Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
Lilja bullar
29.10.2009 | 16:44
Lilja Mósesdóttir alþingismaður er að bulla í viðtali við Vísi í dag.
Þar segir hún: Mér finnst það ekkert sjálfgefið að veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé framlengt um hálft ár. Mér finnst það eitthvað sem stjórnvöld þurfi að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn," og bætir við að Íslendingar hafi aldrei beðið um að vera hálfu ári lengur í prógramminu. Það sé alfarið ákvörðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Lilja veit betur og er að blekkja fólk. Í greinargerð ríkisstjórnar og Seðlabanka til AGS, sem afgreidd var þar í gær, er það einmitt íslenska ríkisstjórnin sem óskar eftir hálfs árs framlengingu á efnahagsprógramminu vegna þess dráttar sem orðið hefur á endurskoðuninni. Ergo: stjórnvöld eru búin að ræða þetta við AGS.
Mér er svo sem alveg sama hvaða skoðun Lilja hefur á AGS - en ég er ósáttur við að alþingismaður reyni að ljúga upp í opið geðið á mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Gott hjá Þóru
20.10.2009 | 23:18
Mikið skolli eru þeir góðir, Hrunsþættir Þóru Arnórsdóttur og hennar manna. Glimrandi!
Ég þykist hafa fylgst nokkuð grannt með málum hér allt frá því morguninn góða þegar Glitnir var settur á hausinn (var m.a. á blaðamannafundi um það efni í Seðlabankanum þegar Lárus Welding sagði að Glitnir hefði verið vel rekinn banki og í góðu standi!) en mörgu af þessu var ég búinn að gleyma, enda umræðan áköf allar götur síðan og ekki alltaf um aðalatriðin.
Þó þóttist ég muna að þetta ófétis IceSave mál var að flækjast fyrir allt frá fyrsta degi, eins og svo vel var rakið í þættinum í kvöld, og að það hefði legið fyrir allt frá því í nóvember í fyrra að við yrðum að borga, nema við vildum lenda í eilífum félagsskap við Alþýðulýðveldið Kóreu, Zimbabwe, Sómalíu og fleiri slík ríki. Um ábyrgð Íslendinga var samið þá strax og síðan hefur ekki verið hjá því komist, enda varla von: ætli við Íslendingar hefðum ekki haft eitthvað að segja um hollenskan banka sem hingað hefði komið, boðið gull og græna skóga, og ætlað svo að stinga af með innlánin okkar eftir sex mánuði?
Miðað við hvernig þetta var allt í pottinn búið er ekki hægt annað en að dáðst að þeim Jóhönnu og Steingrími fyrir að hafa landað málinu með sæmilegum sóma. Og enn meiri er skömm þeirra manna sem fyrir þessu stóðu og leyfðu því að gerast.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
97% fjarverandi
17.10.2009 | 15:26
Í fréttum er mikilvægt að setja hlutina í samhengi. Það vantar oft í þá kranablaðamennsku sem hér ríður húsum.
Það voru til dæmis miklar fréttir af því í gær að húsfyllir væri á borgarafundi séra Gunnars Björnssonar á Selfossi. Í Mogganum í dag er sagt frá því að hátt í 200 manns hefðu setið fundinn og samþykkt harðorðar ályktanir með séra Gunnari og gegn biskupi.
Íbúar á Selfossi eru um 6500. Í því samhengi var þetta fámennur fundur og því er ekki hægt að álykta að þau þrjú prósent íbúa sem sátu fundinn (þar með taldir gestir úr öðrum hreppum) tali fyrir allt bæjarfélagið. Það má svo velta fyrir sér hvers vegna hinir 6300 íbúarnir sátu heima.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vont fyrir Moggann
15.10.2009 | 17:47
Það eru ekki góðar fréttir fyrir Moggann að nokkrir dugmestu blaðamennirnir þar séu á förum - og varla á það bætandi eftir að nokkrum af reyndustu og vönduðustu blaðamönnum þar var sparkað á dögunum.
Nú er sagt frá því að blaðamennirnir Þórður Snær Júlíusson, Magnús Halldórsson og Þorbjörn Þórðarson séu að fara á Viðskiptablaðið, ásamt Björgvin Guðmundssyni, ritstjóra viðskiptafrétta. Að sama skapi eru þetta góðar fréttir fyrir Viðskiptablaðið.
Ekki þekki ég þessa menn en hef oft verið mikið hrifinn af því sem ég hef séð til þeirra, einkum þeirra Þórðar og Þorbjörns. Þeir hafa verið langfremstir í hópi þeirra sem fjallað hafa um hrunið af þekkingu og skynsemi.
Það skyldi þó ekki vera að maður þurfi að segja upp Mogganum fyrir Viðskiptablaðið til að geta fylgst almennilega með?!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frábært framtak
12.10.2009 | 22:41
Stundum er ástæða til að taka ofan fyrir fólki fyrir það sem vel er gert. Eins og til dæmis fyrir ríkisstjórninni núna fyrir siðareglur fyrir ráðherra og starfsfólk stjórnarráðsins. Frábært framtak og vel að verki staðið hjá þremenningunum sem stýrðu verkinu.
Það er í rauninni stórundarlegt að þetta hafi ekki verið gert fyrir löngu - en það kemur að vísu í ljós við lestur reglnanna og greinargerðarinnar að siðareglur eru til í stöku ráðuneyti. Ennþá betra!
Stjórnkerfi sem hefur það að skráðu markmiði að halda grunngildin (óhlutdrægni, ábyrgð, þjónustu og heilindi) í heiðri er ólíklegra til að fara sér að voða á ný. Þá verður ekki nauðsynlegt fyrir forsætisráðherra að biðjast afsökunar fyrir hönd stjórnvalda og stjórnkerfis.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvað er að þessu liði?
9.10.2009 | 21:19
Mikið lifandis skelfingar ósköp er ég orðinn leiður á þessu ófétis IceSave máli. Og veit að ég er síður en svo einn um það.
Og ekki síður er ég pirraður á fólkinu sem er að draga þetta á langinn við hvert tækifæri. Hvað er eiginlega að þessu liði? Þetta er löngu tapað stríð, Geir Haarde og hans fólk skildi það vel þegar það lofaði að standa við skuldbindingar ríkisins.
Það hefur legið fyrir í heilt ár að við verðum að borga, jafn skítt og það er. Það er búið að þaulkanna allar aðrar raunhæfar leiðir. Bretar og Hollendingar vilja skiljanlega fá sína peninga til baka og ekkert múður. Þeir láta ekki plata sig með óraunhæfum fyrirvörum, það myndum við heldur ekki vilja gera.
Nú á Alþingi að hætta skrípaleiknum, afgreiða þetta mál í eitt skipti fyrir öll á einum degi og svo getum við snúið okkur að öðru. Eins og til dæmis að taka í rassgatið á dónunum í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sísí fríkar út
7.10.2009 | 14:38
Ameríkanar segja að þegar harðni á dalnum, þá taki duglegt fólk til hendinni: When the going gets tough, the tough get going.
Það er þessi hugsun sem við þurfum á að halda nú um stundir en ekki að fara á taugum, eins og manni sýnist órólega deildin í VG vera að gera. Látum vera að stjórnarandstaðan viti ekki sitt rjúkandi rá, það er varla við öðru að búast, en maður hlýtur að gera þá kröfu til þeirra sem hafa tekið að sér að stjórna landinu og leiða okkur út úr vandræðunum, að þeir fríki ekki út þegar 'the going gets tough'.
Mér fannst Ögmundur Jónasson færa ágætlega málefnaleg rök fyrir brotthvarfi sínu úr ríkisstjórninni fyrir helgina, og gat alveg virt þau sjónarmið, en síðan virðist hann smám saman hafa magnað upp í sér gömul innanflokksergelsi með þeim afleiðingum að þjóðarhag er stefnt í voða.
Ég er enginn sérstakur aðdáandi þessarar ríkisstjórnar en fæ ekki séð að aðrir raunhæfir valkostir séu fyrir hendi. Á meðan svo er þarf hún stuðning, ekki paník. Eða eins og Ameríkanar segja líka: ef þú þolir ekki hitann skaltu halda þig frá eldhúsinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ómerkilegt trix
5.10.2009 | 15:23
Jón Ásgeir Jóhannesson þarf ábyggilega ekki á minni hjálp að halda en engu að síður vil ég taka upp hanskann fyrir hann. Þetta snýst um heimildamyndina Guð blessi Ísland sem hefur fengið mikið plögg í fjölmiðlum að undanförnu.
Höfundurinn var gestur í Kastljósi fyrir helgina og fékk þar móttökur sem hæfa snillingi og alheimsfrelsara, eins og stundum er þegar menn koma frá útlöndum. Hann sýndi þar brot úr myndinni sem áttu að sýna sannleikann og höfðu orðið til þess að Jón Ásgeir mótmælti notkun efnis sem samið hafði verið um og vildi fá klippt úr myndinni.
Ekki var betur séð en að þessi mikli sannleikur fælist í því að sýna myndir af kaupmanninum strjúka kusk af jakkaermunum sínum. Það fannst mér ekki sérstaklega merkilegt innlegg í umræðuna um hrunið þar sem allt skal vera uppá borðum. Ekki getur myndin verið æsileg ef þetta atriði var það safaríkasta.
Það var auðvitað della af Jóni að vera að gera mál úr þessu. Látum það vera. En það var hreinlega ómerkilegt PR trix af hálfu höfundar myndarinnar (og ekki heldur sérlega góður vitnisburður um Kastljósið). Höfundurinn var að eigin sögn búinn að gera samkomulag við viðmælendur sína og hefði átt að sjá sóma sinn í að standa við gefin loforð.
Við erum lent í skítnum að verulegu leyti vegna þess að siðferði manna hefur brugðist - en svo skal böl bæta að benda á annað skárra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Asnalegra verður það ekki
1.10.2009 | 17:36
Á mínum sokkabandsárum birtust af og til um það rokufréttir að þessi eða hin popphljómsveitin væri að verða fræg í útlöndum eftir að hafa hitt á förnum vegi útlending sem hafði lofað gulli og grænum skógum. Veraldarfrægðin lét hinsvegar jafnan á sér standa enda var verið að gabba trúgjarna menn sem aðeins urðu heimsfrægir á Íslandi.
Nú á krepputímum gerist þetta aftur en að þessu sinni eru það einfaldir pólitíkusar sem láta plata sig. Framsóknarforingjar fengu sér bjór með norskum framsóknarmanni sem sagði þeim að lítið mál yrði að skaffa tvö þúsund milljarða lán - það þyrfti bara að nefna það!
Þetta voru náttúrlega stórkostlegar fréttir - þangað til útvarpinu datt í hug að spyrja norsk stjórnvöld út í málið. Þá kom í ljós að í norska stjórnkerfinu hafði enginn heyrt af þessu kostaboði - hvað þá að nokkur viti borinn maður hefði látið sér detta það í hug!
Í fljótu bragði man ég ekki eftir annarri ekki-frétt sem hefur dáið jafn skyndilega. Asnalegra getur það ekki orðið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)