Kerfið er ónýtt

Það getur ekki verið í lagi þegar löggan telur sig þurfa að nota kylfur og táragas á fólk. Svo langt fjarri heimahögum veit ég að vísu ekkert um mótmælin við Alþingishúsið í gær annað en það sem ég hef lesið í vefmiðlunum.

Mér sýnist þó víst að gremjan í samfélaginu muni á endanum valda einhverskonar umbreytingum, ef ekki kollsteypu alls heila kerfisins.

Það er ábyggilega í lagi, kerfið er ónýtt. En það væri verra ef margir meiðast í fyrirganginum.

Og kannski væri gott fyrir alla að hafa í huga það sem Anais Niin skrifaði einhverntíma: We don't see things as they are. We see things as we are.

Þess vegna er oft gott að telja upp að tíu áður en maður lætur reiðina ráða för. 

 


Það er lúxus að búa á Íslandi

Það er lúxus að búa á Íslandi, þrátt fyrir kreppuna og stigamannaflokkana sem lögðu efnahagslífið undir sig á síðustu árum. Þetta hefur verið að sannast fyrir mér á ný undanfarna daga hér austur í Indónesíu.

Þrátt fyrir allt búum við nefnilega margfalt betur en mikill meirihluti mannkyns. Hér eru nokkur atriði sem við teljum sjálfsögð en flestir aðrir geta ekki einu sinni látið sig dreyma um:

  • Við getum sagt það sem okkur sýnist hvenær sem er og hvar sem er.
  • Við eigum ekki á hættu að verða stungið í tukthús og látin dúsa þar árum saman fyrir engar sakir.
  • Við höfum ótakmarkaðan aðgang að hreinu vatni, heitu og köldu.
  • Við þurfum ekki að óttast að löggan skjóti okkur á færi.
  • Stjórnmálamenn á Íslandi eru yfirleitt heiðarlegir. Sofandi, kannski, og ekki mjög framsýnir, en ekki þjófóttir.
  • Við þurfum ekki að óttast að stór hluti barna okkar deyi úr hungri eða meinlitlum barnasjúkdómum fyrir fimm ára aldur.
  • Við getum fengið fyrsta flokks læknisþjónustu þegar okkur hentar.
  • Við þurfum ekki að horfa upp á það að stór hluti þjóðarinnar fæðist til þess eins að eiga aldrei séns.
  • Við þurfum ekki að búa við hungur – eða ótta við hungur – alla ævina.
  • Við þurfum ekki að líta svo á að læsi sé forréttindi hinna fáu.
  • Við búum við ágætt skólakerfi – með þeim bestu í víðri veröld.
  • Við þurfum ekki að senda börnin okkar út á götu til að betla.
  • Við þurfum ekki að múta embættismönnum til að fá einfalda þjónustu á vegum ríkisins – svo sem að sækja um ökuskírteini eða fæðingarvottorð.

Ég gæti haldið áfram lengi enn – en læt þetta duga í bili.


Boyje brosir

BANDA ACEH: Ég hitti Boyje í dag og fór með honum svolítinn rúnt um miðborgina sem var ein samfelld rúst þegar ég var hér síðast. Nú er ekki að sjá að neitt óvenjulegt hafi gerst, moskan mikla í miðborginni er hvítmáluð og glansar í sólskininu og minarettan sem stendur þar framan við ber engin merki um sprungurnar ógurlegu sem voru í henni í ársbyrjun 2005.

Það er líka allt annað að sjá Boyje. Brosið nær til augnanna og hann er áhugasamur um framtíðina.

Ég hitti hann fyrst hér í Banda nokkrum dögum eftir flóðið mikla um jólin 2004. Hann var þá bílstjóri hjá Alþjóðasambandinu sem ég vann fyrir og fór með mig á milli staða. Mér þótti þetta óvenju fámáll bílstjóri svo ég fór að spyrja hann út úr.

Þá dró hann upp gemsann sinn og syndi mér mynd af konunni sinni og ungri dóttur, báðum bráðfallegum.

Smám saman kom sagan. Snemma að morgni annars jóladags hafði Boyje farið út til að kaupa brauð. Mæðgurnar voru eftir heima, kátar og glaðar eins og kvöldið áður þegar hann hafði tekið myndina á nýja farsímann sinn.

Og sem hann er á leiðinni í bakaríið, með farsímann í rassvasanum, brestur á feiknarlegur jarðskjálfti og hús allt í kringum hann hrynja, götur opnast og ógnarlegur dynur fer um himinhvolfin. Fáeinum mínútum síðar kemur þriggja metra há flóðbylgja upp frá ströndinni – þrjá eða fjóra kílómetra í burtu – og hrífur allt með sér sem fyrir verður.

Þar á meðal Boyje.  Einhvern veginn tókst honum að ná taki á tré sem hann flaut framhjá og komast upp í það. Þegar hann rankaði við sér var hann á nærbuxunum einum fata, skyrtuna, skóna, utanyfirbuxurnar hafði vatnselgurinn tætt af honum. Allt í kring voru hrunin hús, bílhræ í haugum og lík fljótandi eftir götum. Í hans hverfi stóð ekkert hús eftir – eins og Þingholtin hefðu horfið á einu augabragði.

Næstu daga ráfaði hann um í örvæntingu og leitaði árangurslaust að konunni sinni og dóttur. Þær voru horfnar. Foreldrar hans voru horfnir, tengdaforeldrar, systkini og mestallur frændgarður sem bjó á þessum sömu slóðum. Á nóttinni hélt hann sig í námunda við moskuna í miðborginni en þar þorðu fáir að sofna.

Eitt kvöldið kom til hans maður og færði honum brotinn farsíma sem hafði fundist í rusli á víðavangi. Eigandinn þekktist af myndinni sem var á sim-kortinu, myndinni af eiginkonu Boyjes og dóttur. Síminn var ónýtur – en kortið var í lagi.

- Þetta er það eina sem ég á eftir, sagði hann mér í bíltúrnum í janúar 2005. Það fannst ekkert annað af húsinu mínu eða neinu sem við áttum. Þetta er eina myndin sem er til af þeim.

Nú er Boyje í hópi þeirra sem hefur fengið nýtt hús og sér fram á nýja framtíð. Og hann er farinn að brosa aftur með augunum.


Aftur til Aceh

BANDA ACEH, INDÓNESÍU: Hitabeltisregnið bylur á bárujárnsþakinu. Á örfáum mínútum er bílastæðið á kafi í vatni, froskarnir hrópa og eðlurnar stinga sér undir hurðina og skjótast upp veggi. Það er fínt – þær eru vísar með að gleypa moskítóflugur og aðra óværu sem gæti leynst í dimmum skotum.

Breytingarnar í Banda Aceh, sem varð einna verst úti í tsunami-flóðbylgjunni miklu á jólum 2004, eru lygilegar. Það er varla að sjá að hér hafi orðið einhverjar mestu náttúruhamfarir sem sögur fara af fyrir aðeins fjórum árum – þegar 150 þúsund manns týndu lífi og stór hluti borgarinnar þurrkaðist út í einu vetfangi. Ónýtar byggingar og brak hefur verið hreinsað burtu, hundruð nýrra bygginga standa við götur og stræti og markaðirnir eru fullir af vörum, ekki sist ferskum ávöxtum í stórum stöflum.

Ég er kominn hingað aftur til að hjálpa til í nokkrar vikur við að taka saman upplýsingar um þann árangur sem hefur náðst í starfi Rauða krossins & Rauða hálfmánans. Hreyfingin hefur sett um milljarð dollara hefur verið settur í byggingu tugþúsunda nýrra heimila, skóla, heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, vatnsveitukerfa og svo framvegis og svo framvegis. Það er gaman að hitta aftur gamla vini og samstarfsmenn – og enn meira gaman að sjá að sumt af því sem var verið að ýta úr vör á fyrsta árinu eftir hamfarirnar er orðið að veruleika. Í stuttu máli sagt: árangurinn er undraverður. Allt í allt hafa um sjö milljarðar dollara farið í uppbygginguna hér – ríflega þriðjungi meira en öll erlendu lánin sem Íslendingar hafa verið að taka í kjölfar okkar efnahagslega tsunami.

Ég fór héðan í árslok 2005 nær dauða en lífi af þreytu og andlegu og líkamlegu álagi – og átti satt að segja ekki sérstaklega von á að komast hingað aftur. En enginn ræður sínum næturstað…og nú er minn gistiheimilið Græna Paradísin sem ber nafn með rentu: er allt málað í sama eiturgræna litnum. Rófulausir kettir mjálma þar eftir matarbita við morgunverðarborðið – og þó varla rófulausir heldur með hálfa rófu sem endar í vinkli. Það er miklu minna af hundum enda eru þeir óhreinir í ásýnd múslima; sá sem snertir hund þarf að þvo sér sjö sinnum til að verða hreinn aftur.

Fram að flóðinu var Aceh-hérað lokað umheiminum enda var hér borgarastríð sem kostaði tugi þúsunda mannslífa. Nú er héraðshöfðinginn fyrrum liðsforingi úr sveitum uppreisnarmanna og fjöldi stjórnmálaflokka undirbýr þátttöku í þing- og sveitastjórnarkosningunum í apríl. Kosningabaráttan hefur ekki verið alveg friðsamleg enda er ‘lýðræðið’ nýtt hugtak hér og margt enn óuppgert frá tímum átakanna.

Það er engin spurning að hundruð erlendra hjálparstarfsmanna hafa haft mikil áhrif á daglegt líf í héraðinu þar sem sharia-lög gilda að hluta (það er til dæmis ekki útilokað að sjá menn hýdda á almannafæri fyrir að hafa haldið framhjá eða gert sig seka um aðra villu gegn góðum íslömskum sið). Mér sýnist að færri konur gangi nú um með slæður til að hylja hár sitt – en margar slæðukonur jafnframt í níðþröngum buxom og treyjum til að flagga því sem flagga má. Miklu fleiri tala ensku, unga kynslóðin er tölvuvædd - en ekki sú eldri. Ekki ennþá.

Um miðjan næsta mánuð ætlar indónesíska ríkisstjórnin að lýsa því formlega yfir að hjálparstarfinu sé lokið og þar með verður lögð niður sú stofnun sem sett var á laggirnar til að stýra og samhæfa hjálpar- og uppbyggingarstarfinu. Mörgu er raunar þegar lokið, annað er á góðri leið. Mínu fólki hér sýnist að uppúr miðju næsta ári verði uppbyggingunni endanlega lokið – og þá hverfa útlendingarnir á brott með allt sitt hafurtask og afganginn af peningunum. Eftir sitja Aceh-búar í nýju húsunum sínum með nýju vatnsveiturnar og frárennslin – og nýtt ‘lýðræði’ til að þróa og móta í takt við þann heittrúaða íslamska veruleika sem hér er.


Bush brandarakall

Ég verð seint talinn til aðdáenda fráfarandi Bandaríkjaforseta - en svei mér þá ef maður fékk ekki aðra mynd af persónunni eftir síðasta blaðamannafund hans í embætti sem ég sá á BBC í gær. Þar var maður sem var bara bráðskemmtilegur og einlægur, sýndi af sér góða kímnigáfu og virtist ekki taka sjálfan sig nema passlega hátíðlega.

Þetta passar reyndar við það sem ég hef heyrt hjá fólki sem hefur hitt manninn og átt við hann samskipti utan sviðsljóssins - öllum ber saman um að í persónulegri viðkynningu sé forsetinn fráfarandi hinn skemmtilegasti náungi. Ég kynntist á sínum tíma ameríska sendiherranum í Indónesíu sem var kunnugur W og sagðist alltaf þykja gaman að vera í návist hans. 'He's just a regular guy,' sagði sendiherrann. 

En mikið skelfing er samt gott að hann sé á förum.

 


Píslarvætti gleðigjafans

Það er ástæða til að samhryggjast Gissuri Sigurðssyni sem enn og aftur hefur verið kosinn gleðigjafi Bylgjunnar. Og það í lýðræðislegri kosningu. Sagan segir að gleðigjafinn hafi barist hatrammlega gegn sigri - en orðið undan að láta fyrir óstöðvandi þrýstingi íslenskrar alþýðu.

Þessi niðurstaða er auðvitað mikill harmur fyrir 'Gissa prests', eins og hann var kallaður á DB í gamla daga (þar sem hann var ávallt með meiri gleðigjöfum), og vandséð hvað má nú verða honum til sáluhjálpar. 

Í lífinu eru margir kallaðir en fáir útvaldir - og fyrir kemur að hinir útvöldu þurfa að fórna sér í þágu þjóðargleðinnar, eins og nú er orðið hlutskipti míns gamla vinar. Það má þó vera Gissuri nokkur huggun harmi gegn að lifa í þeirri vitneskju að hann þarf ekki að leggjast í heilagt jihad með sínu píslarvætti. 


Í þágu flokks en ekki þjóðar

Hugmyndin um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að ræða við Evrópusambandið er della. Hún er ekki sett fram með hagsmuni þjóðarinnar í huga, heldur flokkakerfisins - og þá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksins. Hugmyndin er sem sagt sett fram til að koma í veg fyrir klofning í stjórnmálaflokki sem ekki getur horfst í augu við nútímann, hvað þá framtíðina.

Um hvað ætti svosem að kjósa í þessari fyrirfram þjóðaratkvæðagreiðslu? Hversu margir eiga að vera í viðræðunefndinni sem fer til Brussel? Á hvaða hóteli þeir eiga að búa?

Hvers vegna ekki að ganga hreint til verks, senda hóp sérfræðinga til Brussel til að gera rækilega úttekt á því sem kann að vera í boði, láta þá svo koma heim með niðurstöðuna og leggja skýra valkosti fyrir þjóðina? 

Það er nefnilega þannig að í landinu situr Alþingi með umboð frá kjósendum og ríkisstjórn með umboð þings og forseta. Það er hlutverk þessa fólks að stjórna landinu í þágu þjóðarinnar en ekki flokkanna - og enn síður í þágu þröngra flokkshagsmuna. Það er gömul saga og ný, sem hefur sannast rækilega undanfarnar vikur, að hagsmunir flokkanna fara ekki alltaf saman við hagsmuni þjóðarinnar sem getur ekki annað en kosið þá aftur og aftur - því það er enginn valkostur. 

Sjálfur hætti ég að taka þátt í kosningum fyrir 1980. Fór þó á kjörstað í sveitastjórnarkosningum fyrir allmörgum árum þegar ég hafði skoðun á hver ætti að sitja í stjórn míns sveitarfélags. Niðurstaðan úr þeim kosningum varð sú að sá frambjóðandi sem hafði lang minnst fylgi varð bæjarstjóri!

Sem sannaði fyrir mér enn og aftur að kosningar hér eru yfirleitt marklausar. 

 


Til fyrirmyndar

Eina leiðin til að Rannsóknarnefnd Alþingis (sú sem á að skoða bankahrunið og aðdraganda þess) nái árangri er sú að hún fái víðtækan og almennan stuðning. Nefndin sjálf á það skilið - og eins þeir einstaklingar sem þar sitja. 

Og guð láti gott á vita: þau þrjú upplýsa á heimasíðu nefndarinnar allt um eignatengsl sín við fjármálasvíðingana sem réðu öllu á Íslandi um árabil (sem eru engin, sýnist mér) og jafnframt gera þau grein fyrir hugsanlegum fjölskyldutengslum. Þetta mættu ýmsir ráðamenn taka sér til fyrirmyndar.

Ég held maður verði að treysta því að þetta sé forsmekkurinn að störfum nefndarinnar - og að hún hafi það stöðugt að leiðarljósi að allt beri að upplýsa. Auðvitað eru þar einhver mörk - en manni sýnist að þessu tríói sé treystandi til þess.

 


Vélbyssurnar í Betlehem

Það er að koma að jólum og þá minnumst við þess um allan heim að Jesúbarnið fæddist í Betlehem. Þá biðjum við fyrir friði á jörð og velþóknun Guðs yfir öllum mönnum, jafnt ástvinum okkar og þeim sem hungraðir eru og hrjáðir sem falsspámönnum sem koma til okkar í sauðaklæðum en eru innra glefsandi vargar.

Við hjónin komum til Betlehem fyrir nokkrum árum. Uppreisnin, Intifatah, var þá í algleymingi. Göturnar voru nærri auðar, neglt var fyrir búðarglugga og -dyr og hermenn með alvæpni stóðu í flokkum á götuhornum eða óku um í opnum jeppum með vélbyssurnar mundaðar.

Leiðsögumaðurinn hálfhljóp á undan okkur inn í fæðingarkirkjuna og niður um ranghala og þrönga ganga. Skyndilega stoppaði hún og sagði: Hérna. Þetta er grottan. 

Við vorum í lítilli og myrkri kapellu í iðrum fæðingarkirkjunnar, um það bil þrjátíu af ýmsu þjóðerni. Við stóðum grafkyrr stutta stund og störðum á silfurstjörnuna sem greypt hafði verið í marmaraplötu á upphækkun frá gólfinu, á lágum stalli, eins og segir í kvæðinu. Reykelsisker voru um allt loftið og inni í jötunni. Tjaldað var fyrir með gullbrydduðu flaueli.

Svo byrjaði einhver að fara með faðirvorið á ensku. Aðrir tóku undir á sínu eigin tungumáli, gyðingarnir sögðu ekkert. Tilfinningarnar sem fóru um mann eru ólýsanlegar. Þetta líktist hvorki fjárhúsi né jötu, eðalmálmarnir á skreytingunum allt í kring voru sótugir af milljónum kertaljósa sem hafa brunnið á liðnum öldum í þröngri fæðingarhvelfingunni. Og á máðri steinhellunni er skínandi silfurstjarna sem kristnir pílagrímar snerta í lotningu.

Þarna fæddist Jesús Kristur. Nákvæmlega þarna, segir sagan. Auðvitað veit það enginn fyrir víst, en í gegnum aldirnar hafa kristnir menn komið sér saman um að þarna skuli það hafa verið. Og skyndilega stendur maður á þeim stað sem hefur mótað allt manns siðferði, alla manns afstöðu og allt manns líf, allt frá barnæsku.

Allt í einu fannst mér ég muna nákvæmlega hvernig mamma bað með mér faðirvorið í fyrsta sinn og það var eins og barnatrúin mín helltist yfir mig aftur.    

Sumir krupu á kné, kysstu silfurstjörnuna og báðust fyrir. Aðrir stóðu hreyfingarlausir með lokuð augu. Enn aðrir tróðust á milli pílagrímanna með vídeóvélarnar sínar til að ná mynd af konunni sinni standa þar sem Jesús fæddist. Eftir fáeinar mínútur sagði leiðsögumaðurinn: Jæja, áfram nú, við eigum einn stað eftir.

Nýr hópur tróðst á móti okkur niður í „fjárhúsið“ og um það bil sem við komum fram í anddyrið heyrðum við berast upp ómana af jólasálminum Adeste Fidelis: „Ó, dýrð í hæstum hæðum, Guðs heilagi sonur, dýrð sé þér...“

Löngu seinna finnur maður enn lyktina af reykelsinu, kertaljósunum og sótinu í fæðingarkirkjunni í Betlehem. Og maður finnur enn fyrir undarlegri, óútskýranlegri návist sem færir mann langt yfir dægurþrasið og dagsins amstur. Sú návist færir mann í hæstu hæðir og þá eru alltaf jól í brjóstinu - og fullvissan um að Guð er raunverulegur og alltaf nálægur.


Heilögu mennirnir í Seðlabankanum vestra

Það er sífellt að koma betur í ljós hvernig heimskreppan varð til - að mestu leyti vestur í Ameríku þar sem markaðsfrelsið var trúarmantra yfirvalda. Það var góð grein um þetta í tímaritinu New Yorker í byrjun mánaðarins þar sem segir frá hvernig þetta fór allt í gang - og ennfremur hvaða hlutverk forstjórar bandaríska seðlabankans léku í þessu öllu. Ekki verður annað séð en að þeir hafi hunsað vísbendingarnar - enda pössuðu þær ekki við möntruna. 

Þessir heilögu menn, Alan Greenspan og Ben Bernanke - kannski eru þeir ekki eins klárir og af er látið. Þeir eru samt ennþá svo heilagir, að enginn heimtar að þeir taki pokann sinn!

Þarna er líka kostuleg frásögn af því þegar Bernanke var í fyrsta sinn að lesa Bush forseta efnahagspistilinn. Það eina sem forsetinn hafði til málanna að leggja var að sokkar seðlabankastjórans pössuðu ekki við fötin hans.

http://www.newyorker.com/reporting/2008/12/01/081201fa_fact_cassidy

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband