Færsluflokkur: Dægurmál

Banki á hausinn án vitneskju Seðlabankans!?

Andskoti brá mér í kvöld þegar Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sagði í sjónvarpsfréttum að það gæti vel gerst að íslenskur banki færi á hausinn án þess að hann vissi af því. Lagaumhverfið væri slíkt (þ.e. óbreytt frá 'gullöldinni') og Seðlabankinn væri ekki í þeirri stöðu að geta krafið viðskiptabankana um nauðsynlegar upplýsingar.

En að banki fari á hausinn án þess að Seðlabankinn viti af því?

Augnablik, augnablik!

Var það ekki einmitt þetta sýstem sem setti allt hér á annan endann? Af Skýrslunni miklu verður ekki annað ráðið en að fyrri Seðlabankastjórar hafi haft alveg þokkalega hugmynd um hvað var að gerast í bönkunum (þótt það hafi sennilegaekki breytt miklu um úrslit mála).

Ókei, það er ekki langt frá hruni og í mörg horn að líta í efnahagsmálum, en hlýtur ekki að vera býsna framarlega í forgangsröðinni að gera Seðlabankann sæmilega starfhæfan?

Eða var Már að spauga?

Æjæjæ, ég er ekki viss um að ég þoli mikið af svona gríni.


Þetta hefði Vigdís ekki gert

Áður fyrr var ég oft stoltur af því að vera Íslendingur. Í dag er ég sosum ekkert að fyrirverða mig fyrir það en...ja, það eru breyttir tímar.

Og aldrei var ég eins ánægður með þjóðerni mitt og á Lýðveldisafmælinu á Þingvöllum 1994 þegar Vigdís Finnbogadóttir steig í pontu og ávarpaði þjóð sína. Það var falleg stund og eftirminnileg.

Nú er Vigdís allt í einu orðin áttræð, sem verður að teljast nokkuð hár aldur. En hún er jafn klassí og ævinlega.

Aldrei hefði Vigdís brugðist við ákúrum í opinberri skýrslu á sama hátt og eftirmaður hennar gerir nú. 


Hreinn, er ekki í lagi með þig?

Á dögunum hellti ég mér yfir ritstjóra Vikunnar sem var dæmdur fyrir það sem ég kallaði fúsk. Ekki stendur til að endurskoða þá afstöðu mína - en nú er kominn upp á því máli annar flötur sem nær engri átt.

Það virðist sem sé vera - ef marka má fréttir (til dæmis hér http://www.dv.is/leidari/2010/4/9/domsmord-bladamanni) - að ritstjórinn eigi að sitja persónulega uppi með sektina, en ekki útgefandi blaðsins, sem væri þó hið eðlilega og lengst af hefur tíðkast. Augljóslega er það stór biti að kyngja fyrir blaðamann á þeim láglaunum sem almennt eru í stéttinni að borga árslaunin sín í sekt.

En til hvers eru útgefendur ef þeir ekki standa með sínu fólki? Hvernig verður sú hugsun til í kolli útgefandans - sem í þessu tilviki er Hreinn Loftsson lögmaður í Birtingi - að sekt sem fellur á fjölmiðil í hans eigu komi honum ekki við? Er þetta ekki einhverskonar bankaglæfrahugsun á-la 2007: ég hirði gróðann en læt mig tapið engu varða og því síður fólkið sem vinnur hjá mér og gerir sitt besta?

Þetta er augljóslega feilhugsun hjá útgefandanum og siðrof af vondri sort. Nei, annars, þetta jaðrar við að vera glæpsamlegt!



Fréttamannaverðlaun dagsins

Fréttamannaverðlaun dagsins fær Helga Arnardóttir á Stöð 2 fyrir viðtal sitt við Jónas Fr. Jónsson í kvöld. 

Jónas hefur greinilega farið í fjölmiðlaþjálfun hjá einhverjum og ætlaði að nota sömu aðferð og hann beitti í fréttaskýringarþætti RÚV í gærkvöld - tala bara nógu andskoti mikið og hleypa engum spurningum að - en Helga lét hann ekki komast upp með neitt múður og gaf ekkert eftir.

Svei mér þá, ef hún minnti ekki á breska fréttamanninn Jeremy Paxman sem einhverju sinni bar upp sömu spurninguna fjórtán sinnum í beit - en fékk aldrei svar. 

Helga fékk hins vegar svarið sem hún vildi fá og við hin áttum skilið.

Nú er bara til eitt ráð handa Jónasi: ekki tala meira.


Skítapakk og moððerfökkers

Maður verður að vona að það komi ekki margir svona dagar. Búinn að vera að lesa, hlusta og horfa síðan snemma í morgun og er orðinn hálfdofinn yfir öllu saman.

En niðurstaðan af þessari prýðilegu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hlýtur að vera einhvern veginn svona:

Bankarnir: þjófar, skítapakk og moððerfökkers

Ríkisvaldið: rolur á róandi

Stjórnkerfið: ekki benda á mig...

Eftirlitsbransinn: druslur í jakkafötum

Fjölmiðlarnir: rassasleikjur og grúpís

En svo verður að hrósa fjölmiðlunum í dag fyrir góða umfjöllun - og óska DV til hamingju með að hafa verið með fæstar 'jákvæðar' fréttir af ballinu. 


Viðbrögð sýna þroskastig

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins leggur sínu fólki línurnar um væntanlega skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Bjarni leggur höfuðáherslu á þrennt í pistli sem hann skrifar á vefsvæði flokksins:

  1. Að við tökum niðurstöður skýrslunnar alvarlega, drögum lærdóm af þeim og nýtum þær á uppbyggilegan hátt í umræðunni sem framundan er.
  2. Að við metum niðurstöður skýrslunnar með yfirveguðum hætti og vörumst dómhörku og sleggjudóma gagnvart þeim sem þær varða.
  3. Að við gerum okkur og öðrum grein fyrir því að skýrslan veitir okkur í senn tækifæri til og leggur okkur skyldur á herðar um, að ná sátt í samfélaginu og hefja í kjölfarið uppbyggingu á nýjum grunni.

Það er hægt að taka undir þetta með Bjarna. Viðbrögð við þessari skýrslu munu segja okkur heilmikið um á hvaða þroskastigi við erum sem þjóð.


Kerfisbreytingar á fljúgandi fart

Það er ánægjulegt til þess að vita að fagráðherrarnir tveir skuli vera svo hátt skrifaðir með þjóðinni sem nýjasti Þjóðarpúls Gallups ber með sér. Vonandi verður þetta til þess að koma í veg fyrir að þau Ragna og Gylfi verði látin fjúka í boðaðri uppstokkun á ríkisstjórninni.

Undanfarna mánuði hefur mér sýnst að það séu fyrst og fremst þau tvö sem standa fyrir meiri háttar uppstokkun á kerfinu - og svo náttúrlega Jóhanna forsætis. Það þarf ekki annað en að fara í efnisyfirlitið á www.island.is til að sjá lista yfir þær umfangsmiklu breytingar sem verið er að gera. Ekki veitti af. 

Margir kalla mig Samfylkingardindil og égveitekkihvað fyrir að halda þessu fram. Það verður bara að hafa það, ég hef verið kallaður verra en það (rétt að ítreka hér að ég er ekki í Samfylkingunni eða nokkrum öðrum flokki og hef aldrei verið).  Mér finnst hins vegar að fólk eigi að njóta sannmælis, jafnvel þótt það heiti Jóhanna eða Steingrímur (sem manni sýnist vera svo upptekinn í skítmokstri - og kattasmölun! - að hann hafi ekki mikinn tíma í allar þær kerfisbreytingar sem væru á hans könnu). 


Mér finnst...

  • Skondið að lesa eða heyra hvert viðtalið á fætur öðru við fólk sem á sér þann draum heitastan að losna úr kastljósi fjölmiðlanna.
  • Vafasamt að treysta fréttum sem vitna í engar heimildir. Nýjustu dæmin eru frétt sjónvarpsins í kvöld um yfirvofandi málsókn Deutsche Bank á hendur stjórnendum gamla Landsbankans og frétt Moggans um að Bretar og Hollendingar séu að falla frá ‘einhliða skilyrðum’ fyrir áframhaldandi samningaviðræðum um andskotans IceSave.
  • Lygilegt hversu margir vitleysingar fara á gosstöðvarnar til þess eins að láta flytja sig í burtu með ærnum tilkostnaði.
  • Skemmtilegt að sjá feita köttinn á neðri hæðinni hanga fyrir neðan fuglahúsin sem ég hef sett upp í tré í garðinum hjá mér.
  • Tilhlökkunarefni að éta páskaeggið mitt (sem ég geng svo af mér í góða veðrinu í sumar...eða næsta haust).
  • Drepfyndið að Guðni Ágústsson vilji stofna öldungadeild fyrir sjálfan sig og aðra uppgjafa pólitíkusa. Eins og við þurfum ekki eitthvað annað frekar en meira af þeim.
  • Fáar hugmyndir vitlausari en sú að leigja hollenskum málaliðum hernaðaraðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

Skolli var sá gamli góður

Datt inn í síðari hluta tónleika Gunnars Þórðarsonar í sjónvarpinu í gærkvöld. Mikið skolli var sá gamli góður - og hafi hann ævarandi þökk fyrir að hafa kynnt mig fyrir kvartettinum Buffi sem fór á kostum. Ég sé að ég þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því að dægurtónlist líðandi stundar sé undirlögð af fólki sem ekki getur sungið lög sem vantar alla melódíu.

En það sem mér fannst mest áberandi var hversu vel nýrri lög Gunnars eru samin. Bláu augun þín er auðvitað alltaf fallegt og hugljúft (satt að segja skrítin tilfinning í gærkvöld að rifja það upp að þetta lag var samið af tilteknum manni - það er miklu frekar eins og það hafi orðið til uppúr íslenskum fjallavötnum og heiðum og hafi alltaf verið til) - en nýrri tónsmíðarnar eru almennt betri og haldmeiri, í þeim er meiri reynsla, meiri kunnátta, meiri kærleikur. 

Gunnar hefur engu gleymt - en mikið lært. 

Bjáni var ég að fara ekki á þennan konsert í haust. 


Matargjafir og fúsk

Það er alveg hárrétt hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að það þarf að vera "meira samstarf á milli félagasamtaka sem veiti mataraðstoð til að hægt sé að tryggja að þeir sem sannarlega þurfi aðstoð fái hana," eins og útvarpið hafði eftir honum í kvöld.

Ég hef tekið þátt í dreifingu matvæla til bágstadds fólks í mörgum löndum. Það fyrsta sem gerist við slíkar aðstæður er að hjálparstarfsmenn á svæðinu skilgreina nákvæmlega hverjir eigi að njóta matargjafa og hverjir ekki, og síðan er reynt eftir fremsta megni að tryggja að þessir tilteknu einstaklingar eða fjölskyldur fái matinn, ekki hinir sem eru skár staddir.

Við val á fólki þarf að staðreyna að þörfin sé raunveruleg og brýn. Því þarf að spyrja fólk spjörunum úr og fá hjá því persónulegar og fjárhagslegar upplýsingar. Það er oft erfitt og illa séð - en ber engu síður að gera til að tryggja að peningarnir sem almenningur leggur til aðstoðarinnar skili sér í réttar hendur. Fúsk í þessum efnum gerir aðeins illt verra.

En til að þessi þjónusta virki eins og hún á að gera þarf umsjón matvæladreifingar að vera á einni hendi. Það er viðtekin og nánast algild regla í hjálparbransanum. Með því er komið í veg fyrir að menn geti farið frá einni matvæladreifingu til annarrar og alls staðar fengið mat - og þar með komið í veg fyrir að aðrir, sem eru jafn mikið eða meira þurfandi, fái sinn skammt. Hinir 'heppnu' geta jafnvel verið komið með umframskammtana í sölu, eins og mýmörg dæmi eru um. 

Hér er ekki þetta skipulag og því kemur upp vandræðagangur eins og hjá Fjölskylduhjálpinni fyrir helgina. Fjölskylduhjálpin, Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn og fleiri eiga að koma sér saman um aðferðafræðina og fela einum aðila að annast dreifingu matvæla samkvæmt ákveðnum reglum. Fagfólkið á þessu sviði er hjá Rauða krossinum og Hjálparstarfinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband