Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Jólastressið langt fjarri
21.12.2009 | 18:34
ADDIS ABABA: Alltaf upplifir maður eitthvað nýtt. Í dag hjálpaði ég leigubílstjóra sem ég hafði náð í að ýta bílnum í gang svo við kæmumst af stað. Leigubílar hér eru undantekningalaust Lödur, gamlar og lúnar. Þessi var þó sennilega sú lúnasta af öllum. En við komumst á leiðarenda og allan tímann var bílstjórinn hinn kátasti og hafði á hraðbergi greinargóðar lýsingar á því sem fyrir augun bar.
Það er einmitt þetta - þetta góða skap og hamingja yfir litlu - sem mér finnst svo hrífandi við Afríku. Það er ekki verið að ergja sig yfir litlu eða því sem ekki er hægt að breyta. Nei, það er meira gaman að brosa og gera að gamni sínu og fá sér bolla af rótsterku eþíópísku kaffi sem er hitað yfir kolum á götuhornum - og helst með því að brenna baunirnar og mala á staðnum.
Og ekki hefur maður orðið var við jólastressið hér - enda jól í Eþíópíu ekki haldin fyrr en 7. janúar (og hér er árið 2002 í sjö mánuði enn). Einstaka hótel, sem sótt er af útlendingum, er með auglýsingar uppi um jóladinner en að öðru leyti er verslunaræðið langt fjarri.
En nú er þetta orðið gott í bili. Best að koma sér heim. Konan mín er búin að lofa mér hörðum pakka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tuggið í amstri dagsins
20.12.2009 | 17:45
ADDIS ABABA: Það er ekki mikið um að vera í gömlu keisaraborginni á sunnudögum en samt er gríðarlegur mannfjöldi á ferli - sýna sig og sjá aðra, sennilegast. Við fórum tveir saman í gönguferð um Piazza svæðið í miðborginni (upphaflega svo nefnt af Ítölum sem reyndu að leggja Eþíópíu undir sig fyrir síðari heimsstyrjöld); þar voru eingöngu skóbúðirnar opnar og svo kaffihúsin. Kaffi er óvíða betra en hér enda er þessi hluti Afríku ekki aðeins vagga hins upprétta manns, heldur einnig kaffis. Vonandi tekst mér að ná með mér poka eða svo í jólauppáhellinguna.
Og hvarvetna voru menn að selja khat eða tyggja khat runnalauf sem sögð eru vekja mönnum nokkra gleði og örvun í amstri dagsins. Ég sá ekki betur en að bæði karlar og konur væru að tyggja, frekar þó eldri konur og alls ekki ungu skvísurnar sem ganga um hnarreistar og glæsilegar.
Af þessu dópi fara misjafnar sögur. Germai, kollega minn sem fæddist í Erítreu en er nú orðinn Kanadamaður, stundaði nám hér í borginni í lok keisaratímans. Fyrir lokaprófin þurfti hann að halda sér vakandi heilu sólarhringana og þar kom að honum dugði ekki að drekka sterkt kaffi. Skólabróðir hans færði honum tuggu af khat og sagði að þetta myndi efalaust duga.
Svo fékk Germai sér tuggu og sofnaði umsvifalaust. Svaf í heilan sólarhring og rétt náði í prófið sem hann marði. Það varð lítið úr örvuninni í það skiptið.
En ég dreg stórlega í efa að það væri efni í sjónvarpsfrétt hér í landi þótt þingmaður fengi sér tuggu af khat í hádeginu og greiddi svo atkvæði um kvöldið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Góð hugmynd
19.12.2009 | 20:02
Mér líst vel á hugmyndir Borgarahreyfingarinnar um að kalla til ýmsa álitsgjafa og áhrifamenn í dægurmálaumræðunni til að fjalla um hvernig beri að höndla væntanlega skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Það má sosum vel vera að ég hefði sjálfur haft listann einhvern veginn öðruvísi, en það er aukaatriði.
Pólitík er allt of mikilvæg til að láta pólitíkusana eina um hana, ekki síst þegar kemur að máli eins og hér um ræðir. Það væri í rauninni alveg út í hött að láta þingmenn eina um að ákveða hverskonar meðferð niðurstöður Rannsóknarnefndarinnar fær. Of margir þeirra trúlegast vanhæfir til þess vegna aðildar þeirra sjálfra, og flokkanna þeirra, að rekstri kerfisins undanfarin ár.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Með óbragð í munninum
18.12.2009 | 15:29
Nei, það getur ekki verið alveg sama hvaðan gott kemur. Það er í hæsta máta óviðeigandi að ríkið sé aftur farið í bíssniss með Björgólfi yngri á meðan þjóðin er á öðrum endanum yfir ábyrgðarleysi hans, og hans nóta, á IceSave skellnum.
Ekki vil ég gera lítið úr mikilvægi þess að draga erlenda fjárfestingu til landsins - og síst á þessum tímum - en þetta er full langt gengið.
Og víst má vera að með nýjasta framtakinu sé Björgólfur yngri að reyna að bæta fyrir skaðann...en, æ, ég fæ óbragð í munninn.
Það er ekki mikill stórmennskubragur á þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
ESB brandari
15.12.2009 | 19:42
Í hádeginu í dag sat ég til borðs með fólki frá fjórum Evrópusambandslöndum. Þetta var einstakt tækifæri svo ég spurði þau hvert fyrir sig hvaða auðlindir þeirra landa Evrópusambandið hefði hrifsað til sín eða lagt undir sig við inngönguna í ESB.
Ekkert þeirra skildi spurninguna.
Ég reyndi aftur: hirti ekki ESB skógana í Svíþjóð eða frönsku rivíeruna eða belgísk viðskiptatengsl í Kongó...?
Þá hlógu þau sig máttlaus og héldu að þetta væri brandari.
Dauðinn bíður á gresjunum
14.12.2009 | 13:55
En maður þarf ekki að fara víða um austanverða Afríku til að sjá hina hliðina. Hér eru þurrkar nú tíðari en áður fyrr og flóð sömuleiðis með þeim afleiðingum að milljónir manna þjást af næringarskorti. Hungursneyð er handan við hornið í sumum löndum á þessu svæði og stórir hópar hafa flosnað upp frá jörðum sínum sem ekki framfleyta þeim lengur. Bændur hér eru kannski ekki mjög vel að sér um gróðurhúsaáhrifin og CO2 og allt það, en þeir vita fullvel að veðrið er ekki eins og það á að vera.
Hér í Eþíópíu, til dæmis, telja yfirvöld að rúmlega sex milljónir manna muni þurfa neyðaraðstoð á næstu vikum og mánuðum. Ýmis hjálparsamtök hér telja að talan sé talsvert hætti. Að auki þannig komið fyrir ríflega sjö milljónum til viðbótar að það nýtur matargjafa og annars stuðnings allan ársins hring.
Sunnan við landamærin, í Kenya, eru þurrkarnir jafnvel ennþá alvarlegri og sömuleiðis í smáríkinu Djibouti úti við ströndina. Þar eru gríðarlegir flákar þurra svæða, sem hafa séð hirðingjum fyrir lifibrauði í gegnum aldirnar, að breytast í eyðimerkur.
Við höfum undanfarna daga verið að koma í byggðarlög þar sem ekkert vatn er að fá og matur af skornum skammti því haustrigningarnar brugðust enn einu sinni. Þetta er aðallega á láglendinu í austurhluta landsins, austan megin við sigdalinn mikla sem klýfur Afríku nánast í tvennt. Á sumum stöðum er ástandið í ágætu lagi þar hafa staðbundnar rigningar bjargað öllu en annars staðar má sjá að fólk hefur yfirgefið heimili sín og leitað til ættingja og vina í nærliggjandi byggðarlögum. Það mun hafa þau áhrif að ættingjarnir, sem áttu kannski nóg fyrir sig, síga niður fyrir nauðþurftamörkin.
Í gegnum aldirnar hafa vor- og haustrigningarnar séð fólki á þessum slóðum fyrir mat. Framan af síðustu öld brugðust rigningarnar einu sinni á áratug, eða svo; nú verða þurrkar annað og þriðja hvert ár. Næringarskortur er augljós í mörgum héruðum og börn ná ekki andlegum eða líkamlegum þroska vegna matarleysis, ef þau lifa þá til fimm ára aldurs.
Við ættum kannski að leiða hugann að þessu í jólakapphlaupinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Oft er flagð...
12.12.2009 | 15:34
ADDIS ABABA, EÞÍÓPÍU: Það eru Súfar hér í grenndinni, seiðandi söngurinn berst um nágrennið og maður getur séð þá fyrir sér í litskrúðugum klæðnaði dansa í hring, hraðar og hraðar, allt þar til þeir hafa náð því sambandi við guð sinn sem dansinn færir þeim.
Maður á eiginlega ekki von á Islam hér í þessu fornkristna landi og ég minnist þess ekki úr fyrri heimsóknum hingað að hafa mikið orðið var við múslima. En Islam fer yfir heiminn eins og eldur í sinu, fullur þriðjungur Eþíópa hefur nú játast undir lögmálið sem opinberaðist Múhammeð forðum og því fylgja moskur með mínarettum og öflugum hátölurum sem kalla heittrúaða til bæna kvölds og morgna. Og vekja okkur hina.
Addis er mikið breytt frá því að ég kom hér fyrst fyrir nærri aldarfjórðungi. Þá var miðborgin lítil, umkringd hreysum hinna fátæku og örbjarga. Þetta var á tímum Mengistus byltingarforingja sem setti keisarann af og er sagður hafa grafið hann uppréttan undir sínum prívat kamri í gömlu keisarahöllinni. Þannig gat hann sýnt keisaranum óvirðingu sína á hverjum morgni. Nú hefur Addis tútnað út í takt við mannfjölgunina í landinu (úr um 30 milljónum 1965 í nærri 80 milljónir í dag), hún er að verða myndarlegasta borg með breiðstrætum og glansandi skrifstofuturnum. Hvarvetna er verið að byggja nýjar íbúðablokkir og allt gert með handafli. Út um gluggann á skrifstofunni sjáum við hóp manna með litla slaghamra berja sig í gegnum klöppina og brjóta svo grjótið í ferkantaða hnullunga í byggingarefni. Ekkert dýnamít hér eða stórvirkar vinnuvélar, það er nóg af fólki.
Nóg af fólki í alls konar störf. Það sannaðist þegar ég kom niður í lobbí hér á ríkishótelinu um hádegið. Þar sátu nokkrar bráðfallegar stúlkur í leðursófa sem vinkuðu mér alúðlega og buðu mér góðan dag á að minnsta kosti þremur tungumálum. Það er ekki víða sem mellurnar (afsakið, kynlífsþjónustutæknarnir) fagna manni svona snemma dags. En ég vildi bara kaffi, enda var ég búinn að lesa stjörnuspána mína í morgun sem varaði mig tæpitungulaust við óvæntum vinalátum: Þú mátt vænta þess að einhver sýni þér áhuga, vertu á varðbergi því oft er flagð undir fögru skinni...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
IceSave: aldrei borguð króna
10.12.2009 | 20:17
Þegar lengra verður komið í samningaferlinu við ESB, svo ekki sé nú minnst á þegar Íslendingar kasta krónunni fyrir róða og vilja taka upp Evru eins og almennilegt fólk, þá muni IceSave skuldirnar hreinlega verða afskrifaðar og jafnaðar út í einhverjum ESB-sjóðum. Annað eins hefur gerst á þeim bæ.
Frammámenn í Evrópusambandinu eru sammála um þetta í einkaviðtölum en leggja jafnframt á það áherslu að samningarnir verði engu að síður að fá lögformlega staðfestingu; það sé einfaldlega háttur siðaðra manna að ganga frá sínum skuldbindingum á viðeigandi hátt.
Ég hef líka heyrt stjórnarþingmann segja frá því að í innsta hring hér heima detti engum í hug að skuldirnar verði greiddar. Menn vilja hinsvegar ekki segja það upphátt vegna þess sem er fyrirsjáanlegt: afturhaldið og gargararnir munu tvíeflast í þrasinu og hleypa umræðunni í enn meiri vitleysu en hún er þegar komin í.
Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð röndóttur í framan þegar ég heyrði þetta fyrst en þykist nú orðið vita að þetta gæti vel verið satt og rétt. Auðvitað fæst enginn til að staðfesta þetta...en sjáum hvað setur. Það á ekki að byrja að borga nærri strax.
Ögmundur forsætisráðherraefni
9.12.2009 | 18:12
Ég hef þetta fyrir satt: fljótlega eftir að Ögmundur Jónasson sagði af sér í fljótræði komust nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að þeirri niðurstöðu að nú væri lag að mynda nýja stjórn og hrekja Jóhönnu og Steingrím frá völdum.
Um þetta voru haldnir nokkrir fundir. Þar voru einnig fulltrúar Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar. Hugmyndin var að þessir þrír flokkar mynduðu stjórn saman, ásamt fjórum þingmönnum Vinstri grænna, og að forsætisráðherra yrði enginn annar en Ögmundur Jónasson.
Með þessu vildu samsærismennirnir koma á "festu" í stjórnmálin á Íslandi, eins og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það.
Svo rann þetta auðvitað á rassinn. Æ, leiðinlegt. Þetta hefði ábyggilega getað bjargað öllu!
Klassískt kántrí
3.12.2009 | 22:02
Góður vinur minn sendi mér lista yfir 'bestu' heiti klassískra kántrílaga. Ekki er ég alveg viss um að öll lögin séu til - en titlarnir eru allavega í réttum anda!
25. Get Your Tounge Outta My Mouth 'Cause I'm Kissing You Goodbye
24. Her Teeth Was Stained, But Her Heart Were Pure
23. How Can I Miss You If You Won't Go Away?
22. I Don't Know Whether To Kill Myself or Go Bowling
21. I Just Bought a Car From a Guy That Stole My Girl, But the Car Don't Run So I Figure We're Even
20. I Keep Forgettin' I Forgot About You
19. I Liked You Better Before I Knew You So Well
18. I Still Miss You, Baby, But My Aim's Getting Better
17. I Wouldn't Take Her to a Dog Fight, Cause I'm Afraid She'd Win
16. I'll Marry You Tomorrow But Let's Honeymoon Tonight
15. I'm So Miserable Without You, It's Like Having You Here
14. I've Got Tears In My Ears From Lyin' On My Back and Cryin' Over You
13. If I Can't Be Number One In Your Life, Then Number Two On You
12. If I Had Shot You When I Wanted To, I'd Be Out By Now
11. Mama Get a Hammer (There's a Fly on Papa's Head)
10. My Head Hurts, My Feet Stink, and I Don't Love You
09. My Wife Ran Off With My Best Friend and I Sure Do Miss Him
08. Please Bypass This Heart
07. She Got the Ring and I Got the Finger
06. You Done Tore Out My Heart and Stomped That Sucker Flat
05. You're The Reason Our Kids Are So Ugly
04. If the Phone Don't Ring, You'll Know It's Me
03. She's Actin' Single and I'm Drinkin' Doubles
02. She's Looking Better after Every Beer
Og kántrílag númer eitt allra tíma er ......
01. I Haven't Gone To Bed with Any Ugly Women But I've Sure Woken Up With A Few
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)