Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Matargjafir og fúsk

Það er alveg hárrétt hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að það þarf að vera "meira samstarf á milli félagasamtaka sem veiti mataraðstoð til að hægt sé að tryggja að þeir sem sannarlega þurfi aðstoð fái hana," eins og útvarpið hafði eftir honum í kvöld.

Ég hef tekið þátt í dreifingu matvæla til bágstadds fólks í mörgum löndum. Það fyrsta sem gerist við slíkar aðstæður er að hjálparstarfsmenn á svæðinu skilgreina nákvæmlega hverjir eigi að njóta matargjafa og hverjir ekki, og síðan er reynt eftir fremsta megni að tryggja að þessir tilteknu einstaklingar eða fjölskyldur fái matinn, ekki hinir sem eru skár staddir.

Við val á fólki þarf að staðreyna að þörfin sé raunveruleg og brýn. Því þarf að spyrja fólk spjörunum úr og fá hjá því persónulegar og fjárhagslegar upplýsingar. Það er oft erfitt og illa séð - en ber engu síður að gera til að tryggja að peningarnir sem almenningur leggur til aðstoðarinnar skili sér í réttar hendur. Fúsk í þessum efnum gerir aðeins illt verra.

En til að þessi þjónusta virki eins og hún á að gera þarf umsjón matvæladreifingar að vera á einni hendi. Það er viðtekin og nánast algild regla í hjálparbransanum. Með því er komið í veg fyrir að menn geti farið frá einni matvæladreifingu til annarrar og alls staðar fengið mat - og þar með komið í veg fyrir að aðrir, sem eru jafn mikið eða meira þurfandi, fái sinn skammt. Hinir 'heppnu' geta jafnvel verið komið með umframskammtana í sölu, eins og mýmörg dæmi eru um. 

Hér er ekki þetta skipulag og því kemur upp vandræðagangur eins og hjá Fjölskylduhjálpinni fyrir helgina. Fjölskylduhjálpin, Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn og fleiri eiga að koma sér saman um aðferðafræðina og fela einum aðila að annast dreifingu matvæla samkvæmt ákveðnum reglum. Fagfólkið á þessu sviði er hjá Rauða krossinum og Hjálparstarfinu.


Áfram DV

Það er ástæða til að óska DV undir nýrri stjórn velfarnaðar. Það er ekki oft sem það gerist að starfsmenn fjölmiðla séu jafnframt eigendur - og þegar það hefur verið reynt hefur það ekki gefist sérstaklega vel. Vonandi fer betur nú.

Það er raunar einnig ástæða til að hrósa DV sem hefur tekið miklum framförum á síðustu mánuðum, einkum í umfjöllun um hrunið og allan þann darraðardans.  Þar hefur blaðið sótt hart fram og engum gefið grið.

Vonandi tekst nýju eigendunum vel upp. Það er sem aldrei fyrr ástæða til að styðja við fjölmiðla utan kerfisins.

 


Ekki tilboð heldur skýrsla

Það er í sjálfu sér ekki ný frétt að Hollendingar og Bretar séu að bíða eftir útspili Íslendinga í andskotans IceSave málinu. Og ekki heldur nýtt að Íslendingar bíði eftir þeim.

Staðreyndin er sú að í Haag og London telja menn að svokallað 'tilboð' Íslendinga, sem sett var fram áður en þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin hér, hafi ekki verið eiginlegt tilboð, heldur analýsa um pólitískt ástand á Íslandi og þann áherslumun sem væri á milli stjórnmálaflokkanna hér.

Jújú, þetta er ósköp intressant lesning, munu þeir hafa sagt, en ekki 'tilboð'. 

Og því bíða þeir enn. Og alþjóðasamfélagið svokallaða hristir hausinn. 


Aulaháttur Vikunnar

Tjáningarfrelsið er viðkvæmt og vandmeðfarið ef vel á að vera. Almennt finnst mér að fólk eigi að geta sagt það sem því sýnist ef það veldur ekki öðrum óþarfa sárindum eða skaða. Það er enda í samræmi við siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Ritstjóri Vikunnar, sem var dæmdur í dag fyrir meiðyrði (sjá t.d. hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/03/24/vikan_daemd_fyrir_meidyrdi/), ætti endilega að kynna sér siðareglurnar. Ekki síst þriðju greinina sem er svona:

"Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu."

Ritstjóri Vikunnar átti dóminn fyllilega skilinn og ætti auðvitað ekki að halda djobbinu. Þessi umfjöllun er óvenju skýrt dæmi um aulahátt í starfi - og ekki var málsvörnin betri, ef marka má Moggafréttina.

Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki einkamál Vikunnar, það varðar alla stéttina (og raunar allan almenning) þegar óhæft fólk fær að vaða uppi. Eða hvað segir ekki í fyrstu grein siðaregla BÍ:

"Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar..."


Skötuselur í mango-chutneysósu

Maður borðar aldrei nóg af skötusel. Þótt hann sé ekki smáfríður er hann dýrlegur til átu, ekki síst núna þegar hann er orðinn raunveruleg sameign þjóðarinnar. Hér er uppskrift sem ég hef svolítið notað og alltaf gefist vel. Mestu skiptir að ofelda hann ekki, þá verður hann seigur.

700 g skötuselur

250 g rækjur

3 msk. karrímauk

3 msk. mangó-chutney

2 msk. kóríander

1 stk. stór hvítlauksgeiri

grænmetiskraftur

¼ lítri rjómi

4 msk. olía

salt

nýmalaður pipar

  • Hreinsið skötuselinn og skerið í jafna bita.
  • Hrærið saman karrímauki og mangó-chutney og saxið kóríander út í maukið
  • Afhýðið hvítlauk, pressið og bætið út í maukið ásamt grænmetiskrafti og rjóma
  • Hitið olíu á pönnu.
  • Steikið skötuselinn í um 1 mín. á hvorri hlið á vel heitri pönnunni.
  • Kryddið með salti og pipar en athugið að það þarf lítið salt vegna saltinnihalds grænmetiskraftsins.
  • Raðið skötuselnum í smurt eldfast mót og setjið maukið yfir.
  • Bakið í 10 mín. við 200°C.
  • Takið fatið út eftir 8 mín. og stráið rækjunum yfir.
  • Setjið fatið inn í ofn í 2 mín. til viðbótar.

 


Hvaða þras er þetta?

Ég á bágt með að skilja þetta endalausa þras um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Hvaða máli skiptir hvort hún kemur vikunni fyrr eða síðar? Er ekki aðalmálið að hún komi og að hún verði almennilega gerð?

Það leynir sér að vísu ekki úr hvaða átt megnið af þrasinu kemur - frá þeim sem sjá sér hag í að gera lítið úr skýrslunni og nefndinni (og svo náttúrlega atvinnuþrösurunum sem ættu endilega að fá sér líf, eins og það er orðað). 

Auðvitað hef ég ekki, frekar en aðrir, hugmynd um hvað verður í þessari skýrslu en ég sé ekki ástæðu til að ætla að það verði allt fallegt. 

Almennt talað er hollara að reyna að koma auga á hið jákvæða í lífinu. Þess vegna hafði ég gaman af Jakobi Frímanni í Silfri Egils í gær, uppfullum af bjartsýni og jákvæðni. Mikið var hann nú skemmtilegri og uppbyggilegri en þeir sem voru á undan honum í settinu með sitt venjulega svartagallsraus.


Kiljubítl

Það var ekki fyrr en seinna sem ég lærði að meta Stones almennilega en Bítlarnir voru og eru mínir menn. Og eins margir aðrir af minni kynslóð get ég raulað með í flestum Bítlalögum. 

Kiljan er líka minn þáttur.  Þar er yfirleitt fjallað af þekkingu og skilningi um efni sem ég hef áhuga á.

En það er stef Kiljunnar sem ég hef lengi verið að brjóta heilann um, þetta sem smekkmaðurinn Jón Bítlavinur Ólafsson er skráður fyrir. Mér hefur alltaf þótt þetta eitthvað kunnuglegt. 

Svo í kvöld þegar ég var að njóta míns daglega Bítlaskammts þá fattaði ég þetta allt í einu: Kiljustefið er náttúrlega ekki annað en upphafs gítarfrasinn úr Paperback Writer! Ég fann þetta meira að segja á YouTube - hlustið á þetta og hlustið svo á Kiljustefið.

Gott ef það er ekki þarna líka svolítil bassaflétta ættuð frá Paul McCartney - sama bassafléttan sem sannfærði margan bítilæringjann um að Paul væri sennilega bara nokkuð lunkinn bassaleikari.

Ergo: Ætti ekki að skrifa Lennon & McCartney fyrir Kiljustefinu?


Vor í lofti

Ég skemmti mér við það í fyrrasumar að setja saman fuglahús sem ég hengdi svo uppí tré á hlaðinu hjá mér. Nú eru komnir íbúar í húsið - ógnarmontinn starri sem situr þar daga langa og syngur og sperrir sig eins og hann eigi allt hverfið. Eða að minnsta kosti fuglahúsið og mitt hús með.

Ég er er að hugsa um að láta hann borga fasteignagjöld.

Auðvitað hafði ég séð fyrir mér að þarna myndi setjast að máríuerla eða lóa eða eitthvað þaðan af merkilegra - jafnvel páfugl. En ég er sáttur við starrann, hann er skemmtilegur fugl. Og betra að hafa hann í fuglahúsi uppí tré en í þakskegginu, eins og var hér um árið.

Þetta hlýtur að vita á vorið.


Enn einn höstlerinn

Ég hef einhverntíma minnst á að hvenær sem kreppir að eða áföll dynja yfir, hvar sem er, streyma að alls konar höstlerar sem gera sig breiða og vilja komast í vinnu við ráðgjöf af ýmsu tagi. Þetta er alþekkt úr öllum heimshornum. Stundum detta menn í þann pytt að láta glepjast, samanber bresku lögfræðistofuna Mischon de Reya sem vildi fá 25 milljónir fyrir gagnslitla vinnu.

Þannig er rétt að halda því til haga að Alex Jurshevski frá Recovery Partners, sem var í Silfri Egils í dag og hafði ráð undir rifi hverju og sá skrattann í hverju horni, er hingað kominn til að selja sig og sitt fyrirtæki. Hann vill komast í bíssniss hjá ríkinu. Hann þarf því augljóslega að mála með sterkum litum til að vekja á sér athygli.


Frekja íþróttabölsins

Þá hefur það verið staðfest enn eina ferðina að mikill minnihluti þjóðarinnar er fylgjandi því endalausa og óstöðvandi íþróttaæði sem Ríkisútvarpið (og reyndar allir aðrir miðlar) eru að kafna úr. Mikill meirihluti landmanna kýs menningartengda afþreyingu, samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar HÍ.

Ég hef lengi látið íþróttafárið fara í taugarnar á mér – ekki vegna þess að ég sé á móti íþróttum eða vegna þess að ég er áhugalaus um þær, heldur vegna frekjunnar í íþróttunum og þeim sem eiga sér þær að helsta áhugamáli. Sótti meira að segja einu sinni um stöðu útvarpsstjóra til þess eins að koma þessu sjónarmiði á framfæri. (Fékk náttúrlega ekki djobbið, sem betur fer)

Menningin er miklu kurteislegri en íþróttabölið – eða man einhver eftir að fréttum hafi verið frestað og dagskrá öll riðlast vegna beinnar útsendingar á lestri úr nýrri bók eða frumsýningu á leikriti eða tónleikum karlakórs?

Þetta er það sem meirihluti þjóðarinnar er áhugasamur um, samkvæmt könnuninni. Miklu fleiri kjósa menningar- og listatengt efni í sjónvarpi umfram íþróttir.

Auðvitað þarf líka að sinna þeim háværa minnihluta sem hefur áhuga á íþróttum (aðeins 37,7% úrtaks HÍ sótti íþróttaviðburð á síðasta ári, margfalt fleiri sóttu menningar- og listatengda atburði) - en dagskrá Ríkisútvarpsins mætti alveg endurspegla þennan raunveruleika.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband