Sennilega fýkur stjórnin...
20.2.2012 | 17:23
Það er sjálfsagt of mikið sagt hjá Gunnari Þ. Andersen forstjóra Fjármálaeftirlitsins að Kastljóss-þátturinn hafi verið pantaður, eins og Mogginn hefur eftir honum en það er hins vegar afar sennilegt að ákveðnir aðilar hafi verið drifkrafturinn á bakvið hann.
Ég hef áður haldið því fram hér að flestar bitastæðar fréttir (aðrar en þessar venjulegu um veður og aflabrögð) rati til neytenda vegna þess að einhver hefur af því hagsmuni. Það er því líklegra en ekki að einhver hafi komið upplýsingunum í Kastljós-þættinum í nóvember sl. til sjónvarpsins með það í huga að þær enduðu í útsendingu. Ritstjórn Kastljóss gerði það sem henni ber skylda til að gera: fór yfir upplýsingarnar og matreiddi svo til útsendingar. Út á það er ekkert að setja, ég man ekki betur en að þetta hafi verið vel og fagmannlega gert.
Auðvitað hef ég ekki hugmynd um hvaðan þessar upplýsingar komu eða hver var tilgangur heimildamanns eða -manna Kastljóss með því að koma þeim á framfæri. Maður þarf hins vegar ekki að vera skyggn til að átta sig á að einhverjir hagsmunir lágu þar að baki. Gunnar Andersen þekkir vafalaust betur en margir aðrir hvernig viðkvæmum upplýsingum er komið á framfæri við fjölmiðla án þess að heimildamanna sé getið.
Hitt er svo annað að það sýnist hæpið að stjórn FME geti rekið forstjórann á grundvelli fabúleringa þeirra Ástráðs Haraldssonar og Ásbjörns Björnssonar. Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til að Gunnar Andersen hafi brotið af sér í starfi - og raunar ítreka þeir Ástráður og Ásbjörn að svo sé ekki.
Þetta mál getur ekki endað vel. Sennilega fýkur stjórn Fjármálaeftirlitsins út af öllu saman. Gunnar getur þá haldið áfram að bösta skuggabaldra fjármálakerfisins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ESB mælir raunverulegan nethraða
11.2.2012 | 15:31
Ég vil vekja athygli á lítilli frétt í prent-Mogganum í dag svohljóðandi:
Framkvæmdastjórn ESB er um þessar mundir að mæla breiðbandshraða í 30 Evrópulöndum, þ.e. aðildarríkjunum 27 auk Króatíu, Noregs og Íslands. Sambandið og samstarfsaðilar leita nú að sjálfboðaliðum á Íslandi til að taka þátt í mælingunni. Til að taka þátt í könnuninni arf að fara á vefsíðuna http://www.samknows.eu/is/ipad og skrá sig þar. Eftir að valið hefur verið úr hópi sjálfboðaliða fá 100 þeirra send mælitæki. Einn úr hópnum fær síðan iPad2 í verðlaun.
Það er rétt að segja frá því að ég á óbeinna hagsmuna að gæta hér - tók að mér að aðstoða samstarfsaðila ESB að vekja athygli á þessu máli sem ég tel vera hagsmunamál neytenda. Miklu meiri hagsmunir eru náttúrlega að fá hlutlausa og faglega mælingu á nethraðanum sem maður kaupir hér. Það er nefnilega þannig að internet-fyrirtækin selja manni "allt að" svo og svo miklum hraða - en svo getur verið allur gangur á hvað maður fær.
Til dæmis má nefna að mælingafyrirtækið (SamKnows) komst að því að í Bretlandi fékk fólk aðeins um helming þess nethraða sem það borgaði fyrir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ekkert getur bjargað þeim...
2.2.2012 | 13:11
Það hefur verið heldur raunalegt að fylgjast með vandræðaganginum í bæjarstjórn Kópavogs að undanförnu. Þetta virðist ekki geta endað með öðru en að gamli meirihlutinn, sem var settur af með ákveðnum hætti í síðustu kosningum, taki við aftur. Þá verða gömlu spillingarmálin sett ofaní skúffu og ballið getur byrjað á ný. Þá verður ekkert uppgjör, engin siðbót, enginn manér.
Það hefur ekki verið auðvelt að átta sig á hvað hefur í raun og veru gerst í bæjarstjórninni en manni sýnist þó augljóst að ætluð uppsögn bæjarstjórans hafi verið ótrúlegt klúður hjá Guðríði Arnardóttur formanni bæjarráðs. Fólk sem ekki getur sagt upp starfsfólki á kannski ekki að taka að sér störf sem bera slíka ábyrgð. Eða eins og Magnús Eiríksson sagði í ágætu söguljóði: Ekkert getur bjargað þeim sem klúðrar því að hengja sig.
En ég verð að taka undir með Hjálmari næstbesta Hjálmarssyni sem ekki segist sjá ástæðu til þess yfirhöfuð að hafa meirihluta í bæjarstjórninni. Var ekki allt þetta fólk kosið til að stjórna bænum? Var eitthvað um það á kjörseðlinum að þessi eða hinn ætti að vera í meirihluta og ráða öllu en þeir í minnihlutanum engu?
Mér sýnist nefnilega að bæjarfélagið hafi virkað alveg á sama hátt og fyrir "stjórnarkreppnuna" þótt ekki sé niðurnegldur meirihluti í bæjarstjórninni. Snjómoksturinn hefur til dæmis verið til stakrar fyrirmyndar undanfarnar vikur að minnsta kosti í mínu hverfi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Rétt fólk á réttum stað
26.1.2012 | 17:53
Það eru góðar fréttir að ríkisstjórnin hafi ráðið sér þaulvanan blaðamann í embætti blaðafulltrúa mann sem skilur hlutverk fjölmiðla og skilur hvaða upplýsingar það eru sem fjölmiðlar þurfa á að halda til að sinna hlutverki sínu. Ég held endilega að Jóhann Hauksson sé slíkur maður.
Það skiptir miklu máli að það séu reyndir menn sem ráðast í svona starf: menn sem átta sig á því að þeirra hlutverk er að afla upplýsinga og koma þeim á framfæri og að aðstoða þá sem leita upplýsinga af hálfu fjölmiðla við að komast á leiðarenda en ekki að þvælast fyrir og líta á sig sem varðhunda ráðherra flokksins sem báðir koma úr. Það eru dæmi um svoleiðis í kerfinu bæði fyrr og síðar.
Utanríkisráðuneytið hefur haft úrvals manneskju á að skipa undanfarin ár, Urði Gunnarsdóttur, sem nýtur óskoraðrar virðingar meðal þeirra erlendu blaðamanna sem hingað leita eða þurfa á upplýsingum að halda. Ég þekki minna til innlendu miðlanna nú orðið en þykist vita að þar séu svipuð viðhorf á lofti. Urður áttar sig nefnilega á því í hvers þágu hún vinnur: upplýsingarinnar. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að Jóhann Hauksson skilji sitt hlutverk á sama hátt.
En meira máli skiptir þó að ríkisstjórnin skilji málið og geri Jóhanni kleift að sinna sínu hlutverki og veiti honum þann aðgang og þann trúnað sem hann þarf til að vinna vinnuna sína. Það væri ekki aðeins í þágu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur einnig, og það skiptir vitaskuld mestu máli, í þágu lýðræðislegrar umræðu. Ekki veitir af.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Löngu komið nóg
21.1.2012 | 14:54
Ef ég væri á Feisbúkk myndi ég stofna þar síðu til að hvetja forseta lýðveldisins til að skynja sinn vitjunartíma og segja frá því skýrt og skorinort að hann ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í embætti.
Það er löngu komið nóg.
En ég er ekki á Feisbúkk og kann ekki að búa til svona síður annars staðar. Kannski tekur einhver af mér ómakið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Munurinnn á réttu og röngu
13.1.2012 | 20:32
Sjálfselska og tilætlunarsemi eru hvimleið fyrirbæri. Af hvoru tveggja er þó nóg í henni veröld, ekki síst hér á landi, hefur mér þótt. Orgið yfir snjónum í Reykjavík undanfarna daga er dæmi um það eilífa og ósanngjarna sífur sem einkennir daglega umræðu. Það er nefnilega rétt sem borgarstjórinn sagði: Við búum á Íslandi.
Mér fannst afstaða ungs (og oft skemmtilegs) útvarpsmanns kristalla þennan hugsunarhátt. Samstarfskona hans (sem er líka oft skemmtileg) féll í öngvit í miðri útvarpsútsendingu, hugsanlega vegna ofþreytu. Þá lætur pilturinn hafa eftir sér að hann hefði ítrekað hvatt stúlkuna til að "taka veikindadagana" sína.
Aðstandendur útvarpsmannsins ættu nú að taka hann á hné sér og útskýra fyrir honum muninn á réttu og röngu. Það ætti að segja honum að "veikindadagarnir" séu réttindi sem samtökum launafólks tókst að ná fram með mikilli fyrirhöfn. Þeir voru hugsaðir til þess að tryggja að fólk gæti fengið flensuskot án þess að missa laun. Þeir voru ekki hugsaðir til þess að taka þá til að hvíla sig eða að fara út úr bænum. Enginn "á veikindadaga." Þeir eru ekki aukafrí á fullu kaupi heldur nauðvörn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ofsagróði Mugisonar
12.1.2012 | 21:53
Það er verið að hafa eftir Viðskiptablaðinu að Mugison hafi grætt ríflega 22 milljónir á nýjustu plötunni sinni. Þetta getur ekki passað.
Án þess að ég þekki persónulega til Mugisonar eða hans mála þá þykist ég vita að hann hafi varið drjúgum hluta síðasta árs til að semja efnið og fínpússa, æfa það með öðrum, taka upp og spila konserta til að slípa enn betur. Það hefur sennilega að mestu verið gert án þess að greiðsla kæmi fyrir.
Hann gæti hafa haft 22 milljónir í tekjur af plötunni en þá á eftir að reikna honum laun fyrir tónsmíðar, æfingar og upptökur, kostnað við upptökur, laun til samstarfsmanna og svo framvegis og svo framvegis.
Ætli bróðurparturinn af sölutekjunum hafi ekki farið til að borga alla þessa vinnu?
En vonandi hefur hann haft gott kaup þegar upp var staðið, hann á það skilið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gefa skít í mannasiði
6.1.2012 | 16:24
Það er óneitanlega svekkjandi hvað margir eru ófúsir eða ófærir um að taka til í sínum ranni eftir hrunið. Maður kemst bara að einni niðurstöðu: til er fólk og stofnanir sem ætla ekki að láta sér segjast.
Matvælastofnun er dæmi þar um. Stofnunin vissi að verið var að dreifa eitruðum áburði á tún sem búfénaður nærist á. Samt var álitið of mikið vesen að stöðva dreifinguna (þótt annað fyrirtæki hefði áður verið stöðvað fyrir sömu sakir; kannski var það ekki í eigu "réttra" aðila) og nú þykjast forráðamenn stofnunarinnar ekki mega veita upplýsingar um mælingar á eiturmagni í áburði sem endar í mjólk og kjöti. Þetta er eftirlitsstofnun sem á að gæta þess að farið sé að lögum og reglum, til þess var hún sett á stofn.
Það kann að vera rétt hjá Ólínu Þorvarðardóttur að það þurfi að setja skýrari reglur en mig grunar þó að svarið sé einfaldara: að það þurfi einfaldlega að fylgja reglum - að stofnunin eigi einfaldlega að gera skyldu sína. Það eru mannasiðir, til þess eru þessir þjónar almennings ráðnir.
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar er annað fyrirbæri sem gefur skít í mannasiði og ræður til sín mann sem er grunaður um fals og svik í tengslum við pappírsviðskipti í aðdraganda hrunsins. Opinberar stofnanir eiga ekki að ráða til sín fólk sem liggur undir grun, meðferð fjármuna almennings á einfaldlega að vera hafin yfir allan grun.
Þetta er ekki flóknara en svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Enginn vill hrun Norður-Kóreu
30.12.2011 | 14:56
Það er forvitnilegt að horfa á það sem er að gerast í Norður-Kóreu. Um þetta eru spekingar að fjalla dagana langa en í rauninni veit enginn hvað þar er að gerast, hvorki nú né áður. Þetta er svo furðulegur staður og enn furðulegra fyrirkomulag þar á hlutum. Ég hef komið þarna nokkrum sinnum og gæti alveg hugsað mér að fara aftur og stoppa lengur.
Einu sinni lenti ég m.a. í afmælishaldi hjá Kim Jong-Il. Hann var að vísu ekki viðstaddur sjálfur heldur var þetta mikil blómasýning sem haldin var vegna afmælis hans í miðborg Pyongyang. Þar voru tugþúsundir hárauðra begóníu-afbrigða sem ýmist hétu Kimjongilia eða Kimilsungia, sérræktuð til heiðurs þeim feðgum. Þarna var örtröð af fólki og þess vandlega gætt að maður tæki aðeins svo myndir að portrett af feðgunum sæust öll ekki mátti skera utan af slíkum myndum. Nú verður áreiðanlega farið í að rækta Kimjongunia til heiðurs Kim þriðja.
Um blómið hafa verið samin mörg tónverk við texta sem hjóðar svo í íslenskri snörun:
Rauðu blómin sem blómstra allt um landið frítt
eru eins og hjörtu okkar: full af kærleika til leiðtogans
Hjörtu okkar fylgja ungum knúppum Kimjongilia
Ó! blóm tryggðar okkar!
Ýmsir höfðingjar á Vesturlöndum tala nú talsvert um að vonandi hrynji veldi Kim-fjölskyldunnar. Þeir meina það ekki. Enginn vill í alvörunni hrun Norður-Kóreu. Það myndi hafa í för með sér óskaplegar hörmungar og stjarnfræðilegan kostnað; kostnaðurinn af sameiningu þýsku ríkjanna var skiptimynt á miðað við þann kostnað sem myndi hljótast af sameiningu kóresku ríkjanna. Og hvorki Kínverjar né Suður-Kóreumenn hafa minnsta áhuga á að taka á móti rúmlega 20 milljón hungruðum og ráðvilltum flóttamönnum frá raunveruleikaútgáfunni af Truman Show.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einfaldlega okur
21.12.2011 | 18:46
Ég held að það sé ekkert flókið eða undarlegt við það hvað jólasteikin hefur hækkað mikið í verði frá því í fyrra.
Það er eins og önnur matvara sem virðist hækka í verði frá einni búðarferð til annarrar. Ég fer ekki sjálfur mikið í aðrar búðir en mér heyrist að þar sé sama sagan.
Þetta er ekkert skrítið. Þetta heitir einfaldlega okur.
Eða sýnist ykkur að kaupmannastéttin sé vanhaldin?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)