Færsluflokkur: Dægurmál

Retro Stefson stal senunni

Listahátíð fór af stað með stæl í kvöld. Við vorum boðin á konsert í Laugardalshöllinni og áttum von á góðu eftir að hafa búið í Afríku og vera áhugasöm um afríska músík.

Það besta við þennan konsert reyndist svo vera Retro Stefson, íslensk hljómsveit sjö ungmenna sem fóru á kostum - og skemmtu sér konunglega við það. Segi ekki endilega að þau séu með músík fyrir minn smekk en bandið var þétt og gott og framlínan kröftug og spennandi. Ekki einn falskur tónn hjá söngvurunum sem virðist þó fágætt meðal yngri poppara.

Amadou og Mariam frá Malí spiluðu svo í hálfan annan tíma. Þeirra band var gott, ekki síst gressilega góður trumbuslagari. Það var hins vegar ekki sérlega mikið varið í Amadou og Mariam sjálf, þrátt fyrir gullslegna gítarinn. 

Mesta gerjunin í afrísku rokki er í Kongó, svo ótrúlega sem það kann að hljóma. Þaðan koma skemmtilegustu böndin. Kongó-gítarsándið óviðjafnanlega hefur farið um alla Afríku - en sennilega ekki náð til Malí. 

Á næstu listahátíð ætti endilega að reyna að fá Angélique Kidjo frá Benin. Fáar afrískar söngkonur taka henni fram nú um daga.


Bömmer fyrir Stöð 2

Það er náttúrlega bömmer fyrir Stöð 2 að þurfa að éta ofan í sig frétt um meinta fjármagnsflutninga nafngreindra manna í skattaskjól í útlöndum korteri fyrir hrun.

En það er enn verra fyrir fréttastofuna að þurfa að upplýsa að hún stundaði vond vinnubrögð: fór í loftið með málið eftir samtal við einn mann en engar staðfestingar.

Eða eins og segir í afdráttarlausri yfirlýsingu fréttastjórans:Fréttastofan byggði fréttaflutninginn á frásögn heimildarmanns, en hafði ekki nein gögn undir höndum er studdu frásögn hans.”

Það verður þó að reikna Stöð 2 og Vísi.is það til tekna að í yfirlýsingunni er ekkert dregið undan, þessi fúskvinnubrögð eru viðurkennd undanbragðalaust.

Með þessu kemst fréttastofan væntanlega undan kostnaðarsömum – og fyrirfram töpuðum – málaferlum.

Og lærir vonandi af mistökunum.


Kaup og sala í prófkjöri

Nú fara þeir á kostum hver af öðrum.

Guðlaugi Þór Þórðarsyni vafðist tunga um tönn þegar hann mætti ágengni Helga Seljan í Kastljósinu í kvöld. Guðlaugur kom satt að segja ekki sérlega brattur út úr þessu viðtali þar sem fátt var upplýst.

Stóra bomban Guðlaugs Þórs var að benda sjónvarpsáhorfendum á að hans væri hvergi getið í Stóru Skýrslunni og að varla væri það að ástæðulausu.

Það er alveg rétt hjá honum - en ástæðan er ekki sú sem hann vildi meina. Ástæðan er einfaldlega sú að Skýrslan fjallaði um fall bankakerfisins, ekki vafasama fjársöfnun fyrir prófkjör og hvaðeina sem af slíku kann að leiða.

Það verður væntanlega efni í aðra skýrslu.


Alveg eins og hinir

Jón Gnarr, tilvonandi borgarfulltrúi í höfuðborginni, var...hmm, athyglisverður í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Þar gekk Helgi Seljan á frambjóðandann með skýrum og klárum spurningum en fékk yfirleitt ekki svör sem hann taldi fullnægjandi.

Jón var nefnilega eins og álfur út úr hól. Vissi fátt um málefni borgarinnar, sló úr og í, kenndi félaga sínum um skandalana og var ekki með lausnir á neinum málum.

Hmmm, alveg eins og hinir frambjóðendurnir. 


Kveðja frá Aceh

Með allra bestu mönnum sem ég hef kynnst um ævina er Bustari Mansyur í Aceh í Indónesíu. Hann er formaður Rauða kross deildarinnar þar í héraðinu og bar höfuðábyrgð á endurreisnarstarfi RK eftir flóðin og mannfallið þar um jólin 2004. Okkur varð vel til vina og reyndum hvað við gátum að upplýsa hvorn annan um siði og venjur okkar menningarheima sem um margt voru ólíkir. Mér tókst til að mynda að sannfæra hann um að það væri ekki dónalegt að segja 'nei' við hvíta menn.

Bustari hafði verið bæjarstjóri í nágrannabæ Banda Aceh, aðstoðar fylkisstjóri í héraðinu og gegnt ýmsum embættum og trúnaðarstörfum. Slíku fólki hættir oft til að gleyma uppruna sínum - en það átti ekki við um Pak (herra) Bus, eins og við fengum sumir að kalla hann. Efst í huga hans alla daga var fólkið sem átti um sárt að binda og fórnfúsir sjálfboðaliðar sem aldrei ætluðust til umbunar fyrir þrotlausa vinnu við hræðilegar aðstæður. Sjálfur var hann tekjulaus mánuðum saman eftir hamfarirnar og hafði misst marga ættingja og vini.

Og enn er Bustari á sömu nótunum. Ég var að fá póst frá honum með samúðarkveðjum til þeirra sem hafa orðið illa úti í eldgosinu í Eyjafjallajökli. Hann sendir póstinn fyrir hönd fólksins í Aceh og stjórnar Rauða kross deildarinnar á staðnum. Þetta er svona og er hér með komið áfram til hlutaðeigandi:
 
"Dear My Colleagues,
We are deeply concerned by the news coming in on the volcano in Iceland.
On behalf of the People of Aceh and PMI Aceh Chapter Board members and all branches, we would like to express our solidarity and condolences for the volcano in Eyjafjallajokull to the People of Iceland that caused the few days aviation chaos and air pollution in Europe. 
We would like to thank all the rescue teams dealing with the aftermath of the volcano.
Regards,
Bustari Mansyur
"


Deilurnar að baki

Ég hef verið í Blaðamannafélagi Íslands í fjörutíu ár og þykir vænt um það félag. Það hefur reynst mér vel. Það fór því illa í mig þegar harkalegar deilur um keisarans skegg innan stjórnar félagsins rötuðu í fjölmiðla. Framboð slíkra frétta var að vonum mun meira en eftirspurn.

Svo var haldinn aðalfundur þessa félags í gærkvöld og fór eins vel og hægt var að búast við. Nú mega félagsmenn eiga von á að deilurnar séu að baki og að ný félagsstjórn dragi lærdóm af reynslunni.

Það versta sem fylgdi þessum deilum voru órökstuddar dylgjur um að eitthvað væri gruggugt við bókhald og fjármál félagsins. Á fundinum í gærkvöld kom ekkert það fram sem bendir til að svo sé, þvert á móti.

Ég ætla því að halda því fram hér og nú að leitun sé að verkalýðsfélagi af stærð BÍ sem stendur jafn vel og hefur farið jafn vel út úr hruninu. Staðreyndin er nefnilega sú að með aðgætni í fjármálastjórn hefur Blaðamannafélagið ekki tapað einni einustu krónu á hruninu heldur hafa sjóðir þess eflst og vaxið. Geri aðrir betur.

Svo segi ég ekki meira um þetta.


Á pöllunum

Það er mikil hamingja fólgin í því að fá að syngja í góðum kór. Tónlistarmenntunin er eitt hamingjublómið, andlega upplyftingin annað, líkamlega útrásin það þriðja. Og svo að vera í félagsskap líkt hugsandi fólks sem kemur saman til að búa til músík.

Minn kór er Karlakór Reykjavíkur sem þessa vikuna syngur vorkonserta í Langholtskirkju fyrir fullu húsi. Þar stígur fram úr kórnum hver einsöngvarinn á fætur öðrum og syngur eins og engill fyrir framan áttatíu karla. Flestir þessara einsöngvara eru ungir menn og líta ekki út fyrir að vera meira en nýfermdir. En þeir syngja af slíkum náttúrutalent og gleði að maður er eiginlega hálfskælandi á pöllunum af hrifningu og aðdáun.

Góður karlakór er flott og magnað hljóðfæri þegar rétt er á það spilað. Og við í Karlakór Reykjavíkur erum svo lánsamir að hafa í tuttugu ár haft eldkláran og smekkvísan strák fyrir söngstjóra (sem líka sýnist varla nema um fermingu; það hlýtur að vera eitthvað í genunum úr Hólminum sem veldur þessu).

Það er í senn undarlegt og skemmtilegt, þegar komið er á pallana fyrir fullu húsi, að maður finnur á fyrstu sungnu hendingunum hvort kórinn er í góðu formi og hvort salurinn er góður. Þannig var það í kvöld og þá er dýrlegt að syngja. Þá er dýrlegt að vera hluti af áttatíu manna kór sem hefur aðeins eitt markmið á konsert: að láta söngstjórann spila á hljóðfærið eins og honum er einum lagið; með örlitlum höfuð- eða fingrahreyfingum plokkar hann út örlítið meiri bassa hér, aðeins meiri annan tenór þar, aðeins meiri styrk, örlítið minni...og þá verður kórinn, söngstjórinn og salurinn eitt og þetta fer úr því að vera bara músík og breytist í andlega reynslu.


Dírrin-dí

Nú er mér alveg sama um hitastigið, eldgos, pólitík og IceSave - vorið er komið. Til marks um það er lóur á grasblettinum fyrir utan gluggann minn.

Þau hafa verið hér undanfarin vor og sumur og ylja mér alltaf um hjartað.

Nú eru þau í hópi starra að næra sig. Karlinn sýnist að vísu hafa meiri áhuga á aksjón og flennir sig og glennir óspart við kerlinguna. Hún flýgur í burtu af og til...en kemur alltaf aftur. Þetta hlýtur að enda fallega.


'Alltaf' Kötlugos á eftir Eyjafjallajökli? Óekkí.

Ekki er ég sérfræðingur í eldgosum, ég er eins og flestir aðrir: mér finnst eldgos spennandi og tignarleg ef þau eru fjarri byggð og valda ekki mannfólkinu vandræðum.

Og eins og margir aðrir hef ég heyrt jarðvísindamenn segja að það sé nánast regla að það gjósi í Kötlu í framhaldi af gosi í Eyjafjallajökli. Þetta sama var forseti vor á Bessastöðum að segja.

En í kvöld hitti ég jarðvísindamann sem sagði að þetta væri ekki alls kostar rétt. Frá landnámi hefur Katla nefnilega gosið 22 sinnum, Eyjafjallajökull bara tvisvar. Og í bæði þau skipti fór að gjósa í Kötlu í framhaldinu. Ekki man ég ártölin nógu vel til að fara með þau - en veit að Katla gaus 1918. Pabbi sagði mér það og hann var vitni. 

Sem sagt: Katla 22, Eyjafjallajökull 2. 


Óhamingja Sjálfstæðisflokksins

Þau í Hreyfingunni hafa rétt fyrir sér: þeir sem voru við völd í Hruninu og aðdraganda þess verða að víkja.

Það verður þó ekki einfalt: hver á að taka við? Sjálfstæðisflokkurinn? Framsókn? Varla, þeir flokkar eiga að vera í löööngu fríi.

Til að byrja með þurfa því allir þeir að víkja sem ekki eru hafnir yfir allar grunsemdir um dómgreindarleysi, aðgerðarleysi, leti eða svínarí. Innan þings og utan. Þetta fólk er allt nefnt í Skýrslunni góðu. 

Við blasir meiriháttar uppstokkun í pólitíkinni hér sem mun sennilega taka langan tíma. Stjórnmálastéttin er rúin trausti. Þetta er eins og í Sovét forðum: kerfið hefur rotnað innan frá og étið sig upp. Að draga sig í hlé "um stundarsakir," eins og Þorgerður, Illugi og Björgvin gera, dugar því ekki þótt virðingarvert sé (ekki síst í tilviki Björgvins).

Og svo er eins og hjá sumum flokkum verði óhamingjunni allt að vopni. Er það til dæmis besta útkoman fyrir Sjálfstæðisflokkinn að í stað Þorgerðar setjist á þing sjálfur holdgervingur fjölmiðlaþjónkunarinnar við bankana og bíssnissinn? 

Varla. 

En það verður þó að segja fjölmiðlunum hér til hróss að þeir hafa frá hruninu starfað með þeim hætti (misjafnlega vel náttúrlega) að fátt í Skýrslunni góðu kemur alveg á óvart. Stóru drættirnir voru búnir að koma fram - í fjölmiðlum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband