meðfylgjandi töflu er þessu skipt upp á milli íslenskra og erlendra ríkisborgara.
Auðvitað skiptir engu sérstöku máli hvort met var slegið þetta árið eða hitt. Mér finnst raunar ekki skipta neinu meginmáli hvort fólk kemur eða fer, það er náttúra fólks að vera þar sem því líður vel og getur séð um sig og sína.
Svo gerði ég meðaltalssamanburð á að- og brottflutningi 2001-2011. Að meðaltali hafa 3.273 íslenskir ríkisborgarar flutt til landsins árlega á þessu tímabili, en 3.587 flutt úr landi (og þar með eru taldir námsmenn og þeir sem fara til vinnu um lengri eða skemmri tíma). Það er meðaltalsfækkun upp á 314 manns. Á sama tímabili hafa að meðaltali flutt hingað 4.315 erlendis ríkisborgarar hvert ár en 2.612 flust á brott, meðaltalsfjölgun upp á 2.003.
Á áratugnum fluttust 31.300 íslenskir ríkisborgarar til landsins en liðlega 40.200 fluttust á brott. Það er höfðatölufækkun upp á 8.900. Á sama tíma fluttust til landsins liðlega 43 þúsund erlendir ríkisborgarar en liðlega 26 þúsund fluttust á brott. Það er nettó höfðatölufjölgun upp á 17 þúsund manns.
Það er sem sé nettó framlag umheimsins til fjölmenningarsamfélagsins hér, sautján þúsund manns, en framlag okkar til fjölmenningar utan landsteinanna er 8.900. Allt jafnast þetta út á endanum.
Gott að fólk fari
12.12.2011 | 21:02
Er nokkur ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því þótt fólk flytji til Noregs? Er ekki bara hið besta mál að fólk flytji þangað sem það telur sig getað lifað betra lífi? Ég vil fagna því frekar en hitt.
Margir Noregsfaranna munu koma heim á ný, einhverntíma seinna (ef þeir kæra sig um), víðsýnni og ríkari að reynslu og þekkingu eftir að hafa búið annars staðar og kynnst öðrum siðum og venjum. Það hefur alltaf verið gott fyrir Íslendinga að skoða nýjan sjóndeildarhring: til skamms tíma voru flestir okkar sérfræðingar (á hvaða sviði sem var) menntaðir í útlöndum og komu svo heim með þekkingu og reynslu sem við þurftum á að halda.
Sjálfur efast ég ekki um að það gerði mér og mínu fólki afar gott að búa í útlöndum um hríð. Krakkarnir mínir hafa allir unnið og/eða lesið í útlöndum og eru víðsýnni og umburðarlyndari manneskjur fyrir bragðið.
Ef ég man rétt eru um 50 þúsund Íslendingar nú þegar búsettir í útlöndum farnir löngu fyrir hrun? Landið sekkur ekki í sæ þótt sex þúsund til viðbótar fari. Það er ekki eins og þeir þurrkist út af yfirborði jarðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmfaldur tvískinnungur
9.12.2011 | 01:02
Tvískinnungur í fréttaflutningi er stundum ansi stórkostlegur. En sennilega aldrei sem á DV-vefnum í gær.
Um miðnættið var þar að finna fimm eintök af sömu myndinni og fyrirsögninni um hundshræ á floti í höfn á Vestfjörðum og aðvörun svohljóðandi: Varað er við myndum sem fylgja þessari frétt. Fimm sinnum!
Hvern halda DV-menn að þeir séu að blekkja?
Svo ekki sé nú minnst á það yfirgengilega rugl sem DV, Pressan og Eyjan hafa sýnt af sér undanfarna daga í umfjöllun um meinta nauðgun vöðvatröllsins...
Pressan virðist raunar hafa fengið rækilega gúmoren á latínu úr ýmsum áttum fyrir sinn þátt í þeim ósóma öllum.
Og fyrst ég er byrjaður: á miðvikudag voru endalausar "fréttir" um það á fréttavefjunum um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri skilin við Samfylkinguna vegna þess að Jón Baldvin ætlaði að halda kúrs um Rannsóknarskýrsluna. Strax um hádegi var Ingibjörg Sólrún búin að útskýra fyrir útvarpinu að þetta væri rangt - en samt héltu kjaftavefirnir áfram án þess að taka fram að um kjaftasögu væri að ræða.
Er ætlast til að maður taki svona miðla alvarlega? Skítt með þvættinginn á Feisbúkk eða bloggum (eins og þessu) en á ekki að vera óhætt að gera meiri kröfur til DV, Vísis og Pressunnar?
Kannski ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lóukvak í evrópsku sambandsríki
4.12.2011 | 16:01
Ég held ég vilji ganga lengra en mér heyrðist Árni Páll Árnason gera í Silfri Egils í dag: ég vil verða hluti af evrópsku sambandsríki. Tími þjóðríkjanna, ekki síst smáríkja á borð við Ísland, er liðin tíð, hugmyndin er úr sér gengin.
Þau umbrot sem nú eru í efnahagslífi Evrópu munu leiða til góðs þótt vegferðin verði ekki auðveld. Ríkisstjórnir sem ekki kunna fótum sínum forráð um stjórn efnahagsmála verða að fara í B-liðið. Hinir verða í A-liðinu og munu blómstra þegar fram líða stundir. Sem stendur komumst við ekki einu sinni í C-liðið þótt hægt sé að sjá (og þarf ekki mikla sanngirni til) að verið er að taka skrefin í rétta átt.
Smám saman mun almenningur í B-liðunum átta sig á kostum þess að vera í A-liðinu og losa sig við litlu kallana sem nú stjórna. Það sama þurfum við að gera: hér eru allt of margir litlir kallar (af báðum kynjum) í áhrifastöðum og hafa ekki burði til að sjá skóginn fyrir trjánum. Fyrst komumst við í B-liðið og ef við stöndum okkur vel, þá komumst við á endanum í A-liðið.
Ég vil gjarnan vera hluti af öflugu samfélagi ríkja þar sem ég get farið óáreittur um með sömu mynt, sama rétt til orðs og æðis og sömu löggjöf (eða a.m.k. sambærilega). Ég vil geta keypt þýskan eða franskan ost, danska skinku, pólska aligæs, breskt te...á verði sem ég þekki og fyrir alvöru peninga. Ég vil gjarnan njóta stjórnvisku stórra pólitíkusa í Evrópu (sem þeir eru vitaskuld ekki nærri allir) og hafa aðgang að samfélagskerfi sem búið er til fyrir fólk en ekki hagsmuni.
Og það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að þetta muni þýða að ég geti ekki lengur etið sviðakjamma eða setið einn með sjálfum mér útí móa á bjartri vornótt og hlustað á lóuna kvaka á íslensku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)