Auðvitað er Gunnar Páll tortryggilegur

Lokaorð fréttar um formannskjör í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur á Vísi.is á miðvikudag:

'Gunnar Páll sem nú stendur í miðjum formannsslag segir að andstæðingar sínir séu vísvitandi að reyna gera störf hans fyrir gamla Kaupþing tortryggileg.'

Við þessu er bara þetta að segja: Það þarf ekkert að reyna að gera þetta tortryggilegt. Þetta er allt tortryggilegt og vafasamt. Og þótt Gunnar Páll hafi ekki haft vit á því á sínum tíma, þá ætti hann að hafa öðlast það vit núna. Hann ætti líka að hafa vit á að draga sig í hlé.

Verkalýðshreyfingin þarf nú sem aldrei fyrr að njóta forustu manna sem eru hafnir yfir grunsemdir af þessu tagi.


68-byltingin beit okkur í rassinn

Ég er af þessari svokölluðu ’68-kynslóð. Gekk með perlufestar, talaði mig hásan um ást og frið, spilaði á bongó og klæddi mig í gæruskinn, gaf skít í kerfið og boðaði þjóðfélagsbyltingar til hægri og vinstri. Þeir sem ekki voru grúví, þeir voru skver og áttu sér ekki viðreisnar von. Ekki treysta neinum yfir þrítugu, var mantran sem mig minnir að hafi verið sótt til Abbie Hoffman og 'yippanna' vestur í Bandaríkjunum. Stúdentar troðfylltu alla þjóðfélagsfræði- og heimspekikúrsa í Háskólanum, prófessorar söfnuðu hári og skeggi og fengu sér í pípu. Við Drífa Kristjáns stóðum fyrir ‘poppmessum’ í Langholtskirkju í félagi við séra Sigurð heitinn Hauk og spiluðum þar ‘Haltu kjafti og slappaðu af’ á fullu blasti og kölluðum ‘tímabæra áskorun til eldri kynslóðarinnar’. Svo var farið út til að mótmæla Víetnam-stríðinu og Birna Þórðar sparkaði í punginn á yfirlögregluþjóninum í Reykjavík, sem var – og er – sómamaður.

Stórir flokkar af þessari kynslóð trúðu því að það væri hægt að breyta heiminum, gera út af við efnishyggjuna, eyða stríði og búa við miklu manneskjulegri gildi en okkur fannst foreldrar okkar og hið ógurlega ‘kerfi’ vilja reka ofan í kok á okkur. Og raunar er ég orðinn svo skver núna, að ég trúi því ennþá.

En svo komst ’68-kynslóðin til manns og valda og eignaðist börn og buru. Valdamennirnir urðu Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar og sýslumaðurinn á Selfossi – og börnin kusu að verða heildsalar eða viðskiptafræðingar eða lögfræðingar! Þau fóru í bankana og vissu ekkert fyrirlitlegra en hugsjónir foreldranna um manneskjuleg gildi, ást og frið og bongó.

Því þegar öllu er á botninn hvolft, voru það börn ’68-kynslóðarinnar sem stóðu fyrir útrásinni og því gengdarlausa og fullkomlega smekklausa sukki og bílífi sem nú hefur komið þjóðinni á kaldan klakann.

Ætli nokkurri kynslóð hafi tekist jafn hrapallega að ala upp börnin sín og einmitt hippakynslóðinni minni?

Þetta væri í rauninni drepfyndið – ef þetta væri ekki svona hræðilega sorglegt.


Eðlilegar áherslur

Ég fæ ekki séð að það sé neitt athugavert við áherslur forseta Íslands í þeim fasa kreppunnar sem nú er hafinn.

Í fyrsta lagi að hér náist sæmileg sátt og friður: Ekki veitir af.

Í annan stað að ákvarðanir séu miðaðar við hag þjóðarinnar: Ókey, nema hvað?

Í þriðja lagi að hér verði fljótlega haldnar kosningar: En ekki hvað? Er ekki stjórnin búin að vera?

Og í fjórða lagi að hlustað verði á kröfur um að stokkað verði upp á nýtt: Vitaskuld. Kerfið er ónýtt. Eða halda menn að samfélagsleg sátt náist um að lengja í hengingaról þess?

Ekki veit ég fremur en aðrir hvað býr í hugskoti forseta lýðveldisins - en sjálfum mér sýnist að við höfum nú fengið glimrandi tækifæri til að eiga nýja byrjun og að www.nyttlydveldi.is gæti verið leið í rétta átt.


Nú fyrst verður það töff

Stjórnin flosnuð upp - nú fyrst verður það erfitt. Eða dettur einhverjum annað í hug?

Nú er sem aldrei fyrr ástæða og tilefni til að minna á þetta: www.nyttlydveldi.is


Guardian segir þetta er allt Geir að kenna

Það skiptir máli í samskiptum ríkja að á milli þeirra sé traust. Allir vita hversu mjög traust íslenska ríkisins og bankastofnana hefur rýrnað á undanförnum mánuðum.

Nú er það endanlega búið, ef marka má úttekt í breska blaðinu Guardian, því samkvæmt henni er Geir H. Haarde einn af 25 einstaklingum sem bera mesta ábyrgð á heimskreppunni sem sannanlega hófst í Bandaríkjunum.

Listinn gæti verið innlegg í tilraunir til að koma gangráð í íslensku ríkisstjórnina - það getur varla verið til fyrirmyndar að setja einn af helstu ábyrgðarmönnunum þar í forsæti. Nema því fylgi að Bernie Madoff verði fjármálaráðherra!

En hér er listinn úr Guardian í morgun (eitthvað sýnist mér þó að þeir hjá Guardian þurfi að læra að telja upp á nýtt):

Twenty-five people at the heart of the meltdown...

1.       Alan Greenspan, formaður stjórnar Bandaríska Seðlabankans 1987- 2006

Politicians

2.       Bill Clinton, fyrrum forseti

3.       Gordon Brown, forsætisráðherra

4.       George W Bush, fyrrum forseti

5.       Phil Gramm, öldungadeildarþingmaður

Wall Street/Bankers

6.       Abi Cohen, Goldman Sachs chief US strategist

7.       "Hank" Greenberg, AIG insurance group

8.       Andy Hornby, former HBOS boss

9.       Sir Fred Goodwin, former RBS boss

10.   Steve Crawshaw, former B&B boss

11.   Adam Applegarth, former Northern Rock boss

12.   Ralph Cioffi and Matthew Tannin

13.   Lewis Ranieri, the "godfather" of mortgage finance

14.   Joseph Cassano, AIG Financial Products

15.   Chuck Prince, former Citi boss

16.   Angelo Mozilo, Countrywide Financial

17.   Stan O'Neal, former boss of Merrill Lynch

18.   Jimmy Cayne, former Bear Stearns boss

Others

19.   Christopher Dodd, chairman, Senate banking committee (Democrat)

20.   Geir Haarde, Icelandic prime minister

21.   The American public

22.   Mervyn King, governor of the Bank of England

23.   John Tiner, FSA chief executive, 2003-07

24.   Dick Fuld, Lehman Brothers chief executive

25.   Andrew Lahde, hedge fund boss

26.   John Paulson, hedge fund boss


http://www.guardian.co.uk/business/2009/jan/26/road-ruin-recession-individuals-economy 

 


Svekktasti maður í heimi

JAKARTA: Vinur minn Abdul Aziz er svekktasti maður í Indónesíu þessa dagana, ef bara ekki öllum heiminum.

Barack Obama bjó hér um nokkurra ára skeið á barnsaldri, á hér hálfsystur og gekk í skóla. Indónesar telja Obama því sinn mann og í gamla skólanum hans var haldin mikil hátíð daginn sem nýi forsetinn tók við embætti í frosthörkunni í Washington.

Abdul Aziz átti heima í þarnæsta húsi við Obama þegar þeir voru strákar. Fyrir framan heimili Aziz var fótboltavöllurinn þar sem strákarnir í hverfinu léku sér allar lausar stundir. Og handan við fótboltavöllinn er skólinn sem þeir gengu báðir í.

Harmur Aziz er sá að hann man ekkert eftir þessum hálf-ameríska strák. Hann man eftir næstum öllum öðrum - en ekki þeim eina sem varð forseti Bandaríkjanna. Er nema von að maður sé svekktur, segir hann.


Bjóðum Mulyani í heimsókn

JAKARTA: Á meðan ég bjó hér um árið fannst mér alltaf að Indónesar ættu skilið að fá betri ríkisstjórn en þeir höfðu. Lengst af var hér Megawati Sukarnoputri, dóttir sjálfstæðishetjunnar, en því miður hafði hún ekkert í embættið að gera; henni þótti skemmtilegast að vera heima að elda mat og rækta blóm. Maður hennar var líka vafasamur pappír og ætti sjálfsagt að vera í tukthúsi fyrir raunverulega spillingu.

Þar áður höfðu Indónesar haft yfir sér í þrjá áratugi einhvern mesta þjóf allra tíma, Suharto hershöfðingja, sem nú er dauður og situr ábyggilega í neðra og spilar póker við kollega sinn Mobutu fyrrum forseta í Zaire. Það væri svo mátulegt á þá að dómari í þeirri keppni væri lærifaðir þeirra Leópold gamli Belgíukóngur!

Nema hvað: Í kosningunum 2005 kusu Indónesar yfir sig Susilo Bambang Yudhoyono, alvörugefinn hershöfðingja með litla pólitíska reynslu - en hann hafði það sem fólk vildi: hreinan skjöld og ekkert óhreint mjöl í pokahorninu. Nú er að koma á daginn að Susilo er hinn prýðilegasti forseti sem hefur haft það lán að velja með sér hæfa einstaklinga.

Efnahagslíf hér er nú með meiri blóma en í nokkru öðru landi í SA Asíu - og það þakka menn rammanum sem Susilo hefur skapað og, ekki síður, fjármálaráðherra hans, frú Sri Mulyani. Hún hefur hreinsað vel til í fjármálaráðuneytinu og hikar ekki við kasta mútuþægum embættismönnum á dyr. Þjóðarframleiðsla vex líklega aftur um 5% á þessu ári - og lækkar varla nema um hálft prósentustig eða svo. Geri aðrir betur á þessum síðustu og verstu! Verðbólga fer hér líka lækkandi og vextir sömuleiðis, skattheimta gengur betur en nokkru sinni fyrr og flestir sem ég hef talað við eru í engum vafa um að Susilo muni ná glæstu endurkjöri í forsetakosningunum í ágúst.

Og svo finnur maður það í loftinu að hér er uppgangur og framfarir - að minnsta kosti í verslun og viðskiptum. Maður þarf ekki annað en að telja nýju skrifstofu- og verslunarturnana sem hafa risið í mínu gamla hverfi á síðustu þremur árum, hvað þá alla nýju bílana sem fara um göturnar og eru þess valdandi að meðalhraði í umferðinni hér í borg er ekki nema um 12 km á klukkustund.

Hmm, kannski ættum við að bjóða Sri Mulyani í heimsókn og sjá hvort ekki megi eitthvað af henni læra.

 


Vandaður heilindamaður

Það er ekki eitt, það er allt! Mér finnst það afleit frétt að forsætisráðherra sé alvarlega veikur og sendi honum og fjölskyldu hans mínar allra bestu heillaóskir.

Enginn þarf að efast um að Geir Haarde er vandaður heilindamaður sem hefur unnið sín störf eftir bestu getu og samvisku.

Árásir á persónu hans undanfarnar vikur og mánuði eru til vansa. Nú hlýtur þeim að linna.

Og minni svo aftur á þetta: www.nyttlydveldi.is

 


Burt með reynslu og þekkingu!

Þar kom að því að stjórnendur Stöðvar 2 létu verða af því og köstuðu Sigmundi Erni og Elínu Sveins á dyr. Það er í takt við annað sem ég hef séð og heyrt af stjórn þess fyrirtækis sem metur reynslu, þekkingu og vigt einskis en glamur og glys þeim mun meira.

Og ég get meira að segja talað af reynslu þegar ég fullvissa vini mína Simma og Ellu um að það er síður en svo vansæmd að því að vera rekinn af Stöð 2. Það var með því besta sem fyrir mig kom á mínum ferli í fréttamennsku.

Því óska ég þeim hjónum og allri þeirra ómegð hjartanlega til hamingju með þennan áfanga í lífinu.

 

 


Sóðakjaftur

Það liggur við að manni fallist algjörlega hendur í morgunstökkinu á milli nokkurra vefsíðna, orðbragð sumra álitsgjafa er slíkt. Það er ekki að sjá að það sé sæmilega upplýst fólk sem lætur fúkyrði og svívirðingar vaða yfir allt og alla.

Það þarf enginn að segja mér að þessi hópur (oft eru það sömu nafnleysingjarnir sem tröllríða vinsælustu bloggunum) sé að tala fyrir hönd íslenskrar alþýðu. Hún kann mannasiði betur en þetta. Það talar að minnsta kosti ekki fyrir mig.

 En svo er rétt að benda á þetta: www.nyttlydveldi.is 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband